Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2023 Utanríkisráðuneytið

Ávarp á ráðstefnunni Alþjóðasamvinna á krossgötum

Kæru ráðstefnugestir.

Eins og góð venja hefur skapast til þá hittumst við hér á síðasta degi vetrar í Norræna húsinu til þess að ræða stöðu alþjóðamála undir yfirskriftinni: Alþjóðasamvinna á krossgötum - hvert stefnir Ísland?

Mér finnst það áhugavert að Alþjóðamálastofnun hefur notast við þessa yfirskrift að minnsta kosti í nokkur síðustu ár: Alþjóðasamvinna á krossgötum. 

Tekur aldrei við beinn og breiður vegur þar sem framtíðin er fyrirsjáanleg - að minnsta kosti næsta árið? Stöndum við sífellt á krossgötum?

Maður spyr sig… og í  ýmsum skilningi er það vitaskuld málið. Sagan tekur ekki endilega risastórar og óvæntar beygjur, heldur mótast af þeim smáu ákvörðunum sem teknar eru á hverjum degi.

Það felst því sannleikur í því að líta svo á að við séum sífellt á einhvers konar krossgötum. Á hverjum degi og á hverju ári horfumst við í augu við ýmsa valkosti og rétt eins og í góðri bíómynd um tímaflakk þá mótast framtíðin með ólíkum hætti útfrá því hvaða ákvarðanir við tökum hverju sinni.

Ákvarðanir sem virðast lítilvægar þegar þær eru fyrst teknar geta leitt til stórbrotinna afleiðinga. Og að sama skapi geta ákvarðanir sem virðast stórar í fyrstu reynst afdrifalitlar þegar allt kemur til alls.

Stundum veltir litla þúfan þungu hlassi - og stundum stafar mesti hávaðinn af því þegar barið er í tóma tunnu.

Stundum eru valkostirnir á krossgötunum afgerandi og frekar augljóst í hugum flestra okkar hvaða leið skuli velja. Þegar Rússland hóf allsherjarinnrás sína í Úkraínu held ég að fáum hafi komið annað til hugar en að það væri réttur og augljós kostur að velja þá leið að standa með Úkraínu og taka afstöðu gegn Rússlandi. 

Það er líka svo að á Íslandi er yfirgnæfandi stuðningur við Úkraínu. Nýleg könnun sem gerð var í öllum ríkjum Atlantshafsbandalagsins sýndi að 87% svarenda á Íslandi eru hlynnt áframhaldandi stuðningi við Úkraínu, þar af sögðust  62%  mjög hlynnt, og var það hlutfall hvergi hærra í bandalagsríkjunum.

En stundum eru valkostirnir á krossgötunum ekki eins afgerandi eða augljósir. Þegar Rússland sölsaði undir sig Krímskaga árið 2014 voru viðbrögð Vesturlanda önnur og miklu veikari. Ýmis konar refsiaðgerðir voru vissulega samþykktar, en ég held það sé óhætt að fullyrða að flest okkar hafi ekki órað fyrir því að átta árum síðar kæmu stjórnvöld í Kreml til með að fyrirskipa innrás í landið allt í því skyni að sölsa það undir sig eða gera það að einhvers konar hjálendu.

Árið 2014 og árin á eftir hugsuðu margir að það skipti eflaust ekki svo miklu hvora leiðina við tækjum á krossgötunum. Bæði hér innanlands og víða annars staðar virtust valkostirnir á krossgötunum ruglingslegir. Ættum við að leyfa þessari hegðun að viðgangast en halda áfram að þróa og þroska viðskiptasambönd og vona að sameiginlegir hagsmunir kæmu til með að gera frekari átök óhugsandi? Eða ættum við að velja þann kost að draga línu í sandinn gagnvart ofbeldisseggjum og færa þær efnahagslegu fórnir sem þarf til þess að sýna samstöðu með alþjóðalögum. 

Þó má segja að eftirá að hyggja að krossgöturnar árið 2014 hafi ráðið meiru en þær sem við stóðum á fyrir ári síðan.

Eða voru það kannski voru það krossgöturnar sem við stóðum á árið 2008 þegar Rússland gerði innrás í Georgíu til að sölsa undir sig Suður-Ossetíu sem réðu mestu? Hefði það haft afgerandi áhrif á framvindu heimsmála ef alþjóðasamfélagið hefði áttað sig á fyrirætlunum Pútíns þá?

Hvað með þegar Mikael Kodorkovskí var fangelsaður árið 2004 og augljóst var að réttarríkið í Rússlandi var hrunið, eða þegar blaðakonan Anna Politskaya var myrt árið 2006, þegar meðlimir Pussy Riot voru fangelsaðir árið 2012 fyrir að kyrja í kirkju ákall til Maríu guðsmóður að bannfæra Pútín. Voru stóru krossgöturnar þegar eitrað var fyrir Skripal feðginunum árið 2018?  Hefði gjöreyðing Grozný um aldamótin átt að gefa Vesturlöndum nægilegar vísbendingar um hvers lags vegferð Rússlands Pútíns yrði á?

Svona „hvað ef“ vangaveltur eru auðvitað fyrst og fremst akademísk hugarleikfimi. En það er jú tilgangurinn með fundinum hér í dag og þeirri umræðu sem á sér stað á vettvangi háskólans, fræðimanna, álitsgafa og áhugafólks um alþjóðamál.

Og það er auðvitað leiðin til þess að læra - að velta fyrir sér fortíðinni, læra af henni. Þannig aukum við líkurnar á því að taka réttu beygjurnar á næstu krossgötum.

Þótt Úkraínustríðið sé okkur ofarlega í huga nú þá má færa rök fyrir því að það sé í raun hryllilegasta birtingarmyndin á útbreiddum og langvarandi átökum um hvernig heimi við viljum lifa í.

Nú um stundir þykir töluvert til siðs að velta fyrir sér spurningunni hvort það fyrirkomulag sem byggist á frjálslyndu lýðræði og borgaralegum mannréttindum kunni að eiga undir högg að sækja.  Innan Evrópu hefur afturhaldsöflum til hægri og vinstri vaxið fiskur um hrygg. Á fátækari svæðum heimsins er því haldið að almenningi að alþjóðakerfi sem byggist á þessum gildum sé grunsamleg vestræn innflutningsvara.

Staðreyndin er hins vegar sú að frjálslynt lýðræði sem byggist á virðingu fyrir réttindum einstaklingsins er sú samfélagsmynd sem skapað hefur mesta mannlega velferð og efnahagslega velsæld í mannkynssögunni.  Það veitir okkur ágæta vísbendingu um hvort það sé þess virði að berjast fyrir þessum gildum.

Ég vil trúa því að lærdómurinn sem helst blasir við þegar við hugsum um allar þessar krossgötur undanfarinna ára sé hugsanlega sá að í stað þess að stara ofan í jarðveginn og velja þá leið sem lítur út fyrir að vera þægilegri eða greiðfærari til skamms tíma þá sé líklegra til árangurs að horfa til himins og fylgja þeim leiðarstjörnum sem við trúum að vísi okkur í rétta átt.

Við eigum að spyrja hvað er best fyrir alþjóðalög og alþjóðasamvinnu? Það er leiðin sem er best fyrir Ísland.

Við spyrjum hvernig við getum verið verðugir bandamenn þeirra ríkja sem standa vörð um öryggi og frið í okkar heimshluta? Við skorumst ekki undan ábyrgð í þeim efnum.

Við eigum að spyrja hvaða leið liggur í áttina til lýðræðis og jafnréttis í heiminum? Það er rétta leiðin fyrir Ísland.

Hvaða leið á krossgötunum vísar í áttina til sterkara réttarríkis og viðskiptafrelsis? Það er leiðin sem tryggir Íslendingum mesta velsæld.

Og við eigum að spyrja, hvaða leið liggur til borgaralegra mannréttinda, frelsis og sköpunar? Það er leiðin sem samræmist best hagsmunum Íslands.

Kæru gestir.

Hvað gerist þegar þjóð stendur á krossgötum og velur á milli þess að berjast fyrir því að komast inn í hóp frjálslynda lýðræðisríkja eða beygja sig í duftið fyrir ofbeldisógnum afturhaldsafla? Hvað gerist þegar fólkið í Úkraínu velur á milli niðurbælingar manneskjunnar í nafni dýrkunar á Pútín eða upphafningu mannsandans í nafni einstaklingsréttinda og frelsis?

Til dæmis gerist það að samfélagið þroskast hratt í áttina frá fordómum í áttina að skilningi. Í grein sem birtist í Foreign Policy fyrr í vikunni segir að frá 2016 hafi hlutfall Úkraínumanna sem sýna andúð í garð LGBTQ hópum lækkað úr 60% í 38% - og sífellt eykst stuðningur við að taka stór skref í átt til jafnréttis. Meðal þess sem drífur áfram þessa þróun er að annars vegar þegar fréttir berast af samkynhneigðum hermönnum sem fallið hafa í orrustum til að verja bræður sínar og systur—og hins vegar þá hefur hið aumkunarverða hommahatur sem pólitík Pútíns byggist í auknum mæli á einfaldlega þau áhrif að stór hluti Úkraínumanna hugsar með sér hvort þeir vilji virkilega vera í sama liði og hann. Úkraína á enn langt í land í þessum efnum, en ólíkt Rússlandi þá er hreyfingin afgerandi og hröð í rétta átt.

Ágætu ráðstefnugestir.

Sjálf kem ég hér í fyrsta sinn í hlutverki mínu sem utanríkisráðherra, en ég gat ekki verið hér á síðasta ári vegna ferðalaga. En ég er ákaflega þakklát fyrir að fá að vera með ykkur hér í dag og ég vil sérstaklega þakka Alþjóðamálastofnun fyrir að sinna því mikilvæga hlutverki að vera vettvangur frjórrar og áhugaverðrar umræðu um alþjóðamál hér á landi. Vitsmunaleg og vönduð fræðileg umfjöllun um alþjóðamál leiðir til aukins þroska í almennri umræðu og bættri ákvarðanatöku - og betra leiðarvals á öllum þessum viðsjárverðu krossgötum.

Nú er rétt um mánuður þar til haldinn verður fjórði leiðtogafundur Evrópuráðsins. Hann verður haldinn í Reykjavík og helsta tilefni fundarins er að staðfesta þau heit sem aðildarríkin hafa strengt um að standa vörð um lýðræði, mannréttindi og réttarríkið. Ástand heimsins er þannig að slík áminning er þörf. Og ég er vongóð um að þessi fundur reynist heilladrjúgur fyrir þessi dýrmætu gildi og að okkur Íslendingum auðnist að uppfylla hlutverk okkar þannig að sómi sé að. 

Þetta var sú hugsun sem réð mestu um að ég tók ákvörðun um að gefa hugmyndinni um leiðtogafund á Íslandi undir fótinn þegar hún kom fyrst upp fyrir tæpu ári síðan. Á þeim krossgötum hefði verið einfalt að víkja sér undan verkefninu - en með því að horfa frekar á leiðarstjörnuna heldur en jörðina fyrir framan okkur var niðurstaðan skýr. Ísland hefur ekki efni á að láta sitt eftir liggja.

Ísland á að leggja sitt af mörkunum. Það er sú leið sem Ísland á að vera á. Þangað eigum við að stefna.

Takk fyrir.

Erindi flutt á ráðstefnu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og utanríkisráðuneytisins í Veröld - húsi Vigdísar síðasta vetrardag 2023.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta