Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. maí 2022 Þórdís KRG - UTN

Siðuð umræða er grundvöllur lýðræðis

Nýlega horfði ég á fræga ræðu sem Ronald Reagan flutti við Berlínarmúrinn hinn 12. júní 1987, fyrir tæpum 35 árum, aðeins tæpu hálfu ári áður en ég sjálf kom í heiminn. Ræðan er fræg fyrir ákall Reagans til Gorbachevs: „Herra Gorbachev, rífðu þennan vegg niður,“ sagði hann af sinni yfirveguðu ákveðni. Þetta einfalda ákall, sem embættismenn reyndu ákaft að fá forsetann til að strika útúr ræðunni, hitti áheyrendur í hjartastað. Línan er ekki skáldleg, flókin eða háfleyg. Hún sagði hins vegar einfaldan sannleika á einfaldan hátt, var sögð á réttum stað, á réttum tíma og kom frá réttum manni.

Að tala af kurteisi og virðingu um andstæðinginn

En það var fleira í ræðunni sem vakti athygli mína. Þar á meðal var sú staðreynd að repúblikaninn Reagan minntist á forvera sinn demókratann John F. Kennedy í allra fyrstu setningu ræðu sinnar. Og ekki nóg með það heldur talaði hann um Kennedy með kurteisi og af virðingu.

Rúmum tuttugu árum síðar, árið 2008, var demókratinn Barack Obama kosinn forseti Bandaríkjanna. Ákosningavöku repúblikans Johns McCains sagði hann frá því í stuttri ræðu að hann hefði „notið þess heiðurs að hringja í Barack Obama og óska honum til hamingju með að vera kjörinn forseti landsins sem við báðir elskum“. Úr áhorfendaskaranum heyrðust ósæmileg hróp um hið nýkjörna forsetaefni og hávært baul. McCain brást við með því að sýna vanþóknun sína á þessum viðbrögðum eins og hann hafði reyndar neyðst til að gera alloft meðan á kosningabaráttunni stóð.

Nú, aðeins fjórtán árum síðar, virðist þessi tilraun McCains til þess að eiga siðfágað og málefnalegt samtal við pólitískan andstæðing, og að sýna honum virðingu, vera eins og ómur úr löngu liðinni fortíð. Í því harkalega pólitíska andrúmslofti sem ríkt hefur allra síðustu ár í Bandaríkjunum hefur verið fátt um sambærileg dæmi. Því miður virðist pólitíkin víða annars staðar verða sífellt heiftúðugri.

Undanfarin ár hafa ýmsir pólitískir hugsuðir lýst vaxandi áhyggjum af þeirri þróun sem orðið hefur í opinberri umræðu. Áhyggjurnar snúa ekki að harkalegum skoðanaskiptum, sem hafa ætíð verið hluti af stjórnmálabaráttunni og geta verið nauðsynleg til að komast að niðurstöðu. Það sem hins vegar hefur gerst á undanförnum árum er að raunveruleg skoðanaskipti eru að verða illmöguleg þar sem andstæðir hópar geta ekki einu sinni komið sér saman um gildi grundvallarstaðreynda eða sammælst um sanngjarnar og drengilegar reglur til þess að eiga samtal sín á milli. Enn síður virðist fólk almennt ganga út frá því að pólitískir andstæðingar séu samt ágætt fólk sem vill vel. Eflaust væri miklu einfaldara að líta á þá sem eru manni ósammála annaðhvort sem vitleysinga eða illmenni, nema hvort tveggja sé.

Pólitík fyrirlitningar og haturs er hættuleg

Þessi pólitík fyrirlitningar og haturs er hættuleg. Ég tel að það sé mikilvægt verkefni allra okkar sem förum með ábyrgð í samfélaginu að gæta að því að íslensk stjórnmál dragist ekki niður á svipaðar slóðir þar sem skautun og skrímslavæðing er orðin nánast regla í stjórnmálum. Skoðanaskipti, jafnvel í erfiðustu málum, þurfa að geta átt sér stað án formælinga og persónulegs níðs. Ég get að minnsta kosti sagt það fyrir sjálfa mig að eftir sex ára þingsetu hef ég ekki enn hitt fyrir manneskju í stjórnmálum sem verðskuldar hatur mitt eða fyrirlitningu – og er ég þó oft innilega ósammála ýmsum og þykir ekki alltaf málflutningur andstæðinganna sanngjarn, gáfulegur eða drengilegur.

Múrinn í kringum vesturhluta Berlínar var tæki og tákn kúgunar. Kerfið sem kúgunin byggðist á gat ekki staðist frjálsan vilja fólks því þótt múr á landamærum tálmi í báðar áttir, þá þurftu lýðfrjálsari samfélög Vesturlanda ekki að óttast að flóttinn lægi í áttina frá þeim þótt leiðin væri greið. Stjórnarfar kommúnista í Austur-Þýskalandi var kerfi þar sem vitaskuld margt gott og velmeinandi fólk mátti finna en kerfið sjálft byggðist á ofbeldi og lygum. Samfélög Vesturlanda eru hvorki laus við ofbeldi eða lygar – en þau byggjast í grundvallaratriðum á mannréttindum og gagnsæi. Í slíkum samfélögum er mikilvægt að ólík sjónarmið geti tekist á, en að leikreglur lýðræðis og siðaðs samfélags séu hafðar að leiðarljósi. Annars er hætt við því að smám saman molni undan þessum dýrmætustu verðmætum sem við njótum hér á Íslandi; að búa í frjálslyndu lýðræðissamfélagi þar sem réttindi einstaklingsins og lífsgæði eru meðal þess besta sem þekkist á byggðu bóli. 

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. maí 2022.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta