Hoppa yfir valmynd
10. mars 2025 Utanríkisráðuneytið

Ávarp utanríkisráðherra á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars 2025

Ávarp utanríkisráðherra 8. mars 2025

Hulunni svipt af March Forward heimsherferð UN Women

á alþjóðlegum baráttudegi kvenna



Kæru gestir.

Mig langar að byrja á því að óska ykkur og okkur öllum til hamingju með daginn. 

Í dag minnumst við þess að jafnrétti kynjanna er ekki aðeins sjálfsögð mannréttindi, heldur grundvallarforsenda fyrir friði, velsæld og öryggi í heiminum. Þetta er aldalöng barátta  – sem oft hefur krafist mikilla fórna - en einnig skilað árangri eins og við þekkjum vel.

Á baráttudögum er þó mikilvægt að við stöldrum við. Tökum ákveðna punktstöðu. Hvar stöndum við í dag og hvers vegna erum við hingað komin? 

Ég vildi að ég gæti staðið hér og sagt að baráttunni væri lokið. Að hingað værum við komin til að fagna því að nú væri þetta loksins í höfn og við þyrftum ekki að berjast áfram. 

En því miður hefur ýmislegt að undanförnu gefið okkur enn frekara tilefni til að þétta raðirnar og halda baráttunni að lofti. Henni er hvergi nærri lokið. 

Árið 2025 er stórt kvennaár, bæði hér heima og úti í heimi. Við minnumst mikilvægra tímamóta í jafnréttisbaráttunni og getum speglað okkur í sögunni. Í ár eru 50 ár frá fyrsta kvennaverkfallinu, sem markaði tímamót í jafnréttisbaráttunni hér á landi.  

Þrjátíu ár eru liðin frá því að Peking-yfirlýsingin var samþykkt á Kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna – en hún er enn talin framsæknasti og árangursríkasti vegvísir sem samþykktur hefur verið í heiminum um réttindi kvenna og stúlkna. Þá er aldarfjórðungur frá því að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun 1325 um konur frið og öryggi. 

Ef litið er til baka, þá er eitt alveg víst. Án samstöðu og samtakamáttar hefðum við ekki náð þeim árangri sem raun ber vitni. Og við þurfum áfram að passa upp á þá samstöðu. Við megum ekki láta pólitískar kreddur eða innflutta hugmyndafræði grafa undan henni. 

Ég fór nýverið til Genfar til að taka þátt í ráðherraviku mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna þar sem Ísland tók sæti um áramótin. Þar átti ég ýmsa fundi – meðal annars með fulltrúum frjálsra félagasamtaka. Samtaka sem meðal annars berjast fyrir réttindum kvenna og stúlkna, og hinsegin fólks á alþjóðavísu. Því miður er veruleikinn sem blasir við þeim ansi dapur. 

Það er ekki af ástæðulausu sem við tölum hér um bakslag. Þegar vegið hefur verið að réttindum kvenna og hinsegin fólks, jafnvel í ríkjum sem við höfum borið okkur saman við, þá erum við ekki á réttri braut. Það er ekki eitthvað sem við viljum horfa upp á, né að líflínu frjálsra félagasambanda um allan heim sé kippt úr sambandi.  

Og hvers vegna nefndi ég pólitískar kreddur og innflutta hugmyndafræði í þessu samhengi? Jú, vegna þess að nú horfum við upp á umræður um svokallaðan vókisma. Heyrum raddir sem segja okkur að við höfum gengið of langt. Öll þessi réttindabarátta hafi í raun ekki gert okkur gott. Þetta er eitthvað sem við höfum heyrt af og séð í gegnum samfélagsmiðla utan úr heimi síðustu ár en hefur nú í auknum mæli borist hingað heim. En um hvað snýst þetta allt saman?

Eins og Jane Fonda vinkona mín sagði á dögunum: „Samkennd er ekki veikleiki eða vókismi. Og svo það sé sagt – vók þýðir einfaldlega að þér er ekki sama um annað fólk.“

Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að við höldum baráttunni á lofti og séum vakandi fyrir þeim röddum sem reyna að kveða hana niður. Það er ekki af ástæðulausu að við berjumst fyrir jafnrétti. Óleiðréttur launamunur kynjanna fyrir síðasta ár var yfir 9%. Og því miður eru konur enn yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem verða fyrir kynferðisofbeldi.

Svo hef ég nefnt réttindi hinsegin fólks í þessari ræðu líka, sem er heldur ekki að ástæðulausu. Réttindi kvenna eru nefnilega líka réttindi trans kvenna. Við getum ekki barist fyrir jafnrétti nema berjast fyrir janfrétti okkar allra.

Kæru gestir

Landsnefnd UN Women á Íslandi stendur sannarlega vaktina og ég fagna því að hún kynni þessa herferð hér í dag. Við göngum aftur á bak til að vekja athygli á bakslaginu og svo rösklega áfram fram á við í átt að fullu jafnrétti. Þetta endurspeglar seiglu baráttunnar í gegnum tíðina – því þrátt fyrir bakslögin þá höldum við alltaf áfram. Það er til svo mikils að vinna. 

Það er okkur í utanríkisráðuneytinu mikill heiður að styðja þessa herferð og ég mun ganga aftur á bak og áfram á samfélagsmiðlum fyrir jafnréttið - og hvet ykkur öll til að gera slíkt hið sama.

Ríkisstjórnin hefur einsett sér að vinna af einurð að því markmiði að ná fullu jafnrétti á Íslandi. Við viljum tryggja jafna stöðu og jöfn réttindi allra og standa með jaðarsettum hópum. Við viljum uppræta rótgróna fordóma í samfélaginu og vinna gegn sundrungu og tortryggni og skapa aukið traust og samheldni. Leiðrétta kerfisbundið vanmat á virði kvennastarfa og útrýma kynbundnu ofbeldi, þar á meðal stafrænu kynbundnu ofbeldi, sem enn viðgengst í of ríku mæli hér á landi.   

Þegar kemur að alþjóðamálunum þá vil ég fullvissa ykkur um að Ísland mun áfram leggja allt kapp á að vera öflugur málsvari jafnréttis í heiminum. Við höfum til þess marga möguleika og nýtum þá alla eins og við framast getum. 

Fyrr í vikunni flutti ég ávarp á ráðstefnu UNESCO um stöðu kvenna og stúlkna í Afganistan og sagði þar meðal annars sögu af kærri vinkonu, Noorinu, sem þurfti að flýja heimaland sitt vegna hótana Talibana. Hún er læknir og glæpur hennar var að hafa ferðast um lítil þorp til að fræða konur og stúlkur um kynheilsu sína og getnaðarvarnir. Hún þakkar fyrir að geta búið hér í öryggi sem kona en heima fyrir er staðan auðvitað ekki sú sama. Nýverið greindist móðir hennar með krabbamein en fær ekki meðferð vegna þess að konur mega ekki fá læknishjálp nema frá öðrum konum – en það eru nánast engar eftir þar sem þeim er bannað að vinna, mennta sig og jafnvel fara út fyrir hússins dyr.

Við getum ekki setið og þagað heldur tölum við skýrt á vettvangi alþjóðastofnana og vinnum þétt með líkt þenkjandi ríkjum á þessu sviði. Á vettvangi mannréttindaráðsins munum við sömuleiðis láta rödd okkar heyrast hátt og skýrt.

Við munum áfram leggja áherslu á valdeflingu kvenna og stúlkna í þróunarsamvinnu og aukinni þátttöku karla og drengja í baráttunni en um tveir þriðju hlutar framlaga Íslands til þróunarsamvinnu fara í verkefni sem styðja við og stuðla að jafnrétti kynjanna.

Sömuleiðis erum við áfram málsvari aukinnar þátttöku kvenna í öryggis- og varnarmálum. Brátt hefjum við framkvæmd fjórðu landsáætlunar Íslands um konur, frið og öryggi sem kynnt verður á næstunni.

Eins og áður sagði: hér á Íslandi hefur jafnrétti og virðing fyrir mannréttindum verið forsenda velsældar okkar. Því er gríðarlega mikilvægt að við höldum áfram að segja okkar sögu, og miðla af reynslu okkar alþjóðlega. 

Kæru gestir,

Á mánudag hefst 69. þing kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York sem dómsmálaráðherrann okkar góði, Þorbjörg Sigríður – Obba – sækir fyrir hönd Íslands. Jafnréttismálin eru í góðum höndum hjá henni og ég treysti engum betur til að halda á þessum málaflokki.

UN Women hefur kallað eftir auknu samstarfi stjórnvalda, grasrótar og atvinnulífs í jafnréttisbaráttunni og við hlustum. Hér eru nú sögulega margar konur við stjórn landsins, hvort sem er í ríkisstjórn, borgarstjórn, þjóðkirkjunni eða lögreglunni – svo ekki sé talað um sjálfan forseta lýðveldisins. Við munum halda áfram að greiða veginn fyrir stúlkur, konur og hinsegin fólk og gera okkar besta við að vera góðar fyrirmyndir – því fyrirmyndir eru svo dýrmætar.

Að sjá aðra manneskju sem maður getur speglað sig í gera hluti sem mann dreymir um drífur mann nefnilega ansi langt áfram. Ég vona því að litlar stelpur í dag sjái enga hindrun í veginum fyrir sínum draumum.

Kæru vinir, 

Jafnrétti er ekki sjálfgefið. Það krefst þess að við höldum vöku okkar, sýnum þrautseigju og samstöðu. Við höfum séð hvers megnugur samtakamátturinn er. Með því að sameina krafta okkar allra í baráttunni, og svara ákalli  UN Women, getum við saman gengið áfram, skref fyrir skref, í átt að fullu jafnrétti – og betri og réttlátari heimi.

Ég vil þakka ykkur öllum sem hingað komuð í dag og sérstaklega landsnefnd UN Women fyrir að kalla okkur saman hér á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Ykkar starf er mikils metið. Takk fyrir og áfram gakk!  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta