Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

06. maí 2022 Þórdís KRG - UTN

Ávarp utanríkisráðherra á ársfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi 2022

Ágætu fundargestir

Það er mér mikil ánægja og heiður að fá að vera með ykkur hér í dag og ávarpa ársfund Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Ég segi heiður, því Íslendingar eiga að vera sérlega stoltir af íslenskum sjávarútvegi. Fyrir utan hið augljósa efnahagslega mikilvægi, þá er þjóðarvitund okkar og menning nátengd hafinu.

Sjálfstæði Íslendinga er líka nátengt hafinu og í raun má segja að ef ekki hefði verið fyrir sjávarauðlindina þá væri tómt mál að tala um að hér byggi sjálfstæð þjóð í eigin landi - þjóð sem hefur tekist að skapa íbúum sínum einhver þau bestu lífskjör sem þekkjast á byggðu bóli. „Við eflum þinn hag, hvern einasta dag,“ söng áhöfnin á Halastjörnunni í lagi sem allir Íslendingar þekkja.

Og það sem mér finnst áhugavert við textann í laginu er að þar kemur fram af hverju áhöfnin leggur það á sig að vagga til og frá, langt út á sjó – í stormi og hríð, hvert ár alla tíð. Hún leggur þetta á sig ekki bara fyrir sjálfa sig – heldur fyrir Ísland sjálft – „Við allir þér unnum, þú ást okkar átt. Ísland við nálgumst nú brátt.“

Það er langt frá því að það sé sjálfsagt að okkur Íslendingum hafi vegnað svona vel þessi tæplega áttatíu ár sem við höfum staðið á eigin fótum sem sjálfstæð þjóð en þar skiptir sjávarútvegurinn miklu máli. Þar er einkum tvennt sem blasir við.

Annars vegar hefur mikill nýsköpunar- og frumkvöðlakraftur einkennt íslenskan sjávarútveg. Enn sjáum við fjölmörg framúrskarandi dæmi um hvernig sjávarútvegstengd nýsköpun skapar sífellt meiri verðmæti. Hverjum hefði dottið það í hug fyrir nokkrum kynslóðum að gullið sem við sækjum í greipar Ægis felist meðal annars í því að græða sár? Eða að klína fiskafurðum í andlitið á okkur í fegrunarskyni!

Hin ástæðan er að Íslendingum bar gæfa til þess að ná skynsamlegri stjórn á nýtingu sjávarauðlindarinnar með hagkvæmu kvótakerfi. Leið sem stuðlar að því að við náum meiri verðmætum úr aflanum og förum betur með auðlindina en flest önnur ríki. Við getum verið ákaflega þakklát fyrir að vel hefur tekist að standa vörð um þessa leið - sem í grundvallaratriðum er skynsamleg markaðslausn, jafnvel þótt hún hafi verið umdeild.

En góð kerfi út frá efnahagslegum forsendum geta ekki staðist til lengdar ef þau eru ekki álitin vera sanngjörn. Sjálf tel ég kvótakerfið vera sanngjarna lausn á erfiðu viðfangsefni, en það eru miklir sameiginlegir hagsmunir fólgnir í því að stuðla að aukinni sátt. Í þeim efnum höfum við hlutverk, stjórnmálafólk sem trúir á markaðslausnir — en vitaskuld er ekki síður mikilvægt að fólk upplifi að vel sé farið með þau völd og þann arð sem fylgja velgengni.

Kæru ráðstefnugestir

Í ráðuneyti mínu ber ég í raun fjóra hatta sem víða eru bornir af nokkrum ráðherrum. Á Íslandi er utanríkisráðherra nefnilega einnig ráðherra varnarmála, ráðherra þróunarsamvinnu og ráðherra utanríkisviðskipta, auk þess að vera sá ráðherra sem ber ábyrgð á utanríkisstefnu landsins.

Og öll þessi svið hafa stóra og mikilvæga snertifleti við hagsmuni sjávarútvegs.

Byrjum á því sem er augljósast. Ráðherra utanríkisviðskipta gætir hagsmuna Íslands í viðskiptum við önnur ríki, þar á meðal í samningum um markaðsaðgang og tolla. Þar sem sjávarútvegurinn er mikilvægasta útflutningsgrein þjóðarinnar er eðlilegt að hagsmunir hennar séu ofarlega á blaði þegar kemur að því að því að tryggja sem best og greiðast aðgengi að alþjóðlegum mörkuðum. Í þeim efnum leggur ráðuneytið áherslu á að bæta markaðsaðgengi á Evrópumarkaði og öðrum stórum mörkuðum, svo sem eins og Bretland og Bandaríkin. Fyrir dyrum standa samningaviðræður við Evrópusambandið þar sem krafa Íslands er að færa okkur nær frjálsari viðskiptum. Því miður hefur þróunin á undanförnum árum verið í þá átt að hærra hlutfall útfluttra sjávarafurða til sambandsins ber toll, þótt sá tollur sé í mörgum tilvikum ekki hár. Mér hefur heyrst að ágætur hljómgrunnur kunni að vera fyrir þessum áherslum okkar Íslendinga, þótt ekki sá á vísan að róa í þeim efnum.

Viðskipti okkar við Bretland eru að sumu leyti flóknari nú eftir útgöngu þeirra úr Evrópusambandinu, en í samskiptum við þá góðu vinaþjóð leggjum við áherslu á að bæta markaðsaðgengi fram veginn. Þær góðu fréttir bárust í vikunni að enn um sinn verði ekki krafist heilbrigðisvottorða með íslenskum fiskafurðum til Bretlands, á meðan unnið er að rafrænni lausn.

Ég er líka þróunarsamvinnuráðherra. Þar skiptir miklu máli að við Íslendingar höldum áfram að miðla af reynslu okkar og þekkingu til þess að hjálpa öðrum ríkjum að skapa verðmæti úr þeim auðlindum sem þau hafa aðgang að. Oft er sagt að hægt sé að útvega manni mat í einn dag með að gefa honum fisk, en með því að kenna honum að veiða verði hann mettur alla daga.

Þegar kemur að þeim málum sem heyra undir hefðbundna utanríkisráðherra —sem eru ekki fjórfaldir eins og ég — þá skiptir ákaflega miklu máli að Ísland gæti hagsmuna sinna vegna málefna hafsins. Ísland á alla sína farsæld, og þar með sjálfstæði, undir því að alþjóðlegir samningar og alþjóðalög séu virt. Það á svo sannarlega við þegar kemur að efnahagslögsögu ríkja. Ekki þarf að fjölyrða hér um mikilvægi þeirra utanríkispólitísku stórsigra sem fólust í útfærslu landhelginnar og mörkun efnahagshagslögsögu þar sem Ísland var frumkvöðull.

Og kemur þá að hlutverki mínu sem ráðherra varnarmála. Vitaskuld er það sú hlið af mínu starfi sem ég vona að sem allra minnst reyni á. En raunveruleikinn er væntingum manns ekki alltaf hliðhollur.

Á síðustu árum og mánuðum hefur eitt valdamesta ríki heims í nokkrum skrefum sagt sig úr lögum við hið alþjóðlega samfélag. Sagt sig frá því kerfi sem komið var upp eftir síðari heimsstyrjöldina til að koma í veg fyrir stríðsátök milli ríkja.

Hin grimmilega innrás Rússlands í Úkraínu er nýjasti kaflinn í þessari glórulausu vegferð Vladimirs Pútíns og samverkamanna hans í Kreml. Eins og allir illvirkjar sögunnar þykjast þeir hafa ýmsar skýringar og afsakanir á verkum sínum. En sannleikurinn er sá að Pútín á sér engar málsbætur. Tilraunir Rússa til þess að rugla umræðuna eru hluti af hernaðinum, en sem betur fer fær þvættingurinn lítinn hljómgrunn hér á landi. Við látum ekki rússneskan stríðsáróður rugla okkur í ríminu.

Ég veit að margir í íslenskum sjávarútvegi hafa átt erfitt með að horfa upp á þróun síðustu ára. Rússland hefur í gegnum áratugina verið mikilvægur markaður og þrátt fyrir illvirki Pútíns, þá er fólk bara fólk - og margir eiga góða vini og viðskiptafélaga í Rússlandi. Þessir vinir og viðskiptafélagar Íslendinga eru vitaskuld einnig fórnarlömb hinna skeytingarlausu stjórnvalda í Moskvu.

Úkraínska þjóðin, sem stendur sameinuð gegn innrás Pútíns, vildi frekar færa sig í áttina að lýðræði, réttarríki, viðskiptafrelsi og mannréttindum. Heimsmynd Pútíns hafnar þessum gildum en heimtar skilyrðislausa hollustu við duttlunga eins manns.

Í þessu efni höfum við Íslendingar skipað okkur í lið. Við erum í liði með Úkraínu. Þar erum við í góðum félagsskap með vina- og bandalagsríkjum okkar. Fæst þessara vina- og bandalagsríkja eru fullkomin. En þau eru réttu megin. Þjóðir Atlantshafsbandalagsins eru vinaþjóðir okkar og það eru aðildarríki Evrópusambandsins líka, og Evrópusambandið sjálft, þótt við séum sannfærð að EES samstarfið sé rétti kosturinn fyrir Ísland, en ekki aðild.

Hér á landi er gjarnan talað um að við séum herlaus þjóð og friðelskandi. En það er  líka allt venjulegt fólk í öllum löndum. Það er friðelskandi og hatar stríð og kannski sérstaklega í löndum sem ekki geta leyft sér þann munað að vera herlaus.

Við getum því svo sannarlega verið þakklát fyrir að vera herlaus þjóð en við eigum ekki að gorta okkur af því –við treystum á hernaðarstyrk annarra til að tryggja frið okkar og öryggi.

Og þótt við séum herlaus þá erum við ekki hlutlaus.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé skylda okkar Íslendinga að vera verðugir bandamenn þeirra sem hafa lofað okkur að verja Ísland með hernaðarmætti sínum ef á það reynir.

Við erum í liði, og þegar maður er í liði þá er það skylda manns að gera sitt besta.

Kæru gestir.

Þegar ég hef lokið máli mínu hér hjá ykkur liggur leiðin niður í Alþingishús, þar sem Volodomir Selenskí, forseti Úkraínu ávarpar íslensku þjóðina og þingheim.

Ég veit að ég er ekki ein um að vera djúpt snortin af því að fylgjast með forystu hans og hugrekki — og ég veit að það skiptir úkraínsku þjóðina máli að vita af hinum yfirgnæfandi stuðningi sem málstaður hennar nýtur hér á landi. Þar hefur íslenskt atvinnulíf, þar á meðal íslenskur sjávarútvegur, verið einarður í stuðningi við þær nauðsynlegu aðgerðir sem Íslendingar taka þátt í.

Og það gladdi mig einnig  mikið að heyra fréttir af því í morgun að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hefðu ákveðið að gefa 140 milljónir til stuðnings úkraínsku þjóðinni í dag. Það er höfðingleg gjöf sem mun hafa raunverulega þýðingu.

Kæru fulltrúar íslensks sjávarútvegs.

Ég þakka ykkur innilega fyrir að bjóða mér hingað sem utanríkisráðherra og óska þess að þið eigið góða samveru hér í dag.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta