Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. ágúst 2022 Þórdís KRG - UTN

Samofnir þræðir í þrjátíu ár

Það var bæði hátíðleg og tilfinningaþrungin stund í Höfða 26. ágúst 1991 þegar Ísland viðurkenndi með formlegum hætti sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og tók um leið upp stjórnmálasamband við þau, fyrst allra ríkja. Í dag taka forsetar og utanríkisráðherrar Íslands og Eistlands, Lettlands og Litáens þátt í athöfn í þessu sama húsi til að minnast þessara merku tímamóta.

Athöfnin í Höfða fyrir rúmum þremur áratugum var sannarlega sögulegur viðburður. Það er óhætt að líta með stolti til þess að í sjálfstæðis- og frelsisbaráttu þessara ríkja var Ísland þess megnugt að leggja þungt lóð á vogarskálar rétts málstaðar. Sá stuðningur sem Ísland veitti á þessari ögurstundu er ennþá mikils metin í Eystrasaltsríkjunum. Um það get ég vottað eftir að hafa heimsótt Litáen fyrr á þessu ári og upplifað þá væntumþykju og virðingu sem ríkir í garð Íslands vegna framlags okkar til sjálfstæðis þess.

Samhljómur í áherslum og afstöðu

>

Leiðir Íslands liggja víða saman með Eystrasaltsríkjunum og gjarnan er mikill samhljómur í áherslum okkar og afstöðu. Við erum nánir bandamenn í Atlantshafsbandalaginu, á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðastofnana. Þá eru löndin þrjú eru mikilvægir samherjar Íslands í evrópsku samstarfi. Samvinna Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna er náin og vaxandi.

Heimsókn forseta og utanríkisráðherra Eystrasaltsríkjanna til Íslands er kærkomið tækifæri til að styrkja enn betur þessi nánu og góðu tengsl. Meðan á henni stendur undirritum við utanríkisráðherrarnir sérstaka hátíðaryfirlýsingu í Höfða þar sem við áréttum gagnkvæman vilja að efla enn frekar tvíhliða samskipti, viðskipti, margþætt samstarf á alþjóðlegum vettvangi og vináttubönd ríkjanna til framtíðar. Þar er einnig fjallað um framtíðaráskoranir á sviði öryggismála í ljósi innrásar Rússlands í Úkraínu.

Treystum böndin

Þegar kemur að mikilvægi sameiginglegra varna í Atlantshafsbandalaginu eiga öll bandalagsríkin mikla hagsmuni að verja. Þó er óhætt að fullyrða að hættan sé hvergi eins raunveruleg og í þeim löndum sem áður hafa lotið ægivaldi frá Moskvu eða verið hersetin af Rússlandi. Eystrasaltstríkin hafa lengi varað við hættunni sem stafar af áformum ráðamanna í Kreml. Lengi þótti ýmsum að viðvörunarorð þeirra væru umfram tilefni, en því miður hafa Rússar síðan gengið lengra en nokkurn óraði fyrir.Ísland hefur tekið fullan þátt í þeim þvingunaraðgerðum sem samstarfsríki okkar í Evrópu hafa samþykkt. Þessi tilefnislausa árás Rússa á grannríki sitt minnir á að sameiginleg gildi um frelsi, réttarríki og mannréttindi eru ekki sjálfgefin. Vladimír Pútín Rússlandsforseti fer fremstur í flokki þeirra sem grafið hafa markvisst undan þessum gildum en því miður á hann sína áhangendur sem með vilja eða í villu neita enn að skilja hve alvarleg þessi aðför er. Ef við hlúum ekki að þessum gildum og verndum þau þynnast þau út og glatast að lokum. Alger samhljómur hefur verið á meðal Íslands og Eystrasaltsþjóðanna um að innrásin í Úkraínu sé gróf árás á þessi gildi og í þeirri baráttu sem nú stendur yfir þurfum við öll að leggja okkar af mörkum.

Ég er sannfærð um að samskipti Íslands og Eystrasaltsríkjanna eigi enn eftir að eflast og böndin á milli okkar styrkjast. Þar er sameiginlega saga, vinátta og virðing mikilvægur grunnur og sú staðreynd að við deilum sömu grundvallargildum. Þá vex samgangur þjóðanna jafnt og þétt eins og sést best á þeim fjölda fólks frá Eystrasaltslöndunum hefur gert Ísland að heimili sínu, og þannig bæði auðgað þjóðlífið og lagt sitt af mörkum við að skapa hagsæld undanfarinna ára. Varla er hægt að hugsa sér betri undirstöður fyrir gott samband vinaþjóða.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. ágúst 2022

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta