Ávarp á ársfundi Íslandsstofu
Kæru gestir,
Til hamingju með daginn og tíðindamikið starfsár.
Ég vil fyrst segja að það er ekki lítið hlutverk sem Íslandsstofu er falið. „Að efla ímynd og orðspor Íslands, styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs á erlendum mörkuðum og laða erlenda ferðamenn og fjárfestingu til Íslands.“
Þetta er hið yfirlýsta markmið.
Með öðrum orðum, að passa upp á og styrkja vörumerkið.
En vörumerkið er ekki til mikils nema varan sé góð. Og þó við höfum mátt reyna ýmislegt undanfarin misseri, þá þykir mér óhætt að segja að Íslandsstofa sé ekki að selja neina snákaolíu.
Hér á Íslandi er mikill hagvöxtur og lítið atvinnuleysi. Við erum ung og vel menntuð þjóð. Nýsköpun er í miklum vexti samhliða stöndugum rótgrónum atvinnugreinum. Hér verða til stór alþjóðleg fyrirtæki sem bjóða upp á spennandi störf. Framtíðin er björt á Íslandi og tækifærin óþrjótandi.
En þessar staðreyndir selja sig ekki sjálfar og velgengni okkar er ekki sjálfsögð. Sér í lagi þegar tilvist okkar hér er háð duttlungum náttúrunnar sem hefur sannarlega látið til sín taka nýverið.
Það er viðvarandi verkefni að tala máli Íslands á alþjóðavettvangi og styrkja ímynd okkar. Að sýna fólki fram á ótvíræða kosti þess að ferðast og fjárfesta á Íslandi, og að sækja í þann þekkingarbrunn sem við eigum á fjölmörgum sviðum.
Við höfum góða sögu að segja þegar kemur að því að snúa áföllum okkur í hag. Minnumst Eyjafjallajökuls sem annar hver fréttaþulur í Bretlandi er enn að reyna að bera fram. Á sama tíma og við stöndum með Grindvíkingum í gegnum þær hörmungar sem þeir hafa mátt
þola, þurfa skilaboðin vegna þeirra eldsumbrota sem við lifum nú að vera skýr.
Að hingað sé óhætt að koma, daglegt líf haldi áfram utan gossvæðisins og það sé beinlínis eftirsóknarvert að heimsækja land þar sem náttúruöflin eru virk.
Samstarf utanríkisráðuneytisins við Íslandsstofu og Ferðamálastofu hefur reynst mikilvægt og farsælt í þessum efnum, og við megum hvergi láta deigann síga í þeirri vinnu.
Góðir gestir,
Við Íslendingar erum útflutningsþjóð og höfum sem slík upp á ótal margt að bjóða. Hágæða vörur, þekkingu og upplifanir. Hér er Íslandsstofa í lykilhlutverki og útflutningsstefnan sem sett var árið 2019 leiðarljós.
Sem útflutningsþjóð þurfum við alltaf að vera á tánum gagnvart nýjum tækifærum, og nýjum mörkuðum. Í liðinni viku skrifaði ég undir fríverslunarsamning EFTA við Indland fyrir Íslands hönd.
Samningurinn er fyrsti fríverslunarsamningur Indverja við Evrópuríki og í honum felast mikil tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf og samfélag, enda stórbætir hann markaðskjör á öllum helstu útflutningsvörum Íslands til Indlands. Sjávarútvegur, iðnaðarvörur, lambakjöt og drykkjarvörur eru fáein dæmi af mörgum.
Indland, heimsins stærsta lýðræðisríki, er orðið fjölmennasta ríki veraldar. Til að setja stærðina í samhengi búa álíka margir á Indlandi eins og í Bandaríkjunum, Kanada, Mexíkó, Evrópusambandinu, Rússlandi, Bretlandi, Tyrklandi, Japan, Tælandi og Noregi –
samanlagt!
Það þarf ekki að hafa mörg orð um tækifærin sem felast í auknum viðskiptum útflutningsþjóðar eins og Íslendinga við slíka þjóð.
Hagkerfið er það fimmta stærsta í heimi, millistéttin vex hratt og Indverjar stefna enn hærra og eru bæði bjartsýnir og stórhuga. Við eigum í fjölbreyttu samstarfi, ekki síst á sviði orku og jarðhita þar sem Íslendingar standa nú í brautryðjandi verkefnum í landinu. Samstarfstækifærin í sjávarútvegi eru ekki síður mikil.
Við höfum notið góðs af kröftum öflugra indverskra sérfræðinga í íslenskum tækni- og sprotafyrirtækjum, og þurfum áfram að greiða leið þeirra inn í íslenskt atvinnulíf. Sóknarfærin sem við þekkjum nú eru aðeins sýnishorn af því sem getur orðið, ef við nýtum tækifærin sem fylgja samningi við eitt stærsta og hraðast stækkandi hagkerfi í heiminum.
Ég vil þess vegna hvetja Íslandsstofu til að leggja aukinn þunga í Indland sem áherslusvæði á komandi misserum.
Með þessu er í engu gert lítið úr okkar mikilvægu nærmörkuðum, en í ár fögnum við 30 ára afmæli EES-samningsins. Hann er ótvírætt mikilvægasti viðskiptasamningur okkar Íslendinga, sem við þurfum áfram að hlúa að og byggja á – enda grundvallaratriði í hagsæld og efnahagslegu öryggi þjóðarinnar.
Góðir gestir,
Vörumerkið Ísland hefur margar ólíkar merkingar. Græn orka, jafnréttismál, nýsköpun, skilvirkt viðskiptaumhverfi, friður og öryggi eru allt hryggjarstykki í því sem myndar vörumerkið Ísland.
En vörumerkið er líka bara það, vörumerki á blaði. Auðkennið ICELAND er þannig orðið gríðarlega verðmætt og endurspeglar ímynd landsins okkar. Á sama tíma hefur það átt undir högg að sækja vegna vörumerkjaskráningar erlendra aðila, sem vilja eigna sér merkið.
Sumum finnst eðlilegt að smætta vörumerki Íslands niður í tákn verslanakeðju, sem selur frosnar pítsur og mozzarella stangir – með fullri virðingu fyrir þeim góðu matvörum.
En það er alvöru mál og íslensk stjórnvöld hafa, í samvinnu við Íslandsstofu og Samtök atvinnulífsins, gripið til lagalegra aðgerða gegn bresku verslunarkeðjunni Iceland Foods sem um árabil beitti sér gegn því að íslensk fyrirtæki geti auðkennt sig með upprunalandinu í Evrópu.
Málarekstur hefur staðið yfir um árabil og gengið vel hingað til, en björninn er ekki unnin. Við þurfum áfram að halda vel á spöðunum í þessum efnum og gefa ekkert eftir, hvorki í þessu máli né í að verja merkið okkar í stærra samhengi.
Að lokum vil ég segja að hvað sem gildum, vörum, þjónustu og tíðarfari líður er stærsta birtingarmynd vörkumerkisins okkar einfaldlega fólk. Við eigum sendiherra Íslands í íþróttafólki, tónlistarfólki, rithöfundum, leikurum og öðrum sem fara sigurför um heiminn.
Það liggur beint við að nefna árangur Laufeyjar sem undanfarið hefur sópað að sér verðlaunum og er bara rétt að byrja.
Samstarf stjórnvalda og Íslandsstofu í menningarmálum og markaðsstarfi hefur verið gott í gegnum árin, og skipt miklu máli í árangri okkar fólks. Að endingu er það þó þrautseigja og krafturinn í einstaklingunum sjálfum sem fleytir þeim áfram, í þessum efnum líkt og öðrum.
Kæru gestir,
Ég þakka ykkur öllum fyrir þessa frábæru mætingu hér í dag, óska ykkur aftur til hamingju með daginn og hlakka til að hlusta á innlegg þeirra sem á eftir koma.