Hoppa yfir valmynd
16. október 2020 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

10 fjölþættar aðgerðir fyrir menningarlífið

Forsætisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra kynntu í dag, ásamt fulltrúum Bandalags háskólamanna og Bandalags íslenskra listamanna, 10 stuðningsaðgerðir stjórnvalda fyrir listir og menningu á tímum COVID-19. Aðgerðirnar eru fjölþættar og miða að því að bæta stöðu starfandi listamanna og menningartengdra fyrirtækja. Liður í þeim aðgerðum eru tekjufallsstyrkir sem einyrkjar og smærri rekstraraðilar munu geta sótt um. Ráðgert er að heildarfjármunir sem varið verður til almenns tekjufallsstuðnings stjórnvalda geti numið rúmum 14 milljörðum kr. Tekjufallsstyrkjum er ætlað að styðja minni rekstraraðila sem t.d. starfa í menningar- og listgreinum, ferðaleiðsögumenn og aðra minni aðila í rekstri.

„Íslensk menning er sterk, hún hefur staðið af sér marga storma. En menningarlífið hefur orðið fyrir miklu höggi vegna heimsfaraldursins og við teljum brýnt að bregðast við því með þessum aðgerðum sem eru framsýnar og metnaðarfullar, en jafnframt raunsæjar. Ég ber væntingar til þess að þær muni liðsinna sem flestum og trúi því að framtíðin sé björt í íslenskri menningu og listum. Við þökkum BHM, BÍL, ÚTÓN og fleirum fyrir frábæra samvinnu við undirbúning þeirra,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

„Staða listamanna og fólks í skapandi greinum hefur verið flókin og erfið frá fyrsta degi samkomubanns. Hefðbundin úrræði sem grípa eiga fólk í erfiðri stöðu á vinnumarkaði hafa ekki nýst listamönnum sem skildi. Því eru þetta kærkomnar aðgerðir sem bæta tap og brúa tíma sem við öll vonum að verði sem stystur. Auk þess eru í þessum aðgerðum verkefni sem munu bæta framtíð greina og stöðu listamanna – bæði á vinnumarkaði og í þeirra mikilvæga hlutverki að lita heiminn bjartari litum,“ segir Erling Jóhannesson forseti Bandalags íslenskra listamanna.

„COVID-kreppan hefur bitnað illa á listafólki í öllum greinum. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar munu vonandi koma til móts við þarfir þessa hóps sem hefur orðið fyrir miklu tekjufalli og býr við mikla óvissu á vinnumarkaði,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður Bandalags háskólamanna.


Helstu aðgerðir:

• Sjálfstætt starfandi listamenn og menningartengd fyrirtæki geti sótt um rekstrarstyrki til að mæta tekjusamdrætti vegna COVID-19.
• Tímabundin hækkun starfslauna og styrkja fyrir árið 2021 og tímamörk verkefnastyrkja til menningarmála verða framlengd.
• Vitundarvakning um mikilvægi lista og menningar á Íslandi.
• Stofnun Sviðslistamiðstöðvar og Tónlistarmiðstöðvar.

Þá mun ráðuneytið halda áfram að kanna og kortleggja, í samvinnu við BÍL og BHM, aðstæður þeirra hópa listamanna sem til þessa hafa ekki geta nýtt sér stuðningsúrræði stjórnvalda.

Aðgerðirnar verða kynntar nánar á næstu vikum.
Glærukynning frá kynningarfundi 16. október 2020.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta