Hoppa yfir valmynd
01. nóvember 2023 Utanríkisráðuneytið

Ávarp á þingfundi Norðurlandaráðs fyrir hönd utanríkisráðherra Norðurlanda

Forseti, kæra samstarfsfólk og vinir.

Mig langar að byrja á að þakka landsdeild Noregs í Norðurlandaráði fyrir sérstaklega góðar móttökur hér í Osló. 

Það er mér sönn ánægja að vera hér í Osló, í fyrsta sinn sem utanríkisráðherra og taka þátt í Norðurlandaráðsþingi 2023, hafa tækifæri til þess að hitta norrænt samstarfsfólk og festa frekar í sessi þá djúpu vináttu og það traust sem norrænt samstarf byggir á.

Mér er heiður af því að fá að flytja hér skýrslu um samstarf norrænu utanríkisráðherranna á formennskuári Íslands. Á þeim tíma hafa Norðurlöndin viðhaldið sínu góða og tíða samráði á sviði utanríkismála. 

Innrásarstríð Rússlands í Úkraínu og víðtæk áhrif þess á alþjóðavettvangi hefur verið okkar helsta viðfangsefni undanfarin misseri. Norðurlöndin hafa lagt sig fram um að styðja dyggilega við varnarbaráttu Úkraínu og tekið þátt í samstöðuaðgerðum gagnvart Rússlandi.

Barátta Úkraínu snýst ekki eingöngu um úkraínskt land og þjóð, heldur öryggi Evrópu, virðingu fyrir þjóðarétti, landamærum og landhelgi; seiglu alþjóðakerfisins og þeirra hugsjóna og gilda sem liggja því til grundvallar. 

Þau straumhvörf sem innrásin olli endurspegluðust í ákvörðun Finnlands og Svíþjóðar um að sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu. Það var stór stund í Norðurlandafjölskyldunni þegar fáni Finnlands sem aðildarríkis var dreginn að húni í fyrsta skipti í höfuðstöðvum bandalagsins, og nú hillir undir inngöngu Svíþjóðar. 

Sem aðildarríki munu Finnland og Svíþjóð auka mátt bandalagsins til að tryggja öryggi í álfunni og gera samstarf Norðurlandanna enn nánara. Við vonumst sannarlega til þess að á 75 ára afmælisfundi bandalagsins í Washington D.C. næsta sumar verði fimm norræn aðildarríki við borðið.

Áhrif stríðsins í Úkraínu hafa náð langt út fyrir Evrópu með sveiflum á orkuverði, korni og áburði sem bitna verst á fátækustu ríkjunum og grafa undan stöðugleika. Norðurlöndin hafa einsett sér að vinna saman að því að efla og treysta samskipti við ríki sem finnst þau ekki fá hljómgrunn innan alþjóðastofnana og var nýafstaðinn fundur Norðurlandanna og fjölmargra Afríkuríkja í Alsír var liður í því. 

Hver eyrir í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð hrekkur nú skemur, á tímum þar sem fleiri en nokkru sinni þurfa á hjálp að halda. Stríðið hefur einnig afhjúpað mikilvægi orkuöryggis og aðgengis endurnýjanlegum orkugjöfum og þar eru Norðurlöndin í fararbroddi. 

Við berum einnig ríka ábyrgð á sjálfbærni og stöðugleika á norðurslóðum, þar sem loftslagsbreytingar birtast okkur hvað skýrast með tilheyrandi áhrifum á náttúru, lífskjör og öryggi heimsbyggðarinnar allrar. 

Norðurlöndin eiga ríkt samráð um vaxandi mannúðarkrísur og óstöðugleika í heiminum. Meðal annars höfum við öll reynt að bregðast við þeirri neyð sem hefur skapast meðal almennra borgara í Afganistan án þess að styðja með beinum eða óbeinum hætti stjórn talibana, sem hefur farið fram með nokkurs konar aðskilnaðarstefnu á grundvelli kyns.

Átökin sem brotist hafa út fyrir botni Miðjarðarhafs eru þau alvarlegustu í áraraðir. 

Hrottalegar hryðjuverkaárásir Hamas á Ísrael hafa vakið óhug og Norðurlöndin hafa sýnt Ísraelum samhug og ítrekað rétt þeirra til sjálfsvarnar á sama tíma og þau hafa lagt áherslu á að farið sé að alþjóðalögum, vernd óbreyttra borgara verði tryggð og kallað eftir því að hlé verið gert á átökunum til að auðvelda aðgengi fyrir lífsbjargandi mannúðaraðstoð. Þá þarf að huga strax að varanlegri pólitískri lausn sem felst í því að tvö ríki fái lifað í samlyndi á svæðinu, eins og gert var ráð fyrir í upphafi. 

Við höfum ekki farið varhluta af aukinni spennu á alþjóðasviðinu. Þar kristallast ólík sýn á alþjóðalög og reglur í alþjóðaviðskiptum, grundvallarmannréttindi og frelsi. Flest eigum við gott samstarf við Kína og við erum sammála um að þræða einstigið sem í því felst; að gera kröfu um að öll ríki, stór og smá, standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Við leitum samstarfs um lausnir á stærstu áskorunum alþjóðasamfélagsins, en verjum okkur einnig fyrir mögulegum áföllum og ógnum.

Við erum þakklát fyrir góð lífsskilyrði, frelsi og mannréttindi sem við á Norðurlöndunum búum við. Þau hafa hins vegar ekki orðið til af sjálfu sér. Við höfum unnið að þeim hörðum höndum og munum áfram gera til að varðveita þau verðmæti sem í þeim felast. 

Í ljósi reynslunnar geta Norðurlöndin reynst góðir brúarsmiðir meðal þjóða heims og við höfum sammælst um að leggja okkar lóð á vogarskálarnar í þeim efnum. Samstarf okkar á alþjóðavettvangi er ómetanlegt, sérstaklega á óvissutímum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta