Grannríkjasamstarfið gulls ígildi
Við þessar aðstæður er mikilvægt að hafa trausta fótfestu. Það höfum við Íslendingar með aðild að alþjóðastofnunum og -samningum, en ekki síður í gegnum virkt svæðasamstarf og tvíhliða samskipti við önnur ríki. Norrænt samstarf og samvinna Norðurlanda og Eystrasaltsríkja (NB8) skiptir þar miklu máli.
Fjarfundir frekar en flugferðir
Í fyrra tók ég þátt í 31 ráðherrafundum með Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum. Þetta er metfjöldi og hefur mikill meirihluti verið fjarfundir á netinu. Að mínu mati hefur reynslan af fjarfundum verið svo góð að full ástæða er til að halda þeim áfram. Ég hef þess vegna lagt til við kollega mína á Norðurlöndum að taka höndum saman við að hvetja stofnanir og aðra til að fjölga fjarfundum og minnka þannig kolefnisspor, spara og færa alþjóðasamskipti inn í 21. öldina. Ég hef nýtt alla þessa fundi til að útskýra hagsmuni Íslands fyrir samstarfsríkjum og óska liðveislu í einstökum málum. Ég hef einnig lagt mig fram um að hlusta og læra af reynslu annarra enda þarf hvort tveggja til að ná árangri í alþjóðasamskiptum: Að standa með sjálfum sér og þekkja hagsmuni annarra.Ísland í forystu grannríkjasamstarfs
Ísland gegndi formennsku í Norðurlanda- og NB8-samstarfinu áður en heimsfaraldurinn brast á. Á formennskuárinu bar hæst tveggja daga ráðherrafund Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í Borgarnesi í september 2019 og svo sameiginleg norræn ákvörðun tveimur mánuðum síðar um tillögu mína að fela Birni Bjarnasyni að gera tillögur um aukið samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála, svipað og Thorvald Stoltenberg gerði í frægri skýrslu áratug fyrr. Þessi samstaða lýsir miklu trausti í garð okkar Íslendinga og hin svokallaða “Bjarnason Report“ hefur verið lofuð sem góður grunnur að frekara samstarfi, nú síðast á vel heppnuðum fjarfundi á vegum Norðurlandaráðs fyrr í þessari viku. Með þessu frumkvæði Íslands höfum við sýnt að við erum ekki bara þátttakendur í Norðurlandasamstarfinu heldur getum við líka mótað áherslur þess og framtíðarstefnu.Við höfum einnig gegnt formennsku í Norðurskautsráðinu í tæp tvö ár. Þeirri formennsku lýkur á ráðherrafundi sem vonandi fer fram hérlendis í maí með þátttöku Bandaríkjanna, Rússlands og Kanada, auk Norðurlandanna og fjölda áheyrnarríkja og annarra. Ég nefni þetta hér því vel undirbúin og fagmannlega framkvæmd formennska í norrænni samvinnu, í NB8-samstarfinu og í Norðurskautsráðinu hefur styrkt stöðu Íslands og þjónað íslenskum hagsmunum.
Staða Íslands sterk
Alls staðar í þessu fjölbreytta samstarfi höfum við lagt áherslu á mannréttindi, öryggismál þ.m.t. netöryggi, á hagsmuni á norðurslóðum og umhverfismál. Viðskiptasamstarf er svo ávallt í forgrunni. Þar er mikilvægt að hafa í huga að samanlagt eru Norðurlöndin eitt stærsta „viðskiptaríki“ Íslands þegar litið er til inn- og útflutnings á vörum og þjónustu, sjónarmun á eftir Bandaríkjunum. Í gegnum fótfestu okkar í samstarfi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna er staða Íslands því sterk. Og þegar efnahagslífið fer aftur á fullt þegar farsóttin rénar bendir margt til þess að viðskipti milli þessara vinaríkja muni aukast enn frekar. Sú vinna sem við í ráðuneytinu höfum lagt í undanfarin misseri við að búa í haginn fyrir vaxandi utanríkisviðskipti á því án efa eftir að koma sér vel.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. febrúar 2021