Nýjar reglur um skipan sendiherra
Þegar best lætur vinnur utanríkisþjónustan sem einn maður að því standa vörð um hagsmuni lands og þjóðar á alþjóðavettvangi. Stjórnendur í utanríkisþjónustunni eru að stórum hluta úr hópi sendiherra. Þeir gegna ýmist stjórnunarstöðum í utanríkisráðuneytinu eða veita sendiskrifstofum forstöðu. Algengast er að þeir sem gegna þessum embættum hafi helgað feril sinn störfum í utanríkisþjónustunni og öðlast framgang í starfi uns þeir hafa orðið sendiherrar. Þó hefur einnig tíðkast í nokkrum mæli að skipa sendiherra sem ekki koma úr röðum starfsmanna utanríkisþjónustunnar. Hafa þeir í störfum sínum á öðrum vettvangi, svo sem stjórnmálum og viðskiptum, byggt upp þekkingu og tengsl á sviði alþjóðamála sem gagnast í hagsmunagæslu fyrir Ísland.
Núverandi fyrirkomulag ekki gallalaust
Þetta fyrirkomulag hefur að mörgu leyti gefist vel en það er ekki gallalaust. Samkvæmt núgildandi lögum hefur ráðherra að mestu leyti frjálsar hendur við skipan sendiherra. Engar sérstakar hæfniskröfur eru gerðar til sendiherra umfram það sem almennt tíðkast og embætti þeirra eru undanþegin auglýsingaskyldu áður en í þau er skipað. Þessi skipan mála hefur sætt gagnrýni. Auk þess hefur sendiherrum fjölgað jafnt og þétt hin síðustu ár og er nú svo komið að fjöldi þeirra samræmist illa umfangi og verkefnum utanríkisþjónustunnar. Þetta hefur einnig leitt til þess að framgangur yngri starfsmanna hefur reynst hægari en ella enda er þröngt á fleti fyrir þegar fjórðungur starfsmanna utanríkisþjónustunnar gegnir stjórnendastöðu.
Breytingar nauðsynlegar
Ég hef sem utanríkisráðherra ekki skipað neinn nýjan sendiherra eftir að ég tók við embætti en þegar ég tók við hinn 11. janúar 2017 voru þeir 40 talsins og hefur síðan fækkað um fjóra. Það er einsdæmi í síðari tíma sögu utanríkisþjónustunnar að meira en þrjú ár líði án þess að nýr sendiherra sé skipaður. Raunar þarf að leita aftur til áranna 1961-1964 til að finna jafn langt tímabil án þess að nýr sendiherra sé skipaður. Hefði ég haldið áfram á sömu braut og flestir forvera minna þá væri heildarfjöldi sendiherra nú kominn vel á fimmta tuginn. Í mínum huga er ljóst að óbreytt fyrirkomulag stenst ekki lengur. Ég hef því ákveðið að leggja til breytingar á lögum um utanríkisþjónustuna sem miða að því að koma á fastari skipan við val á sendiherrum til framtíðar án þess að fórna jákvæðum eiginleikum núgildandi fyrirkomulags. Eru breytingarnar í grófum dráttum fjórþættar.
Þak á fjölda sendiherra
Í fyrsta lagi er lagt til í frumvarpinu að sett verði þak á fjölda sendiherra á hverjum tíma. Verði frumvarpið að lögum tekur fjöldi sendiherra framvegis mið af fjölda sendiskrifstofa sem utanríkisþjónustan starfrækir. Hér er um grundvallarbreytingu að ræða, enda eru í dag engin takmörk í lögum fyrir fjölda sendiherra. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þeir verði hverju sinni ekki fleiri en fjöldi sendiskrifstofa að fimmtungi viðbættum. Í dag starfrækir utanríkisráðuneytið alls 25 sendiskrifstofur. Nái þessi breyting fram að ganga verður hámarksfjöldi sendiherra 30 en þeir eru í dag 36 talsins. Þetta þýðir að enginn sendiherra verður skipaður fyrr en þeim hefur fækkað niður fyrir þrjátíu miðað við óbreyttan fjölda sendiskrifstofa.
Auglýsingaskylda og hæfniskröfur
Í öðru lagi mælir frumvarpið fyrir um skyldu til að auglýsa laus embætti sendiherra og umsækjendum um þau gert að uppfylla lögákveðin hæfisskilyrði. Hér er einnig um grundvallarbreytingu að ræða, enda eru embætti sendiherra nú undanþegin auglýsingaskyldu. Þessi breyting þýðir að almennt muni enginn taka við embætti sendiherra nema að undangenginni auglýsingu og hæfnismati. Gerir frumvarpið ráð fyrir að umsækjendur verði að hafa háskólapróf og reynslu af alþjóða- og utanríkismálum. Með þessu verður sköpuð umgjörð utan um embætti sendiherra sem ætla má að komi einkum úr röðum hæfustu starfsmanna utanríkisþjónustunnar, þar sem reynsla, þekking og færni verður kjarninn í stjórnendahópnum. Slíkt er nauðsynlegt til að tryggja stöðugleika og festu í starfsemi utanríkisþjónustunnar og búa hana undir að takast á við áskoranir til framtíðar.
Sterk umgjörð um sérstakar skipanir
Í þriðja lagi er lagt til að ráðherra verði heimilt að skipa einstakling tímabundið til allt að fimm ára í embætti sendiherra til að veita sendiskrifstofu forstöðu eða að gegna hlutverki sérstaks erindreka án þess að starfið yrði auglýst. Skipun þeirra sem koma að starfi sínu með þessum hætti verður þó hvorki heimilt að framlengja eða senda annað og fjöldi þeirra má ekki nema meira en fimmtungi af heildarfjölda skipaðra sendiherra. Að þessu marki yrði ráðherra áfram heimilt að leita út fyrir raðir fastra starfsmanna utanríkisþjónustunnar eftir sendiherrum sem hafa aflað sér sérþekkingar, reynslu og tengsla á öðrum vettvangi, svo sem í stjórnmálum eða í atvinnulífinu, til að annast afmörkuð verkefni í þágu hagsmuna Íslands á alþjóðavettvangi. Með þessu móti verður þeirri heimild, sem nú er ótakmörkuð, settar málefnalegar skorður.
Aukinn sveigjanleiki og tækifæri fyrir yngra fólk
Í fjórða lagi er gert ráð fyrir þeirri breytingu með frumvarpinu að ráðherra geti tímabundið sett lægra setta starfsmenn, sendifulltrúa, í embætti sendiherra. Þennan hóp fylla að jafnaði þeir sem eiga að baki langan og farsælan feril í þjónustunni og hafa unnið sig upp innan hennar án þess að vera orðnir sendiherrar. Þessi breyting þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að nýta betur starfskrafta sendifulltrúa og veita einkum hæfileikaríku yngra fólki í utanríkisþjónustunni aukin tækifæri á framgangi í starfi. Það ástand sem að framan er lýst, þar sem fjöldi sendiherra hefur verið mun meiri en verkefni utanríkisþjónustunnar krefjast, hefur gert það að verkum að stór hópur sendifulltrúa hefur haft litla möguleika á framgangi í starfi. Með þessu móti gefst kostur á að nýta krafta þessa hóps án þess að til eiginlegrar skipunar sendiherra kæmi. Vegna þess hvernig þessi hópur er saman settur eykur þessi breyting jafnframt á möguleika kvenna til að fá framgang með þessum hætti og þar með til að ná fram auknu jafnrétti kynjanna í röðum þjónustunnar.
Mikilvægar grundvallarbreytingar
Íslendingar verða að geta treyst því að utanríkisþjónustan sé á hverjum tíma sem best í stakk búin að gæta hagsmuna lands og þjóðar á alþjóðavettvangi og í samskiptum við önnur ríki. Á síðustu árum hafa verið gerðar margvíslegar breytingar á áherslum og skipulagi utanríkisþjónustunnar til að nýta fjármuni og starfskrafta eins og best verður á kosið. Breytingar á skipan sendiherra eru þáttur í þessu ferli. Um er að ræða grundvallarbreytingar sem bæta úr ágöllum á núverandi fyrirkomulagi. Þessar breytingar tryggja nauðsynlegt jafnvægi milli festu og sveigjanleika innan utanríkisþjónustunnar, þar sem þekking og reynsla af alþjóðamálum myndar kjarnann án þess að við missum af tækifæri til að nýta jafnframt hæfileika og reynslu einstaklinga frá öðrum sviðum þjóðfélagsins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. mars 2020.