Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. desember 2022 Þórdís KRG - UTN

Í hlýju hjarta Afríku

Nýverið hlotnaðist mér sá heiður að heimsækja Afríkuríkið Malaví. Markmið heimsóknarinnar var að sjá með eigin augum árangur tvíhliða þróunarsamvinnuverkefna í landinu. Ekkert hefði hins vegar getað búið mig undir upplifunina, svo snortin var ég af viðtökum fólks. Þrátt fyrir að óvenju hart sé í ári í þessu fátæka landi um þessar mundir mætti mér alls staðar hlýlegt viðmót og brosandi andlit, söngur og dans. Það er ekki að ástæðulausu að Malaví sé oft kallað hið hlýja hjarta Afríku.

Áhersla á samfélagsinnviði

Samstarf Íslands og Malaví hefur staðið yfir frá 1989. Á þessum rúmu þremur áratugum höfum við lagt megináherslu á að bæta samfélagslega innviði í Mangochi-héraði við sunnanvert Malaví-vatn. Það höfum við gert í nánu samstarfi við héraðsyfirvöld. Áherslan hefur einkum verið á bætta grunnþjónustu við íbúana í heilbrigðismálum, menntamálum, vatns-, salernis- og hreinlætismálum, auk stuðnings við jafnrétti og valdeflingu ungs fólks. Það var sérstaklega ánægjulegt að hitta konur og ungmenni í ferðinni og sjá frumkvæði þeirra og drifkraft við þessar erfiðu aðstæður.

Jafnrétti kynjanna hefur verið lykilatriði í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Þess vegna höfum við lagt okkur fram að innleiða kynjajafnrétti þvert á öll verkefni í Malaví auk þess að líta á það sem sértækt markmið að styðja við réttindi og valdeflingu kvenna. Á næstu árum hyggst Ísland jafnframt leggja ríkari áherslu á loftslags- og umhverfismál í Malaví. Ástæðan er sú mikla ógn sem stafar þar af áhrifunum af hlýnum jarðar með fyrirsjáanlegu efnahagstjóni og þverrandi fæðuöryggi.

Nýtt samstarfshérað

Í ferðinni stigum við einnig nýtt skref í samstarfi þjóðanna með því að ýta úr vör byggðaþróunarverkefni í Nkhotakota-héraði. Það verður þar með annað samstarfshérað okkar í landinu. Samstarfið byggir á sama verklagi og í Mangochi, svokallaðari héraðsnálgun með eflingu grunnþjónustu við íbúa og sterka áherslu á eignarhald heimamanna og sjálfbærni að leiðarljósi. Veigamesti stuðningurinn verður við uppbyggingu fimmtán grunnskóla með áherslu á yngsta aldursstigið. Einnig verður stutt við heilbrigðiskerfið til að bæta mæðra- og ungbarnaheilsu. Þá verður unnið að því að bæta aðgang að hreinu vatni sem er hvarvetna lífsbjörg. Áhugi og eftirvænting íbúa og ráðamanna í héraðinu leyndi sér ekki við setningu verkefnisins, og góðri kveðju var skilað til íslensku þjóðarinnar fyrir stuðninginn og traustið.

Þróunarsamvinna Íslands og Malaví er mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Árangur samstarfsins bætir samfélagslega innviði landsins og tekur á brýnum málum, eins og jafnrétti kynjanna og áhrifum loftslagsbreytinga. Í heimsókninni fann ég glöggt að Ísland er afar vel metinn samstarfsaðili í landinu. Með útsjónarsemi og sveigjanleika að leiðarljósi náum við árangri saman.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. desember 2022

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta