Hoppa yfir valmynd
02. nóvember 2021 Utanríkisráðuneytið

Ræða á þingi Norðurlandaráðs

Kæru norrænu kollegar og vinir.

Mig langar að þakka þér, Pekka, fyrir skelegga framgöngu í formennsku norræna utanríkisráðherrasamstarfsins og óska þér til hamingju með hana. 

Norrænt samstarf er einstakt og sem ríkjahópur eiga Norðurlöndin sterka rödd á alþjóðavettvangi sem gerir þeim kleift að hafa umtalsverð áhrif í fjölþjóðlegu samstarfi. 

Skýrsla Björns Bjarnasonar sem kom út á síðasta ári varpar ljósi á nýjan kafla í norrænu samstarfi þar sem samvinna í öryggis- og utanríkismálum þarf í auknu mæli að taka mið af breyttu öryggisumhverfi og þeim áskorunum sem blasa við okkur í dag.

Loftlagsbreytingar og fjölþáttaógnir á borð við netárásir og upplýsingaóreiðu grafa nú undan þeim stöðugleika sem við höfum búið við og ekkert ríki getur eitt og sér tekið á þeim áskorunum. Árangur næst einungis með öflugri samvinnu og því er mikilvægt að við sameinum krafta okkar og byggjum á sterkum stoðum  norrænnar samvinnu. 

Við eigum þegar farsælt samstarf á mörgum málefnasviðum sem tillögur skýrslunnar fjalla um, en það má efla enn frekar með ýmsum hætti. Við getum til að mynda lagt enn meira af mörkum á sviði loftslagsmála, til dæmis með auknu samráði á sviði hafrannsókna og útflutningi á grænum lausnum.

Auk loftlagsmála, fjalla tillögurnar um loftslagsöryggi og þróunarmál, viðbúnað vegna heimsfaraldra, samstarf um utanríkisþjónustu og rannsóknir á sviði utanríkis- og öryggismála, svo fátt eitt sé nefnt. Allt eru þetta mikilvæg málefni þar sem norræn samvinna getur reynst dýrmæt eins og reynsla síðastliðinna sjö áratuga hefur sýnt okkur.

Við verðum að bregðast við áskorunum í loftlagsmálum og breyttu landslagi í öryggismálum af fullum þunga. Aðgerðir kalla á innleiðingu tillagnanna í æðstu stjórnsýslu, bæði hjá fagráðuneytum og utanríkisráðuneytum, en þær þarf einnig að samþætta samstarfi okkar við alþjóðastofnanir og önnur ríki. 

Nú stendur loftlagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna yfir. Væntingar til útkomu hennar eru miklar og ákall er á ríki heims að þau sýni aukinn metnað í loftlagsaðgerðum. Einnig má merkja nýjar áherslur í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar og almennt í norrænu samstarfi. Bjarnason skýrslan er mikilvægt tól í þessu samhengi og ég vil að lokum undirstrika þýðingu hennar fyrir norrænt samstarf. 

Við megum þó engan tíma missa.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta