Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. maí 2022 Þórdís KRG - UTN

Framtíð og öryggi Evrópu

Í dag hittast utanríkisráðherrar og aðrir fulltrúar Evrópuráðsins á árlegum ráðherrafundi í Tórínó á Ítalíu. Hvern hefði órað fyrir því þegar ráðherrarnir funduðu í Þýskalandi á síðasta ári að eitt aðildarríki hefði tæpu ári síðar ráðist inn í annað með grimmilegum hætti og að Rússum yrði í kjölfarið  vísað úr Evrópuráðinu? 

Evrópuráðið á rætur sínar að rekja til tímabilsins eftir síðari heimsstyrjöldina og merkar tilvitnanir í Winston Churchill, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, sýna að Evrópuráðinu var ætlað að stuðla að varanlegum stöðugleika í álfunni. Evrópuráðið er í dag vettvangur um 700 milljóna íbúa sem búa í 46 aðildarríkjum og eiga sér um margt ólíka menningarsögu. Þessar þjóðir hafa þó sameinast um að byggja á lýðræðislegum stjórnarháttum og virða mannréttindi og réttarríkið. Margt hefur breyst í tæplega 75 ára sögu Evrópuráðsins og nú er spurt hvað hafi farið úrskeiðis? Hvernig gat það gerst að eitt ríki Evrópu réðist inn í annað, bryti þar mannréttindi með grófum hætti og eyddi menningarminjum og merkri sögu?

Við þessar aðstæður mun ég ræða stöðu mála við félaga mína í aðildarríkjum Evrópuráðsins í dag. Ég mun fá tækifæri til þess að koma sjónarmiðum Íslands á framfæri, eindregnum stuðningi við Úkraínu og ræða hvernig við getum sameiginlega stuðlað að friði og öryggi innan Evrópu og tryggt að mannréttindi séu virt innan álfunnar. 

Ísland mun taka við formennsku í Evrópuráðinu í nóvember næstkomandi og undirstrika mikilvægi þess að nú verði sem aldrei fyrr lögð áhersla á lýðræðisleg gildi, réttarríkið og mannréttindi. Formennska Íslands gefur líka tækifæri til þess að koma Íslandi og íslenskum lausnum á framfæri ekki síst á sviði jafnréttismála og varðandi uppbyggingu í þágu barna og ungmenna. 

Evrópuráðið er mikilvægur vettvangur samræðu og nýrra lausna. Ísland mun í formennskutíð sinni vinna markvisst að lausnum sem stuðla að lýðræðislegri uppbyggingu og þar með framtíðaröryggi innan Evrópu. 

 

Greinin birtist í Fréttablaðinu 19. maí 2022

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta