Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2023 Utanríkisráðuneytið

Ávarp á fundi Varðbergs 14. nóvember 2023

(Talað orð gildir)

 

Kæru fundargestir,

Ég vil byrja á að þakka Varðbergi fyrir að bjóða mér hingað í dag og félagsmönnum fyrir að halda á lofti umræðu um þennan mikilvæga málaflokk. Þar vil ég sérstaklega nefna Björn Bjarnason sem hefur öðrum fremur fjallað um þessi mál af mikilli þekkingu og metnaði.

Varnarmál hafa ekki alltaf átt upp á pallborðið í stjórnmála- og þjóðmálaumræðunni og í gegnum tíðina oft skipt fólki í fylkingar.

Stærstu gæfusporin í öryggismálum þjóðarinnar, aðildin að Atlantshafsbandalaginu 1949 og varnarsamningurinn við Bandaríkin 1951, voru umdeild. Það þurfti framsýni og djörfung til að feta þá braut. Eflaust eru þó fáir eftir sem efast um þessa vegferð í dag.

Skoðanakannanir sýna að meðal ríkja Atlantshafsbandalagsins er stuðningur við aðild að bandalaginu óvíða eins mikill og hér.

Þjóðaröryggistefnan sem samþykkt var á Alþingi árið 2016 og uppfærð á síðasta ári skapaði breiða pólitíska sátt um þessar grunnstoðir í öryggis- og varnarmálum þjóðarinnar. Hún felur í sér leiðarljós sem mikilvægt er að byggja á þegar við tökumst á við nýjan veruleika í alþjóðamálum.

Það er ekki ofsagt að við stöndum frammi fyrir ástandi sem á sér varla hliðstæðu frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Við horfum upp á blóðugt stríð í hjarta Evrópu, hryllileg átök í Miðausturlöndum og vaxandi spennu í alþjóðasamskiptum. Samhliða þessu eiga alþjóðalög, mannréttindi, opnir markaðir og lýðræði undir högg að sækja, sérstaklega vegna alræðisríkja sem telja sig geta farið með alþjóðleg réttindi og skyldur eins og þeim hentar, á kostnað eigin borgara og okkar allra.

Árásarstríð Rússlands, eins af fastaríkjum öryggisráðsins, gegn Úkraínu, er auðvitað skýrasta dæmið. Stríðið hefur gjörbreytt öryggisumhverfi Evrópu og hefur áhrif um heim allan. Það er líka mikilvæg áminning um að það er ekki nóg að vonast eftir friði og öryggi. Það vita íbúar Úkraínu sem hafa barist af hörku og hugrekki gegn rússnesku innrásarliði í bráðum tvö ár.

Barátta þeirra er okkar barátta, barátta fyrir grunngildum og fullveldisrétti sem hafa verið grunnurinn að hagsæld og friðsamlegum samskiptum ríkja. Það þekkjum við Íslendingar öðrum fremur eftir að hafa þurft að standa á rétti okkar gagnvart stærri ríkjum í gegnum tíðina. En stríð verður ekki unnið með hugrekkið eitt að vopni eins og Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins hefur áréttað, það þarf vopn og varnir.

Þess vegna höfum við lagt ríka áherslu á að styðja við Úkraínu, líka með beinum stuðningi við varnir landsins. Ísland hefur sett fjármagn í sjóði sem kaupa hergögn, tekið virkan þátt í þjálfunarverkefnum með því að senda til þess íslenska sérfræðinga í sprengjueyðingu og bráðahjúkrun.

Færanlega neyðarsjúkrahúsið, sem Alþingi sameinaðist um að kaupa, hefur nú verið tekið í notkun Úkraínu. Sum af þessum verkefnum hefðu sennilega verið óhugsandi fyrir nokkrum árum en okkur þykir þau sjálfsögð í dag.

Stuðningur við Úkraínu verður því áfram forgangsverkefni í mínu ráðuneyti. Það þarf að ramma þann stuðning inn til lengri tíma, eins og margir bandamenn hafa gert, svo Rússar fái skýr skilaboð um að tíminn vinni ekki með þeim.

Ef Rússland nær sínu fram mun það hafa bein áhrif á okkar öryggishagsmuni til langrar framtíðar og grafa undan alþjóðalögum og þeim stofnunum sem risu úr öskustó seinni heimstyrjaldarinnar.

Þá megum við ekki gleyma að önnur alræðisríki fylgjast náið með því hvort við stöndum í lappirnar og munu leita færis ef við beygjum af leið.

Stríðið hefur verið ein allsherjar sneypuför fyrir Rússland. Hagkerfið, landherinn, alþjóðleg staða og jafnvel stjórnartaumar Pútíns eru í uppnámi. Atlantshafsbandalagið, sem verður 75 ára á næsta ári, stendur sameinað sem aldrei fyrr og frændur okkar Finnar og Svíar hafa yfirgefið rótgróna stefnu um að standa utan varnarbandalaga.

Þrátt fyrir þetta er fátt sem bendir til þess að feigðarflan rússneskra stjórnvalda komi til með að breytast, þvert á móti. Rússland heldur áfram stríðsrekstrinum í Úkraínu, hefur í hótunum um notkun kjarnavopna og beitir fyrir sig öllum brögðum til að grafa undan bandalagsríkjum, nægir þar að benda á netárásir og margvíslegan undirróður.

Landherinn er vissulega í molum en floti og flugher, ekki síst sú geta sem er á norðurslóðum, er enn til staðar - og erfiðara er að spá fyrir um hvað ræður ákvarðanatöku rússneskra stjórnvalda.

Já, vonin kemur ekki í stað áætlana og viðbúnaðar. Atlantshafsbandalagið hefur þess vegna markvisst unnið að því, allt frá ólöglegri innlimun Rússlands á Krímskaga 2014, að efla fælingar- og varnargetu til að tryggja öryggi eigin borgara gagnvart hefðbundnum hernaðarógnum, hryðjuverkum og margvíslegum fjölþáttaógnum.

Bandalagið er þannig að  snúa sér aftur að nærvörnum og þeirri getu sem þarf til að verja eigin heimaslóð eftir að hafa sinnt aðgerðum á fjarlægari slóðum um árabil.

Þessi áhersla birtist skýrt í nýrri grunnstefnu bandalagsins sem samþykkt var á leiðtogafundinum í Madrid 2022. Leiðtogar bandalagsins hafa einnig samþykkt að auka framlög til varnarmála, að lágmarki 2% af vergi landsframleiðslu og efla þátttöku í sameiginlegum verkefnum.

Bandalagsríkin eru þess vegna að stórauka fjárfestingar í varnargetu og viðbúnaði, nýjar varnaráætlanir hafa litið dagsins ljós, nýjar herstjórnir  hafa verið settar á fót og búið er að efla viðbúnað og eftirlit á nær öllu ábyrgðasvæði bandalagsins, líka á Íslandi.

Það er ekki lengur valkvætt að taka þátt og axla ábyrgð. Ég mun beita mér fyrir því að við, eins og önnur bandalagsríki, leggjum enn meira af mörkum, bæði hér heima og í fjölþjóðlegu varnarsamstarfi.

Mikilvægasta framlag Íslands er og hefur verið landfræðileg staða í miðju Norður-Atlantshafi sem hefur nú fengið stóraukið vægi. Við rekum íslenska loftvarnarkerfið, varnarinnviði og veitum gistiríkjaþjónustu á öryggissvæðinu í Keflavík. Ísland styður þannig eftirlit og viðbúnað á grundvelli gagnkvæmra varnarskuldbindinga.

Samstarf utanríkisráðuneytisins og Landhelgisgæslunnar hefur verið farsælt en varnarmálasvið gæslunnar sér fyrir hönd ráðuneytisins um framkvæmd varnartengdra verkefna á grundvelli samnings.

Umsvifin í Keflavík hafa vaxið mjög á síðustu árum, sérstaklega í tengslum við kafbátaleit Bandaríkjanna sem birtist í aukinni viðveru og samstarfi ríkjanna um uppbyggingu varnarinnviða á öryggissvæðinu. Þá hafa í þrígang komið hingað flugsveitir B-2 sprengjuflugvéla og sinnt fælingaraðgerðum í norðurhluta Evrópu og víðar.

Nýjasta viðbótin eru svo heimsóknir kjarnorkuknúinna kafbáta Bandaríkjanna sem skipta hér um áhafnir og taka birgðir til að geta lengt úthald og eftirlit á Norður-Atlantshafi. Allt undirstrikar þetta virkar, lifandi og gagnkvæmar varnarskuldbindingar og öflugt framlag Íslands.

Æfingar eru einnig nauðsynlegur þáttur í að árétta þessar skuldbindingar og samhæfa viðbúnaðargetu íslenskra stjórnvalda við þann liðsafla sem kemur til með að styðja okkur á spennu- og átakatímum. Við þurfum að útvíkka og efla varnartengdar æfingar á Íslandi og á hafsvæðinu kringum landið.

Við þurfum geta unnið með liðsafla sem kemur til landsins til að aðstoða okkur, það er of seint að læra og skilja þegar spennuástand hefur myndast.

Það er ekki okkar einkamál heldur skiptir það máli fyrir grannríkin, þ.m.t. Norðurlöndin, og reyndar bandalagið allt sem reiðir sig á að hér sé trúverðug varnargeta á hættutímum vegna öryggi siglingaleiða yfir Atlantshafið. Við erum þess vegna að styrkja okkar eigin viðbúnaðaráætlanir og tengja íslenskar viðbragðsaðila betur inn í þessar æfingar, þannig tryggja stjórnvöld betri stjórn og yfirsýn á hættutímum.

Næsta haust fer fram varnaræfing Bandaríkjanna og Íslands, Norður-Víkingur 2024, þar sem við munum láta reyna á þessa nálgun.

Samstarfið við Bandaríkin hefur sennilega ekki verið eins náið frá því að varnarliðið yfirgaf Ísland 2006, það birtist í viðveru, fjárfestingum og dýpra pólitísku samtali. Bandaríkin hafa tekið virkan þátt í loftrýmisgæslu bandalagsins á Íslandi auk þeirra verkefna sem ég hef áður nefnt.

Við munum á næstu árum sjá aukna viðveru, fjárfestingar og umsvif Atlantshafsbandalagsins og Bandaríkjanna. Við þurfum að vera í stakk búin til að takast á hendur auknar skuldbindingar og ræða kreddulaust hvernig þeirri uppbyggingu verður best háttað til framtíðar út frá sameiginlegum varnarhagsmunum.

Okkar framlag á líka að felast í virkari þátttöku í starfi Atlantshafsbandalagsins, norrænni varnarsamvinnu og öðru svæðisbundnu samstarfi.

Við höfum í gegnum tíðina tekið þátt í margvíslegum friðargæsluverkefnum á fjarlægum slóðum og ættum því óhikað að geta lagt okkar lóð á vogaskálar sameiginlegra varna þegar bandalagið kallar eftir aukinni þátttöku og framlögum. Í Eystrasaltsríkjunum starfa t.d. borgarlegir fulltrúar í samstöðuaðgerðum bandalagsins.

Í herstjórnum og höfuðstöðvum bandalagsins starfa einnig íslenskir sérfræðingar sem eru hluti af okkar framlagi en hafa líka mikilvægu hlutverki að gegna varðandi varnarhagsmuni Íslands og samstarf við önnur bandalagsríki. Má þar sérstaklega nefna nýja herstjórnarmiðstöð í Norfolk í Bandaríkjunum sem ber ábyrgð á aðgerðum á Norður-Atlantshafi og vonumst til að nái fljótlega til allra Norðurlandanna.

Það er því mikilvægt að halda áfram að rækta mannauð og sérfræðiþekkingu til að gæta að okkar varnarhagsmunum. Þá eigum við að horfa með opnum huga til frekari tækifæra til að leggja okkar af mörkum á grundvelli getu og þekkingar, t.d. björgunargetu, drónatækni, í heilbrigðismálum, í upplýsinga- og netöryggismálum, fjölmiðlun, flutningum, flugrekstri og siglingum, svo fátt eitt sé nefnt.

Góðir fundarmenn

Það leikur enginn vafi á því að landfræðileg lega Íslands á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum markar öryggispólitíska stöðu landsins. Loftslagsbreytingar, sókn í auðlindir, opnun siglingaleiða og vaxandi hernaðarumsvif Rússlands skapa nýjar áskoranir sem við þurfum að mæta. Við erum öll sammála um mikilvægi þess að varðveita frið og stöðugleika á norðurslóðum, það er og verður kjarnamál íslenskra stjórnvalda. Aukið eftirlit, viðvera og viðbúnaður bandalagsríkja er grundvallaratriði í þeim efnum þegar Rússland er á allt annarri vegferð.

Við þurfum að senda skýr skilaboð um getu og vilja til að verja alþjóðalög og réttindi sem hafa verið grundvöllurinn að friðsamlegu samstarfi norðurskautsríkjanna. Af því leiðir svo að sjálfsögðu að Rússland á ekkert erindi í þann hóp nema það standi við sínar skuldbindingar. Á sama tíma þarf að fylgjast vel með vaxandi samstarfi Rússlands og Kína á norðurslóðum í auðlinda- og öryggismálum.

Það er því brýnt að styrkja samstarf norðurskautsríkjanna sjö og á vettvangi Atlantshafsbandalagsins um öryggis- og varnarmál, ekki síst í ljósi þess að ríkin sjö verða von bráðar öll hluti af bandalaginu. Leggja þarf rækt við tengslin við Grænland, sem heldur áfram að sækja í sig veðrið með vaxandi sjálfstjórn og þátttöku á alþjóðasviðinu.

Aðild Norðurlandanna að Atlantshafsbandalaginu dregur ekki úr vægi norrænnar varnarsamvinnu sem hefur vaxið mjög á síðustu tveimur árum, eins og kom skýrt fram á síðasta þingi Norðurlandaráðs í Osló í byrjun mánaðarins. Við fáum nýja bandamenn sem við treystum og höfum unnið náið með og það styrkir okkur. Tillögur Thorvalds Stoltenbergs frá 2009 og Björns Bjarnasonar frá 2020 um aukið samstarf Norðurlandanna hafa verið mikilvægt innlegg í þessa vinnu og lagt grunn að aukinni samvinnu.

Sameiginlegar norrænar áætlanir og viðbragðsgeta efla öryggi Norðurlandanna og eru styrkur fyrir sameiginlegar varnir bandalagsins eins og Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO kom inn á í ræðu sinni á þinginu.

Það sama má segja um sameiginlegu viðbragðssveitina sem Bretland leiðir ásamt Norðurlöndunum, Eystrasaltsríkjunum og Hollandi.

Grannríkjasamstarfið er mikilvæg viðbót við styrk og getu Atlantshafsbandalagsins og gerir nágrannaríkjum kleift að vinna saman í afmörkuðum verkefnum á okkar ábyrgðasvæði og stilla saman strengi í spennuástandi áður en bandalagið beitir sér af fullum þunga.

Vonandi kemur aldrei til þess að beita þurfi hernaðargetu bandalagsins með beinum hætti en netárásir, undirróður, falsfréttir, njósnir og í sumum tilfellum skemmdaverk eru hins vegar áskoranir sem bandalagsríkin glíma nú þegar við.

Oft er skákað í skjóli leyndar og leitast við að nýta veikleika eða grá svæði, svo erfitt er að henda reiður á orsakasamhengi eða ábyrgð. Nærtækustu dæmin eru netárásir sem eru í raun daglegt brauð og hafa íslensk stjórnvöld gert gangskör í að mæta þeim með því að styrkja netvarnarteymi CERT-IS og marka stefnu í netöryggismálum.

Það er ekki nóg að huga að því sem rennur gegnum nettengingar við umheiminn, samskiptastrengirnir sjálfir eru einnig áhyggjuefni. Nýleg skemmdaverk á samskipta- og orkuleiðslum á Eystrasaltinu undirstrika þetta. Ísland, eins og önnur ríki, hefur brugðist við með því að efla eftirlit, bæta varaleiðir og auka viðnámsþol þar sem því er viðkomið.

Við eigum einnig þétt samstarf við okkar helstu grannríki um eftirlit, upplýsingaskipti og aðferðir til að koma í veg fyrir og bregðast við hugsanlegum skemmdaverkum. Kannski undirstrika þessar áskoranir fyrst og fremst mikilvægi þess að efla áfallaþol og viðnámsgetu samfélaga, eitthvað sem Íslendingar þekkja vel í samhengi náttúruhamfara – en við þurfum nú að huga betur að í tengslum við manngerðarógnir og hernað. Það er verkefni stjórnvalda, fyrirtækja og í raun alls almennings.

Kæru gestir,

Lykilskilaboðin sem ég vil skilja eftir hjá okkur eru þessi; Við erum  á krossgötum í varnar- og öryggismálum og við þurfum að laga okkur að breyttum aðstæðum. Grunnstoðirnar eru og verða aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin, en þjóðaröryggisstefnan felur í sér leiðarljósin sem stýra för.

metnaðarmál mitt að Ísland verði áfram traustur bandamaður sem leggur meira af mörkum til gagnkvæmra varnarskuldbindinga bæði hér heima og í fjölþjóðlegu varnarsamstarfi.

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta