Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. mars 2022 Þórdís KRG - UTN

Ávarp á Búnaðarþingi 2022

Ágætu þingfulltrúar – góðir bændur

Mér er sönn ánægja að vera með ykkur hér í dag og að fá tækifæri til að ávarpa búnaðarþing, nú á ákveðnum tímamótum eftir endurskipulagningu bændahreyfingarinnar og samkvæmt frétt Bændablaðsins í síðustu viku huga Bændasamtökin nú að framtíðarstefnu sinni. Það fellur auðvitað vel við þær breytingar sem við horfum á í stóru myndinni, m.a. grænu umbyltingunni, þar sem bændur hafa mikilvægu hlutverki að gegna. Í stjórnarsáttmálanum er einmitt fjallað um mikilvægt hlutverk landbúnaðarins í þessu samhengi. En atburðir síðustu vikna hafa líka beint sjónum að því að sviptingar í heimsmálunum geta sett allar áætlanir og hugmyndir um framtíðina í uppnám með litlum fyrirvara.

Góðir þingfulltrúar,

Þetta eru vissulega merkilegir tímar sem við höfum upplifað síðustu vikur og innrás Rússa í Úkraínu hefur kannski minnt okkur rækilega á hve lánsöm við erum að búa í friðsælu landi og að slíkan frið má ekki taka sem sjálfsögðum hlut. Ekkert okkar er ósnortið af þeim hörmungum sem dunið hafa yfir íbúa Úkraínu síðustu vikur og öll viljum við hjálpa og öll getum við lagt eitthvað af mörkunum. 

Ísland hefur lýst algjörum stuðningi við Úkraínu og fordæmir innrás gegn löghelgi landamæra þeirra – og ásamt okkar bandalagsríkjum höfum við sýnt þann stuðning okkar í verki. Þannig höfum við m.a. beitt þvingunaraðgerðum gagnvart Rússlandi og Hvíta-Rússlandi en jafnframt lagt okkar af mörkum við að skjóta skjólshúsi yfir þá sem eru á flótta undan stríðsátökunum.

Átök og harðar þvingunaraðgerðir á báða bóga geta haft ýmis keðjuverkandi áhrif, svo sem hækkun á orkuverði, ekki síst olíu, væringar á mörkuðum og samdrátt í efnahagslífi Vesturlanda. Ísland er þar ekki undanskilið og þessi áhrif munu meðal annars hafa áhrif á starfsumhverfi landbúnaðarins vegna aðfangakostnaðar. Þar er hins vegar einungis einum manni um að kenna – Pútín Rússlandsforseta.

Stríðsrekstur Pútíns hefur margvíslegar afleiðingar á framleiðslu og markaði bæði til skemmri og lengri tíma. Þessar afleiðingar munu fela í sér kostnað sem mun því miður að líkindum lenda í miklum mæli á fátækum þjóðum sem einna síst mega við hvers konar truflun. Og hér á Íslandi mun þessara áhrifa einnig gæta.

Þegar kemur að matvælaframleiðslu er Ísland útflutningsríki. Við framleiðum miklu meiri matvæli en við neytum sjálf. Í því felst ákveðið öryggi og þess vegna má segja að opnir markaðir með matvöru séu mikilvægasta trygging okkar Íslendinga, eins og gildir raunar um flestar þjóðir. En við þurfum að huga að stærri mynd og huga að fæðuöryggi þjóðarinnar í stærra samhengi. Þar blasir við að íslenskur landbúnaður gegnir algjöru lykilhlutverki. Um þetta hljótum við að hugsa vandlega í tengslum við innrásina.

Atburðirnir í Úkraínu eru einnig brýning til okkar um mikilvægi kjarnarmarkaða okkar í lýðræðis- og bandalagsríkjum. Stöðugir markaðir sem ekki eru háðir duttlungum valdhafa, þar sem réttarríki er til staðar, eignarréttur er virtur og viðskipti byggjast að jafnaði á eðlilegum samkeppnisforsendum. Það eru líka góðir aðfangamarkaðir. Þetta er einnig brýning til okkar um að setja ekki öll eggin í sömu körfuna hvað markaði varðar. 

Utanríkisráðuneytið hefur fylgst náið með þróun varðandi inn- og útflutningsmál vegna aðgerðanna gagnvart Rússlandi og Hvíta-Rússlandi. Ráðuneytið hefur meðal annars staðið fyrir samráði við atvinnulífið með vikulegum fundum og dyr okkar eru ávallt opnar gagnvart samtali við fyrirtækin. Bændasamtökin hafa tekið þátt í þessum fundum og við erum þakklát fyrir samstarfið á þeim vettvangi.

En að því sögðu þá eru inn- og útflutningsumhverfi landbúnaðarins auðvitað á borði utanríkisráðuneytisins í venjulegu árferði líka, sérstaklega tengt viðskiptasamningum. EES-samningurinn snertir jú matvælaframleiðslu okkar með ýmsum hætti og á þátt í að tryggja inn- og útflutningshagsmuni okkar m.a. á sviði landbúnaðar. Sama á við um aðra viðskiptasamninga og á vettvangi alþjóðastofnana, m.a. FAO og OECD. 

Hagsmunagæsla innan EES-samstarfsins er auðvitað mikilvægur þáttur í okkar vinnu. Í drögum að forgangslista stjórnvalda um hagsmunagæslu innan EES-samstarfsins til áranna 2022-2023 - sem birtur verður í samráðsgátt stjórnvalda í vikunni – er meðal annars lögð áhersla á mjög mikilvægt mál fyrir landbúnaðinn og snýr að baráttunni gegn fjölónæmum bakteríum. Það má meðal annars rekja til óhóflegrar sýklalyfjanotkunar í landbúnaði annars staðar en hér. 

Annað mál sem ég veit að þingheimi er hugleikið snýr að endurskoðun landbúnaðarsamnings Íslands og ESB. Eins og fram hefur komið er málið hluti af áherslu ríkisstjórnarinnar samkvæmt stjórnarsáttmálanum.

Frá því ég tók við í utanríkisráðuneytinu hefur áfram verið unnið að málinu og þegar hafa átt sér stað nokkrir fundir með framkvæmdastjórn ESB, nú síðast í mars. Sjálf átti ég minn fyrsta fund með landbúnaðarstjóra ESB í febrúar síðastliðnum þar sem ég tók málið upp. Meginkrafa okkar snýr að því að leiðrétta þann ójöfnuð sem sannarlega er til staðar innan samningsins, m.a. eftir að útflutningsforsendur hafa breyst varðandi lambakjöt og skyr.

Eins og fyrri endurskoðanir samningsins sýna þá taka svona viðræður nokkurn tíma en þær eru á ágætu róli. Við höfum kosið að tengja endurskoðun landbúnaðarsamningsins við aðrar viðræður við ESB sem fljótlega fara í hönd. Það eru viðræður um framlög okkar til næsta fjárhagstímabil svokallaðs Uppbyggingasjóðs EES – til að hafa betri stöðu til að vinna að markmiðum okkar. Þær viðræður hefast á næstu mánuðum og þá ætti ramminn að skýrast frekar varðandi viðræðuáætlun. Samtalið við ESB um landbúnaðarsamninginn mun engu að síður halda áfram.

Að þessu sögðu er þó mikilvægt að taka fram að landbúnaðarsamningurinn hefur ýmsa kosti– það eru fyrst og fremst inn- og útflutningskvótarnir sem hafa skapað ójafnvægið milli aðila vegna áðurnefnds forsendubrests. Almenn kjör samningsins hafa nýst vel á báða bóga. Má þar nefna tollniðurfellingar fyrir útflutning hrossa. Þá eru tollkjör fyrir grænmeti einnig mikilvæg forsenda fyrir hugmyndum um aukinn útflutning á heilnæmu  grænmeti sem ræktað er með endurnýjanlegri orku hér á landi. Samningurinn hluti af viðskipaumgjörð okkar við ESB og er gerður á grundvelli EES-samningsins. Enda þótt uppsögn samningsins megi aldrei útiloka, gæti hún haft  alvarlegar pólitískar afleiðingar fyrir Ísland og áhrif á samstarf okkar við ESB-ríkin innan EES-samstarfsins. Þetta mál er því vandmeðfarið, sérstaklega á þessum tímapunkti þegar mikilvægi náins samstarf  við okkar helstu vinaþjóðir hefur svo sannarlega verið undirstrikað. 

Ágætu þingfulltrúar

Enda þótt ég hafi nefnt tækifæri í útflutningi heilnæmra vara er kjarninn auðvitað framleiðsla fyrir heimamarkaðinn, hvort sem það er mjólk, kjöt eða garðrækt. Á tímum þar sem loftslagsmál og græn umskipti eru viðfangsefni okkar allra, hugsum við meira um hvaðan maturinn sem við borðum kemur og hvernig hann var framleiddur, m.a. með tilliti til kolefnisspors í flutningi. Eftir því sem við vinnum að orkuskiptum innanlands mun sérstaða okkar afurða einungis aukast. 

Landsmenn hafa sýnt það á síðustu árum að þeir vilja meiri upplýsingar um hvað þeir láta ofan í sig og það hefur mikil áhrif á val þeirra. Mig langar í því sambandi að óska Bændasamtökunum til hamingju með nýja upprunamerkið – íslenskt staðfest – sem mun hjálpa neytendum við val sitt og lyfta okkar góðu og heilnæmu vörum. Í þessu hljóta að felast margvísleg tækifæri til nýsköpunar og snjallrar markaðssetningar sem aukið getur verðmæti í íslenskum landbúnaði. 

Stjórnvöld um allan heim leggja nú aukna áherslu á fæðuöryggi og þar eru íslensk stjórnvöld engin undantekning og unnið er að stefnumótun á því sviði. Þótt við munum seint ná að rækta allt það sem landsmenn neita þá eru augljóslega tækifæri þar til að gera það í ríkara mæli og þar liggja frekari tækifæri landbúnaðarins.

Græn umskipti hafa einnig skapað nýja eftirspurn þar sem við leggjum öll það sem við getum af mörkunum að minnka kolefnisspor okkar eða kolefnisjafna það sem nauðsynlegt er. Mikilvægt starf er unnið þar hjá skógarbændum um land allt, m.a. í gegnum Kolvið. Endurheimt votlendis er annað tækifæri fyrir bændur, enda þótt auðvitað sé mikilvægt að áfram sé viðhaldið góðu landbúnaðarlandi á Íslandi. Hugtakið kolefnisbóndi er hugtak sem er að festa sig í sessi og þar er enn eitt dæmið um hvernig bændur geta unnið að bættum hag okkar allra. 

Það er auðvitað áskorun hér á landi hve háð við erum innfluttum aðföngum í landbúnaði. Í dag þurfum við olíu á tækin, baggaplast sem krefst olíu og áburður er m.a. framleiddur úr jarðgasi. Því til viðbótar er íslenskur landbúnaður að umtalsverðu leyti háður innfluttum fóðurvörum. 

Í ástandi eins og því sem skapast hefur vegna innrásarinnar í Úkraínu finnum við þetta fljótt á okkar skinni, enda þótt við þurfum líka að kunna að meta það að við getum flutt þessar vörur inn frá mikilvægum nágrannaríkjum sem búa við lýðræðislegt stjórnarfar og frjáls viðskipti. 

En við eigum græna orku á Íslandi – og við getum í krafti tækniframfara og hugvits fundið leiðir til að umbreyta þeirri orku í vörur sem geta komið stað fyrri lausna. Með því getum við vonandi til lengri tíma litið dregið úr því hversu háð við erum þessum innflutningi og dregið úr kolefnisfótspori í senn. Og þetta er ekkert eitthvað innantómt framtíðarhjal, eins og sjá má af þróun tækni til að framleiða áburð úr ammoníaki framleiddu með vistvænum orkugjöfum. Svona verkefni eiga að vera okkur hvatning til frekari dáða í þessa veru.

Ágætu þingfulltrúar

Við vitum það öll að blómleg byggð í okkar fallega landi er ekki sjálfgefin hlutur. Hin hliðin á fegurðinni eru hrikaleg náttúruöfl sem við höfum þurft að glíma við. Lengi vel var álitið að ekki gætu fleiri en 50 þúsund manns búið á Íslandi – landið stæði ekki undir fleiri sálum. Nú búum við hér ríflega sjö sinnum fleiri og við einna bestu lífskjör sem nokkurt samfélag hefur getað boðið þegnum sínum. Þetta er vissulega vitnisburður um seiglu, útsjónarsemi, hugmyndaauðgi og þolgæði íslensku þjóðarinnar, ekki síst íslenskra bænda. En staða okkar og lífsgæði byggjast líka á því að við njótum góðs af þeim margföldunaráhrifum sem felast í alþjóðlegum viðskiptum, aðgangi að góðum hugmyndum, þekkingu tækjum og tólum.

Þegar öllu er á botninn hvolft þurfum við umfram allt að halda áfram að skapa hér á landi verðmæti sem standast alþjóðlegar kröfur. Þar er íslenskur landbúnaður sannarlega vel í stakk búinn og í honum felast bæði tækifæri og mikilvægt öryggi.
Þjóðin öll getur sannarlega verið þakklát fyrir að eiga öflugan landbúnað. Það er ég að minnsta kosti.

Ég óska ykkur ánægjulegs og árangursríks búnaðarþings.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta