Hoppa yfir valmynd
25. júlí 2022 Utanríkisráðuneytið

Með eigin augum

Tilvist útrýmingarbúða nasista í seinni heimsstyrjöldinni var áfall fyrir heiminn. Sex milljónum manna var slátrað með skipulögðum hætti. Þótt fáir hafi á þeim tímapunkti efast um sturlunina sem hafði heltekið illmennin sem stjórnuðu Þýskalandi þá var hin kaldrifjaða framkvæmd á fjöldamorðum barna, kvenna og karla af gyðingaættum eitthvað sem nánast ómögulegt er fyrir venjulegt fólk að gera sér í hugarlund. Það virðist einhvern veginn handan hins trúanlega að til sé fólk sem getur fengið það af sér að taka þátt í að ferja heilu fjölskyldurnar um langan veg – börn og gamalmenni til jafns við karla og konur – flokka fórnarlömbin á brautarpöllum, hirða af þeim verðmæti, raka af þeim hár og hrekja þau inn í klefa til þess að láta eiturgufur drepa þau. Að þetta hafi allt verið framkvæmt af ískaldri og kaldrifjaðri yfirvegun, þar sem verkfræðilegum aðferðum var beitt til þess að hanna verkferla, smíða tól og tæki til þess að ná fram sem mestum „afköstum“ gerir þessa glæpi jafnvel enn ótrúlegri. Þessi mannvonska er svo yfirþyrmandi að það virðist nánast óraunverulegt bara að skrifa um hana.

Hættulegur undirróður

Kannski er það einmitt vegna þess hversu erfitt er að ímynda sér að manneskjur séu færar um að gera öðrum manneskjum slíka illsku að óprúttnum aðilum hefur orðið nokkuð ágengt með það í gegnum tíðina að halda fram þeirri lygi að helför gyðinga hafi hreinlega aldrei átt sér stað eða að opinber frásögn af henni sé ýkt og skrumskæld. Tilgangur lyganna er oftast nær að blása í þær glóðir andúðar og tortryggni í garð gyðinga sem víða krauma undir yfirborði samfélagsumræðunnar. Um þessar mundir er víða tilefni til að hafa áhyggjur af einmitt þess konar undirróðri, þar sem fráleitar samsæriskenningar eru spunnar upp til þess að beina hatri að gyðingum.

En þótt sómakæru og vitibornu fólki kunni að þykja það sérdeilis órúlegt að einhver falli fyrir þeim lygavaðli samsæriskenninga þá voru til svo forsjálir menn að vara við þessu frá fyrstu stundu. Á safni um helförina í Washingtonborg er að finna tilvitnun í Eisenhower hershöfðingja og síðar forseta sem hann lét falla eftir að hafa heimsótt útrýmingarbúðir nasista. „Það sem ég sá er ómögulegt að lýsa með orðum... sönnunargögn sem ég sá og munnlegur vitnisburður um hungur, grimmd og villimennsku voru yfirþyrmandi. Ég fór í þessar heimsóknir í þeim tilgangi að geta vitnað af eigin upplifun um þessa atburði, ef ske kynni að þeirrar tilhneigingar færi að gæta í framtíðinni að afskrifa ásakanirnar sem áróður.“

Áhersla Eisenhowers á að blaðamenn og stjórnmálamenn kæmu sjálfir á vettvang hinna hrikalegu glæpa var sannarlega mikilvæg. Eljan við söfnun frásagna og sönnunargagna hefur skipt miklu máli til þess að framfylgja réttætinu en ekki síður að viðhalda meðvitund um að þessir óhugsandi atburðir hafi í raun og veru gerst og að venjulegt fólk hafi reynst þess megnugt að taka þátt í skefjalausri grimmd gegn meðbræðrum sínum og systrum.

Þessum óhugnaði má mannkynið aldrei gleyma.

Fyrr í þessum mánuði sótti ég ráðstefnu sem haldin var í borginni Haag í Hollandi. Þar eru höfuðstöðvar hins alþjóðlega glæpadómstóls, en þeim dómstóli er ætlað að vera sá vettvangur þar sem réttað er yfir þeim sem grunaðir eru um að hafa framið stríðsglæpi. Umfjöllunarefnið var Úkraína og tilgangurinn að vekja leiðtoga frá þátttökulöndum til vitundar um mikilvægi þess að vandlega sé unnið að söfnun sönnunargagna svo tryggt sé að mögulegt verði að koma réttlæti yfir þá einstaklinga sem gerast sekir um stríðsglæpi í Úkraínu.

Skjól frá villimennsku

Á ráðstefnunni sjálfri var á átakanlegan hátt lýst ýmsum af þeim þaulskipulögðu illvirkjum – hryðjuverkum er líklega réttast að segja – sem framin eru af rússneska hernum í Úkraínu um þessar mundir. Þar er engu hlíft og engin grið gefin, enda virðast ómanneskjulegar aðferðir og skipulagðar misþyrmingar á almennum borgurum vera úthugsað herbragð til þess að valda skelfingu og brjóta niður mótstöðuþrek gegn innrásarliðinu. Frásagnir um kynferðisofbeldi gegn íbúum Úkraínu, konum, körlum og börnum eru nístandi. Þess háttar glæpir eru hluti af þeim hryllingi sem rússneskir hermenn hafa beitt og það er ekki síst vegna langrar sögu um slíkt skefjalaust ofbeldi gegn almennum borgurum sem löndin í austurhluta Evrópu hafa sótt svo hart að bindast bandalagi með þjóðunum í vesturhluta Evrópu og Ameríku. Það er ekki hluti af geópólískri refskák að þessi lönd vilja vera hluti af Atlantshafsbandalaginu; íbúar þeirra eru einfaldlega að reyna að tryggja sér skjól frá villimennsku.

Sama dag og ráðstefnan í Haag fór fram lenti rússnesk eldflaug í borginni Vinnitsya í austurhluta Úkraínu, mörg hundruð kílómetra frá vígstöðvunum í austur og suðurhlutanum. Eldflauginni var skotið úr kafbáti á Svartahafi og kom íbúum borgarinnar í opna skjöldu á sólríkum sumardegi. Nýjustu fréttir segja að 26 manns hafi farist í árásinni og yfir hundrað særst. Í hópi þeirra sem féllu voru þrjú börn.

Fyrr eða síðar þarf að finna leið til að koma á friði í Úkraínu, en það væri líklega skammgóður vermir fyrir veröldina ef sá friður yrði keyptur með því að fórna réttlætinu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. júlí 2022.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta