Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. júlí 2022 Þórdís KRG - UTN

Erindi í hátíðarmessu á Skálholtshátíð

Biskupinn yfir Íslandi, frú Agnes Sigurðardóttir, vígslubiskup, aðrir góðir gestir Skálholtshátíðar 2022.

Ég færi aðstandendum Skálholtshátíðar góðar kveðjur ráðherra kirkjumála og ríkisstjórnarinnar allrar og óskir til Þjóðkirkjunnar um velfarnað í starfi í þágu landsmanna allra.

Yfirskrift hátiðarinnar - „kliður af köllun friðar“ - snertir mig sérstaklega.

Fyrir örfáum dögum fór ég beint úr friðsælu sumarfríi með fjölskyldunni minni á ráðstefnu sem haldin var í borginni Haag í Hollandi. Þar eru höfuðstöðvar hins alþjóðlega glæpadómstóls, en þeim dómstóli er ætlað að vera sá vettvangur þar sem réttað er yfir þeim sem grunaðir eru um að hafa framið stríðsglæpi og glæpi gegn mannúð.

Á ráðstefnunni sjálfri var á átakanlegan hátt lýst ýmsum af þeim þaulskipulögðu voðaverkum - hryðjuverkum er líklega réttast að segja - sem framin eru af rússneska hernum í Úkraínu um þessar mundir.

Þar er engu hlíft og engin grið gefin.

Á leiðinni á flugvöllinn af ráðstefnunni opnaði ég svo símann og leit á fréttastrauminn.

Þar var mynd sem hafði verið tekin fyrr þann sama dag í borginni Vinnytsia í Úkraínu.

Fyrr um morguninn hafði hermaður þrýst á takka um borð í kafbáti á Svartahafi og send af stað eldflaug.

Á myndinni í fréttinni lá fjögurra ára stúlka í blóði sínu við hliðina á kerrunni sinni.

Hún hafði verið á leiðinni heim úr talþjálfun með mömmu sinni á sólríkum sumardegi þegar eyðileggingarblossi eldflaugarinnar hæfði hana og drap.

Liza litla var fjögurra ára gömul og með Downs-heilkenni.

Í sömu eldflaugaárás féllu að minnsta kosti 23, þar af þrjú börn sem voru ekki bara algjörlega saklaus af öllum þeim stríðshörmungum sem yfir þjóð þeirra dynur - heldur mynd sakleysins sjálfs, ósnert af þeim breyskleika og ófullkomleika sem allt fullorðið fólk þarf að horfast í augu við og glíma við síðar á lífsleiðinni.

„Daggir féllu á lauf í mó,

skuggar á skóga“

orti Ási í Bæ um annað stríð - en þar eins og í Úkraínu - horfði fólk upp á blómin í kringum sig deyja, og fyrir suma eru það eina barnið, eini bróðirinn, eina systirin, eina ástin sem fellur fyrir spengjunum - blóm meðal blóma.

„Líf mannlegt endar skjótt“, segir í Sálminum um blómið.

Sannarlega.

Og hér í Skálholti er líka vert að minnast og leiða hugann að Ragnheiði Brynjólfsdóttur biskups, en í útför hennar var í fyrsta sinn fluttur sálmur Hallgríms um dauðans óvissa tíma.

Blómstrið eina sem upp vex af sléttri grund, en verður afskorið á einu augabragði.

Harmsaga Ragnheiðar hefur síður en svo gleymst og hún má ekki gleymast.

Ragnheiður var neydd til að sverja eið frammi fyrir fjölda karlmanna að undirlagi föður síns hér á þessum stað. Friðhelgi hennar einkalífs og kynfrelsi fótum troðið með valdboði og bókstafskreddum.

Frelsi til að lifa og elska eftir eigin höfði, náttúru og þrá, er enn þann dag í dag ótryggt. Og sums staðar virðist leiðin liggja aftur á bak.

Saga Ragnheiðar er líka saga óteljandi annarra sem eftir hafa komið . Fólks sem hefur þurft að fara í felur með ást sína, þurft að sæta kúgun og afskiptum vegna innstu einkamála. Og saga fólks af öllum kynjum og kynhneigð sem hefur þurft að sæta fordómum, ofbeldi og útskúfun.

Í einu voldugasta lýðræðisríki veraldar er réttur kvenna til yfirráða yfir eigin líkama ekki lengur tryggður að lögum.

Víða um heim gera öfl afturhalds og kreddufestu atlögu að frelsi fólks til þess að njóta þess lífs og þeirrar ástar sem guðsgefin náttúra þeim býður. Við vitum öll að þessi öfugþróun er víða réttlætt með vísan í trúarbrögð, þar á meðal þá trú sem ég aðhyllist - og það finnst mér dapurlegt.

Ágætu gestir.

Í mínum huga eru skilningur og umburðarlyndi einhverjar tærasta og fegursta birtingarmynd þess kærleika sem ég trúi að sé undirstaða okkar kristnu trúar. Um þennan skilning og umburðarlyndi tel ég gott sé að helstu stofnanir okkar safmélags standi sameiginlegan vörð. Þar er þjóðkirkjan sannarlega ómissandi bandamaður.

Hér í Skálholti hittumst við undir yfirskrift sem vísar til þess kliðar sem fer að óma þegar hillir undir sáttargjörð og frið. Það er fögur hugsun og ákaflega þörf, ekki síst á þessum óvissu tímum.

Við Íslendingar njótum þeirrar blessunar að hafa verið í skjóli frá alþjóðlegum hernaðarátökum. Við getum verið friðflytjendur og við eigum að vera friðflytjendur. Ísland getur haft það hlutverk.

En við verðum líka að vera auðmjúk og hógvær, því þær þjóðir sem búa við ógnir stríðs og hungurs velja það svo sannarlega ekki sjálfar.

Allt venjulegt fólk um allan heim elskar frið og hatar stríð.

Við þurfum líka að vera meðvituð um að til þess að friður geti náðst og að friður sé tryggður þarf að koma til réttlæti. Það er undirstaða sáttargjörðar.

Í samfélagi nútímans reynum við að ná fram réttlæti fyrir konur eins og Ragnheiði biskupsdóttur með að tryggja að kynsystur hennar og annað fólk á síðari öldum eða í öðrum löndum þurfi ekki að sæta sömu harðneskju og sömu örlögum.

Og þegar kemur að Lizu litlu, fjögurra ára stúlkunni. Þá felst réttlætið í því að þeir sem valda dauða hennar taki út sína refsingu.

Líka í Úkraínu bíðum við þess dags þegar kliðurinn af köllun friðar yfirgnæfir ærandi drunur stríðsins og eyðilegginguna. En fyrst þarf hið góða sigra hið illa.

Og því hljótum við öll að trúa heitt og innilega sem erum saman komin hér í dag að hið góða muni sigra, að réttlætið nái fram að ganga og að blómin fái að blómstra.

Ég þakka fyrir tækifærið að ávarpa ykkur í dag og vona að héðan heyrist einmitt þau skilaboð sem heimurinn þarf svo mikið á að halda í dag.

Gleðilega hátíð.

Erindi flutt í hátíðarmessu á Skálholtshátíð 17. júlí 2022.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta