Varnarmál í brennidepli
Í vikunni fer fram leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins í Madríd. Eins og gefur að skilja er umtalsverð spenna í loftinu sem orsakast af þeirri gjörbreyttu stöðu öryggismála sem blasir við eftir tilhæfulausa og grimmilega innrás Rússlands í Úkraínu. Stríðsrekstur Rússlands á sér enga réttlætingu en daglega hrannast upp sannanir fyrir voðaverkum gegn úkraínsku þjóðinni. Þar að auki vaxa áhyggjur heimsbyggðarinnar af þeirri stöðu sem er uppi varðandi flutninga á landbúnaðarafurðum frá Úkraínu. Rússar halda í gíslingu matarbirgðum, sem þjóðir heims treysta á. Þetta á ekki síst við um fátækar þjóðir. Vart þarf að fjölyrða um áhrif stríðsins á framboð og orku jarðefnaeldsneytis. Vesturlönd hafa ákveðið að ekki sé verjandi að halda áfram viðskiptum við rússnesk fyrirtæki og fjármagna stríðsvél Pútíns með kaupum á eldsneyti og gasi. Vissulega fela þessar ákvarðanir í sér fórnir, sem meðal annars koma fram í hækkuðu verðlagi um heim allan, þar á meðal á Íslandi.
Það verður hins vegar ekki litið framhjá því hversu alvarlegt brot Rússlandsstjórn hefur framið á alþjóðalögum með því að hefja landvinningastríð í Evrópu gegn sjálfstæðu og fullvalda ríki. Í málflutningi mínum undanfarna mánuði hef ég oftsinnis ítrekað að Ísland á sína stöðu, sem frjálst og fullvalda ríki, algjörlega undir því að á vettvangi alþjóðamála ráði lög og reglur för, en ekki vopnavald og hótanir. Ísland á allt sitt undir því að bæði landamæri og lögsaga séu virt. Þetta verður, að mínum dómi, ekki sagt of oft.
Þurfum að sýna að við séum verðugir bandamenn
Varnarmál eru þess eðlis að flest fólk ræðir þau fremur af illri nauðsyn en einlægum áhuga. Í stjórnmálum hér á landi undanfarna áratugi hefur lítið farið fyrir umræðum um landvarnir. Þetta er í raun ákaflega jákvætt, því sannarlega er ákjósanlegra að búa án ótta við innrásir og stríðshörmungar heldur en hitt. Innrás Rússa í Úkraínu hefur breytt þessari mynd, þótt engum sé gerður greiði með því að mikla úr hófi þá hættu sem steðjar að Íslandi.
Staðreyndin er sú að Ísland býr ríkulega að því að í gegnum áratugina hefur þess verið gætt, að þrátt fyrir friðvænlega áratugi, hafi fyrirhyggjuleysi ekki verið látið ráða för. Ísland býr því að öfundsverðri stöðu þegar kemur að fyrirkomulagi varnarmála. Við erum ein af stofnþjóðum Atlantshafsbandalagsins og höfum þar að auki samning við öflugasta herveldi heims, Bandaríkin, um varnir Íslands. Þau lönd í kringum okkur, sem hafa endurskoðað varnaráætlanir sínar í kjölfar innrásarinnar, hafa flest lagt ofuráherslu á aukna alþjóðlega samvinnu og aukið útgjöld sín til varnarmála. Líklega má fullyrða að þau hefðu flest álitið sig býsna vel sett með sama fyrirkomulag og Ísland hefur, ef það stæði þeim til boða.
Engu að síður er mikilvægt að opin, yfirveguð og hreinskiptin umræða um varnir Íslands fari fram. Þar tel ég að mestu skipti að Ísland leggi sitt af mörkum til þess að undirstrika að við séum verðugir bandamenn í Atlantshafsbandalaginu og ræktum samband okkar við Bandaríkin. Frá því innrásin hófst hefur Ísland einmitt lagt áherslu á að styðja með ráðum við varnir Úkraínu. Sá stuðningur, þótt hann sé smár í sniðum, hefur vakið eftirtekt. Tekist hefur að nýta lausnamiðað hugarfar og viðbragðshraða til þess að leggja raunveruleg lóð á vogarskálarnar í samvinnu við vina- og bandalagsríki okkar.
Þótt Íslendingar séu herlaus þjóð, getum við á næstu árum og áratugum lagt sitthvað af mörkum sem getur eflt okkar eigin varnargetu með framlagi í verkefnum Atlantshafsbandalagsins. Þar má til dæmis nefna netöryggismál, margvíslega tækni sem nota má, bæði í borgaralegum og hernaðarlegum tilgangi, og nýsköpun á ýmsum sviðum. Þá verðum við að vera mjög opin gagnvart því ef okkar borgaralega framlag getur gagnast bandalagsríkjum í þeirra varnartengdu verkefnum.
Mikilvægur Madrídarfundur
Að mínum dómi þurfum við Íslendingar að horfast í augu við að á næstu árum og áratugum þarf að leggja meira af mörkum til sameiginlegra verkefna Atlantshafsbandalagsins en við höfum gert hingað til. Þetta mun kosta fjármagn, en í þeim efnum tel ég mikilvægt að við Íslendingar byggjum á okkar eigin styrkleikum, enda er það vænlegasta leiðin til þess að raunverulega muni um okkar framlag.
Ýmis vina- og bandalagsríki okkar horfa fram á raunverulega ógn og sitja jafnvel undir hótunum Rússa. Mikilvægt er fyrir umræðuna hér á landi að gera sér grein fyrir að þau lönd, til dæmis Eystrasaltslöndin, eru í allt annarri stöðu en Ísland. Engin ástæða er til að leggja áhættumat þeirra þjóða að jöfnu við okkar. Áhyggjur þessara þjóða varða sjálfan tilvistargrundvöllinn og hafa þær margar bitra og sársaukafulla reynslu af ofríki og ofbeldi Rússa í gegnum söguna. Trúverðug fæling og varnir gagnvart yfirlýstum ógnartilburðum Rússa nú eru hið yfirgnæfandi pólitíska verkefni stjórnvalda í þessum löndum.
Niðurstöður fundarins í Madríd fela meðal annars í sér ákvarðanir um varnarstöðu í þessum ríkjum. Vonandi verður fundurinn vettvangur til þess að koma hreyfingu á umsókn Svía og Finna um inngöngu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. júní 2022.