Hoppa yfir valmynd
06. febrúar 2022 Utanríkisráðuneytið

Auðurinn sem friðsæld gefur

Þegar fjallað er um hagsmuni Íslands í alþjóðamálum kemur vitaskuld margt til álita. Undanfarin ár og áratugi hafa utanríkismál að langmestu leyti snúist um viðskiptahagsmuni okkar. Mikil og lífleg umræða hefur átt sér stað innanlands um samskipti okkar við Evrópusambandið og einkum á forsendum sem snúa að efnahagslífinu. Við höfum líka lagt mikla áherslu á að gera samninga um frjálsari verslun við sem flest ríki, en einkum þau sem við eigum í hvað mestum viðskiptum og samskiptum við.

Í hinu þéttriðna og alþjóðlega tengslaverki sem einkennir samtímann skiptir miklu máli að íslensk fyrirtæki, íslensk menning og íslensk vísindi geti fetað greiðar og auðfarnar brautir til þess að sækja fram með vörur og hugvit á markaði um heim allan. Þessi áhersla undanfarinna áratuga á viðskiptahlið alþjóðasamstarfs er til marks um að við lifum tiltölulega góða og friðvænlega tíma í okkar heimshluta. Ef litið er til lengri sögu alþjóðlegra samskipta má þó segja að viðfangsefni síðustu áratuga megi flokkast sem lúxusvandamál. Þar að auki höfum við Íslendingar – svo langt frá heimsins vígaslóð – löngum notið góðs af því að geta beint okkar kröftum í alþjóðastarfi að efnahagslegum hagsmunum.

Raunverulegar áhyggjur

Heimsmálin horfa öðruvísi við ýmsum öðrum þjóðum. Áhyggjurnar af ástandi mála á landamærum Rússlands og Úkraínu undanfarna mánuði hafa til að mynda allt önnur áhrif á margar af okkar vina- og bandalagsþjóðum heldur en okkur. Fréttir berast frá Finnlandi og Svíþjóð af auknum viðbúnaði vegna ógnandi hegðunar Rússa. Okkar góðu vinir við botn Eystrasaltsins; Eistland, Lettland og Litáen, hafa miklar og raunverulegar áhyggjur af öryggi sinna eigin þegna og landamæra. Og áhyggjur af framferði Rússa taka líka á sig allt aðra og alvarlegri mynd í Póllandi heldur en hér á landi. Öll þessi lönd líta svo á að um raunverulega öryggisógn sé að ræða meðan spennan magnast milli Rússlands og Vesturlanda. Í þessum löndum snúast utanríkismál ekki fyrst og fremst um efnahagslega hagsmuni um þessar mundir heldur öryggi borgaranna og virðingu fyrir landamærum.

Blákalt hagsmunamál

Auðvitað á hið sama við um okkur hér á landi þegar öllu er á botninn hvolft. Áherslur okkar í utanríkismálum, þar sem við höfum undanfarin ár getað einbeitt okkur að efnahagslegum hagsmunum, hvíla þó á þeirri grundvallarstoð að hið stóra og flókna regluverk alþjóðalaga sé virt. Þar skiptir auðvitað allra mestu máli að algjör og ófrávíkjanleg virðing sé borin fyrir alþjóðlega viðurkenndum landamærum. Brot á þessu grundvallaratriði, eins og átti sér stað með ólögmætri innlimun Krímskaga í Rússland, snertir ekki aðeins þau ríki sem hlut eiga að máli heldur allt alþjóðasamfélagið. Fyrir okkur á Íslandi er mikilvægt að hafa hugfast að virðing fyrir efnahagslegri lögsögu í hafi hvílir einnig á regluverki alþjóðalaga. Það er því ekki einungis af samúð, vináttu og skyldurækni sem Ísland stillir sér upp með þeim löndum sem hafa áhyggjur hernaðaruppbyggingu Rússa við landamæri Úkraínu. Það er blákalt hagsmunamál íslensku þjóðarinnar að standa vörð um alþjóðalög og órjúfanlega friðhelgi alþjóðlegra landamæra og lögsögu.

Sú alvarlega staða er nú uppi í heimsmálum að þau snúast í sífellt meiri mæli um öryggis- og varnarmál en ekki reiptog um viðskiptareglur og innflutningstolla. Liðssafnaður Rússa við landamæri Úkraínu vekur spurningar um raunverulegar fyrirætlanir en fram að þessu hefur forseti Rússlands ekkert annað sagt opinberlega en að innrás standi ekki til. Forseti Úkraínu hefur hvatt til yfirvegunar í umræðunni þótt þess sé auðvitað krafist að hinn ógnandi liðssöfnuður við landmærin verði afturkallaður. Ísland tekur heilshugar og algjörlega undir allar kröfur um að alþjóðalög séu virt, að Rússar dragi úr hernaðaruppbyggingunni og stuðli þannig að því að draga úr spennu. Því miður kennir sagan okkur að uppbygging spennu og togstreitu er sjálfstæður áhættuþáttur sem getur leitt til illviðráðanlegrar atburðarásar. Mikilvægi yfirvegaðrar og uppbyggilegrar umræðu þar sem leitað er lausna gæti því vart verið meira en nú.

Um þessar mundir eru mikilvægustu hagsmunir Íslands á alþjóðavettvangi fólgnir í því að standa vörð um frið og alþjóðalög. Þannig fáum við áfram notið þess auðs sem friðsældin gefur en er því miður ekki eins sjálfsagður og við líklega álitum flest fyrir aðeins örfáum árum. 

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. febrúar 2022.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta