Hoppa yfir valmynd
31. október 2018 Utanríkisráðuneytið

Ræða ráðherra á Norðurlandaráðsþingi í Ósló

Norðurlandaráðsþing í Ósló 30. október til 1. nóvember 2018

International debat med udenrigsministrene

Ávarp utanríkisráðherra

Forseti, ráðherrar, þingmenn í Norðurlandaráði, góðir gestir.

Mig langar til byrja á að því að þakka fyrir boðið að vera með ykkur í dag og að fá taka þátt í þessari umræðu. Þetta er raunar í fyrsta skipti sem ég kem á Norðurlandaráðsþing og það er mér því sérstakt ánægjuefni að standa í þessum ræðustól.

Margot Wallström gaf allítarlega skýrslu fyrir hönd okkar norrænu utanríkisráðherranna og fór yfir helstu málefni utanríkismálanna.

Eins og hún minntist á hefur Svíþjóð verið í annasömu hlutverki á þessu ári í gegnum árangursríka formennsku sína á mismunandi vettvangi.

Á næsta ári er komið að Íslandi því þá gegnum við formennsku á alls fimm stöðum.

Um næstu áramót hefst formennska Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Formennskuáætluninni hefur verið dreift hér í þinginu og forsætisráðherra gerði grein fyrir áherslum okkar í gær.

Við tökum líka við formennsku- og samræmingarhlutverki í samstarfi utanríkisráðherra Norðurlandanna (N5) og utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna (NB8) sem hittast oft á ári.

Á þessum vettvangi er fjallað um helstu utanríkismál, sem eru efst á baugi hverju sinni, en auk þess gerum við ráð fyrir að beina sjónum sérstaklega að netöryggi og orkuöryggi, og málefnum hafsins.

Frá og með næsta hausti mun Ísland sitja í stjórn Alþjóðabankans í Washington D.C. en því fylgir umfangsmikið samræmingarstarf fyrir hönd NB8 ríkjanna á sviði þróunarmála.

Síðast en ekki síst munum við veita Norðurskautsráðinu formennsku þegar við tökum við af Finnum í maí á næsta ári. Formennskuáætlun okkar fyrir árin 2019 til 2021 er í vinnslu í samvinnu við öll aðildarríki ráðsins og verður kynnt þegar þar að kemur.

Við hlökkum til samstarfsins við önnur Norðurlönd um sameiginlegar áherslur og verkefni á þessum fimmfalda vettvangi á næsta ári.

Þessi upptalning sýnir hve Norðurlöndin vinna vel og náið saman. Og hér ekki allt upp talið - við vinnum líka þétt saman innan alþjóðastofnana eins og Sameinuðu þjóðanna og í Evrópu.

Vissulega hafa Norðurlöndin farið mismunandi leiðir í alþjóðamálum s.s. hvað varðar aðildina að NATO og ESB. Það er okkar lýðræðislega niðurstaða, hvers um sig.

En það er styrkur okkar að þrátt fyrir ólíkar leiðir þá deilum við sameiginlegum grunngildum. Það er sá sterki grunnur sem samstarfið byggir á.

Ég ljái máls á þessu því það er ekkert launungarmál að það eru viðsjár og væringar á alþjóðavettvangi. Kannski meiri órói og óvissa en við sem hér erum höfum áður upplifað.

Það eru ekki bara skiptar skoðanir um marghliða alþjóðasamvinnu, alþjóðalög og alþjóðastofnanir, sem að sumu leyti er ekkert nýtt, en á hinn bóginn heyrast einnig raddir sem skora á hólm grundvallarmannréttindi, og grunnreglur lýðræðis og réttarríkis.

Þar þarf draga línu í sandinn – og þar eiga Norðurlöndin, hér eftir sem hingað til, að vera sterk rödd.

Ég hlakka til umræðunnar hér á eftir.






Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta