Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

02. júní 2022 Þórdís KRG - UTN

Opnunarávarp á fundi útflutnings- og markaðsráðs

Ágætu fulltrúar í útflutnings og markaðsráði,

Það er mér ánægja vera með ykkur í dag. Það virðist ekki langt síðan ég kom síðast á fund útflutnings- og markaðsráðs. Það var 25. febrúar, daginn eftir að innrás Rússlands í Úkraínu hófst. Eins og þið kannski munið sem voruð hér þá, þá voru þeir ískyggilegu atburðir mér ákaflega ofarlega í huga. Segja má að varla hafi liðið sá dagur síðan sem starf utanríkisráðherra hefur ekki að einhverju leyti snúist um stríðið og afleiðingar þess.

Ég hef stundum bent á að utanríkisráðherra Íslands gegnir í raun nokkrum hlutverkum, sem gjarnan er skipt milli ólíkra ráðherra í stjórnarráðum stærri ríkja. Við erum herlaus þjóð, og því er eðlilegra að við felum utanríkisráðherra fyrirsvar í varnarmálum heldur en að útnefna slíkan. Að sama skapi er ekki óalgengt að utanríkisviðskipti tilheyri ráðherra sem hefur ekki önnur verkefni. Þessum hlutverkum til viðbótar gegni ég sem utanríkisráðherra skyldum sem ráðherra þróunarsamvinnu, sem víða er aðskilið ráðuneyti.

Hin gjörbreytta heimsmynd sem nú er uppi vegna innrásar Rússlands hefur gríðarleg áhrif á öll þau hlutverk sem ég sinni sem utanríkisráðherra. Við blasir að Ísland þarf að huga að varnamálum sínum með aukinni alvöru. Þá þekkjum við öll hina ógnvekjandi umræðu um áhrif stríðsins á fæðuöryggi—og það sem mun bitna á okkur Vesturlandabúum í formi takmarkaðra úrvals og verðhækkana, mun birtast í raunverulegri hungursneyð og lífshættu hjá milljónum manna á fátækari svæðum heims.

Við höfum upplifað mikla röskun á aðfangakeðjum í kjölfar heimsfaraldurs og strax í kjölfarið kom innrás Rússa sem hefur leitt til verðbólgu, hækkandi vöruverðs og breytinga á markaðsleiðum fyrirtækja, bæði í inn- og útflutningi.

Kostnaðurinn við stríðið skrifast allur á reikning Pútíns. Hann hefur ákveðið að fara með Rússland, land sem býr yfir einhverjum skelfilegasta tortímingarmætti veraldarsögunnar, smám saman lengra burt frá alþjóðasamfélaginu. Kostnaður heimsins við að streitast á móti árásarhneigð Pútíns er vissulega mikill, en ef Rússlandi verður ekki refsað fyrir að hefja innrásarstríð í landvinningartilgangi, er mikil hætta á því að smám saman kvarnist upp úr þeim mikilvægustu gildum sem liggja til grundvallar alþjóðasamstarfs. Fyrir land eins og Ísland er það ekki beint hugguleg tilhugsun að hernaðarmáttur ríki ofar lögum og venjum í samskiptum ríkja.

Þá blasir það einnig við í mínum huga að Íslendingar þurfa að leggja sig fram um að vera verðugir bandamenn þeirra ríkja sem við erum í varnarsamstarfi við. Það mun hugsanlega kalla á aukna þátttöku í ýmsum verkefnum.

Í stóra samhenginu getum við Íslendingar, eins og oft áður, prísað okkur sæl í samanburði við flesta aðra þegar kemur að áhrifum stríðsins. Ákaflega ólíklegt er að við munum upplifa beinan ófrið. Innviðir okkar eru sterkir og grundvöllur okkar útflutnings eru matvæli og orka, en hvort tveggja er líklegt til þess að verða verðmætara á næstu misserum. Það er mikilvægt að við Íslendingar förum áfram vel með það hlutverk sem við höfum að gegna í þessum efnum. Þar þurfum við að vera til fyrirmyndar varðandi skynsamlega nýtingu, hagkvæmni og sjálfbærni.

Á nýafstaðinni sjávarútvegsráðstefnu í Barselóna bar sjálfbærni matvæla hátt og kom fram að fyrirtæki þurfi að búa sig undir að merkja kolefnisspor auk næringargildis á umbúðum matvæla. Verði svo þurfum við að búa vel í haginn enda eigum við alla möguleika á að styrkja ímynd hreinna íslenskra matvæla erlendis.

Þegar kemur að viðskiptalífinu á Íslandi, og áhrif aukinnar óvissu í heiminum, þá finnst mér sennilegt að margir þeir sem bera ábyrgð á fyrirtækjarekstri velti fyrir sér aukinni áhættu við að eiga viðskipti við þau ríki þar sem valdboði vex ásmegin á kostnað réttarríkisins. Einræðisríki með vont orðspor í mannréttindamálum leggja oft mikið á sig til þess að reyna að laða til sín viðskipti. En ekki er allt gull sem glóir í þeim efnum. Líklega horfa mörg okkar í auknum mæli á kjarnamarkaði Íslands, stöðuga markaði sem ekki eru háðir duttlungum valdhafa, þar sem réttarríki er til staðar, eignarréttur er virtur og viðskipti byggja á eðlilegum samkeppnisforsendum.

Eins og ég gat um áðan þá er grundvöllur auðsældar Íslands enn tengdur þeim auðlindum sem við erum svo blessuð að hafa aðgang að. Vexti þeirra eru hins vegar skorður settar til lengri tíma. Það er á grundvelli nýsköpunar og hugvits sem við getum enn aukið útflutningsverðmæti sem byggjast á þessum auðlindum. Svo mikil eftirspurn er eftir samstarfi við Ísland í grænum lausnum og orkumálum að brýnt er að taka ákvörðun um hvort virkjað verði hér til að svara slíkri eftirspurn. 

Kæru fulltrúar,

Með mörkun útflutningsstefnu fyrir Ísland, sem kynnt var haustið 2019, voru kynntar til leiks sex stefnumarkandi áherslur og var skipulagi Íslandsstofu í kjölfarið breytt til að vinna markvisst að þessum áherslum. Framkvæmdastjóri mun hér á eftir fara yfir stöðuna á þeim áherslum.

Hagvöxtur framtíðar verður fyrst og fremst að byggja á auknum útflutningi íslensks hugvits. Í langtímastefnu fyrir íslenskar útflutningsgreinar, sem Útflutnings- og markaðsráð samþykkti árið 2019, er lögð mikil áhersla á að auka gjaldeyristekjur af íslenskri nýsköpun, hugviti og tækni. - „Gerum hugvit og tækni að burðarásum verðmætasköpunar og gerum Ísland að eftirsóttum stað til rannsókna, þróunar og fjárfestinga.“

Á undanförnum þremur árum hefur verið kröftugur vöxtur í útflutningi á vörum og þjónustu sem byggja á hugviti og tækni. Árið 2018 námu útflutningstekjur þessa geira 97 milljörðum króna en nýjustu áætlanir gera ráð fyrir að þær tekjur nálgist nú 200 milljarða króna. Það er jafnframt ljóst að hér á landi eru aðstæður sem bjóða upp á lífvænleg skilyrði fyrir frekari vöxt tækni- og hugvitsgreina; svo sem hátt menntunarstig þjóðarinnar, traustar ívilnanir í þágu rannsókna og þróunar, ívilnanir fyrir græna fjárfestingu og fleira. Þá hafa almenn lífsgæði hér á landi, öryggi, góðir innviðir fyrir fjölskyldufólk og hátt menningarstig einnig áhrif á möguleika Íslands til þess að vera vettvangur alþjóðlega samkeppnishæfra nýsköpunar-, tækni- og hugvitsfyrirtækja. Þá skiptir það máli að Ísland hefur skipað sér framarlega í flokk, raunar allra fremst, þegar kemur að jafnrétti og möguleikum fólks til þess að lifa eftir sínu eigin höfði.

Þrátt fyrir að ýmis skilyrði til vaxtar séu hér góð, þá eru einnig áskoranir sem þarf að takast á við. Til að tækni- og hugverkaiðnaður á Íslandi geti dafnað er þörf á að fjölga sérfræðimenntuðu starfsfólki, mun meira en íslenskt menntakerfi getur skilað af sér. Þá er að sama skapi mikil þörf fyrir raunverulega erlenda fjárfestingu í nýsköpun, þar sem þekking, vöxtur og tækifæri fylgja fjármagni.

Vitundarmælingar Íslandsstofu á erlendum mörkuðum sýna að Ísland stendur öðrum Norðurlöndum talsvert aftar þegar kemur að þáttum sem snúa að nútímalegum innviðum, sterku atvinnulífi og nýsköpun. Þrátt fyrir okkar eigin trú á íslenskri nýsköpun höfum við ekki enn alþjóðlegt orðspor sem framúrskarandi vettvangur fyrir alþjóðlega samkeppnishæf fyrirtæki í nýsköpun, hátækni og öðrum greinum sem byggja á þekkingu og sköpunarkrafti.

Aukin þekking eykur samkeppnishæfni íslensks þekkingariðnaðar, áhuga erlendra sérfræðinga á að flytjast hingað og starfa, og auðveldar íslenskum fyrirtækjum að sækja alþjóðlega fjárfestingu sem stuðlar að öflugum íslenskum þekkingarfyrirtækjum sem geta drifið hagvöxt framtíðar.

Við þekkjum öll hið framúrskarandi starf sem Íslandsstofa hefur unnið í tengslum við að vekja áhuga á Íslandi sem áhugaverðum áfangastað ferðamanna. Þegar kemur að því að styðja við þá þróun að Ísland verði þekkt sem miðstöð fyrir framsæknar og alþjóðlega samkeppnishæfar hugmyndir og rekstur - hér getur Íslandsstofa haft mikilvægu hlutverki að gegna.

Það er mikilvægt verkefni að auka vitund á lykilmörkuðum um Ísland sem land nýsköpunar, hugvits og tækni, og ákjósanlegan stað fyrir rannsóknir og þróun; í því skyni að laða hingað til lands alþjóðlega fjárfesta, erlenda sérfræðinga og fyrirtæki. Ísland nýtur nú þegar alþjóðlegrar virðingar sem land þar sem gróskumikil sköpun á sér stað á sviði menningar, bókmennta, tónlistar og annarra skapandi listgreina. Þessi sköpunarkraftur getur verið angi af svipuðum meiði eins og kraftmikil frumkvöðlastarfsemi og fjölbreytt atvinnulíf.

Að minnsta kosti er ljóst í mínum huga að tækifærin eru til staðar og að Íslandsstofa hefur sýnt getu sína til þess að hafa afgerandi og jákvæð áhrif á ímynd Íslands á þeim sviðum þar sem hún hefur beitt sér mest. Þar er mikilvægt að viðhafa gott samstarf við samfélag frumkvöðla á Íslandi, hagsmunasamtök sem tala máli nýsköpunar, Samtök iðnaðarins, háskólasamfélagið og stjórnsýsluna. Reynslan hefur líka sýnt að frumkvæði og sköpunargleðin í Íslandsstofu sjálfri getur verið framúrskarandi, og mikilvægt að viðhalda þeim krafti.

Vil ég þakka framkvæmdastjóra og starfsmönnum Íslandsstofu enn og aftur fyrir það mikilsverða framlag.

Að lokum, ágætu fulltrúar útflutnings- og markaðsráðs, vil ég þakka ykkur fyrir það framlag sem þið lögðuð í langtímastefnumótun stjórnvalda og atvinnulífs fyrir markaðssetningu og útflutning. Stefnu sem byggir á styrkleikum okkar. Um leið vil ég hvetja ykkur til þess að fylgjast vel með framkvæmd stefnunnar

Takk fyrir.

Ræðan var flutt á fundi útflutnings- og markaðsráðs 2. júní 2022

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta