Liðsbót að aðild Finna og Svía
Stofnun Atlantshafsbandalagsins árið 1949 ber vott um mikla framsýni. Í skjóli bandalagsins hefur tekist að koma í veg fyrir stórstyrjöld í okkar heimshluta í meira en sjö áratugi.
Friður á milli ríkja verður þó ekki tryggður í eitt skipti fyrir öll, heldur þarfnast hann stöðugrar árvekni. Í Úkraínu geisa nú ógnvænlegustu hernaðarátök sem átt hafa sér stað í álfunni frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Þessu hættuástandi hefur Atlantshafsbandalagið brugðist við af festu og einurð. Það er síðan til marks um langvarandi mikilvægi og einstaka aðlögunarhæfni bandalagsins að tvö norræn ríki, Finnland og Svíþjóð hafi ákveðið að hverfa frá langvarandi afstöðu sinni um að vera utan hernaðarbandalaga og hafa sótt um aðild.
Þýðing þessarar ákvörðunar okkar norrænu vina- og samstarfsþjóða verður seint ofmetin. Fái ríkin aðild, eins og stefnt er að, mun það skila þeim stórum ávinningi, einkum þar sem sameiginlegar varnarskuldbindingar samkvæmt 5. gr. Norður-Atlantshafssamningsins ná þá einnig til Finnlands og Svíþjóðar. Varnir og fælingarmáttur sjálfra aðildarríkjanna munu styrkjast og þar með öryggi ríkja á okkar slóðum.
Nú þegar Finnland og Svíþjóð hafa sótt um aðild að Atlantshafsbandalaginu er þess vænst að aðildarviðræður gangi greiðlega fyrir sig. Eitt aðildarríkjanna hefur til þessa hafnað því að fallast á aðild ríkjanna tveggja, en kappkostað verður að leysa þann ágreining svo unnt verði að varðveita samstöðu bandalagsins. Í raun hafa bæði ríkin uppfyllt langflest skilyrðin. Þau hafa t.d. verið aðilar að Samstarfi í þágu friðar, sem verið hefur við lýði frá árinu 1994 og lagt af mörkum til heræfinga með bandalaginu. Bæði Finnland og Svíþjóð hafa komið að æfingum í tengslum við loftrýmisgæslu á Íslandi.
Ísland hefur ávallt skipað sér í hóp ríkja sem lagt hafa áherslu á að bandalagið standi opið þeim lýðræðisríkjum sem sækjast eftir inngöngu, að því gefnu að þau uppfylltu öll viðeigandi skilyrði. Markmiðið með stækkun bandalagsins er ekki að ógna öryggi annarra ríkja heldur þvert á móti að treysta í sessi grunnstoðir lýðræðis, mannréttinda og réttarríkis og renna þannig frekari stoðum undir stöðugleika og frið í Evrópu.
Aðild Finnlands og Svíþjóðar að bandalaginu mun að mínum dómi þjóna þessu markmiði. Ég er því stolt af því að hafa í gær lagt fram tillögu til þingsályktunar þar sem óskað er heimildar Alþingis til að staðfesta fyrirhugaða viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn varðandi aðild Finnlands og Svíþjóðar, þegar þeir liggja fyrir. Ég vænti þess að tillagan hljóti skjóta afgreiðslu.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 2. júní 2022