Hoppa yfir valmynd
28. júní 2013 Heilbrigðisráðuneytið

Ráðstefnan; Áhrifaþættir á heilsu og vellíðan – frá rannsóknum til aðgerða

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra ávarpaði ráðstefnuna sem velferðarráðuneytið, Embætti landlæknis og Háskólinn í Reykjavík efndu til í minningu dr. Guðjóns Magnússonar. Aðalfyrirlesari á ráðstefnunni var Sir Michael Marmot. Ráðstefnan var haldin í Háskólanum í Reykjavík 28. júní 2013.

Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra


Góðir gestir.

Ég vil byrja á því að þakka ykkur öllum sem standið fyrir þessari ráðstefnu um mikilvæg mál í minningu um merkan mann, Guðjón Magnússon, einn virtasta og fremsta talsmann lýðheilsu hér á landi. Minningin um Guðjón og störf hans mun lifa áfram sem hvatning til áframhaldandi góðra verka í þágu bættrar lýðheilsu.

En hvaða þættir hafa mest áhrif á heilsu fólks og vellíðan? Þetta er stór spurning sem fjallað verður um í dag – en ekki er síður mikilvæg áherslan á aðgerðir í ljósi fyrirliggjandi rannsókna á þessu efni. 

Við hljótum öll að vera sammála um að góð heilsa er mikilvæg sérhverjum einstaklingi. En hvenær erum við heilbrigð? Við því er ekki til neitt einfalt svar. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin skilgreinir heilbrigði sem fullkomna líkamlega, andlega og félagslega velferð, en ekki einungis firrð sjúkdóma og vanheilinda, líkt og var kannski skilningur fólks áður. Í raun liggur þessi skilgreining nærri spakmælinu sem allir landsmenn þekkja um heilbrigða sál í hraustum líkama. Höfum þó hugfast að áhrifaþættir heilsu eru fjölmargir og á ráðstefnunni í dag mun sjónum einkum beint að félagslegum áhrifaþáttum. Æ sterkari vísbendingar hafa komið fram á síðustu árum um mikilvægi félagslegra aðstæðna fólks varðandi heilsu og heilbrigði. Erlendar rannsóknir sýna að þeim sem standa höllum fæti vegna félagslegra þátta farnast oft og tíðum verr heilsufarslega en öðrum í samfélaginu. Þar hafa atvinnuleysi og fátækt valdið heilbrigðisvanda sem oft er erfiðara að glíma við en marga sjúkdóma.

Ísland kemur almennt vel út í alþjóðlegum samanburði í ýmsum heilsufarsmælingum. Þegar gögn milli landa eru borin saman kemur í ljós að Ísland er mjög ofarlega á listum yfir lægstu dánartíðni, krabbameinstíðni og tíðni smitsjúkdóma. Það hefur hins vegar ekki verið skoðað ítarlega hvort félagslegir áhrifaþættir hérlendis hafi áhrif á heilbrigði landsmanna og þá í hversu ríkum mæli. Þó komu fram vísbendingar í könnuninni Heilsa og líðan Íslendinga frá árinu 2009 um að þeir sem eru tekjuhærri og með meiri menntun væru líklegri til að stunda heilsusamlega hegðun en þeir sem hafa lægri tekjur og minni menntun. Á síðustu árum hefur sjónum verið beint meira en áður að þessum þáttum og þetta er einmitt umfjöllunarefnið hér í dag.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur skýrt fram að bætt lýðheilsa og efling forvarnarstarfs verður eitt af forgangsverkefnum hennar. Markmiðið er að auka almenn lífsgæði landsmanna og við vitum að með bættri lýðheilsu má draga úr beinum og óbeinum kostnaði fyrir samfélagið allt til framtíðar. Það er því til mikils að vinna.

„Maðurinn er það sem hann étur.“ Þessa fullyrðingu kannast flestir við og þótt hún kunni að hljóma undarlega er mikið til í henni. Við getum bætt um betur og sagt: Við erum líka það sem við gerum, því við getum hvert um sig haft mikil áhrif með hegðun okkar og gjörðum á heilsu okkar og vellíðan. Það er okkar ábyrgð að leggja rækt við líkamlega heilsu með hollu mataræði, hófsemd og hæfilegri hreyfingu. Þessir þættir styðja líka við andlega heilsu okkar, auk þess sem mikilvægt er fyrir andlega líðan að leggja rækt við það jákvæða, forðast streitu, unna sér hvíldar eftir þörfum og síðast en ekki síst að leggja áherslu á góð samskipti við fjölskyldu og vini.

Eins og ég sagði, þá berum við sem einstaklingar mesta ábyrgð sjálf á eigin heilsu og vellíðan. Stjórnvöld geta þó með stefnu sinni, aðgerðum og uppbyggingu á sviði heilbrigðis- og velferðarmála haft veruleg áhrif til þess að stuðla að bættri lýðheilsu.

Viðfangsefni á sviði forvarna og lýðheilsu eru mörg, enda margt sem getur ógnað heilsu fólks eins og dæmin sanna. Reykingar hafa lengi verið mikill skaðvaldur hér á landi með alvarlegum afleiðingum á heilsufar og ótímabærum dauðsföllum fólks. Verulegur árangur hefur náðst í baráttunni gegn reykingum og ávinningurinn er ótvíræður, hvort heldur við metum hann í bættu heilsufari eða fjárhagslegum ávinningi. Misnotkun áfengis og ólögleg fíkniefnaneysla er annað mikilvægt viðfangsefni sem áríðandi er að berjast gegn.

Þótt af mörgu sé að taka vil ég gera að sérstöku umtalsefni hér þá heilbrigðisógn sem okkur stafar af ofþyngd og offitu. Eins vil ég ræða sérstaklega um áhyggjur mínar af mikilli lyfjanotkun okkar Íslendinga.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur sagt að engin lýðheilsuógn sé jafn vanmetin um víða veröld og ofþyngd og offita og líkir vandanum við heimsfaraldur. Sterk tengsl eru á milli offitu, ýmissa alvarlegra sjúkdóma, stoðkerfisvandamála og aukinna dánarlíkinda. Áhrifin eru mikil á líf fólks sem stríðir við vandann og álag eykst á heilbrigðiskerfið með tilheyrandi kostnaði.

Það er athyglisvert hvað þættir tengdir lífsstíl eiga stóran þátt í sjúkdómabyrði vestrænna ríkja, eins og reykingar, áfengisneysla, offita, óhollt mataræði og hreyfingarleysi. Í OECD-ríkjunum er rúmlega helmingur fullorðins fólks talinn of þungur eða of feitur í 19 af 34 ríkjum, þar á meðal Íslandi.

Árið 2009 var hlutfall of feitra í veröldinni hæst í Bandaríkjunum eða 34%. Á sama tíma var þetta hlutfall 20% á Íslandi, svipað og í Finnlandi en athygli vekur að það var mun lægra hjá hinum Norðurlandaþjóðunum, eða 10–13%. Eitt af hverjum fjórum til fimm börnum á aldrinum 5–17 ára hér á landi telst of þungt eða of feitt miðað við upplýsingar frá árinu 2009. Í stuttu máli er ætlað að yfir 60% Íslendinga séu yfir kjörþyngd. Það er augljóst að staða okkar í þessum efnum er slæm og hér er mikið verk að vinna.

Í fræðigrein sem birtist í Læknablaðinu fyrir fáum árum um þróun holdafars og sykursýki í 40 ár á Íslandi kemur fram að á árunum 1967–2007 hækkaði þyngdarstuðull karla og kvenna um tvær einingar. Algengi sykursýki af tegund 2 tvöfaldaðist hjá körlum og jókst um 50% hjá konum á tímabilinu. Fylgni milli sykursýki og ofþyngdar er sterk. Í greininni er bent á að áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma hafi færst til betri vegar undanfarna áratugi, en þar sem offita og sykursýki sé vaxandi vandamál kunni sú þróun að draga verulega úr þeim góða árangri sem baráttan við hjarta- og æðasjúkdóma hefur skilað.

Árið 2008 kom út skýrsla Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Bifröst sem unnin var fyrir heilbrigðisráðuneytið um þjóðfélagslegan kostnað vegna offitu. Mat höfunda var að kostnaður samfélagsins vegna offitu árið 2007 næmi um 5,8 milljörðum króna á verðlagi þess tíma, annars vegar vegna beins meðferðarkostnaðar vegna offitunnar sjálfrar og hins vegar – og að stærstum hluta, vegna beins og óbeins kostnaðar vegna fylgikvilla.

Ég þarf ekki að fjölyrða frekar um alvarleg áhrif ofþyngdar á heilsufar fólks. Áhrifin eru margvísleg, við þekkjum þau og afleiðingarnar geta verið mjög alvarlegar. Það er forgangsmál að snúa þessari óheillaþróun við.

Lyfjanotkun hér á landi er annað málefni sem þarfnast sérstakrar skoðunar.

Notkun tauga- og geðlyfja er mikil hjá okkur og Íslendingar skera sig verulega úr til dæmis í samanburði við hinar Norðurlandaþjóðirnar. Notkun metýlfenidats hér á landi er sérstakt áhyggjuefni.

Alþjóðafíkniefnaráð Sameinuðu þjóðanna sá fyrir fáum árum ástæðu til að vekja athygli íslenskra heilbrigðisyfirvalda á því að notkun þessara lyfja er hvergi í heiminum meiri en á Íslandi. Bent var á að misnotkun efnisins sé vel þekkt meðal þjóða þar sem lyfið er mjög aðgengilegt og voru heilbrigðisyfirvöld hvött til árvekni. Vakta þurfi útbreiðslu lyfsins, fylgjast með hvernig því sé ávísað af hálfu lækna til að fyrirbyggja ofnotkun og vera á verði gagnvart ólöglegri dreifingu þess og misnotkun. Í kjölfar þessa var gripið til ýmissa aðgerða til að stemma stigu við vextinum – en engu að síður er notkun þessara lyfja enn vaxandi og langtum meiri hér á landi en annars staðar. Má í því sambandi nefna sem dæmi að við notum ellefu sinnum meira af þessum lyfjum en Finnar.

Metýlfenidat er ætlað til meðferðar á börnum með ofvirkni og athyglisbrest og er ekki með skráða ábendingu fyrir notkun hjá fullorðnum, þótt þekkt sé bæði hérlendis og erlendis að veita fullorðnum meðferð með þessum lyfjum. Það sker hins vegar í augu að frá árinu 2006 hefur ávísunum lyfsins til fullorðinna (20 ára og eldri) fjölgað mjög ört og nú er svo komið að notkunin er meiri í hópi fullorðinna en hjá börnum. 59% notenda 18 ára og eldri!

Mikil hætta er á misnotkun metýlfenidats komist það í rangar hendur. Samkvæmt upplýsingum frá SÁÁ er þetta eitt helsta fíkniefni sprautufíkla og þorra lyfjanna hefur verið ávísað af læknum. Þessi misnotkunarvandi birtist glöggt í nýlegum dómi þar sem ungur maður var dæmdur fyrir dreifingu og sölu á metýlfenidat-lyfjum sem hann hafði fengið ávísað hjá læknum. Að mínu mati er það óþolandi staða að íslenska ríkið sé að útvega og niðurgreiða efni fyrir fíkniefnasala og í raun halda að einhverju leyti uppi sprautufíklamarkaðnum. Það verður að bregðast hart við þessari þróun og það ætla ég gera.

Góðir gestir.

Eins og ég sagði í upphafi mun efling forvarnarstarfs og önnur verkefni sem stuðla að bættri lýðheilsu verða eitt af forgangsverkefnum stjórnvalda framundan. Í þessum efnum er mikilvægt að hafa skýra framtíðarsýn og horfa til framtíðar. Það er ákveðinn vandi verkefna á þessu sviði að ávinningurinn kemur ekki strax í ljós.

Fyrir óþolinmóða stjórnmálamenn sem vilja sjá árangur fljótt getur verið erfitt að helga sig lýðheilsumálum, því þau krefjast langlundargeðs og þolinmæði áður en uppskeran kemur í ljós. Því getur verið þessum málaflokki mjög til framdráttar að vinna hagfræðilegar greiningar þar sem reynt er að varpa ljósi á beinan og óbeinan kostnað samfélagsins af tilteknum lýðheilsuvandamálum – og sýna jafnframt ávinninginn sem felst í því ef tekst að snúa vondri þróun við, líkt og ég nefndi hér áðan varðandi offituvandann.

Að lokum vil ég ítreka þakkir mínar til ykkar sem standið að ráðstefnunni hér í dag um þessi mikilvægu mál. Eins vil ég nefna sérstaklega hve mikill fengur er í okkar góðu erlendu fyrirlesurum sem ég veit að gestir bíða spenntir eftir að heyra frá.

Sir Michael Marmot og Felicia Huppert,

It's a great pleasure for me to welcome you to this conference. And I especially thank you for being here on this important issue.

- - - - - - - - - - - -
(Talað orð gildir)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta