Vígsla hjúkrunarheimilisins við Nesvelli í Reykjanesbæ
Góðir gestir, ágætu Suðurnesjamenn.
Til hamingju með þetta glæsilega hjúkrunarheimili.
Ég veit að margir hafa beðið eftir þessum degi og biðin hefur verið löng. Ekki kann ég að segja hvenær áform um byggingu nýs hjúkrunarheimilis á svæðinu voru fyrst reifuð en það eru mörg ár og leiðin að þessu marki hefur verið löng og ströng og sumir segja grýtt. En við sjáum í dag að ekki hefur verið beðið til einskis.
Á liðnum árum hefur orðið mikil þróun í skipulagi og hönnun hjúkrunarheimila með áherslu á mannhelgi og virðingu við íbúana. Auðvitað ráðast aðstæður ekki einungis af húsakostinum sjálfum, hugmyndafræðin að baki rekstrinum og þjónustunni sem veitt er skiptir kannski meginmáli – en þetta styður líka hvað við annað. Ég er viss um að íbúar þessa fallega heimilis á Nesvöllum munu njóta þess að búa hérna. Fyrir starfsfólk og stjórnendur er það örugglega skemmtileg og spennandi áskorun að gera heimilið að þeim notalega stað sem efni standa til ef vel er á málum haldið. Aðstandendur íbúanna hafa líka hlutverki að gegna og geta lagt sitt af mörkum til þess að skapa hér hlýlegt og notalegt samfélag.
Vel skal vanda það sem lengi skal standa. Þannig hefur verið staðið að verki hér og að því munu heimamenn á svæðinu búa til framtíðar.
Innilega til hamingju.