Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

03. apríl 2022 Þórdís KRG - UTN

Fæðuöryggi í matvælalandi

Það er ekki ofsögum sagt að við lifum á óvenjulegum og óútreiknanlegum tímum. Innrás Rússa í Úkraínu hefur minnt okkur rækilega á hve lánsöm við erum að búa í friðsælu landi. Slíkan frið má ekki taka sem sjálfsögðum hlut. Ekkert okkar er ósnortið af þeim hörmungum sem dunið hafa yfir íbúa Úkraínu síðustu vikur og öll viljum við leggja okkar af mörkunum.

Í ræðu sem ég flutti á Búnaðarþingi í vikunni gerði ég að umtalsefni hvernig þessir örlagaríku atburðir undanfarinna vikna hafa beint sjónum okkar að því hvernig sviptingar í heimsmálunum geta sett allar áætlanir og hugmyndir um framtíðina í uppnám. Þótt við séum fjarri sjálfri vígaslóðinni má gera ráð fyrir að stríðið hafi áhrif á aðfangakeðjur, fóðurverð og eldsneytiskostnað, sem eru allt lykilþættir í að tryggja fæðuöryggi lands og þjóðar. Það er auðvitað áskorun hér á landi hve háð við erum innfluttum aðföngum í landbúnaði en það er reyndar þannig í heiminum í dag að nánast ekkert land er sjálfu sér algjörlega nægt. Í dag þurfum við olíu á tækin, baggaplast sem krefst olíu og áburður er meðal annars framleiddur úr jarðgasi.

Vænleg verkefni hvatning til dáða

Við aðstæður eins og þær sem nú eru uppi er eðlilegt að spyrja hvernig við tryggjum fæðuöryggi okkar í stærra samhengi. Við blasir að ásamt auðlindinni úr hafinu gegnir íslenskur landbúnaður afar mikilvægu hlutverki og margvísleg tækifæri felast í sérstöðu hans. Við eigum til dæmis græna orku á Íslandi – og við getum í krafti tækniframfara og hugvits fundið leiðir til að umbreyta þeirri orku í vörur sem geta komið stað fyrri lausna. Með því getum við vonandi til lengri tíma litið dregið úr kolefnisfótspori við matvælaframleiðslu og verið öruggari um aðföng ef truflanir verða á alþjóðlegum mörkuðum. Og þetta er ekki innantómt framtíðarhjal, eins og sjá má af þróun tækni til að framleiða áburð úr ammoníaki framleiddu með vistvænum orkugjöfum. Slík verkefni eiga að vera okkur hvatning til frekari dáða í þessa veru.

Á þessum tímum þar sem loftslagsmál og græn umskipti eru viðfangsefni okkar allra hugsum við líka enn meira um hvaðan maturinn sem við borðum kemur og hvernig hann var framleiddur, meðal annars með tilliti til kolefnisspors í flutningi. Eftir því sem við vinnum að orkuskiptum innanlands mun þessi sérstaða okkar afurða einungis aukast. Landsmenn hafa um leið sýnt að þeir vilja meiri upplýsingar um hvað þeir láta ofan í sig og það hefur mikil áhrif á val þeirra. Bændur átta sig vel á þessu og til marks um það er nýtt upprunamerki sem hjálpar neytendum við val sitt og að lyfta okkar góðu og heilnæmu vörum. Í þessu hljóta að felast margvísleg tækifæri til nýsköpunar og snjallrar markaðssetningar sem aukið getur verðmæti í íslenskum landbúnaði.

Aðgangur að alþjóðamörkuðum

En matvælaöryggi Íslands snýst sannarlega ekki einungis um það hvernig við getum bjargað okkur án aðgangs að alþjóðlegum mörkuðum. Ísland er matvælaland. Við framleiðum miklu meira af matvælum en við neytum sjálf. Þetta framlag Íslands, að framleiða matvæli umfram eigin neyslu, er okkur ekki alltaf ofarlega í huga, en það skiptir miklu máli. Í því felst ákveðið öryggi og þess vegna má segja að opnir markaðir með matvöru séu mikilvægasta trygging okkar Íslendinga, eins og gildir raunar um flestar þjóðir. Ófriðurinn í Úkraínu hefur enn einu sinni fært okkur heim sanninn um mikilvægi kjarnamarkaða í lýðræðis- og bandalagsríkjum. Stöðugir markaðir sem ekki eru háðir duttlungum valdhafa, þar sem réttarríki er til staðar, eignarréttur er virtur og viðskipti byggjast að jafnaði á eðlilegum samkeppnisforsendum. Það eru líka góðir aðfangamarkaðir. Þetta er einnig brýning til okkar um að setja ekki öll eggin í sömu körfuna hvað markaði varðar. Í þessu samhengi gegnir EES-samningurinn lykilhlutverki sem tryggir okkur aðgang að öruggum útflutningsmarkaði með hálfum milljarði íbúa. Í tengslum við þann mikilvæga samning höldum við uppi virku samtali og hagsmunagæslu gagnvart ESB til þess að freista þess að sníða vankantana af honum og öðrum tengdum samningum jafnóðum og þeir koma í ljós, jafnt íslenskum neytendum sem útflutningsfyrirtækjum til hagsbóta.

Þegar öllu er á botninn hvolft þurfum við umfram allt að halda áfram að skapa hér á landi verðmæti sem standast alþjóðlegar kröfur. Þar er íslenskur landbúnaður, rétt eins og sjávarútvegurinn okkar, sannarlega vel í stakk búinn og í honum felast bæði tækifæri og mikilvægt öryggi. En staða okkar og lífsgæði byggjast líka á því að við njótum góðs af þeim margfeldisáhrifum sem felast í alþjóðlegum viðskiptum, aðgangi að góðum hugmyndum, þekkingu, tækjum og tólum. Opnir markaðir eru þannig órjúfanlegur þáttur í að tryggja fæðuöryggi okkar til framtíðar. 

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. apríl 2022.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta