Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2023 Utanríkisráðuneytið

Ár frá ólöglegri innrás

Í dag minnumst við þess að ár er liðið frá því rússneskur her gerði tilefnislausa og grimmilega innrás í Úkraínu. Enginn veit hversu margir hafa týnt lífi í þessum stríðsrekstri sem Rússland ber eitt ábyrgð á. Hitt er ljóst að tilvera milljóna manna hefur tekið grundvallarbreytingum. Í stað þess að fást við venjuleg viðfangsefni daglegs lífs – sinna vinnu, fjölskyldu og öðru því sem við flest njótum þeirra forréttinda að geta sinnt – hefur grundvelli tilverunnar verið kippt undan þeim.

Fjölmargir hafa látið lífið, enn fleiri misst allt sitt, milljónir eru á flótta og fjöldi fólks, hugsanlega hundruð þúsunda, hafa verið flutt nauðungarflutningum til Rússlands. Kynferðisofbeldi hefur kerfisbundið verið beitt sem vopni í stríði og mannréttindabrot eru talin í tugþúsundum. Djúp sár, bæði á líkama og sálu, munu seint gróa.

Strax að morgni 24. febrúar fordæmdu íslensk stjórnvöld innrásina enda er hún skýrt brot á alþjóðalögum. Við ákváðum um leið að taka fullan þátt í efnahagslegum og pólitískum refsiaðgerðum gegn Rússlandi og helstu bandamönnum þess í ólögmætu innrásarstríði.

Landamærum ekki hnikað með vopnavaldi

Frá lokum síðari heimsstyrjaldar hefur alþjóðakerfið staðið vörð um þá meginreglu stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna að landamærum ríkja verði ekki hnikað með vopnavaldi og hefur sú varðstaða átt drjúgan þátt í því að undanfarnir áratugir hafa reynst meðal þeirra friðsælustu í veraldarsögunni. Landvinningastríð Rússlands, sem á sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, er mjög alvarlegt brot á þessari grundvallarreglu. Alþjóðakerfi þar sem skorið er úr um ágreining og deiluefni þjóða með skráðum lögum og reglum réttarríkis, en ekki með hnefarétti og vopnavaldi, er ekki bara fögur hugsjón heldur grundvöllur tilveru okkar allra sem byggjum þennan heim.

Fámennt og herlaust ríki á borð við Ísland á tilveru sína og velsæld undir því að þessar reglur séu virtar. Og venjulegt fólk um heim allan á allt sitt undir því að tilveru þess sé ekki snúið á hvolf í vopnaskaki og stríðsrekstri. Að því leyti er hetjuleg barátta úkraínsku þjóðarinnar í þágu okkar allra.

Framganga Rússlands hefur verið fordæmd nánast einróma á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðastofnana, til dæmis Evrópuráðsins, Atlantshafsbandalagsins og ÖSE, en líka á vettvangi norrænnar samvinnu og í samstarfi norðurslóðarríkja. Samstaðan er líka skýr í þjóðfélaginu, skoðanakannanir sýna að íslenska þjóðin tekur einarða afstöðu með Úkraínu. Sömu sögu er að segja af Alþingi þar sem algjör samstaða hefur verið um að Ísland standi með Úkraínu og leiti allra leiða til þess að verða málstað hennar að gagni.

Málstaður Úkraínu studdur hvarvetna

Á alþjóðavettvangi hefur Ísland stutt málstað Úkraínu hvar sem því verður við komið. „Norðurlönd - afl til friðar“ er yfirskrift formennskuárs Íslands í Norrænu ráðherranefndinni enda hafa norrænu ríkin komið fram saman á alþjóðavettvangi sem boðberi réttláts friðar og samvinnu. Í vor eiga svo augu umheimsins eftir að beinast að Íslandi þegar 46 aðildarríki Evrópuráðsins koma saman til leiðtogafundar í Reykjavík þar sem innrásin í Úkraínu og afleiðingar hennar verða í brennidepli. Í ljósi grunngilda Evrópuráðsins – lýðræðis, mannréttinda og réttarríkisins – verður sjónum meðal annars beint að ábyrgðarskyldu vegna skelfilegra glæpa sem framdir hafa verið í innrásarstríðinu. 

Orðum og yfirlýsingum hafa fylgt markvissar aðgerðir af hálfu Íslands í samræmi við óskir og þarfir Úkraínumanna. Við höfum lagt ríka áherslu á að styðja við Úkraínu, bæði með mannúðar- og efnahagsstuðningi en líka með framlögum til að styrkja grunninnviði, orkukerfi og varnir. Í fyrra nam stuðningur íslenska ríkisins við Úkraínu um 2,2 milljörðum króna og í ár verður hann ekki lægri. Á upphafsdögum innrásarinnar gat Ísland stutt við úkraínska herinn með því að flytja skotfæri til landsins þegar mest reið á. Skömmu fyrir jól sendum við vetrarbúnað af ýmsu tagi og fyrir dyrum stendur svo þjálfunarverkefni á sviði sprengjueyðingar í samvinnu við Norðurlöndin en á því sviði hefur Ísland mikilvægri þekkingu að miðla. Íslenska þjóðin hefur síðan sýnt stuðning í verki, hvort heldur með ullarfötum, beinum fjárframlögum eða með því að skjóta skjólshúsi yfir rúmlega 2.600 Úkraínumenn sem hér hafa fengið alþjóðleg vernd. Þjóðin á þakkir skildar fyrir að leggja sitt af mörkum með svo afgerandi hætti.

Í ríkisstjórn Íslands er samstaða um það markmið að framlög Íslands séu í samræmi við það sem Norðurlöndin leggja af mörkum og þar getum við Íslendingar gert betur en við höfum hingað til gert. Efnahagslegt framlag er smávægilegt í samanburði við þær miklu fórnir sem úkraínska þjóðin hefur þurft að færa undanfarið ár. Við stöndum því með úkraínsku þjóðinni eins lengi og þörf krefur og gerum það sem þarf.

Sameiginleg grein Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra birtist í Morgunblaðinu 24. febrúar 2023, þegar ár var liðið frá upphafi innrásar Rússlands í Úkraínu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta