Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. desember 2023 Bjarni Benediktsson

Munnleg skýrsla á Alþingi um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs

Virðulegi forseti,

Síðustu vikur höfum við margfaldað framlög til mannúðaraðstoðar á Gaza og til rannsóknar mögulegra stríðsglæpa. 

Við höfum meðflutt og stutt ályktanir í Sameinuðu þjóðunum um vopnahlé, óheft aðgengi neyðaraðstoðar, tafarlausa lausn gísla Hamas og virðingu við alþjóðalög. 

Við höfum fordæmt öll möguleg brot á alþjóðalögum, rétt eins og við fordæmdum hrottalega hryðjuverkaárás Hamas - þar sem við þekkjum lýsingar á morðum, mannránum og kynferðisbrotum. Við höfum látið rödd okkar heyrast í opinberum yfirlýsingum, á vettvangi alþjóðastofnana og í beinu samtali við yfirvöld á svæðinu.

Þetta er kjarni málsins.

Allt frá hryðjuverkaárásinni 7. október höfum við horft upp á óbærilegan harmleik og mannúðarkrísu á svæðinu. Þar, líkt og svo oft, eru það almennir borgarar sem bera byrðarnar.

Ég hygg að flest séum við sammála um meginatriðin, sem eru þessi; neyðin á Gaza er átakanleg, mannfallið óásættanlegt og takmörkunum á neyðaraðstoð verður að ryðja úr vegi. 

Þetta kristallast í ályktun Alþingis og skýrum málflutningi stjórnvalda allt frá upphafi.

Virðulegi forseti,

Ísland sendi bréf til forseta öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku ásamt hinum Norðurlöndunum. Þar var tekið undir ákall aðalframkvæmdastjórans til öryggisráðsins og alþjóðasamfélagsins um tafarlausar aðgerðir og vopnahlé af mannúðarástæðum. Slíkt ákall er fátítt og til marks um alvarleika málsins.

Í beinu framhaldi var Ísland ásamt ríkjum á borð við Noreg, Finnland, Nýja-Sjáland og nokkur ESB-ríki, meðflytjandi að ályktun sama efnis í öryggisráðinu. Því miður náði hún ekki fram að ganga.

Síðast á þriðjudaginn var Ísland svo meðflytjandi að sams konar ályktun á allsherjarþinginu. Ályktunin var samþykkt með miklum meirihluta aðildarríkja, en aðrir meðflytjendur voru meðal annars Finnland, Noregur og nokkur ríki ESB.

Við studdum einnig breytingartillögur Austurríkis og Bandaríkjanna um skýra fordæmingu á hryðjuverkum Hamas. Það var sannarlega miður að ekki náðist samstaða um að fordæma hryðjuverk með skýrum hætti og það tókum við fram í atkvæðaskýringu okkar.

Þegar svipuð staða var uppi í október sátum við hjá ásamt meirihluta vinaþjóða okkar, enda horfði ályktunin þá alfarið framhjá voðaverkum Hamas og gíslatökunni. Það var mat mitt að í fyrstu ályktun allsherjarþingsins frá 7. október væri óásættanlegt að líta framhjá slíku lykilatriði.

Í ljósi alvarleika stöðunnar á Gaza nú og gríðarlegs mannfalls meðal óbreyttra borgara síðustu vikur, töldum við hins vegar rétt að vera bæði meðflutningsríki og kjósa með að þessu sinni.

Virðulegi forseti,

Ályktunin í vikunni var ekki bindandi, en við berum von í brjósti um að hún verði skref í átt að friði. Ályktanir og ávörp lina hins vegar ein og sér ekki þjáningar almennra borgara.

Þess vegna höfum við stóraukið stuðning við mannúðaraðstoð á svæðinu og erum í ár meðal hæstu framlagsríkja Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna miðað við höfðatölu.

Stofnunin gegnir lykilhlutverki á svæðinu og virkt eftirlit er með störfum og ráðstöfun fjármuna hennar líkt og annarra stofnana Sameinuðu þjóðanna.

Ísland hefur gefið skýr skilaboð um að rannsaka verði allar vísbendingar um brot á mannúðarlögum og að þau þurfi að hafa afleiðingar. Í samræmi við það höfum við veitt rífleg viðbótarframlög til Alþjóðlega sakamáladómstólsins.

Við höfum enn fremur veitt 100 milljón króna viðbótarframlag til neyðarsjóðs Sameinuðu þjóðanna, sem nýtist ekki síst á Gaza. Áfram mætti telja.

Á morgun hefur Noregur boðað til fundar í Osló, þar sem saman koma utanríkisráðherrar frá Norðurlöndunum og Benelúx, ásamt ráðherrum nokkurra araba- og múslimaríkja. Fundurinn er tækifæri til að ræða friðarhorfur, heyra viðhorf annarra og koma afstöðu okkar á framfæri. 

Þar reikna ég með að eiga tvíhliða fund með utanríkisráðherra palestínsku heimastjórnarinnar, en nýlega átti ég símafund með ísraelskum kollega mínum. Þar reifaði ég afstöðu og áhyggjur Íslands og ítrekaði innihald ályktunar Alþingis.

Virðulegi forseti, 

Áður en ég lýk máli mínu vil ég víkja stuttlega að því sem sums staðar er sagt um viðskiptaþvinganir og stjórnmálasamband.

Það er í sjálfu sér skiljanlegt að fólk vilji leita allra leiða til að hafa áhrif á átökin. 

Hins vegar eru engar heimildir í lögum og engin fordæmi fyrir því að Ísland setji á einhliða viðskiptaþvinganir. Við innleiðum aðgerðir Evrópusambandsins og öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og munum gera það áfram, en engar slíkar aðgerðir hafa verið til umræðu á þeim vettvangi.

Þá þjónar ekki hagsmunum neins, ekki heldur Palestínu, að Ísland slíti stjórnmálasambandi við Ísrael.  

Stjórnmálasamband milli ríkja er forsenda þess að koma afstöðu sinni skýrt á framfæri, eiga samskipti og hafa áhrif. Ísland hefur aðeins einu sinni slitið stjórnmálasambandi, við Breta í þriðja þorskastríðinu í febrúar 1976.

Það er enda almennt sýn vestrænna lýðræðisríkja að við höfum mest áhrif með diplómatískum samskiptum og beinum framlögum til mannúðaraðstoðar. 

Ég heyri Rússland stundum nefnt í þessu samhengi, en raunin er sú að einungis tvö ríki hafa nýverið slitið stjórnmálasambandi við Rússland; Úkraína og Georgía – bæði eftir að á þau var ráðist.

Ég hygg því að háttvirtir þingmenn sjái að þótt ýmsar upphrópanir kunni að hljóma vel í fyrstu, þá segir það ekki alla söguna.

Virðulegi forseti,

Að lokum vil ég segja að það eru sameiginlegir hagsmunir allra að hörmungunum linni. Við getum aldrei sætt okkur við að börnum sé fórnað fyrir stríð sem þau höfðu ekkert um að segja. 

Það má líka vera flestum ljóst að engar raunverulegar framfarir verða án pólitískrar lausnar. Í huga okkar Íslendinga er tveggja ríkja lausnin sú eina sem getur bundið enda á hringrás ofbeldis og hörmunga.

Þótt Ísland eitt geti ekki stöðvað átök á fjarlægum slóðum þá höfum við vigt í alþjóðlegri umræðu og munum áfram láta til okkar taka af krafti. Ég vona að umræðurnar hér í dag verði gott innlegg í þann málflutning.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta