Hoppa yfir valmynd
01. nóvember 2023 Utanríkisráðuneytið

Ávarp á þingfundi Norðurlandaráðs vegna greinargerðar varnarmálaráðherra Norðurlanda

Forseti,  

Ég vil byrja á því að þakka þér Bjørn Arild (Gram), fyrir góðar móttökur hér í Osló. 

Ég vil einnig þakka Pål (Jonson) fyrir metnaðarfullu formennsku sem Svíþjóð hefur leitt innan NORDEFCO í ár á krefjandi tímum þegar við erum að aðlaga okkur að nýjum veruleika í öryggis- og varnmálum. 

Eins og önnur norræn samvinna er NORDEFCO dýrmætur samstarfsvettvangur sem hefur ótvírætt gildi frammi fyrir breyttu öryggisumhverfi í kjölfar árásarstríðs Rússa gegn Úkraínu og þeim áskorunum sem nú steðja að okkur úr ýmsum áttum.

Ég fagna því að Finnland sé orðið aðili að Atlantshafsbandalaginu og það þarf að tryggja að Svíþjóð verði fullgildur meðlimur sem allra fyrst. 
Þátttaka Norðurlandanna í Atlantshafsbandalaginu mun auka öryggi allra bandalagsríkja. Náið samráð Norðurlandanna, einkum innan NORDEFCO, eflir varnir bandalagsins í norðri, styrkir stöðuvitund og gerir okkur betur í stakk búin til þess að takast á við þær ógnir og áskoranir sem að okkur steðja. Síðast en ekki síst verðum við saman betri og öflugri bandamenn. 

Þegar Pútín hóf innrásarstríð sitt í Úkraínu var samstaða líkt þenkjandi ríkja sterk og einhugur um að stuðningur við Úkraínu héldi áfram þar til stríðinu lyki með sigri Úkraínu. 

Nú geisa einnig átök fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem almennir borgarar eru á meðal þeirra sem láta lífið, líkt og í Úkraínu. 
Auk stríðsins og þeirra voðaverka sem þar eru viðhafin verðum við einnig vitni að pólitískri atlögu að samheldni líkt þenkjandi ríkja, skemmdarverkum, falsfréttum og tilraunum til að grafa undan lýðræðislegum gildum og alþjóðalögum.

Samstaða okkar hefur því aldrei verið eins mikilvæg sem og að verja þau grunngildi sem endurspeglast í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og hafa verið leiðarljósin í málflutning Norðurlandanna á alþjóðavettvangi. 

Takk fyrir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta