Íslendingar hlutu fullveldi með sambandslagasamningnum árið 1918 og fengu þá í hendur yfirstjórn utanríkismála. Danska utanríkisþjónustan fór með framkvæmd þeirra meðan samband Íslands og Danmerkur hélst en í umboði Íslendinga sem höfðu æðsta vald á þessu sviði. Árið 1920 var stofnað Íslenskt sendiráð í Kaupmannahöfn undir stjórn sendiherra sem varð ekki aðeins fulltrúi Íslands gagnvart Danmörku heldur jafnframt farandsendiherra sem annaðist erindrekstur fyrir ríkisstjórn Íslands í ýmsum löndum, líkt og Pétur J. Thorsteinsson rekur í sögulegu yfirliti sínu um utanríkisþjónustu Íslands og utanríkismál. Eftir því sem leið á sambandslagatímabilið færðust ýmsir þættir í meðferð utanríkismála í vaxandi mæli í hendur Íslendinga. Þann 10. apríl 1940 tók Ísland meðferð utanríkismála alfarið í eigin hendur. Þessi vefur var settur upp í tilefni af 80 ára afmæli utanríkisþjónustunnar árið 2020 en þá fagnaði sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn jafnframt aldarafmæli.