Árið þegar hugrekkið minnti á mikilvægi sitt
Allt frá morgni 24. febrúar þegar ég var vakin um miðja nótt til vegna þeirra válegu tíðinda sem bárust frá Úkraínu og fram á síðustu daga ársins hefur stríðsrekstur Rússlands í landi verið nánast alltumlykjandi í störfum mínum sem utanríkisráðherra.
Fyrstu daga innrásarinnar bar flestum saman um að varnir Úkraínu dygðu ekki nema í örfáa daga. Sjálf fór ég þó að efast um þessa bölsýni eftir því sem fleiri fréttir bárust af óbilandi baráttuanda Úkraínumanna og óförum rússneska hersins. Líklega hefur orðtækið um að dramb sé falli næst sjaldan átt betur við en um það feigðarflan Pútíns að ráðast inn í Úkraínu. Samkvæmt nýlegri úttekt New York Times hafði rússneski herinn gefið herforingjum sínum þau fyrirmæli að taka með viðhafnarbúninga fyrir sigurskrúðgöngu í Kænugarði.
Það varð líka fljótt ljóst að í Úkraínu situr maður á forsetastóli sem hefur staðið með einstakri reisn undir þeirri miklu ábyrgð að leiða þjóð sína þegar sjálfri tilvist hennar er ógnað. Eflaust rann upp fyrir mörgum á upphafsdögum stríðsins að það borgaði sig ekki að veðja gegn Selenskí þegar sveitir Pútíns sóttu að úr öllum áttum og hann fékk tilboð frá Bandaríkjunum um að honum og fjölskyldu hans yrði komið í öruggt skjól. „Ég þarf skotfæri, ekki skutl,“ voru hin ódauðlegu viðbrögð hans.
Úkraínumenn hafa þannig sameinast gegn innrás Rússa sem kristallast í ummælum Selenskís í úkraínska þinginu í árslok: „Litir Úkraínu eru orðnir alþjóðleg tákn um hugrekki og seiglu. Alls staðar þar sem fólk sér gula og bláa litinn okkar veit það að þeir snúast um frelsi. Að þeir tákna fólk sem gafst ekki upp, fólk sem sýndi þolgæði, þjóð sem sameinaði heiminn og mun fara með sigur af hólmi.“
Það sem greinir stríðið í Úkraínu frá öðrum yfirstandandi stríðsátökum er að þar er um að ræða hreinræktað landvinningastríð stórveldis. Þótt heimurinn hafi ekki verið allskostar friðsæll frá lokum síðari heimsstyrjaldar hefur nokkuð víðtæk sá ríkt um að landamærum ríkja verði ekki hnikað með vopnavaldi. Eitt af þeim ríkjum sem tóku að sér að standa vörð um þessa skipan mála voru Sovétríkin en hlutverk þeirra á alþjóðavettvangi fékk Rússland í arf. Rússland hefur því neitunarvald í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, stofnunar sem falin er „aðalábyrgð á varðveislu heimsfriðar og öryggis“, og þess vegna hefur ráðið verið vængstýft hvað varðar viðbrögð við innrásinni.
Alþjóðakerfið hefur þannig um margt verið lamað gagnvart framgöngu Rússlands og þess vegna leggja ríki heims í auknum mæli áherslu á að tryggja eigin varnir. Þar er Ísland sannarlega engin undantekning. Sem herlaust smáríki á Ísland allt undir því að alþjóðalög séu virt við úrlausn deilumála, ekki vald hins sterka. Aðildin að Atlantshafsbandalaginu, öflugasta varnarbandalagi veraldar, og varnarsamningurinn við Bandaríkin, öflugasta herveldi veraldar, tryggir Ísland sína varnarhagsmuni sína eins vel og hugsast getur fyrir svo smátt ríki. Það eru raunar ekki einungis fámennar og herlausar þjóðir sem telja stöðu sína best tryggða með alþjóðlegri samstöðu. Bæði Svíar og Finnar sem ráða yfir öflugum herjum sóttu á nýliðnu ári um að ganga í Atlantshafsbandalagið.
Þrátt fyrir herleysi hefur Ísland skyldum að gegna. Í fyrsta lagi kemur ekki annað til greina en að Ísland taki einarða afstöðu með Úkraínu gegn hinu ólögmæta innrásarstríði Rússlands. Þar skorumst við ekki undan því að taka þátt í efnahagslegum og pólitískum refsiaðgerðum meðan stjórnvöld í Rússland troða undir fótum sér öll grundvallargildi alþjóðakerfisins. Í öðru lagi mun Ísland halda áfram að leggja sitt af mörkum til þess að vera hvati að jákvæðri keðjuverkun þegar tækifæri skapast til að gera gagn í alþjóðlegu samhengi. Í þriðja lagi hefur Ísland leitast við að styðja með beinum hætti við Úkraínu, hvort sem er á sviði varna landsins, rekstrar grunninnviða eða mannúðarstuðningi. Á upphafsdögum stríðsins gat Ísland til að mynda stutt með mikilvægum hætti við varnir Úkraínu með því að fljúga með skotfæri sem komin voru í hendur varnarsveita örfáum dögum eftir innrásina.
Ísland getur stundum fundið tækifæri til þess að láta til sín taka í krafti smæðarinnar. Það verður áfram leiðarstef utanríkisþjónustunnar undir minni forystu.
Á nýliðnu ári vorum við minnt á fallvaltleika heimsins með óþægilegum hætti. Þótt Ísland sé friðsælasta land heims og fátt bendi til að alvarlegar ógnir steðji að öryggi okkar er værukærð ekki valkostur. Um leið erum líka minnt á að þegar kemur að varnarhagsmunum Íslands tryggjum við best okkar eigin hagsmuni með því að vera verðugir bandamenn þeirra ríkja sem sameinast hafa um varnir á Norður-Atlantshafinu og með því að standa vörð um alþjóðalögum og alþjóðakerfið hér eftir sem hingað til.
Okkar framlag er vissulega harla lítið í samanburði við vinaþjóðir sem þola miklu harkalegri efnahagslegar afleiðingar stríðsins – svo ekki sé talað um hina hugrökku úkraínsku þjóð sem berst með lífi sínu gegn ofbeldi og yfirgangi Rússa. Allt það sem við getum lagt af mörkum leggjum við hins vegar fram án þess að hika. Það krefst ekki mikils hugrekkis fyrir okkur að standa með réttum málstað í þeim efnum. Samstaða íslensku þjóðarinnar um þetta er afdráttarlaus.
Nýhafið ár mun áfram litast mjög af stríðinu í Úkraínu og Ísland verður áfram að leita leiða til að gera gagn í þeim efnum. Í vor mun Ísland fá tækifæri til þess að leggja sitt stærsta lóð á þær vogarskálar þegar leiðtogafundur Evrópuráðsins verður haldinn í Reykjavík. Hvort sem það er í formi þess að skapa góðan vettvang til þess að minna á verðmæti lýðræðis, mannréttinda og réttarríkis; í því að sýna frumkvæði og forystu í mikilvægum mannréttindamálum; að gera skyldu okkar í þróunar- og mannúðarmálum eða vera verðugir bandamenn þeirra þjóða sem standa okkur næst verðum við að hafa metnað til þess að sinna skyldum okkar af þeim metnaði og trúmennsku sem sjálfstætt og fullvalda Ísland á skilið.
Gleðilegt nýtt ár.
Greinin birtist í Kjarnanum 4. janúar 2023