Hoppa yfir valmynd
08. desember 2021 Utanríkisráðuneytið

Ávarp á fundi Viðskiptaráðs: Hvert fer álið og hvaðan koma ávextirnir?

Góðir fundarmenn.

Það er sérstaklega ánægjulegt að fá tækifæri til að vera með ykkur hér í dag í upphafi ráðherratíðar minnar sem utanríkis- og þróunarsamvinnumálaráðherra. Þetta er reyndar ekki fyrsti fundurinn minn í því hlutverki. Fyrstu daga mína í embætti var ég á þeytingi um Eystrasaltslönd og Norðurlöndin þar sem ég sat fundi með starfssystkinum mínum frá ýmsum löndum.

Það var mikil og áhugaverð upplifun og að mörgu leyti góð áminning um það hversu mikil lífsgæði felast í samskiptum milli ríkja sem byggjast á trausti og friði. En ekki síður um það hversu lítið má út af bregða svo það molni undan stoðum alþjóðlegrar samvinnu og viðskipta.

En þetta er fyrsti opinberi fundurinn sem ég tala á innanlands í mínu nýja embætti. Ég er auðvitað nýkomin úr embætti sem snérist um atvinnulífið. Málefni iðnaðar, nýsköpunar og ferðamennsku flokkast sannarlega undir þann hatt. En stökkið yfir í utanríkismálin er ekki eins stórt og ætla mætti.

Í fyrsta lagi stendur metnaður minn vitaskuld til þess að beina kröftum mínum mjög að viðskiptatengdum málum. Það er hluti af starfslýsingunni sjálfri – að vera ráðherra utanríkisviðskipta. Eitt af aðalverkefnum utanríkisþjónustunnar er að greiða fyrir viðskiptum og skapa tækifæri. Tækifæri svo atvinnulífið geti – fyrst og fremst á viðskiptalegum forsendum – ákveðið hvert álið fer og hvaðan ávextirnir koma – svo vísað sé í heiti fundarins. En þetta getur svo hæglega átt við um þjónustuviðskipti líka eins og ég mun víkja að síðar.

En tengsl viðskipta og utanríkismála ná mun lengra og dýpra heldur en bein hagsmunagæsla. Þau ná meira að segja dýpra heldur en gerð almennra viðskipta- og fríverslunarsamninga.

Danski rithöfundurinn og frumkvöðullinn Lars Tvede skrifaði í bók sinni um sköpunarsamfélagið og hvað að hans mati er mikilvægasta uppfinning mannkynssögunnar. Það er sú hugmynd að óskyldir aðilar sem þekkja ekki hvorn annan fáist til þess að býtta sjálfviljugir á milli sín eigum og hugmyndum. Þannig eru friðsamleg viðskipti í raun lykillinn að og forsenda siðmenningarinnar sjálfrar.

Áður en frumstæðir ættbálkar forfeðra okkar uppgötvuðu lífskjarabótina sem felst í samvinnu og viðskiptum, var lítið annað fyrir þá að gera en að leita leiða til þess að komast með yfirgangi og ofbeldi yfir sem mest af eigum hinna. Við slíkar aðstæður er orku mannanna sóað í að byggja upp árásarmátt og varnargetu í stað þess að henni sé varið í hugvit og athafnasemi sem nýtist til að skapa eitthvað sem öðrum gæti þótt eftirsóknarvert og verðmætt. 
Þetta finnst mér ákaflega umhugsunarvert og undirstrikar vel hversu samtvinnuð alþjóðamál eru viðskiptum. Friðsamlegt samfélag manna og þjóða grundvallast á viðskiptum.

En þetta var nú kannski það sem leynist djúpt undir yfirborði þeirra verkefna sem við fáumst við dagsdaglega. Það sem blasir við okkur er að standa við bakið á fyrirtækjunum – búa þeim nægilega gott rými - svo þau geti skapað verðmæti sem eru grundvöllur áframhaldandi góðra lífsskilyrða.
Innan utanríkisþjónustunnar er eðli málsins samkvæmt mikil áhersla á að viðhalda og efla net viðskiptasamninga. Þetta á ekki síst við um fríverslunarsamninga við önnur ríki til að stuðla að hagkvæmari viðskiptum. Þetta net, ekki síst á grundvelli EFTA-samstarfsins, opnar okkur markaði 74 ríkja eða svæða.
Ég þarf vart að taka fram að EES-samningurinn er auðvitað okkar mikilvægasti viðskipta- og samstarfssamningur. Hann er lífæð og undirstaða stærstu möguleika okkar í alþjóðlegum viðskiptum.  Hann opnar okkur í raun heimamarkað upp á 450 milljónir íbúa. Þar ætlar ríkisstjórnin áfram að vinna að bættri framkvæmd samningsins og gæta hagsmuna Íslands í hvívetna. 

Þá tryggir nýr fríverslunarsamningur við Bretland kjarnahagsmuni okkar á þeim mikilvæga markaði. Ég mun leggja samninginn fyrir Alþingi til staðfestingar á næstu dögum og hann getur vonandi gengið í gildi í ársbyrjun 2022. 
Það er ávallt verið að leita leiða til að efla tengsl á viðskiptasviðinu við einstök lönd og svæði. Sem dæmi má nefna að í dag á sér stað efnahagssamráð við Bandaríkin og nýverið voru birtar á vegum ráðuneytisins tvær umfangsmiklar skýrslur um möguleika á auknu efnahagssamstarfi við Grænland og á Norðurslóðum almennt.

Þá eru ótaldir loftferðasamningar, tvísköttunarsamningar og fjárfestingasamningar – sem allir vinna að sömu markmiðum – að greiða götu íslensks viðskiptalífs. 
Viðskiptaþjónustan, Íslandsstofa og sendiskrifstofur okkar víða um heim vinna að því að tengja saman fólk, greina tækifæri, greiða götu fyrirtækja á erlendum mörkuðum og efla orðspor Íslands. Það er von mín að sú starfsemi sé gagnleg og nýtist vel og ég vil gjarnan biðja ykkur um að leyfa mér að frétta af því hvernig þessi þjónusta er að gagnast fyrirtækjum.

Eins og við verðum svo oft áskynja í leik og starfi þá er heimurinn bæði stór og lítill. Hann er stór meðal annars í þeim skilningi að tækifærin eru víða, en hann er líka lítill að því leyti að við upplifum flest ákveðna einsleitni milli landa – bestu vörurnar og lausnirnar eru fljótar að sigra heiminn, og þær sem ekki standast samkeppni á stóra sviðinu eiga heldur ekki möguleika á heimamarkaði.

Sköpun nýrra verðmæta, hvort sem er í atvinnulífi, vísindum eða menningu, nýtur sannarlega góðs af þeim opna heimi sem við lifum í. En sá heimur setur okkur líka býsna þröngar skorður. Við þurfum að standast alþjóðlega samkeppni, og það gildir um íslenskt atvinnulíf, bæði á heimavelli og í alþjóðlegum viðskiptum.
Svo ég vitni nú aftur í Lars Tvede, og sömu bók, þá segir hann að í einöngruðum samfélögum og löndum þar sem ríkir ritskoðun og takmarkanir á ferðalögum, spretti ekki upp margir einstaklingar sem hafi burði og hugmyndir til þess að skora hið ríkjandi ástand á hólm. Þar sem augun lokast er hætt við að hugurinn lokist einnig. Slík samfélög staðna, og við þurfum ekki að leita til danskra rithöfunda til að vita hvað stöðnun þýðir. Jónas Hallgrímsson orti: Það er svo bágt að standa í stað, því mönnunum munar annað hvort aftur á bak ellegar nokkuð á leið.

Og jarðvegurinn hefur aldrei verið eins frjór og nú vegna þeirrar grænu og stafrænu byltingar sem er kannski bara rétt að byrja. Í því felast gríðarleg tækifæri fyrir viðskiptalífið enda ljóst að það mun gegna lykilhlutverki við að skapa þær grænu lausnir sem nauðsynlegar eru til að við náum markmiðum okkar um kolefnishlutlaust Ísland 2040. 

Tækifærin eru víða. Það eru allir sjóðir stútfullir og mikið fjármagn í umferð til verkefna á þessum sviðum og mikill áhugi til samstarfs erlendis frá. Þar ræður ekki síst græn ímynd og orka. Ég hvet ykkur til að skoða þau tækifæri vel og grípa gæsina því tækifærin eru núna. 
Sem dæmi þá vorum við að ganga frá umfangsmestu þátttöku Íslands í samstarfsáætlunum Evrópu sem um getur. Þar eru gríðarlegir möguleikar fyrir fólk í rannsóknum og þróun og fyrirtæki í nýsköpun að sækja sér fjármagn í verkefni. Uppbyggingarsjóður EES felur einnig í sér svæðisbundin tækifæri.

Við höfum einnig lagt mikla áherslu á samstarf við atvinnulífið í þróunarsamvinnu, ekki síst þegar kemur að þeim geirum þar sem íslensk fyrirtæki búa yfir mikilli sérþekkingu. Heimsmarkmiðasjóður atvinnulífsins hefur þegar styrkt á þriðja tug fyrirtækja til þróunarsamvinnu í um tuttugu löndum. 
Fyrirtæki á borð við Creditinfo hafa tekið þátt í útboðum Alþjóðabankans og þannig fengið stór verkefni á sitt borð. Creditinfo fékk raunar einnig styrk úr Heimsmarkmiðasjóðnum til verkefnis sem stuðlar að því að einyrkjar og smáfyrirtæki í þróunarríkjum fái aðgang að fjármagni og geti þannig séð sér og sínum farborða. 
Með þessu taka stjórnvöld og atvinnulíf saman höndum um að fjárfesta í þróunarríkjum, fjölga þar störfum og stuðla að hagsæld en skapa um leið tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki.

Í þessu sambandi vil ég benda á stefnumarkmið ríkisstjórnarinnar um að auka  svigrúm og skilvirkni í ráðningu erlendra sérfræðinga og auðvelda íslenskum nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum að ráða fólk með sérþekkingu frá löndum utan EES-svæðisins. 
Þetta verður framfaraskref og er ekki síst mikilvægt í stafræna geiranum þar sem færustu sérfræðingarnir hafa oft ekki mikla formlega menntun á bakinu en þeim mun meiri sköpunargáfu. 

Að lokum vil ég minnast á mikilvægi þess að greina þarfir atvinnulífsins. Greining á viðskiptatölum er sá áttaviti sem við þurfum á að halda til að beina getu okkur til góðra verka. Þetta er til sífelldrar skoðunar í ráðuneytinu og oft er einmitt leitað til fyrirtækjanna og samtaka þeirra til að fylla inn í myndina. Þetta er ekki síst mikilvægt þar sem þjónustuviðskiptin eru annars vegar.

Annað hvort stöndum við í stað eða okkur miðar nokkuð á leið. Það er hin ríka skylda sem við höfum. Að gera allt sem við getum til þess að íslenskt samfélag standi ekki í stað heldur miði nokkuð á leið. Og með því að leggja áherslu á það sem við höfum fram að færa í alþjóðlegu umhverfi sem byggist á friðsamlegum viðskiptum getum við einmitt gert það.

Ég hlakka til að heyra erindi Konráðs og Baldvins Björns hér á eftir en ég vil líka biðla til ykkar í viðskiptaráðunum að vera í sambandi við okkur – segja okkur hvað við getum gert til að greiða götu ykkar og ég get eingöngu lofað að á minni vakt mun utanríkisþjónustan gera sitt besta í ykkar þágu og í þágu Íslands.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta