Að hætta sér út á ísinn
Farsóttir hafa fylgt mannkyninu frá örófi alda. Þær allra skæðustu skildu eftir sig dauða og eyðileggingu sem ómögulegt er að gera sér í hugarlund í dag. Talið er að um helmingur Íslendinga hafi fallið þegar svarti dauði herjaði á þjóðina á árunum 1402 til 1404. Stóra-bóla grandaði einnig um helmingi landsmanna (allt að 18 þúsund manns) þegar hún geisaði í upphafi átjándu aldar. Mislingafaraldur um miðja nítjándu öld felldi líklega vel á annað þúsund manns, þar af mörg smábörn, í samfélagi sem taldi tæplega sextíu þúsund. Á fyrstu áratugum 20. aldar voru berklar algeng dánarorsök á Íslandi en árlega létust tugir og jafnvel á annað hundrað manns úr þeim smitsjúkdómi, þar af margt fólk á þrítugsaldri. Á fáeinum mánuðum undir árslok 1918 og ársbyrjun 1919 dóu um 500 Íslendingar úr inflúensufaraldrinum sem er kallaður spænska veikin, mörg þeirra sem létust voru á aldrinum 25 til 40 ára. Þá var íbúafjöldi Íslands um fjórðungur af því sem hann er í dag.
Heilbrigðiskerfi þurftu að valda álagi
Ljóst er að faraldurinn sem haldið hefur heiminum í heljargreipum undanfarin tvö ár hefur ekki valdið skaða í líkingu við það sem samfélög fyrri tíma gengu í gegnum. Nú hafa 44 einstaklingar látist úr sjúkdóminum hér á landi, og blessunarlega mjög fátt ungt fólk (einn undir fimmtugu) og engin börn. En þótt kórónuveirufaraldurinn hafi ekki komist nálægt pestum fyrri alda í beinum eyðileggingarmætti hefur hann engu að síður verið ákaflega alvarlegur. Allt frá byrjun var ljóst að helsta hættan sem stafaði af kórónuveirunni fólst helst í því að yfirspennt heilbrigðiskerfi réðu ekki við álag ef mikill fjöldi veiktist á sama tíma. Yfirkeyrsla á heilbrigðiskerfinu bitnar vitaskuld ekki bara á þeim sem veikjast af covid-19 heldur einnig fjölmörgum öðrum sem fá ekki tímabæra læknisaðstoð, meðal annars vegna þess hversu mannaflafrek umönnun covid-sjúklinga er, en veldur einnig álagi á gjörgæsludeildir því að fresta þarf nauðsynlegum aðgerðum.
Margt er ólíkt með farsóttum fyrri tíma og þeim sem við höfum glímt við nú. Þá eins og nú ollu farsóttir ótta og skelfingu, tíminn var lengi að líða og fólk treysti sér ekki til þess að koma saman og takmarkaði samneyti sitt við aðra eins og frekast var unnt. En svo lauk þessum faröldrum. En þeim lauk á allt annan hátt en líklegt er að núverandi faraldri ljúki. Þegar fólk hætti smám saman að smitast og kenna sér meins vegna spænsku veikinnar þá var hún afstaðin sem samfélagslegt viðfangsefni. Enginn fylgdist með hvort enn væru veikari afbrigði veiru að ganga milli fólks, það eina sem skipti máli var að fólk var ekki lengur lasið. Flestir sem veiktust brögguðust og komust til heilsu og samfélagið syrgði þá sem féllu. Eflaust hafa margir verið lengi að jafna sig eftir erfið veikindi; en lífið þurfti að komast aftur í eðlilegt horf.
Í þessum faraldri höfum við notið góðs af margfalt betri þekkingu, sterku heilbrigðiskerfi og öflugu vísindastarfi. Hér á landi nutum við góðs af yfirvegaðri leiðsögn sóttvarnalæknis og þríeykisins á fyrstu vikum og mánuðum faraldursins. Margar góðar ákvarðanir hafa verið teknar, meðal annars sem snúa að því að halda skólum opnum, þótt mörg önnur lönd hafi skellt í lás. Þá voru viðbrögð á Landspítala aðdáunarverð í upphafi faraldurs þegar sett var á fót göngudeild og hugvitssemi og nýsköpun fengu að njóta sín. Þegar góður árangur Íslands í viðbrögðum við heimsfaraldri verður gerður upp mun þáttur göngudeildar og þeirra sem borið hafa ábyrgð á meðferð sjúklinga eflaust vega mjög þungt. Þar hefur verið unnið ákaflega gott starf.
Nú stöndum við hins vegar frammi fyrir því vandasama verkefni að feta okkur með réttum hætti út úr ástandinu. Fréttir síðustu vikna benda ótvírætt til að stórkostlega fækki þeim tilvikum að fólk veikist alvarlega vegna smits af kórónuveirunni, en vegna mikillar útbreiðslu er stöðugur fjöldi inniliggjandi á sjúkrahúsum af ýmsum ástæðum, en greinist einnig smitaður af veirunni. Verkefni sóttvarnalæknis er vandasamt í þessu eins og hingað til. Og verkefni stjórnvalda er það ekki síður.
Endurheimt eðlilegs samfélags
Það má segja að við stöndun nú saman sem samfélag, við frosna tjörn og veltum fyrir okkur hvort ísinn sé nægilega traustur til að bera okkur yfir. Er mesta hættan raunverulega afstaðin? Fyrstu skrefin verða aldrei fullkomlega áhættulaus, og þau munu krefjast áræðis og hugrekkis. Hinum megin við tjörnina er endurheimt eðlilegs samfélags þar sem athafnafrelsi fólks, menningarlíf og félagsstörf eru ekki takmörkuð vegna sóttvarna. Í mínum huga er spurningin ekki hvort við ætlum yfir heldur hvenær og þótt það eigi sér stað skoðanaskipti í föruneytinu á bakkanum, þá munum við á endanum öll komast yfir og lífið kemst í eðlilegt horf á ný. Við hljótum öll að vilja og vona að það gerist sem allra fyrst.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. janúar 2022.