Ávarp utanríkisráðherra á ársfundi Íslandsstofu
Ávarp utanríkisráðherra á ársfundi Íslandsstofu
1. apríl 2022
Kæru gestir.
Það er mér sönn ánægja að vera með ykkur á fyrsta ársfundi Íslandsstofu í nýju aðsetri í Grósku. Staðsetning Grósku er úthugsuð. – Á milli deCode og Alvotech - í nálægð við háskólana og í sambýli við öflug fyrirtæki á borð við CCP skapast frjór jarðvegur til að ráðgast við aðra, rækta nýjar hugmyndir og þroska aðrar.
Það er góður andi í húsinu, sem er mikilvægt, því í þessu húsi er það hinn skapandi mannsandi sem á að fá að njóta sín—uppspretta einu óþrjótandi auðlindarinnar sem við þekkjum—sköpunarkrafts mannsins.
Þetta umhverfi leiðir vonandi til þess að fleiri fyrirtæki sem byggjast á samþættingu bókvits, hugvits og hönnunar geti orðið til og eflist.
Í sköpunarkraftinum eru nefnilega fólgnar allar framfarir mannkyns. Þetta afl ásamt þörfinni til að skapa eitthvað nýtt eru drifkraftur allra framfara. Það er sköpunarkrafturinn sem keyrir áfram þekkingarleit og uppgötvanir í vísindalegu umhverfi. Sama afl knýr nýsköpun og frumkvöðlastarf þar sem þekking er hagnýtt og gerð að markaðshæfri vöru sem bætir lífsgæði í samfélaginu. Sköpunarkrafturinn er að sjálfsögðu uppspretta listsköpunar og menningar líka—þar sem við upplifum dýpstu og fegurstu birtingarmyndir þess sem mannsandinn leysir úr læðingi.
Andstaðan við sköpunarkraftinn er eyðileggingarmáttur illskunnar. Áþreifanleg birtingarmynd hans um þessar myndir er innrás Rússlands í Úkraínu. Í heimsmynd Pútíns ríkir ekki gleði, sköpun og fegurð—heldur bæling, eyðilegging og ótti.
Samfélög sem grundvallast á óheftum sköpunarkrafti eru vissulega að mörgu leyti flókin og erfið. Þar þurfa valdahafar að þola gagnrýni, bæði sanngjarna og ósanngjarna; þar er fólkið frjálst til að segja nánast hvað sem er og gera grín að hverjum sem er, gera tilraunir sem mislukkast, búa til ljót listaverk og halda fram heimskulegum hugmyndum. Allt eru þetta vörður á veginum til framfara því upp úr samsuðu misgóðra hugmynda og pælinga kemur að endingu fram snilldin í vísindum, fegurðin í listinni og framfarirnar í atvinnulífinu.
Og það er einmitt hugmyndin á bak við húsnæði eins og Grósku - að stuðla að frjálsri hugsun og sköpun nýrra verðmæta.
Og meðan Pútín beitir eyðileggingarafli sínu reynir enn frekar en áður á getu okkar til þess að bregðast við með framsýni, útsjónarsemi og dugnaði.
Skammtímaafleiðing stríðsins birtist fyrst um sinn í röskun aðfangakeðja flutninga og framleiðslu, sem voru að komast samt lag eftir heimsfaraldurinn. Sniðganga á rússneskri olíu hefur knúið enn frekar á um að orkuskiptin í Evrópu gangi hraðar fyrir sig. Það setur Ísland í sérstaka stöðu þar sem 80% af okkar orku er græn. Að sama skapi þurfum við að finna leiðir til að vinna með öðrum ríkjum að tæknilausnum fyrir orkuskiptin, sem eru þær áskoranir sem allur heimurinn glímir við.
Lengri tíma afleiðingar innrásarinnar í Úkraínu fyrir lykilatvinnugreinar okkar eiga eftir að koma fram. Nú er fæðuöryggi mörgum þjóðum ofarlega í huga vegna uppskerubrests, viðskiptaþvingana og verðhækkana á fóðri. Þýðing öflugs íslensk sjávarútvegs verður því vart ofmetin á þessum tímum.
Hækkandi fóðurverð getur haft áhrif á fiskeldi til lengri tíma en um leið eru ónýtt tækifæri til að nýta fæðuframleiðslugetu okkar til að rækta auk fiskjar t.d. þara og skelfisk sem hefur neikvætt kolefnisfótspor.
Íslandsstofa gegnir ákaflega mikilvægu hlutverki við að styðja við sköpunarkraftinn í íslensku atvinnu- og menningarlífi. Og reyndar er það stórkostleg staðreynd að Íslandsstofa hefur margsinnis verið vettvangur framúrskarandi hugmyndaauðgi og sköpunarkrafts sem vakið hefur heimsathygli. Er þar skemmst að minnast óborganlegu myndbandi Íslandsstofu um Icelandverse - raunverulegasta raunveruleika sem völ er á. Það ber starfseminni hér innanhúss fagurt vitni að hér kvikni hugmyndir eins og öskurherferðin og Icelandverse-myndbandið og ekki síður að starfsfólkið hafi nægilegt sjálfstraust þess að hrinda þeim í framkvæmd.
Ég þekki vel til hér þar sem ég átti gott samstarf við Íslandsstofu þegar ég gegndi embætti ráðherra nýsköpunar-, iðnaðar- og ferðamála.
Listir og skapandi greinar eiga stóran þátt í að skapa ímynd og viðhorf til lands og þjóðar. Nýtt samkomulag stjórnvalda og Íslandsstofu um markaðsverkefnið Skapandi Ísland, markar þáttaskil í kynningu á íslenskri menningu erlendis. Verkefninu verða lagðar til 90 m.kr. árlega til ársins 2025 og er því hægt að ráðast í umfangsmeiri kynningar en áður og gera áætlanir til lengri tíma. Með verkefninu er stuðlað að markvissri stefnumótun og samráði milli stjórnvalda, Íslandsstofu, miðstöðva lista og skapandi greina og fagfólks.
Verkefnið fer vel af stað og það er ánægjulegt að sjá hversu margir íslenskir menningarviðburðir eru framundan víða um heim. Sendiskrifstofur okkar gegna lykilhlutverki í verkefninu en á starfsáætlunum þeirra fyrir árið í ár eru tæplega 150 menningarviðburðir. Ég vil þakka Íslandsstofu og miðstöðvum lista og skapandi greina fyrir sérlega gott samstarf á þessu sviði, enda er öflugt samstarf lykillinn að árangri.
Það hefur ítrekað sýnt sig hvað það er mikilvægt fyrir fullvalda þjóð að eiga öflugar sendiskrifstofur, að eiga sæti við borðið og vera þjóð meðal þjóða. Þetta var ekki síst dýrmætt í heimsfaraldrinum þar sem þúsundir Íslendinga leituðu til þeirra um stuðning og sett var upp viðskiptavakt til liðsinna fyrirtækjum sem lentu í margvíslegum vanda vegna ferðahindrana milli ríkja. Sendiráðin eru einnig mjög virk í stuðningi við atvinnulífið og vinna náið með Íslandsstofu. Þar býr lykilþekking á menningu og viðskiptaháttum á hverjum stað ásamt sterkum samböndum við stjórnvöld og sendiráð annarra ríkja. Sambönd við stofnanir, fjölmiðla og fyrirtæki eru gulls ígildi þegar íslensk viðskipti og menning eru kynnt erlendis. Sendiráðin hafa verið vel metinn vettvangur til að bjóða lykilviðskiptum til funda og opna þeim dyr.
Þróun og mótun íslensks atvinnulífs til framtíðar munu byggjast á nýsköpun. Í nýsköpunarstefnu sem kynnt var á síðasta kjörtímabili voru skilgreindar undirstöður fyrir gott umhverfi nýsköpunar. Þær eru hugarfar, fjármagn, mannauður, umgjörð og markaðsaðgangur. Í þeirri vinnu var lögð sérstök áhersla á mikilvægi þess að nýsköpunarhugsun á Íslandi þurfi ætíð að vera alþjóðleg í eðli sínu. Þetta er grundvallarforsenda fyrir uppbyggingu íslensks atvinnulífs. Þess vegna skiptir miklu máli að íslenska utanríkisþjónustan og Íslandsstofa stefni ætíð að því að stækka leikvöllinn fyrir íslensk fyrirtæki og íslenska menningu.
Möguleikar Íslands í alþjóðlegri samkeppni eru þeim mun betri eftir því sem við byggjum betur á sérstöðu landsins. Við byggjum á býsna sterkum grunni og höfum oft áhugaverðar sögur að segja. Og sumar eru meira að segja dagsannar.
Ég get sagt ykkur litla sögu af tæknifyrirtæki sem ræktar vaxtaþætti í byggi. Eftir margra ára rannsóknarvinnu og tilraunir varð til efni í snyrtivöru sem erlend fyrirtæki kepptust um. Yfirmaður í stóru erlendu snyrtivörufyrirtæki kom í heimsókn og sá að þarna var verið að rækta lykilefni vörunnar í byggi, -í Hekluvikri -með hreinu vatni -í gróðurhúsi sem hitað er með jarðhita. Henni varð að orði „Who is your poet?“ Hún trúði varla að ímynd vörunnar byggði á staðreyndum. Svona sögur sýna okkur hvað sérstaða okkar er mikil. – Þessi tækifæri eru sér-íslensk, þau geta ekki aðrir hermt eftir okkur.
Það er hlutverk stjórnsýslunnar að skapa fyrirtækjum sem hagstæðust starfsskilyrði. Stjórnarsáttmálinn okkar er framsækinn og efnismikill og aðgerðaráætlanir til innleiðingar eru í vinnslu í fagráðuneytunum. Það kom glöggt fram á loftslagsráðstefnunni í Glasgow að einkageirinn er að glaðvakna til vitundar um hlutverk sitt til að markmið Parísarsamkomulagsins náist. Tækninþróunin er oft hraðari en stjórnsýslan ræður við en það liggur á að kynna fyrirtækjum leikreglur sem gilda til að þau geti sinnt sínu hlutverki. Í loftslagsmálum er orka og sjálfbær nýting auðlinda í lykilhlutverki og nauðsynleg nýsköpun verður að byggjast á samstarfi stjórnvalda, hagsmunasamtaka og fyrirtækja ef við ætlum að ná þeim loftslagmarkmiðunum sem við höfum sett okkur.
Í nýafstaðinni heimsókn minni til Finnlands með Íslandsstofu og Grænvangi fengum við innsýn í nýsköpun og tækniþróun Finna. Það var samdóma álit ferðafélaga okkar að allir sem við heimsóttum stefna að sama marki, -að kolefnishlutleysi, sjálfbærni, orkuskiptum og hringrásarhagkefi. Þar eru ríki og sveitarfélög samstíga um að leggja sitt af mörkum enda samfélögin öll undir.
Kæru gestir.
Hlutverk Íslandsstofu er að styðja við sköpun verðmæta fyrir íslenskt samfélag. Það er göfugt verkefni, mikilvægt og skemmtilegt. Á tímum sem þessum er mikilvægi áframhaldandi sköpunargleði jafnvel meira en áður. Það er von mín og trú að starf Íslandsstofa muni áfram vera íslensku atvinnu- og menningarlífi til heilla og Íslandi til sóma.
Takk fyrir.