Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. mars 2022 Þórdís KRG - UTN

Opnunarávarp á fundi um gerð framkvæmdaráætlunar um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða

Kæru fundargestir. 

Það er mér mikil ánægja að bjóða ykkur velkomin til þessa fundar, sem hleypir af stokkunum vinnu við gerð framkvæmdaáætlunar um innleiðingu stefnu Íslands í málefnum norðurslóða. Mér þykir leitt að geta ekki verið með ykkur á Akureyri en er þakklát fyrir að fá að ávarpa ykkur með þessum hætti.

Málefni Norðurslóða eru ákaflega mikilvæg og að mínum dómi hefur Ísland mikilvægu forystuhlutverki að gegna á því sviði. Það er mikill kjarni í íslensku samfélagi að vera á norðurslóðum; þetta er afgerandi hluti af okkur sjálfsmynd hvort sem það er menningarlegu, efnahagslegu eða samfélagslegu sviði.

Í mars 2019 samþykkti ríkisstjórnin að taka norðurslóðastefnu Íslands til endurskoðunar. Forveri minn skipaði í kjölfarið nefnd níu þingmanna með tilnefningum frá öllum þingflokkum og var Bryndís Haraldsdóttir formaður nefndarinnar. Nefndin skilaði tillögum sínum í fyrra vor og Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu nefndarinnar samhljóða, 19. maí, daginn fyrir ráðherrafund Norðurskautsráðsins í Hörpu.

Það er vel við hæfi að hefja þetta starf með opnum fundi í höfuðstað norðurslóða á Íslandi, í samfélagi þar sem byggst hefur upp sannkallaður þekkingarklasi um málefni svæðisins á undanförnum áratugum. Þessa þekkingu viljum við gjarnan halda áfram að nýta sem best, og hlúa að henni, til að auka og efla innlent norðurslóðastarf og þar með vægi Íslands á norðurslóðum. 

Ísland er norðurskautsríki og málefni norðurslóða eru eitt af forgangsmálum í íslenskri utanríkisstefnu. Fá ríki hafa jafn mikla hagsmuni af hagfelldri þróun á svæðinu, enda telst landið allt og stór hluti efnahagslögsögunnar innan hefðbundinna marka norðurslóða.

Málefni norðurslóða snerta nær alla þætti íslensks samfélags. Þau eru einnig nátengd markmiðum okkar í loftslagsmálum. Í stjórnarsáttmálanum frá nóvember 2021 setti ríkisstjórnin það markmið að Ísland dragi úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda um 55% fyrir árið 2030, miðað við stöðuna eins og hún var árið 2005. Það markmið er óháð sameiginlegum skuldbindingum með ESB og Noregi um Parísarsamkomulagið. Ríkisstjórnin hefur einnig sett sér það markmið að ná kolefnishlutleysi og orkuskiptum eigi síðar en 2040. Við erum komin vel af stað. Hlutfall notkunar endurnýjanlegrar orku er nú þegar hærra á Íslandi en annars staðar í heiminum hvað varðar raforkuframleiðslu og húshitun. Við Íslendingar erum ennfremur í fararbroddi á heimsvísu um rafvæðingu bílaflotans. Það er okkur mikið keppikefli að Ísland verði fyrsta landið til að verða óháð jarðefnaeldsneyti.

Umhverfi norðurslóða tekur nú örum breytingum. Með hlýnandi loftslagi hækkar hitastig sjávar, hafís minnkar og jöklarnir hopa með afleiðingum fyrir viðkvæm vistkerfi lands og sjávar sem ekki sér fyrir endann á. Um leið gætu breyttar aðstæður leitt til aukinna siglinga um norðurhöf og sóknar í náttúruauðlindir. Við nýtingu efnahagstækifæra á norðurslóðum þarf að gæta vel jafnvægis milli hinna þriggja stoða sjálfbærrar þróunar: umhverfisþátta, félagslegra þátta og efnahagslegra þátta, eins og lagt er upp með í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og verið hefur leiðarstjarnan í auðlindanýtingarstefnu Íslands. 

Eins og þið sem hér eruð vitið manna best, hafa norðurslóðir verið sífellt meira í brennidepli alþjóðlegrar umræðu á undanförnum árum einmitt vegna loftslagsbreytinga og þróunar heimsmála á norðurslóðum. Ríki, alþjóðastofnanir, samtök og fjölmiðlar, innan og utan norðurslóða veita málefnum svæðisins meiri athygli en nokkru sinni fyrr. Þessi aukni áhugi sést vel á fjölgun áheyrnaraðila að Norðurskautsráðinu. Þegar Ísland tók við formennsku í fyrsta sinn árið 2002, voru áheyrnaraðilar 22, en 16 umsóknir til viðbótar höfðu verið samþykktar þegar við tókum við keflinu aftur 2019.

Norðurskautsráðið hefur fest sig í sessi sem mikilvægasti samráðsvettvangurinn um málefni norðurslóða og því til samræmis hefur alþjóðapólitískt vægi formennsku í ráðinu farið vaxandi á undanförnum árum.

Ísland leiddi Norðurskautsráðið árin 2019-2021 og lauk formennskunni með ráðherrafundi í Hörpu. Með sjálfbæra þróun að leiðarljósi beindi íslenska formennskan kastljósinu sérstaklega að fjórum áherslusviðum sem voru málefni hafsins, loftslag og grænir orkukostir, fólkið á norðurslóðum og ekki síst sterkara Norðurskautsráð. Og í miðju kafi kom „kófið“.

Það var áskorun að flytja allt starf Norðurskautsráðsins og viðburði á vegum formennskunnar á fjarfundaform, þar með talið reglubundna fundi embættismannanefndarinnar, alþjóðlega ráðstefnu um plast í norðurhöfum, og ekki síst samningalotur um ráðherrayfirlýsingu og framtíðarstefnu fyrir ráðið. Í ljósi þess að samningaferli um bæði stefnuna og yfirlýsingu strönduðu í aðdraganda ráðherrafundarins í Rovaniemi vorið 2019 var þeim mun mikilvægara að samningar næðust í Reykjavík. Það var sömuleiðis áskorun að undirbúa ráðherrafund í fullkominni óvissu um með hvaða hætti hann yrði haldinn.

Við bjuggum okkur undir það versta og vonuðum það besta.

Ráðherrafundur í Hörpu í Reykjavík 20. maí tókst betur en við höfðum þorað að vona. Þrátt fyrir sóttvarnatakmarkanir, sóttu allir utanríkisráðherrar norðurskautsríkjanna átta fundinn, undirrituðu yfirlýsingu og samþykktu fyrstu framtíðarstefnu Norðurskautsráðsins til 2030, sem ráðherrarnir höfðu kallað eftir á fundi sínum í Fairbanks í Alaska vorið 2017.

Framtíðarstefnan markar í fyrsta lagi framtíðarsýn fyrir norðurslóðir og Norðurskautsráðið til næstu tíu ára, skilgreinir sjö markmið og tilgreinir handfylli aðgerða undir hverju markmiðanna. Framtíðarstefnan og ráðherrayfirlýsing fundarins voru samin með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Parísarsamkomulagið í huga og nauðsyn þess að ná tökum á hamfarahlýnun jarðar.

Markmið Parísarsamkomulagsins er að halda hnattrænni hlýnun innan tveggja gráða (miðað við stöðuna 1990). Tvær gráður eru meðaltalstala sem þýðir hærri raungildi fyrir heimskautasvæðin. Áhrifa loftslagsbreytinga gætir nú þegar á norðurslóðum, enda hlýnunin hraðari eftir því sem norðar dregur. Sem dæmi má nefna að mælingar sýna að á tímabilinu 1971-2019 hækkaði meðal lofthiti yfir Norður-Íshafinu um 4,6 gráður yfir vetrarmánuðina. 

Samstarf norðurskautsríkjanna átta hófst í lok Kalda stríðsins, 1991. Frá upphafi var áherslan afdráttarlaus á umhverfisvernd, sjálfbæra þróun, og ekki síst uppbyggilega og friðsamlega samvinnu í þágu velferðar og hagsældar íbúa norðurslóða.

Það er kaldhæðnislegt, að pólitískt loftslag skuli hafa snögg-kólnað með þeim hætti sem raun ber vitni um, á sama tíma og jarðarbúar takast, sameiginlega, á við hamfarahlýnun.

Kæru fundargestir,

Eins og þið vitið hafa forsendur fyrir alþjóðlegu norðurslóðasamstarfi gjörbreyst á undanförnum mánuði.  Norðurlöndin ásamt Kanada og Bandaríkjunum hafa frá innrás Rússa í Úkraínu, átt í virku  samráði  til að leita leiða til að halda starfsemi ráðsins gangandi að svo miklu leyti sem það er unnt.  Það liggur hins vegar fyrir að hvorki Ísland né hin Norðurlöndin, Kanada eða Bandaríkin vilja starfa með rússneskum stjórnvöldum eins og sakir standa. Löndin sjö hafa lýst því yfir að þau muni ekki taka þátt í neinu starfi Norðurskautsráðsins, sem Rússar eiga beina aðild að. Það er hins vegar þannig að þrátt fyrir formennsku Rússa eiga þeir aðeins beina aðild að litlum hluta af vísinda- og rannsóknastarfi ráðsins. Þannig verður vonandi hægt að fleyta starfi ráðsins áfram á tímabilinu og rétta kúrsinn er Norðmenn taka við formennsku í Norðurskautsráðinu vorið 2023.  

Ég ætla ekki að draga dul á að ég tel heillavænlegast að hið mikilvæga samstarf Norðurskautsráðsins haldi áfram með aðild allra átta ríkjanna. Við hljótum að binda vonir við að rússnesk stjórnvöld snúi frá óheillabraut hernaðarhyggju og aftur verði grundvöllur fyrir samstarfi við þau. Það er þess vegna stefna Íslands að halda þannig á málum að hægt verði að forðast upplausn ráðsins. 

Það er alveg skýrt í Ottawa-yfirlýsingunni sem stofnaði Norðurskautsráðið í september 1996, að norðurskautsríkin eru átta, og að allar ákvarðanir um starf ráðsins þarf að taka sameiginlega og í samráði við frumbyggjasamtökin sem sitja í ráðinu. Norðurskautsríkin sjö gætu vissulega valið að formfesta samstarf að málefnum norðurslóða án Rússlands en slíkt samstarf færi ekki fram undir hatti Norðurskautsráðsins og hefur ekki verið rætt meðal ríkjanna, enda næði það aðeins yfir hluta norðurslóða. 

 Eftir sem áður er í mörg horn að líta við hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd á norðurslóðum. Nýja norðurslóðastefnan er í nítján liðum sem taka til jafn ólíkra þátta og umhverfisverndar, efnahagstækifæra, heilbrigðismála, bættra fjarskipta, vísinda og rannsókna, leitar og björgunar, en, rauði þráðurinn er samvinna, jafnt innanlands sem alþjóðlega. Það er þess vegna sem við köllum til opins fundar með ykkur. Að vísu verður ekki hjá því komist að núverandi ástand heimsmála hafi áhrif á ýmsa þætti starfsins framundan ekki síður en á mótun framkvæmdaáætlunar fyrir stefnu Íslands í málefnum norðurslóða en að sama skapi gefur gerð framkvæmdaáætlunarinnar tilefni til að hugsa út fyrir boxið í breyttum veruleika og koma auga á tækifæri í frekar en vandamál. 

Ég óska ykkur góðs gengis í dag.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta