Hoppa yfir valmynd
18. ágúst 2020 Utanríkisráðuneytið

Aftur í skólann í miðjum heimsfaraldri - Menntun fyrir alla, alltaf og alls staðar

Tilhlökkun fylgir fyrsta skóladegi nýs skólaárs, yfirleitt blönduð kvíða og eftirvæntingu vegna ársins sem framundan er. Vegna COVID-19 heimsfaraldursins var skólum lokað í skyndi og því hefur það sérstaka þýðingu „að fara aftur í skólann“ þetta haustið. Norrænir nemendur eru lánsamir enda þótt ekki sé víst að þeir kunni að meta það að vera dregnir á fætur til að koma sér í skólann. 

Ráðstafanir til að hefta framrás COVID-19 leiddu til þess í apríl að skólum var lokað fyrir 1,6 milljarði barna og ungmenna eða um 90% af heildarfjölda nemenda í heiminum öllum. Þessi fjöldi bætist við þær 250 milljónir barna sem voru ekki í skóla áður en heimsfaraldurinn hóf innreið sína. Yfirvofandi efnahagssamdráttur á heimsvísu og aukin fátækt vegna heimsfaraldursins gætu leitt til þess að nærri tíu milljónir barna neyðist til að hætta alveg í skóla fyrir árslok og milljónir munu verða eftir á í námi. Með því að fara ekki í skólann tapast líka skólamáltíðir; nærri 350 milljónir barna missa einu heitu máltíðina sem þau fá daglega. 

Truflun á námi hefur alvarlegar langtímaafleiðingar, einkum fyrir viðkvæmustu hópana, t.d. stúlkur, flóttafólk, vegalaus börn og farandbörn og þá sem lifa með fötlun. Fyrir þessa hópa er menntun oft líflína. Heimssjóðurinn Education Cannot Wait, sem sinnir menntun í neyðarástandi, veitir börnum þar sem krísuástand ríkir aðgang að menntun, með stuðningi allra Norðurlandanna. Enn fremur hafa Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Alþjóðabankinn og alþjóðasamstarf um menntun (e. Global Partnership for Education) unnið að þessu verkefni.

Við þurfum að tryggja jöfn tækifæri til menntunar fyrir alla. Einkum fyrir stúlkur sem eru tvisvar sinnum líklegri til að hætta í skóla á stöðum þar sem átök standa yfir og í kjölfar þeirra og þurfa almennt að yfirstíga fleiri hindranir til að njóta menntunar en drengir. Þegar skólum er lokað eykst hættan á að stúlkur verði fyrir heimilisofbeldi, séu þvingaðar í hjónabönd snemma og verði þungaðar á unglingsaldri. Því er sérlega mikilvægt að tryggja að stúlkur snúi aftur í skólann þegar hann opnar á ný. 

Grunnþjónusta á borð við rennandi vatn og hreinlætisráðstafanir er mikilvægur þáttur í því að tryggja að hægt sé að opna skólana aftur með öruggum hætti. Við þurfum líka að finna nýjar kennsluleiðir, t.d. í gegnum netið. Eins og er hefur um helmingur af íbúum heimsins ekki aðgang að netinu. Við þurfum stafrænar lausnir og betri tengingar til að hægt sé að ná til allra barna. Fólk án nettengingar er fjölmennast í þeim löndum sem eru skemmst á veg komin í þróun, einkum Afríkulöndunum sunnan Sahara og í löndum Suður-Asíu. Við fögnum því framtaki Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna að sjá 500 milljónum barna fyrir stafrænni kennslu fyrir lok næsta árs og 3,5 milljörðum barna eigi síðar en 2030, auk þess að nettengja alla skóla í heiminum. Þetta verður mikil áskorun þar sem engan má skilja eftir.

Á þessum erfiðu tímum er mikilvægt að standa vörð um fjárframlög til menntunar á meðan COVID-19 krísan stendur yfir og auka, þar sem hægt er, opinber framlög til menntunar til að tryggja að öll börn hafi ókeypis aðgang að góðri menntun eigi síðar en 2030 í samræmi við heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun. Við á Norðurlöndunum skuldbindum okkur áfram til að leggja fjármagn til menntunar í gegnum þróunarsamvinnu okkar.

Í heiminum í dag er menntun grundvallarundirstaða í lífinu, óháð því hvaðan fólk kemur. Fjárfesting í menntun er fjárfesting í friðsælum og efnahagslega samkeppnishæfum jafnréttissamfélögum. Við, ráðherrar Norðurlandanna, trúum á menntun fyrir alla, alltaf og alls staðar. 

Allir í skólann! 

Peter Eriksson, ráðherra alþjóðlegrar þróunarsamvinnu, Svíþjóð  
Rasmus Prehn, ráðherra þróunarsamvinnu, Danmörku
Ville Skinnari, ráðherra þróunarsamvinnu og utanríkisviðskipta, Finnlandi
Dag-Inge Ulstein, ráðherra alþjóðlegra þróunarmála, Noregi 
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra

Greinin birtist í Fréttablaðinu og fleiri norrænum fjölmiðlum 18. ágúst 2020

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta