„Annaðhvort njóta allir friðar – eða enginn“
Fátt var annað til umræðu á nýafstöðnum varnarmálaráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins en sú alvarlega staða sem nú er uppi í öryggismálum Evrópu. Og skyldi engan undra. Liðsafnaður Rússa á landamærum Úkraínu er álitinn ein mesta öryggisógn sem upp hefur komið í okkar heimshluta í háa herrans tíð. Þessi uggvænlega staða er bæði drungalegur og dapurlegur endurómur frá tímum kalda stríðsins.
Tilheyrum samfélagi frjálsra þjóða
Atlantshafsbandalagið var stofnað í miðri endurreisn Evrópu úr rústum seinni heimsstyrjaldar. Þá hafði járntjald ólíkra hugmynda og stjórnarfars skilið þjóðir álfunnar í sundur. Eftir að vopnuðum átökum styrjaldarinnar lauk tók við barátta um hugmyndafræði, lífshætti og mannréttindi. Ísland skipaði sér þar með afgerandi hætti í hóp vestrænna lýðræðisríkja þar sem frelsi einstaklingsins og réttindi hans eru álitin undirstaða samfélagsgerðarinnar.
„Þjóðir þær, sem nú eru að ganga í þetta nýja bræðralag, eru að mörgu leyti ólíkar hver annarri. Sumar þeirra eru hinar mestu og voldugustu í heimi, aðrar eru smáar og lítils megandi. Engin er þó minni né má sín minna en þjóð mín – íslenzka þjóðin,“ sagði Bjarni Benediktsson þáverandi utanríkisráðherra þegar hann undirritaði Atlantshafssáttmálann fyrir Íslands hönd í Washington 4. apríl 1949. Enginn sem hlýddi á ávarpið þurfti að velkjast í vafa um hvar Ísland stæði í samfélagi þjóðanna. „[V]ið tilheyrum og viljum heyra til því frjálsa samfélagi frjálsra þjóða, sem nú er formlega verið að stofna. Að vísu er það rétt, sem ég sagði áðan, að aðilar þessa samnings eru ólíkir um margt. En það er einnig margt sem sameinar okkur traustum böndum. Sama hættan ógnar okkur öllum í þeim heimi sem við lifum þar sem fjarlægðirnar eru horfnar, er það áreiðanlegt að annaðhvort njóta allir friðar – eða enginn. Sömu upplausnaröflin eru hvarvetna að sinni ömurlegu iðju. Alls staðar ásaka þau okkur, sem erum að vinna fyrir friðinn, um að við viljum spilla honum.“
Þessi orð Bjarna Benediktssonar eiga prýðilega við í dag. Eftir lok kalda stríðsins varð um hríð ríkjandi sú skoðun að hinni hugmyndafræðilegu baráttu væri lokið með fullnaðarsigri frjálslyndis, umburðarlyndis og mannréttinda. Á undanförnum árum hefur smám saman orðið skýrara að enn eru sterk öfl á öndverðum meiði við þessi gildi, sem talin eru svo dýrmæt í vestrænum samfélögum. Hugmyndir um kosti miðstýrðra samfélaga, sem lúta afgerandi stjórn fámennra hópa, eða jafnvel eins manns, hafa á ný skotið rótum víða og eru jafnvel álitnar áhugaverður valkostur við hið lýðræðislega og frjálsa samfélag. Ógnandi tilburðir Rússlands við landamæri Úkraínu eru birtingarmynd þessarar hugmyndafræði. Það vefst ekki fyrir Íslandi hvorum megin við þessa hugmyndafræðilegu gjá við skipum okkur.
Atlantshafsbandalagið hefur það markmið að tryggja varnir bandalagsríkjanna, hvers og eins og sameiginlega. Þar gildir einn fyrir alla og allir fyrir einn. Fyrir okkar herlausu þjóð hefur aðildin að Atlantshafsbandalaginu, ásamt varnarsamningnum við Bandaríkin, veitt okkur nauðsynlegt skjól nánast allan lýðveldistímann. Með því að varðveita og styrkja þessar stoðir uppfylla íslensk stjórnvöld þá frumskyldu sína að tryggja öryggi þegna sinna. En Ísland er ekki einungis þiggjandi í þessu samstarfi. Ísland leggur sitt af mörkum. Eftirlit með stórum hluta loftrýmis bandalagsins, gistiríkisstuðningur og þátttaka í verkefnum þess til að stuðla að friði og lýðræði eru dæmi um það. Þótt Ísland hafi engan her höfum við mikið fram að færa við að varðveita og byggja upp frið, út frá þeim gildum sem eru kjarninn í utanríkisstefnu okkar, ekki síst mannréttindum og jafnrétti, og ávallt á borgaralegum forsendum.
Þýðingarmestu hagsmunamálin
Á fundi okkar Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, í vikunni ræddum við meðal annars þessi gildi sem eru okkur svo mikilvæg. Við vorum líka sammála um að ágreiningsmál ríkja beri að leysa með friðsamlegum hætti, hernaðarmáttur megi ekki ráða um úrlausn þeirra deilumála sem rísa milli þeirra. Þetta er samhengi þeirrar tvíþættu nálgunar sem Atlantshafsbandalagið beitir í yfirstandandi deilu. Annars vegar er samskiptaleiðum haldið opnum, til að geta fundað með Rússlandi og rætt ágreiningsmál, aukið gagnsæi og byggt upp traust. Hins vegar leggur bandalagið áherslu á traustan fælingar- og varnarmátt.
Virðing fyrir alþjóðalögum og friðhelgi landamæra og lögsögu eru þýðingarmestu hagsmunamál íslensku þjóðarinnar á alþjóðavettvangi. Því er framganga Rússlands gagnvart Úkraínu svo mikið áhyggjuefni þar sem hinn sterki hótar í krafti aflsmunar. Við það verður ekki unað og þess vegna tökum við okkur að sjálfsögðu stöðu með bandalagsríkjum okkar í vörn um þau gildi sem eru undirstaða þess samfélags sem við kjósum. Það kemur ekki til álita að skila auðu þegar valið stendur milli þeirrar heimsmyndar sem byggist á lýðræði, mannréttindum og alþjóðalögum; og hinnar sem byggist á fámennisræði og valdbeitingu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. febrúar 2022.