Þegar neyðin er stærst
Síðari heimsstyrjöldin skildi stóran hluta Evrópu í rúst. Eyðilegging innviða, geigvænlegt mannfall og vonleysi almennings í kjölfar átakanna voru ekki burðugur vísir að bjartari tímum. Engu að síður var endurreisnin í kjölfar stríðsins ævintýralega hröð og innan örfárra ára höfðu lönd Vestur-Evrópu endurheimt stöðu sína sem leiðandi samfélög hvað varðar verðmætasköpun og lífsgæði. Þessi saga hefði getað orðið allt önnur og líklega réð miklu afdrifarík ákvörðun Bandaríkjamanna um veglegan stuðning við enduruppbygginguna miklu.
Nú um helgina var þess minnst að 75 ár voru liðin frá því að George C. Marshall, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kynnti metnaðarfulla efnahagsaðstoð sem æ síðan hefur verið við hann kennd. Óhætt er að segja að Marshalláætlunin hafi skipt sköpum fyrir þær sextán þjóðir sem þáðu boð um þátttöku. Með því mörkuðu þær leið frá þeirri einangrunarsinnuðu efnahagsstefnu áætlunar- og sjálfsnægtarbúskapar sem einkennt hafði viðskiptalíf í Evrópu fyrir stríð. Um leið tóku þær ákveðin skref í átt að auknu samstarfi þjóða á viðskiptasviðinu og almennri velmegun. Sú framsýna og glögga hugsun Marshall, að það væri Bandaríkjunum mikilvægt að Evrópu gengi vel, var framúrskarandi dæmi um það þegar hugsjónir og hagsmunir fara saman.
Marshalláætlunin fól ekki einungis í sér fjárhagslegan stuðning heldur var hún pólitísk í eðli sínu. Með þátttöku var þeim ríkjum sem voru með forðað frá því að falla undir þungan hramm Sovétkommúnismans. Ekki voru öll ríki svo lánsöm að eiga þess kost að grípa það tækifæri sem í Marshallaðstoðinni fólst. Uppruna mikilvægustu samstarfsstofnana Vesturlanda, þar á meðal Atlantshafsbandalagsins, má rekja til þeirra hugmynda sem lagðar voru til grundvallar Marshalláætluninni. Um var að ræða fjárfestingu í friði og hún átti eftir að reynast dýrmæt í mörgum skilningi.
Fyrir okkur Íslendinga var þátttakan í Marshalláætluninni lykilþáttur í því vaxtarskeiði sem einkenndi eftirstríðsárin en fram að því hafði ástandið verið erfitt hér sem annars staðar. Á árunum 1948-1953 hlutum við efnahagsaðstoð sem nam 38,6 milljónum Bandaríkjadala. Fjárfest var í togurum, dráttarbátum og landbúnaðarvélum og áætlunin gerði okkur einnig kleift að ráðast í ýmis stærri verkefni, svo sem Sogsvirkjun, Laxárvirkjun, áburðarverksmiðjuna í Gufunesi, steypuverksmiðju og hraðfrystihús.
Það er kunnara en frá þurfi að segja að Evrópa er enn á ný vettvangur blóðugs stríðs sem nú þegar hefur haft varanleg áhrif á öryggisumhverfi gervallrar álfunnar. Í dag hefst hér í Reykjavík varnarmálaráðherrafundur Norðurhópsins, samráðsvettvangs tólf líkt þenkjandi ríkja um öryggis- og varnarmál þar sem innrás Rússa í Úkraínu og afleiðingar hennar verða í brennidepli. Í tengslum við fundinn tökum við Ben Wallace, varnarmálaráðherra Bretlands, þátt í opinni málsstofu síðdegis þar sem Marshalláætlunina og lærdómurinn af henni verða meðal annars til umfjöllunar.
Það er ekki að ástæðulausu að nú sé talað um að huga þurfi að „nýrri Marshalláætlun“ fyrir Úkraínu. Sagan sýnir nefnilega að áætlunin skipti geysilegu máli fyrir þær þjóðir sem hana hlutu og kemur ekki á óvart að gripið sé til slíkra söguvísana við þær aðstæður sem uppi eru. Innrásin hefur ekki aðeins leitt af sér óbærilegar hörmungar yfir úkraínsku þjóðina heldur beint sjónum að þeim sameiginlegu gildum Evrópuríkja um mannréttindi og lýðræði sem raunverulega eru undir á vígvellinum í Úkraínu. Því skiptir sköpum að stutt sé við Úkraínu með ráðum og dáð, rétt eins og gert var í þágu stríðshrjáðra þjóða fyrir réttum 75 árum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. júní 2022