Ræða á fundi útflutnings- og markaðsráðs
Ágætu fulltrúar í Útflutnings- og markaðsráði, góðir fundarmenn.
Ég býð ykkur velkomin til fundar nú í sumarbyrjun. Nú þegar skammdegið hefur vikið fyrir birtunni, þegar faraldurinn hefur lotið í lægra haldi fyrir samstilltu átaki, þegar óttinn hefur vikið fyrir bjartsýni og framkvæmdagleði, þegar ekki er lengur hægt að fela sig í skugganum, þá kemur ýmislegt í ljós.
Það er á þessum tímapunkti sem það skilur á milli þeirra sem vilja sækja fram til betri lífskjara á grundvelli verðmætasköpunar og aukinnar útflutningstekna. Það er á þessum tímapunkti sem það skilur á milli þeirra sem telja hag íslensku þjóðarinnar best borgið með opnum mörkuðum og svo hinna sem telja hag sínum – hag sínum – best fyrir komið í skjóli og einangrun.
Í síðustu viku luku samningamenn Íslands, Noregs og Liechtenstein samningaviðræðum við Bretland um nýjan fríverslunarsamning. Stærsti ávinningur samningsins er að við getum nú horft til framtíðar með öruggan ramma um viðskipti við okkar næst stærsta útflutningsland, á þeim kjörum sem við höfum notið til þessa.
Um er að ræða framsækinn og yfirgripsmikinn fríverslunarsamning sem nær til flestra sviða viðskipta á milli ríkjanna og reglna sem hafa áhrif á þau. Samningurinn veitir gagnkvæman aðgang að mörkuðum þegar kemur að vöruviðskiptum, þjónustuviðskiptum og opinberum innkaupum.
Fyrir vöruviðskipti eru kjarnahagsmunir Íslands tryggðir fyrir útflutning, þ.m.t. fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarvörur.
Samningurinn auðveldar þjónustuviðskipti milli ríkjanna auk þess sem íslensk fyrirtæki munu hafa aðgang að opinberum útboðum í Bretlandi.
Ég dreg ekki dul á, að ég hefði viljað ganga lengra í því að fella niður viðskiptahindranir en gert er í samningnum. Lengra varð hins vegar ekki komist að sinni og því afar mikilvægt að tryggja okkar kjarnahagsmuni til lengri tíma, einkum hvað varðar heilbrigðiseftirlit og óhindraðan aðgang að breskum mörkuðum með okkar verðmætustu sjávarafurðir.
Að öðrum kosti hefðum við staðið ein eftir, samningslaus og í mun verri stöðu að ná ásættanlegum samningi. Það hvarflaði ekki að mér að tefla íslenskum hagsmunum í slíka tvísýnu.
Ég fagna því mjög að helsta gagnrýnin á samninginn sé sú að ekki hafi verið gengið lengra í opnun markaða. Slíkir möguleikar voru vissulega til staðar. Ég fagna öllu liðsinni í þeirri baráttu minni að greiða leið íslenskra fyrirtækja á erlendum mörkuðum. Sú barátta er og hefur verið einmanaleg í mínu pólitíska umhverfi. Vonandi er skilningur að vaxa um mikilvægi frjálsrar verslunar.
Frá því að ég opnaði dyrnar að skrifstofunni minni á Rauðarárstíg 25 þann 11. janúar 2017 hef ég haft það leiðarljós sem ráðherra utanríkisviðskipta að greiða leið íslenskra fyrirtækja á erlendum mörkuðum. Stór þáttur í því var að breyta lögum um Íslandsstofu og búa til þennan vettvang sem við stöndum á í dag. Að stjórnvöld og atvinnulíf gengju í takt, væru eitt lið á útivelli.
Afraksturinn birtist meðal annars í því að nú liggur fyrir skýr stefnumörkun um sókn á erlenda markaði, hvernig við markaðssetjum Ísland, íslenskar vörur og íslenska þjónustu með sem mestum ávinningi.
Af hverju skiptir þetta máli? Það eru jú til þeir stjórnmálamenn sem halda því fram að leiðin út úr þeim efnahagsþrengingum sem óhjákvæmilega fylgdu faraldrinum sé skuldsetning ríkisins. Að ríkið verði að koma „myndarlega“ að málum, eins og það er kallað.
Þessu er ég ósammála. Við getum ekki tekið lífskjörin að láni og sent komandi kynslóðum reikninginn. Það er uppgjöf og svik við framtíðina.
Það er engin auðveld lausn, engin töfralausn til þegar kemur að því að bæta lífskjörin. En þótt lausnin sé ekki auðveld þá er hún heldur ekki flókin: Við þurfum að auka útflutningsverðmæti, við þurfum að framleiða meira fyrir hærra verð.
Á þessu byggjast okkar lífskjör og þetta er ástæðan fyrir því að fríverslun og sókn á erlenda markaði hefur verið forgangsmál hjá mér, ekki bara þessi fjögur og hálft ár sem utanríkisráðherra, heldur sem þingmaður árin þar á undan.
Þrátt fyrir samdrátt undanfarinna missera, þar sem mest hefur munað um alkul í ferðaþjónustu, þá er afskaplega ánægjulegt að sjá þróttinn í öðrum atvinnugreinum. Sjávarútvegurinn bætir í, raforkusækinn iðnaður heldur sjó.
En það sem mestu skiptir þessi síðustu misserin er að til er orðin ný útflutningsstoð sem við getum leyft okkur að binda miklar vonir við. Tekjur í hugverkaiðnaði námu í fyrra 158 milljörðum og framundan er mikill vöxtur ef rétt er á málum haldið.
Það er einmitt þetta: ef rétt er á málum haldið. Það gerist ekkert að sjálfu sér. Og það gerir það enginn fyrir okkur. Við eigum mikla möguleika á að ná markmiðum okkar um auknar útflutningstekjur og þar með nýja lífskjarasókn. Vöxtur hugverkaiðnaðarins sýnir okkur það svart á hvítu.
En til þess þurfum við að taka réttar ákvarðanir. Við þurfum að láta af þröngsýnni einangrunarstefnu. Við þurfum að gera það sem við gerum best; að sækja fram. Við erum því miður alltof fljót að gleyma. Hagsaga Íslands er einn samfelldur vitnisburður um gildi frjálsra viðskipta, okkur vegnar alltaf best þegar frjáls viðskipti fá að blómstra.
Góðir fundarmenn.
Áður en ég býð Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóra Íslandsstofu, velkominn í pontu til að gera grein fyrir stöðu mála og þeim markmiðum og mælikvörðum sem við notum til að meta árangur útflutningsstefnunnar, vil ég segja:
Við eigum í harðri samkeppni við önnur lönd, hvort sem er um að ræða ferðamenn, útflutning á fiski, hugverkum, skapandi greinum, áli eða um erlenda fjárfestingu. Það er mikilvægt að við séum meðvituð um samkeppnishæfni landsins þegar kemur að þessum þáttum.
Mig langar að þakka ykkur öllum, fulltrúum í útflutnings- og markaðsráði, kærlega fyrir ykkar framlag við mótun og eftirfylgni útflutningsstefnunnar. Það er ómetanlegt fyrir hagsmuni lands og þjóðar að fá svo breiðan hóp, víðsvegar að úr íslensku atvinnulífi og samfélagi, til þess að leggja grunn að sókn á erlenda markaði og með því bættum lífskjörum íslensku þjóðarinnar.
Ræðan var flutt á fundi útflutnings- og markaðsráðs 10. júní 2021