Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. nóvember 2022 Þórdís KRG - UTN

Endurnýjun lýðræðis í Evrópu

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Simon Coveney:

Fyrir 33 árum felldu íbúar Berlínar múr. Það svala nóvemberkvöld markaði ekki endalok sögunnar. Fyrir milljónir Evrópubúa var það nýtt upphaf. Lýðræðisalda flæddi yfir álfuna og vakti upp vonir og væntingar.

Miklar framfarir áttu eftir að fylgja næstu árin. Stækkun Evrópusambandsins árið 2004 með Írland í forsetastól er gott dæmi.

Undanfarin fimmtán ár hafa straumarnir hafa hins vegar breyst. Samfara óvissu í efnahagsmálum og auknum ójöfnuði steðjar nú ógn að lýðræði. Þessi ógn kemur að utan en einnig, og það er öllu verra, að innan.

Það fjarar undan lýðræðinu en alræðisbylgjan er hins vegar í vexti. Heimurinn er í raun kominn á sama stað og þegar Berlínarmúrinn féll árið 1989. Aðeins 34 ríki í heiminum, þar sem einungis einn af hverjum átta jarðarbúum búa, teljast nú frjálslynd lýðræðisríki. Írland og Ísland eru á meðal þessara ríkja. Í krafti fráfarandi og nýrrar formennsku í Evrópuráðinu í Strassborg ætlum við að taka höndum saman gegn þeirri öfugþróun sem orðið hefur.

Árið 1949 var Írland á meðal stofnþjóða Evrópuráðsins. Ísland hlaut aðild ári síðar. Allar götur síðan höfum við skuldbundið okkur til þess að vernda grunngildi stofnunarinnar; lýðræði, mannréttindi og réttarríkið, sem lögfest eru í mannréttindasáttmála Evrópu og framfylgt af Mannréttindadómstólnum. Írski dómarinn Síofra O’Leary hefur þar tekið við embætti forseta, fyrst kvenna, af Íslendingnum Róbert Spanó.

Frjálsar kosningar eru vissulega undirstaða lýðræðis en standa ekki einar og sér undir því. Í raunverulegu lýðræði felst réttarríki og virðing fyrir mannréttindum. Þess vegna felst mótsögn í hugtakinu „ófrjálslynt lýðræði“. Þótt sá sem aðhyllist slíka stefnu styðji hugsanlega meirihlutaræði getur hann vart talist lýðræðissinni.

Við þurfum að festa lýðræði í sessi. Í því felst að vernda rétt fólks til að tjá sig, koma saman og stofna félög. Í því felst að styðja og vernda óháða dómstóla, frjálsa fjölmiðla og virkt borgaralegt samfélag. Í því felst einnig að tryggja heilsteypt kosningakerfi vitandi það að í lýðræði felist að tekist sé á í kosningabaráttu en ekki sé efast um réttmæti niðurstöðunnar.

Írland hefur í formennsku sinni í Evrópuráðinu undanfarna sex mánuði lagt allt kapp á að auka viðnámsþol lýðræðis í Evrópu. Til viðbótar við jákvæða reynslu af borgaraþingum hefur írska formennskan beint sjónum að högum ungs fólks. Lögð hefur verið áhersla á að efla vitund um borgaraleg réttindi í barnaskólum og háskólum. Afurðin er ný evrópsk yfirlýsing um alþjóðlega borgaravitund og mannréttindi.

Ísland heldur þessum kyndli áfram á lofti í formennsku sinni. Ísland nálgast hlutverk sitt út frá ríkri ábyrgð gagnvart þeim grunngildum sem aðildarríkin hafa skuldbundið sig til að vinna að fyrir þegna sína. Þess vegna ætlar Ísland að nýta formennskutíð sína til þess að treysta enn frekar undirstöður Evrópuráðsins – mannréttindi, lýðræði og réttaríkið.

Það hefur sýnt sig að þessi gildi og réttindi hafa reynst þeim samfélögum mikil blessun sem þeirra hafa fengið að njóta.

Aðildarríkin eru bundin saman helgum böndum. Við gerum okkur hins vegar fulla grein fyrir að þessi bönd geta trosnað eða slitnað ef þau eru ekki styrkt og vernduð.

Því miður er líklegt að komandi mánuðir og ár verði raunveruleg prófraun á staðfestu Evrópu þegar kemur að lýðræði og mannréttindum. Þess vegna er áríðandi að Evrópa einbeiti sér aftur þeim grundvallargildum sem hafa sameinað okkur. Eindrægni um þessi gildi verður að vera ofar öllu.

Evrópuráðið hefur stundum verið kallað „samviska Evrópu.“

Það er okkar mat að nú sé tími til kominn að láta stofnunina standa undir nafni og styrkja okkar sameiginlegu varnir fyrir gildum lýðræðisins. Fyrsta skrefið er að fá leiðtoga álfunnar til þess að koma saman, frá Lissabon til Kænugarðs, frá Valletta til Helsinki, til þess að árétta mikilvægi réttarríkisins, ítreka þær skuldbindingar sem formfestar eru í mannréttindasáttmálanum, og heita því enn að leggja enn meira kapp á stuðningi við lýðræði.

Með þetta að markmiði hafa þessar tvær þjóðir verið í forystu þeirra sem skorað hafa á leiðtoga aðildarríkjanna 46 að koma saman til fundar í fjórða sinn í 73 ára sögu stofnunarinnar undir þeim formerkjum að „fylkja liði um okkar sameiginlegu gildi“

Þessu ákalli svöruðu fulltrúar ríkjanna 46 sem sitja í ráðherraráði stofnunarinnar í síðustu viku írsku formennskunnar og þeirrar fyrstu í formennskutíð Íslands. Leiðtogafundur Evrópuráðsins verður þess vegna haldinn í maí næstkomandi í Reykjavík. Í borginni þar sem elsta þjóðþing í heimi er til húsa ætla leiðtogarnir að styrkja stoðir lýðræðis á ný í Evrópu.

Á sama tíma og alræðisríki einblína á fortíðina er það vonin um bjartari framtíð fyrir okkur öll sem er driftkraftur lýðræðisríkja.

Vonin er ein af ástæðum þess að lýðræðið varð til – og mun halda velli, að því er við teljum. Við verðum hins vegar að berjast fyrir því, rétt eins Berlínarbúar gerðu fyrir 33 árum. Og rétt eins úkraínska þjóðin gerir í dag.

Höfundar eru utanríkisráðherrar Íslands og Írlands.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. nóvember 2022.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta