Hoppa yfir valmynd

Heimastjórnartíminn

StjórnarráðTímabil heimastjórnarinnar 1904 til 1918 var skeið umskipta og óvenjulegrar grósku í íslensku þjóðlífi.

Glöggt vitni um breytinguna eru endalok fjöldaflutninganna vestur um haf. Á röskum 30 árum hafði fimmtungur íslensku þjóðarinnar flust til Norður-Ameríku í leit að rýmri tækifærum og bjartari framtíð. En á þremur árum, frá 1903 til 1906, á sama tíma og útflytjendum frá Evrópu fór yfirleitt fjölgandi, fækkaði íslenskum vesturförum úr 800 á einu ári niður í tæpt hundrað. Íslendingar þurftu ekki lengur að líta til annarrar heimsálfu til að greina bjartari framtíð fyrir sig og börn sín.

Nýbreytni, framfarahugur og bjartsýni setti svip á flest svið þjóðlífsins. Atvinnulífið tók einkum stakkaskiptum með útgerð vélknúinna fiskiskipa, en framleiðsla sveitanna var einnig í sókn, sömuleiðis þjónustugreinar vaxandi þéttbýlis. Nýjar stofnanir og fyrirtæki tóku til starfa; nýjar listgreinar hösluðu sér völl; íslenskir afreksmenn á ólíkum sviðum gátu sér frægðarorð erlendis. Mannlífið varð fjölbreyttara, og þrátt fyrir fátækt og strit, sem flestir bjuggu við, fór það smám saman vaxandi sem fólk gat veitt sér af lífsins gæðum.

Atvinnulíf á heimastjórnartímabilinu

Umskipti

Coot fyrsti togari ÍslendingaÍslenskt atvinnulíf tók stakkaskiptum á heimastjórnartímabilinu 1904 til 1918. Mestu munaði um þær breytingar sem urðu í sjávarútvegi með vélvæðingu og nýjum gerðum veiðiskipa og veiðarfæra. Aflinn sem nú kom á land, margfaldur á við það sem áður þekktist, skapaði landsmönnum miklar tekjur. Þær nýttust til margvíslegra framkvæmda og neyslu, ruddu nýjum starfsgreinum braut og sköpuðu öðrum atvinnuvegum tækifæri sem ekki höfðu áður verið til staðar. Í kjölfarið bötnuðu lífskjör í landinu til mikilla muna. Sveitafólk streymdi til sjávarþorpanna og Reykjavíkur þar sem tækifærin voru fleiri og félagslífið fjölbreyttara en í strjálbýlinu. Þéttbýlisþjóðfélag tók smám saman að myndast. Hinni nýju innlendu stjórn fylgdi síðan stórefldur framfarahugur, bjartsýni og athafnaþrá. Með öflugu atvinnulífi og framfarastjórn í upphafi 20. aldar var lagður grunnur að íslensku nútímaþjóðfélagi.

Sveitaþjóðfélagið

HeyskapurTil að átta sig á þeim breytingum sem urðu á atvinnulífi Íslendinga í upphafi 20. aldar er nauðsynlegt að hafa í huga hvernig umhorfs var í þjóðfélaginu um aldamótin. Ísland var þjóðfélag kyrrstöðu sem tekið hafði litlum breytingum öldum saman. Landsmenn, sem voru rétt innan við 80 þúsund að tölu samkvæmt manntali 1901, bjuggu flestir í sveit. Íbúar Reykjavíkur , þar sem þéttbýli var mest, voru þá tæplega sex þúsund, 8,5% þjóðarinnar. Aðrir helstu þéttbýlisstaðir voru Ísafjörður með liðlega þúsund íbúa og Hafnarfjörður þar sem um fjögur hundruð manns bjuggu. Af þessu leiddi að bændur og búalið voru fjölmennustu þjóðfélagsstéttirnar. Þeim fór fjölgandi sem stunduðu fiskveiðar, en flestir sinntu einnig öðrum störfum meðfram, aðallega við landbúnað. Rúmlega tvö þúsund manns höfðu framfærslu af verslun og þjónustu, jafnmargir og þáðu sveitarstyrk.

Vinnukonur í heyskapLandbúnaður var aðalatvinnugrein landsmanna. Var verkmenning lítt frábrugðin því sem tíðkast hafði á fyrstu öldum byggðar í landinu. Einu vinnutæki bænda og vinnufólks voru fábrotin handverkfæri og hestaverkfæri tiljarðvinnslu og heyskapar. Véltæki voru engin.

Til fiskiveiða var lengst af farið á litlum fleytum, opnum róðrabátum, og eingöngu sótt á grunnmið við landsteinana. Á ofanverðri 19. öld efldist þilskipaútgerð og í kjölfarið tóku veiðiaðferðir og hagnýting sjávarfangs hægum breytingum. Unnt var að sækja á fjarlægari mið og ná meiri afla en fyrr. Sjávarbyggðir mynduðust víða um land og höfðu þær mikið aðdráttarafl fyrir sveitafólk því kjör voru betri og fjölbreytni mannlífsins meiri. Útlendingar fóru að stunda útgerð og fiskverkun hér á landi á þessum tíma. Voru Norðmenn þar atkvæðamestir og sinntu einkum síldveiðum og síldarbræðslu og hvalveiðum og vinnslu hvalafurða.

BrúarvirkiSamgöngur um landið voru afar erfiðar þar sem vega- og brúargerð hafði lítt verið sinnt. Voru hestar og vagnar einu samgöngutæki landsmanna, auk fáeinna ferja yfir vatnsföll. Hafnir voru hvergi, aðeins fábrotnar trébryggjur sem kaupmenn og útgerðarmenn höfðu látið byggja. Samgöngur til landsins voru að mestu í höndum útlendinga. Hér var enginn iðnaður eins og í nálægum löndum, en stéttir handverksmanna teknar að myndast í þéttbýli. Smásöluverslun var að mestu í höndum landsmanna, en öll innflutningsverslun laut forræði útlendinga. Umsvif ríkisins voru lítil og engin atvinnustarfsemi að heitið gæti rekin á þess vegum.

Einn banki var í landinu, Landsbanki Íslands, er hóf starfsemi 1885, en hann hafði lítið umleikis og útlánastarfsemi hans var mjög takmörkuð. Voru lán nær eingöngu veitt til húsa- og skipakaupa. Lítið var um peninga í umferð og fóru viðskipti manna á meðal einkum fram með vöruskiptum. Voru vinnulaun yfirleitt greidd með vöruúttektum og fæði og húsnæði. Réttindi verkafólks voru lítil sem engin og verkalýðsfélög tæpast komin til sögu.

Hvers vegna breyting?

Meginskýringin á þeirri breytingu, sem varð á atvinnulífi landsmanna á heimastjórnartímabilinu er "íslenska iðnbyltingin", sem svo hefur verið nefnd, tæknibylting í sjávarútvegi, sem leiddi til stóraukins fiskafla og þar með stóraukinna þjóðartekna. Tæknibyltingin átti svo aftur rætur að rekja til þess að árið 1904 var stofnaður hér á landi nýr banki með erlendu hlutafé, Íslandsbanki (eldri), sem með lánastarfsemi sinni gerði athafnamönnum kleift að fjárfesta í nýjum atvinnutækjum. Það greiddi svo fyrir umskiptunum að landsmenn voru tilbúnir (og vanir) að inna af hendi mikla og erfiða vinnu; menningar- og menntahefð þjóðfélagsins gerði almenningi líklega auðveldara fyrir en ella að tileinka sér nýja verkþekkingu og loks var andrúmsloft sjálfstæðisbaráttunnar örvandi fyrir framfarasókn þjóðarinnar.

Vélvæðing sjávarútvegs

Jón forseti siglir inn Dýrafjörð"Iðnbyltingin" á Íslandi á heimastjórnatímanum var fólgin í vélvæðingu og aukinni tæknivæðingu atvinnulífsins, en einkum þó við fiskveiðar og fiskverkun. Þilskipin sem farið var að nota á síðustu áratugum 19. aldar höfðu eflt sjávarútveginn og sjávarbyggðirnar, en þeim voru takmörk sett enda seglskip með fábrotin veiðarfæri. Notkun véla í fiskiskipum kynntust Íslendingar fyrst á tíunda áratug 19. aldar þegar breskir togarar (eða botnvörpungar eins og þeir voru nefndir vegna veiðarfærisins, botnvörpunnar) knúnir gufuafli úr kolum fóru að venja komur sínar á fiskimiðin við landið. En fyrirmyndir að fyrstu vélunum í íslenska báta voru þó sóttar til Danmerkur og í stað gufuvéla var notast við sprengihreyfla sem brenndu steinolíu. Er vélaöld í íslenskum sjávarútvegi yfirleitt talin hefjast árið 1902 þegar vél var sett í árabátinn Stanley á Ísafirði. Tóku útgerðarmenn og sjómenn um land allt þessari nýjung fagnandi enda skapaði hún möguleika á stórauknum fiskafla. Voru vélbátar orðnir vel á fjórða hundraðið aðeins tíu árum síðar. Fyrsti íslenski togarinn, knúinn gufuvél, kom árið 1905 til Hafnarfjarðar. Var hann keyptur á Englandi og nefndur Coot (sem merkir blesönd). Útgerðin heppnaðist nema hvað skipið strandaði þremur árum síðar og var úr sögunni. Með Coot var ísinn brotinn og í kjölfarið fylgdi togarinn Jón forseti (1907) á vegum útgerðarfélagsins Alliance. Var hann sérsmíðaður utanlands. Er sagt að útgerðin hafi gengið svo vel að smíðaverðið hafi verið að fullu greitt á þremur árum. Næstu árin kom síðan hver togarinn á fætur öðrum til landsins. Voru þeir orðnir sex árið 1910 og tuttugu árið 1917. Vélbátar og gufutogarar leiddu til þess að miklu meiri fiskafli en nokkru sinni fyrr kom á land, og skapaði þar vinnu og síðan auknar útflutningstekjur. Þá hófu togararnir einnig að sigla með ísaðan fisk á erlenda markaði, einkum til Bretlands, og fengu jafnan ágætt verð fyrir. Heildarafli Íslendinga var tæplega 68 þúsund tonn árið 1900 en tíu árum síðar var hann orðinn rúmlega 90 þúsund tonn. Mestur varð fiskaflinn á heimastjórnartímanum 1916, rúmlega 128 þúsund tonn.

Íslandsbanki

Íslandsbanki, gamalt logo.Þess eru ekki mörg dæmi - ef nokkur - að starfsemi eins fyrirtækis hafi valdið hvörfum í atvinnulífi heillar þjóðar. Svo er þó um Íslandsbanka (eldri) sem stofnaður var 1904 með áhættufé danskra og norskra kaupsýslumanna en fyrir hvatningu atvinnurekenda og stjórnmálamanna hér á landi. Forsenda þess að bankinn gat hafið starfsemi var lagasetning um starfsemina sem Alþingi afgreiddi 1903. Voru skiptar skoðanir innan þings sem utan um gildi og áhættu af því að hleypa erlendu fjármagni inn í landið, en þeir urðu ofan á sem töldu bankann aðeins geta orðið atvinnulífi landsmanna til framdráttar. Frá Íslandsbanka streymdi erlent lánsfé til framkvæmda í íslensku atvinnulífi. Skipti það algjörlega sköpum um sókn og vöxt atvinnuveganna. Hlutafé Íslandsbanka við stofnun nam tveimur milljónum króna og var þremur árum síðar aukið í þrjár milljónir. Til samanburðar við umsvif bankans má benda á að samanlagður inn- og útflutningur landsmanna um aldamótin nam 6-7 milljónum króna og tekjur landssjóðs samkvæmt fjárlögum árin 1902 og 1903 voru tæplega 630 þúsund hvort árið. Fyrir stofnfé Íslandsbanka mátti kaupa sextán nýja togara og eftir hlutafjáraukninguna átta til viðbótar. Líklegt er að án bankans hefði atvinnubyltingin á Íslandi tafist um tvo til þrjá áratugi.

Á árinu 2004 eru 100 ár liðin frá því Íslandsbanki eldri var stofnaður. Af því tilefni mun bankinn minnast 100 ára fjármálasögu sinnar með sérstakri dagskrá. 

Ritsíminn

Símamerki með fálkamerkiFyrsti íslenski ráðherrann, Hannes Hafstein , reyndist framtakssamari í flestum efnum en dönsku stjórnvöldin höfðu verið. Hann var áhugasamur um verklegar umbætur og beitti sér fyrir því strax eftir að hann tók við embætti að ritsími yrði lagður til landsins. Gerði hann að fengu samþykki Alþingis um það samning við danskt símafélag að lagður yrði sæstrengur til Seyðisfjarðar, en þaðan landlína um Akureyri til Reykjavíkur. Komst á ritsímasamband tveimur árum seinna, 1906. Lagning ritsímans var gífurlega kostnaðarsöm fyrir landssjóð, enda unnu við verkið nær 300 manns, 220 Norðmenn, 18 Danir og 60 Íslendingar. En ábatinn varð líka mikill. Gamall símiSælínan greiddi mjög fyrir viðskiptum Íslendinga við útlönd og varð m.a. til þess að innlend heildverslun leysti á fáum árum hina dönsku af hólmi. Þá varð auðveldara en áður að selja íslenskar afurðir til útlanda.

Fréttir af viðburðum utan landsteinanna bárust nú samdægurs í stað þess að margar vikur eða mánuðir liðu frá stóratburðum utanlands þar til Íslendingar höfðu um þá vitneskju. Landlínan varð ekki síður lyftistöng atvinnulífinu en hún kom á sambandi milli fjarlægra landshluta til mikils gagns fyrir viðskipti og framkvæmdir.

Samgöngubætur

Vega- og brúargerð stórjókst á heimastjórnarárunum. Má segja að á þeim árum hafi loksins komist á gróft þjóðveganet um landið allt. Átti lagning ritsímans stóran þátt í því. Í lok heimastjórnartímabilsins voru akvegir taldir fimm hundruð kílómetrar að lengd. Var lengsti vegarkaflinn um 100 km frá Reykjavík austur á Hvolsvöll. Hestvagnar urðu algengir á þessum árum, enda vegagerðin fram til um 1920 að mestu við þá miðuð. Fyrsti bílinn var fluttur til landsins sumarið 1904. Bílaöld rann þó ekki upp fyrr en áratug seinna. Árið 1905 voru teknar í Brúnotkun brýr yfir Sogið og Jökulsá í Axarfirði, hvort tveggja miklar samgöngubætur. Brúará var brúuð 1907 þegar lagður var vegur frá Þingvöllum til Geysis í tilefni konungskomunnar það ár. Hugmyndir voru uppi um að leggja járnbraut frá Reykjavík austur að Þjórsá, ekki síst til að auðvelda flutning landbúnaðarafurða til Reykjavíkursvæðisins, en framkvæmdin reyndist of kostnaðarsöm til að í hana yrði ráðist. Eina járnbrautin, sem Íslendingar fengu að kynnast, gekk á milli Öskjuhlíðar og miðbæjarins þegar Reykjavíkurhöfn var gerð á öðrum áratug aldarinnar. Hafnargerðin var stórkostleg samgöngubót og réð úrslitum um að Reykjavík varð miðstöð atvinnulífs á Íslandi. Stofnun Eimskipafélags Íslands 1914 hafði einnig mikla þýðingu fyrir verslun og viðskipti landsmanna innanlands og við útlönd.

Tækni í landbúnaði

DráttarvélLandbúnaður varð ekki aðeins fyrir tapi við eflingu sjávarútvegsins. Nú þurfti að framleiða matvörur fyrir ört stækkandi neytendahóp í þéttbýli. Það leiddi til þess að tekjur bænda jukust smám saman. Tækni og vélvæðing hélt innreið sína í landbúnaði, en þó í fyrstu í smáum stíl. Litlar ullarverksmiðjur voru reistar í Mosfellssveit og Eyjafirði í byrjun 20. aldar og fyrsta ullarþvottastöðin tók til starfa í Borgarnesi 1912. Þá voru víða reist sláturhús. Annað merki um tæknivæðingu í landbúnaði voru skilvindur sem greiddu mjög fyrir framleiðslu mjólkurafurða. Rjómabú voru stofnuð á nokkrum stöðum til smjörgerðar og átti almenn notkun skilvinda á bæjum stóran þátt í því. Var mjólkin skilin á bæjunum, en rjóminn fluttur til rjómabúanna og strokkaður þar í stórum tréstrokkum. Var smjörsala til Englands í nokkur ár arðsöm útflutningsgrein, en henni lauk á heimsstyrjaldarárunum fyrri.

Iðnaður

Völundur í ReykjavíkVísir að verksmiðjuiðnaði myndaðist á heimastjórnartímabilinu með klæðagerð, veiðarfæragerð, smjörlíkisgerð, ölgerð og sápugerð o.fl. Einnig má nefna timburframleiðslu, en á því sviði var Völundur í Reykjavík stórtækastur, og framleiðslu múrsteina til húsabygginga, en þar ruddi verksmiðjan Mjölnir brautina. Aðrar iðngreinar, sem efldust á þessum árum og nýttu sér sérhæfðar vélar, voru t.d. prentun og brauðgerð.

Verslunin

H.P. Duus heildverslunInnlend heildverslun óx og dafnaði eftir að ritsímasamband komst á milli Íslands og útlanda 1906. Áður hafði smásöluverslun að mestu verið komin í hendur landsmanna. Í lok heimastjórnartímans voru hér á landi um 40 heildverslanir og rúmlega 700 smásöluverslanir.

Rafvæðing

Vatnsafl var í fyrsta sinn notað til raflýsingar hér á landi í Hafnarfirði í desember 1904. Kom það frá vatnsaflstöð við Lækinn í bænum. Notkun var þó takmörkuð og fyrsta bæjarfélagið sem naut almennrar raflýsingar var Seyðisfjörður árið 1913. Reykvíkingar bjuggu á þessum árum við gaslýsingu og rafljós urðu ekki almenn í borginni fyrr en í byrjun þriðja áratugarins. Nokkur stór atvinnufyrirtæki, svo sem klæðaverksmiðjan Iðunn, timbursmiðjan Völundur og mulningsstöðin Mjölnir, höfðu þó í byrjun aldarinnar komið sér upp gufuvélum til að framleiða rafmagn fyrir vélar sínar og til lýsingar.

Athafnamenn

Thor JensenStórhuga athafnamenn áttu mikinn þátt í atvinnubyltingunni í upphafi 20. aldar. Nafnfrægastur þeirra er líklega Thor Jensen sem stóð fyrir umsvifamikilli útgerð og verslun sem teygði anga sína um land allt. Í Reykjavík og á Hjalteyri hafði hann t.d. lengi mikil umsvif í nafni útgerðarfélagsins Kveldúlfs. Thor var einn helsti forvígismaður togaraútgerðarinnar í byrjun aldarinnar. Samstarfsmaður Thors í svonefndu Milljónafélagi, útgerðar- og verslunarfyrirtæki sem starfaði á árunum 1907 til 1913, var Pétur J. Thorsteinsson sem nefndur hefur verið Bíldudalskóngurinn, en á Bíldudal átti hann árum saman öll atvinnutækin og hafði hundruð manna í vinnu. Einar Þorgilsson útgerðarmaður í Hafnarfirði og Björn Kristjánsson kaupmaður og alþingismaður áttu m.a. frumkvæði að kaupum fyrsta gufutogarans, Coot, en sá síðarnefndi var einn helsti framtaksmaður í verslunarrekstri í Reykjavík. Jón Þorláksson verkfræðingur, síðar borgarstjóri og forsætisráðherra, beitti sér fyrir stofnun byggingarfyrirtækja í Reykjavík og var einn af frumkvöðlum vega- og brúargerðar um landið. Meðal annarra athafnamanna, sem sköpuðu sér nafn á heimastjórnartímabilinu, má nefna Hallgrím Kristinsson, einn af forvígismönnum Sambands íslenskra samvinnufélaga, Garðar Gíslason stórkaupmann, Eggert Claessen lögfræðing, Ásgeir G. Ásgeirsson útgerðar- og verslunarmann á Ísafirði, August Flygenring útgerðarmann í Hafnarfirði, Jón Ólafsson kenndan við útgerðarfélagið Alliance í Reykjavík og Þórarinn E. Tulinius sem rak kaupskipafélag (Thorefélagið svonefnda) fyrir daga Eimskipafélagsins.

Vinna og verkalýður

VerkafólkRéttindi verkafólks voru af skornum skammti í upphafi 20. aldar. Athafnamennirnir, sem stýrðu atvinnulífinu, litu yfirleitt verkafólk eins og bændur á vinnuhjú sín forðum. Þeim var annt um það en kröfðust mikils vinnuframlags.

Vinnuharka var mikil og kjör bág miðað við það sem síðar varð, en fóru engu að síður hratt batnandi þegar leið á öldina. Fyrsta almenna verkalýðsfélagið í Reykjavík var Dagsbrún, stofnað 1906. Það átti mikinn þátt í því að lagfæra kjör verkalýðsins með samningum við atvinnurekendur.

Margvíslegan almennan fróðleik um atvinnulíf á heimastjórnartímabilinu má sækja í eftirtalin yfirlitsrit:

  • Helgi Skúli Kjartansson: Ísland á 20. öld (2002).
  • Heimir Þorleifsson: Frá einveldi til lýðveldis. Íslandssaga eftir 1830 (1973).
  • Gunnar Karlsson og Bragi Guðmundsson: Uppruni nútímans. Kennslubók í Íslandssögu eftir 1830 (1997).
  • Illugi Jökulsson o.fl.: Ísland í aldanna rás. 1900-1950 (2000).
  • Guðmundur Hálfdánarson og Svanur Kristjánsson (ritstj.): Íslensk þjóðfélagsþróun 1880-1990. Ritgerðir (1993).

Menntun

Hópur kennara fyrir utan kennaraskólannÁ heimastjórnartíma hófst uppbygging menntakerfis í landinu. Fræðslulögin 1907 tryggðu börnum landsins fjögurra ára ókeypis skólagöngu, í farskóla ef ekki voru tök á öðru. Þeim var fylgt eftir með stofnun kennaraskóla í Reykjavík. Hinum gamla Lærða skóla var 1904 breytt í menntaskóla með nútímalegra námsefni. Og 1911 voru Íslendingar svo stórhuga að stofna eigin háskóla.

Á Íslandi höfðu börnin fengið uppfræðslu sína heima, en prestar litið eftir að þau lærðu það sem tilskilið var fyrir fermingu. Á landshöfðingjatíma var skylt að börn lærðu, auk fermingarfræðanna, lestur, skrift og reikning. Heimilin báru ábyrgð á skyldufræðslu barnanna, en víða tóku menn sig saman og stofnuðu skóla. Alþingi ýtti undir skólahald með því að veita styrki, bæði til fastra skóla í bæjum og þorpum og til farkennslu í sveitum, en annars stóðu foreldrar undir kostnaði með skólagjöldum. Farskólar höfðu ekkert ákveðið húsnæði, heldur var kennt heima á sveitabæjum þar sem húsrými leyfði, og komu þá börn úr nágrenninu þangað til að njóta kennslu.

Í upphafi heimastjórnar var meirihluti barna farinn að njóta einhverrar skólagöngu, og undirbúningur var hafinn að löggjöf sem skyldi koma skipan á almenna og ókeypis skólagöngu barna. Þetta varð að veruleika með fræðslulögunum 1907. Þar er heimilunum áfram ætlað að fræða börnin til 10 ára aldurs, gera þau læs og eitthvað skrifandi. En næstu fjögur ár, fram að fermingu, eiga börnin að njóta ókeypis fræðslu á vegum sveitarfélaganna, en með styrk frá landssjóði og undir eftirliti fræðslumálastjórans í Reykjavík. (Það var nýtt embætti og ætlað áþekkt hlutverk í fræðslumálum og biskup og landlæknir gegndu á sínum sviðum.) Gert er ráð fyrir farskólum í sveitum, og eru kröfurnar þá minni um námsefni og árlegan námstíma en í föstum skólum. Auk þess gátu sveitahreppar ákveðið að sleppa skólahaldi og láta börnin læra heima, en þá var skylt að ráða mann til eftirlits og aðstoðar við heimafræðsluna. Þessi eftirlitsfræðsla var víða látin duga fyrstu ár fræðslulaganna.

Skyldufræðslan, sem lauk á fermingarári barnanna, var undirbúningur undir lífið en ekki upphafið á samfelldri skólagöngu. Flestir framhaldsskólar höfðu aldurstakmörk og tóku ekki við unglingum fyrr en nokkrum árum eftir fermingaraldur. Í menntaskóla var hægt að byrja strax, en þá þurfti að standast inntökupróf sem alls ekki var miðað við námsefni barnaskólanna. En flestir voru þeir unglingar, sérstaklega stúlkurnar, sem alls ekki settust á skólabekk eftir fermingu.

Árið 1904 töldust samtals um 550 nemendur í unglingaskólum og framhaldsskólum landsins. Þeim fjölgaði á heimastjórnarárunum í tæp 900, og lét þá nærri að hver unglingur væri að meðaltali einn vetur í skóla eftir skyldunám.

HvanneyriVerklegt eða starfstengt nám stóð til boða í iðnskólum (í Reykjavík frá 1904, síðan einnig á Akureyri og Ísafirði), sjómannaskóla, verslunarskóla og kennaraskóla (sem tók til Hvanneyristarfa 1908, stofnaður í tengslum við fræðslulögin). Þá voru á nokkrum stöðum húsmæðraskólar fyrir stúlkur, og fyrir bændaefni rak landið frá 1907 bændaskólana á Hólum og Hvanneyri. Áður störfuðu þar, og á tveim stöðum öðrum, búnaðarskólar, sem einstaklingar og héraðsstjórnir (sýslur og ömt) stóðu fyrir. Tilgangur þeirra hafði verið að mennta búfræðinga sem kynnu nútímaleg vinnubrögð, t.d. að plægja með hestum, og gætu tekið að sér slík verk fyrir bændur eða ferðast um og kennt þau. Nú var sú stefna mótuð að reka fjölmennari skóla þar sem verðandi bændur ættu sem flestir að læra sjálfir til síns starfa.

Konungsheimsóknin 1907Ef ungir menn áttu að „ganga menntaveginn“, þá lá leið þeirra í Hinn almenna menntaskóla í Reykjavík, eins og hann hét frá 1904 þegar Lærða skólanum var breytt úr fornmálaskóla í almenna máladeild; stærðfræðideild var engin á heimastjórnartíma. 

Menntaskólinn var sex vetra skóli, en margir lásu einhverja bekki utan skóla. Fyrri bekkirnir þrír voru kallaðir gagnfræðadeild, enda áttu þeir það sammerkt með gagnfræðaskólum að þar var ekki kennd latína. Hún var hins vegar kjarnagrein síðari bekkjanna, sem nefndust lærdómsdeild. Stúdentar voru 1–2% af árgangi og fór heldur fjölgandi. Skólinn var opnaður fyrir stúlkum 1904, en í næstu fimm árgöngum var ýmist ein stúlka eða engin; síðan fjölgaði þeim nokkuð.

Stúdentar gátu aflað sér starfsmenntunar í Reykjavík við Prestaskólann eða Læknaskólann. Þeir voru kallaðir embættismannaskólar (má flokka sem „sérskóla á háskólastigi“), veittu ekki háskólagráðu og ekki var reynt að gera námið jafngilt kandídatsnámi í guðfræði eða læknisfræði. Í þeim voru samtals 19 nemendur 1904. Svo bættist við Lagaskólinn 1908. Danska stjórnin hafði verið andvíg lagakennslu á Íslandi, en með tilkomu heimastjórnar urðu Íslendingar sjálfráðir um þetta eins og önnur innlend mál.

Embættismannaskólarnir þrír voru sameinaðir í Háskóla Íslands sem tók til starfa 1911 (formlega stofnaður 17. júní, á 100 ára afmæli Jóns Sigurðssonar). Breytingin var meira en formsatriði. Bætt var við fjórðu deildinni, heimspekideild, þar sem kennd voru „forspjallsvísindi“ og íslensk eða norræn fræði. Og við hinar deildirnar var kennsla aukin, enda átti námið að standa undir háskólagráðum, hliðstæðum þeim sem stærri háskólar veittu. Brautskráðir kandídatar urðu bráðlega um og yfir 10 á ári. Konur höfðu frá upphafi fullan rétt til náms við háskólann, og útskrifaðist hin fyrsta frá læknadeild 1917.

Stúdentsprófið gaf einnig rétt til háskólanáms erlendis, til 1918 yfirleitt í Kaupmannahöfn þar sem íslenskir stúdentar nutu sérstakra styrkja. Þangað sóttu menn nám í raunvísindum, tæknigreinum og tungumálum, og metnaðargjarnir stúdentar vildu heldur læra erlendis þær greinar sem í boði voru heima; þess gætti þó síður eftir stofnun Háskólans.

Háskóla Íslands var ætlað að hefja rannsóknir og fræðimennsku til aukinnar virðingar, ekki síður en kennsluna.

Með stofnun hans, og kennslu í íslenskum fræðum í viðbót við embættismannadeildirnar þrjár, varð til ný menningarmiðstöð í höfuðstaðnum. Sami metnaður til að rækta rannsóknir og bókmenningu birtist í því að ein fyrsta stórframkvæmd heimastjórnarinnar var að reisa veglegasta skrauthýsi Reykjavíkur (Þjóðmenningarhúsið sem nú er) yfir söfn landsins: bókasafn, skjalasafn, forngripasafn og náttúrugripasafn, sem áður var holað niður í Alþingishúsi og á Dómkirkjulofti. Þinghúsið varð í staðinn bráðabirgðaheimkynni Háskóla Íslands; þar var kennt á veturna en þing háð á sumrin.

Heimastjórnartíminn hafði, þegar allt er talið, markað býsna djúp spor í menntamálum þjóðarinnar. Fræðslulögin 1907 voru sú breyting sem flestir nutu góðs af. Á öðrum skólastigum fjölgaði líka skólum og nemendum. Nýir framhaldsskólar komu til sögunnar, eins og iðnskólinn og kennaraskólinn. Öðrum var breytt í nýtt horf, eins og menntaskólanum og bændaskólunum. Háskólastigið gjörbreyttist með Lagaskólanum og síðan Háskóla Íslands.

Íslendingar höfðu löngum talið sig bókhneigða, fróðleiksfúsa og í rauninni vel menntaða, þrátt fyrir afar takmarkaða skólagöngu. Ráðamönnum heimastjórnartímans var ljóst að til að viðhalda menntun og menningu dugði ekki annað en skipuleg efling menntastofnana.

Kvenréttindi

Lagning hitaveitustokksTalsverð umræða var um réttindi og stöðu kvenna á síðasta fjórðungi 19. aldar en nokkrum réttarfarslegum umbótum hafði verið komið á þegar um miðbik aldarinnar. Árið 1850 fengu dætur jafnan erfðarétt á við syni og árið 1861 tóku gildi ný lög um myndugleika kvenna. Með þeim var ógiftum konum 25 ára og eldri veitt fjárræði en áður höfðu þær konur þurft að hafa svokallaðan tilsjónarmann sem hafði eftirlit með fjárreiðum þeirra. Giftar konur voru ómyndugar. Eiginmenn höfðu einir ráðstöfunarrétt á eigum búsins og gátu, ef svo horfði við, sólundað öllum eigum hjóna án þess að konan fengi rönd við reist. Fjárræði giftra kvenna var mjög til umræðu í blöðum og á Alþingi síðustu tvo áratugi 19. aldar en ný lög urðu ekki að veruleika fyrr en árið 1900. Með þeim fengu konur heimild til séreignar og ráðstöfunar eigin eigna og tekna. Eiginmaðurinn hafði þó eftir sem áður yfirráð yfir eigum búsins.

Árið 1882 fengu ekkjur og ógiftar konur, sem stóðu fyrir búi eða áttu með sig sjálfar, kosningarétt til sveitarstjórna og safnaðarnefnda. Þetta var fámennur hópur kvenna því auk ofangreindra skilyrða þurftu þær að uppfylla almenn skilyrði um kosningarétt. Þingmönnum þóttu þessi réttindi leiða "svo ljóslega af hlutarins eðli og kröfum þessara tíma" að óþarft þótti að færa rök fyrir þeim. Þau helstu voru þó að þar sem þessar konur greiddu fullt eins mikið í opinber gjöld og meðalbændur væri sjálfsagt að þær nytu að einhverju leyti hliðstæðra réttinda. Kjörgengi fengu þær ekki fyrr en tuttugu árum síðar, eða árið 1902, og þá var sett inn ákvæði sem ekki gilti um karla; konum var heimilt að skorast undan kosningu.

Þetta ákvæði var ekki afnumið fyrr en árið 1926. Fyrsta konan til þess að kjósa eftir lögunum frá 1882 var Andrea Guðmundsdóttir saumakona á Ísafirði árið þegar hún kaus í bæjarstjórnarkosningum 1884. Raunar höfðu að minnsta kosti þrjár konur kosið til sveitarstjórnar áður en lögin voru sett, ein á Akureyri og tvær vestur á fjörðum.

Menntun

SkólastúlkurMikill munur var á möguleikum drengja og stúlkna til menntunar á 19. öld. Öll börn áttu að læra að lesa en það var ekki fyrr en árið 1880 sem lögboðið varð að öll börn, bæði stúlkur og drengir, skyldu læra að skrifa og reikna. Það viðhorf var ríkjandi fram yfir miðja öldina að stúlkur og fátækir piltar hefðu lítið gagn af bóknámi, ekki síst stúlkur. Þeim væri nær að "taka lykkju á vettlingnum, eða að prjóna sokkinn sinn." Þessa sjást skýr merki í æviminningum 19. aldar fólks, hvað mest þó þegar lýst er æsku og uppvexti fólks fyrir og um 1850. Um 1870 var rætt um nauðsyn þess að koma á fót sérstökum kvennaskólum þar sem konur lærðu hið nauðsynlegasta til munns og handa og undirbyggju sig þannig fyrir framtíðarhlutverk sitt sem húsmæður.

Fyrsti kvennaskólinn, Kvennaskólinn í Reykjavík var stofnaður árið 1874, árið 1877 var kvennaskólum komið á fót í Skagafirði og Eyjafirði Kvennaskólinn í Húnavatnssýslu og í Húnavatnssýslu 1879. Þótt megináherslan væri lögð á hannyrðir og matseld í þessum skólum var einnig talsvert bóknám og ljóst er að kvennaskólarnir höfðu mikil áhrif á menntun og framför kvenþjóðarinnar á síðari hluta 19. aldar. En kvennaskólanámið var kostnaðarsamt og því ekki á færi allra stúlkna að stunda það. Auk þess höfðu ýmsir horn í síðu kvennaskólanna, fannst þeir ýta undir pjatt og gera stúlkur fráhverfar almennum sveitastörfum og vinnumennsku, hvort heldur í sveit eða bæ.

Árið 1886 fengu konur takmarkaðan rétt til náms við Lærða skólann, prestaskólann og læknaskólann. Takmarkanirnar voru þó slíkar að námið varð ekki árennilegt auk þess sem konur höfðu hvorki rétt til námsstyrkja meðan á námi stóð né rétt til embætta eftir að námi lauk. Aðeins ein kona, Elínborg Jacobsen, lauk stúdentsprófi við Lærða skólann - utan skóla eins og lög gerðu ráð fyrir - og var það árið 1897.

Laun

Nokkrir íslenskir hugsjónamenn létu sig réttindi kvenna talsvert varða á síðari hluta 19. aldar. Meðal þeirra var Þorlákur Ó. Johnson kaupmaður en hann hafði dvalið árum saman í Englandi og Danmörku og kynnst þar nýjum straumum og stefnum. Þorláki misbauð launamunur karla og kvenna, t.d. við uppskipun, en þar fengu konur helmingi lægri laun en karlar þótt þau ynnu sömu vinnu, hlið við hlið. Þorlákur er talinn hafa verið fyrstur til þess að setja fram á prenti kröfuna um sömu laun fyrir sömu vinnu en það gerði hann í bókinni Mínir vinir, sem hann gaf út árið 1879.

Það hafði lengi tíðkast að borga körlum hærri laun en konum. Laun vinnukvenna voru t.d. að jafnaði 1/3 af kaupi karla, í besta falli helmingur, en stundum minna og matarskammtur kvenna var minni en karla. Þær gengu hins vegar oft í sömu störf og þeir, einkum ef vinnumenn fóru í verið, og voru því mun ódýrara vinnuafl en karlarnir. Í Alþingissamþykkt frá 1720 var kveðið á um að ef konur ynnu karlmannsverk fengju þær karlmannslaun en eftir því mun ekki hafa verið farið þrátt fyrir að bændur teldu konur drýgra vinnuafl en karla.

Vakning kvenna

Bríet Bjarnhéðinsdóttir birti grein sína "Nokkur orð um menntun og rjettindi kvenna" í Fjallkonunni í júní 1885 og árið 1887 hélt hún fyrirlesturinn "Um hagi og rjettindi kvenna", sem var fyrsti fyrirlestur kvenmanns á Íslandi. Fyrirlesturinn var haldinn í Góðtemplarahúsinu á vegum Þorláks Ó. Johnsonar kaupmanns. Jón Ólafsson Alaskafari leiddi Bríeti í ræðustól en Hannes Hafstein hafði lesið fyrirlesturinn yfir fyrir hana fáeinum klukkustundum fyrr og þótt hann góður. Þau Hannes bjuggu þá í sama húsi en á sitthvoru heimilinu.

Fyrirlestrar voru haldnir um kvenréttindi á vegum Thorvaldsensfélagsins sumarið 1885 og 1886 stofnaði Skúli Thoroddsen sýslumaður á Ísafirði blaðið Þjóðviljann sem setti í stefnuskrá sína: "Rjett finnst oss, að karlar og konur sjeu jafnt sett að løgum." Fjöldi greina um kvenfrelsi birtist í Þjóðviljanum á næstu árum og hafði stefna blaðsins áhrif í Suður-Þingeyjarsýslu þar sem mikil gróska var í frelsis- og framfaramálum. Árið 1888 tóku 100 þingeyskar og vestfirskar konur sig saman og skrifuðu undir sameiginlega áskorun til Alþingis um aukin réttindi kvenna. Báru þeir Skúli og Pétur Jónsson á Gautlöndum í Mývatnssveit áskorunina fram á Þingvallafundi sumarið 1888 og samþykkti þingheimur að vinna að réttindum kvenna.

Skúli Thoroddsen tók sæti á Alþingi árið 1891 og lagði fram ásamt séra Ólafi Ólafssyni þrjú frumvörp um réttindi kvenna. Það voru fjárráð giftra kvenna, réttur kvenna til menntunar og embætta og kjörgengi þeirra kvenna sem þegar höfðu kosningarétt til sveitarstjórna. Frumvörpunum var öllum vísað til sömu nefndar og þar döguðu þau uppi. Skúli lagði kjörgengisfrumvarpið aftur fram árið 1893 og var það þá samþykkt en synjað staðfestingar konungs. Skúli hélt þessu máli til streitu allt til ársins 1902 er það varð að lögum.

Heimastjórnartíminn og kvenréttindi

Við upphaf nýrrar aldar var vaxandi þungi í kvenréttindamálinu hér á landi. Aukin lagaleg réttindi voru staðreynd og konur kváðu sér hljóðs á fleiri sviðum en áður. Kvennaskólagengnar stúlkur áttu þess kost að vinna fyrir sér með kennslu og nokkrar konur höfðu sótt sér menntun til útlanda.

Eins og fram kom hér að framan var réttur kvenna til náms við æðri menntastofnanir landsins takmarkaður en árið 1904 varð breyting á. Þá var sett ný reglugerð um Lærða skólann, sem framvegis var kallaður Menntaskóli, og í henni fólst að skólinn skyldi opinn jafnt stúlkum sem piltum. Það þýddi að stúlkur gátu lært undir og tekið stúdentspróf án nokkurra takmarkana. Reglugerðin var eitt af fyrstu embættisverkum Hannesar Hafstein sem ráðherra Íslands en heimildir benda til að ritstjórinn og kvenréttindakonan Bríet Bjarnhéðinsdóttir hafi verið með í ráðum. Blaða- og tímaritaútgáfa kvenna stóð í nokkrum blóma um aldamótin 1900.

Tvö kvennablöð voru gefin út: Framsókn (1895-1901) og Kvennablaðið (1895-1919). Útgefendur og ritstjórar Framsóknar voru mæðgurnar Sigríður Þorsteinsdóttir og Ingibjörg Skaftadóttir á Seyðisfirði frá 1895 til 1899 en þá seldu þær blaðið Jarþrúði Jónsdóttur og Ólafíu Jóhannsdóttur í Reykjavík sem héldu útgáfunni áfram til ársloka 1901.

KvennablaðiðKvennablaðið kom út í Reykjavík og var gefið út og ritstýrt af Bríeti Bjarnhéðinsdóttur í aldarfjórðung. Hið íslenska kvenfélag gaf út ársrit 1895-1899 þar sem birtar voru greinar um háskólamálið, kvenréttindi á Íslandi og þátt kvenna í stjórnarskrármálinu auk annarra greina um réttindi kvenna víða um heim. Þá gaf kvenfélagið út hið merka rit Johns Stuarts Mills, Kúgun kvenna, í íslenskri þýðingu árið 1900. Nokkrar skáldkonur höfðu þegar þarna var komið sögu gefið út hugverk sín; ljóð og skáldsögur.

Um aldamótin 1900 höfðu nokkur kvenfélög verið stofnuð á landinu. Flest sinntu þau almennum framfaramálum og líknarmálum en fyrsta félagið sem hafði kvenréttindi á stefnuskrá sinni var Hið íslenska kvenfélag sem stofnað var árið 1894 fyrir tilstuðlan Þorbjargar Sveinsdóttur ljósmóður. Þorbjörg var ein skeleggasta kvenréttindakona landsins á þessum tíma, lét talsvert til sín taka í pólitískri umræðu samtímans og leiðst einni kvenna að taka til máls á stjórnmálafundum undir lok 19. aldar.

Íslenskar kvenfrelsiskonur voru í nánum tengslum við erlendar baráttukonur, ekki síst á Norðurlöndunum. Árið 1904 fór Bríet Bjarnhéðinsdóttir í nokkurra mánaða ferð um Norðurlöndin og drakk í sig baráttuhug norrænna stallsystra sinna. Hún kom tvíefld til baka og áhrifa þess gætti í Kvennablaðinu.

Aftur fór Bríet utan árið 1906, að þessu sinni á fund alþjóðasamtaka kvenréttindafélaga í Kaupmannahöfn en þangað var henni boðið þrátt fyrir að ekkert slíkt félag væri starfandi hér á landi. Undir áhrifum af þessum fundi var Kvenréttindafélag Íslands stofnað hinn 27. janúar 1907. Helsta markmið félagsins var að vinna að kosningarétti og kjörgengi kvenna og rétti kvenna til menntunar og embætta. Bríet varð formaður félagsins og gegndi hún því embætti til ársins 1927, að einu ári undanskildu, 1911-1912 þegar Guðrún Jónasson var formaður.

Hið íslenska kvenfélag stóð fyrir söfnun undirskrifta kvenna árið 1907 þar sem skorað var á Alþingi að veita konum, jafnt giftum sem ógiftum, kosningarétt og kjörgengi til Alþingis, jafnframt að konur fengju full réttindi á við karlmenn. Undir þessa áskorun skrifuðu 11.381 kona alls staðar að af landinu en árið 1910 töldust íslenskar konur 15 ára og eldri tæp 30.000. Þessi mikli fjöldi undirskrifta sýnir svo ekki verður um villst að það var almennur vilji meðal kvenna að fá jafnrétti á við karla.

Árið 1907 bar það einnig til tíðinda að konur, þó ekki vinnukonur, í Reykjavík og Hafnarfirði fengu kosningarétt og kjörgengi til bæjarstjórna. Fjölmennir fundir Reykvíkinga höfðu leitt í ljós vilja manna til þess að rýmka kosningalögin, m.a. fundur Blaðamannafélagsins í apríl þar sem Bríet Bjarnhéðinsdóttir tók til máls ein kvenna og lýsti þeirri skoðun sinni að það yrði til góðs að fá konur inn í bæjarstjórn.

Á þessum 500 manna fundi andmælti enginn þeirri hugmynd að konur fengju sama kosningarétt og karlar. Þingmenn Reykjavíkur, Tryggvi Gunnarsson bankastjóri og Guðmundur Björnsson landlæknir, boðuðu til þingmálafundar tveimur mánuðum síðar og þar sem samþykkt var ályktun um almennan kosningarétt kvenna og karla.Tryggvi GunnarssonMánuði síðar lögðu þeir Tryggvi og Guðmundur fram frumvarp á Alþingi um bæjarstjórn Reykjavíkur þar sem kveðið var á um að konur, að vinnukonum undanskildum, fengju kosningarétt og kjörgengi við bæjarstjórnarkosningar með sömu skilyrðum og karlar.

Nokkur umræða varð um málið á þingi og vildu sumir þingmenn að vinnukonum yrðu veitt þessi réttindi en niðurstaðan varð sú sem að ofan greinir, auk þess sem konum var gert heimilt að skorast undan kosningu. Konur réðu sér vart fyrir fögnuði og hófu þegar undirbúning að framboði til bæjarstjórnarkosninga í Reykjavík, sem fram áttu að fara í janúar 1908. Víðtæk samstaða náðist meðal kvenfélaga bæjarins og myndaður var framboðslisti kvenna.

Meginmarkmiðið var að koma konum inn í bæjarstjórn og sýna efasemdarmönnum að konur vildu taka þátt. Þá héldu konurnar á lofti sömu sjónarmiðum og kynsystur þeirra erlendis, og einnig margir þeirra karla sem studdu konur í réttindabaráttu þeirra, að konur hefðu siðbætandi áhrif og væru betur til þess fallnar en karlar að starfa að t.d. fátækra- og velferðarmálum. Framboðslistinn var skipaður þeim Katrínu Magnússon, formanni Hins íslenska kvenfélags, Þórunni Jónassen, formanni Thorvaldsensfélagsins, Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, formanni Kvenréttindafélags Íslands og Guðrúnu Björnsdóttur mjólkursölukonu.

Guðrún BjörnsdóttirKonurnar settu af stað afar vel skipulagða kosningabaráttu, skiptu hverfum bæjarins á milli sín, gengu hús úr húsi og héldu fundi til þess að útskýra kosningalögin og fræða konur um bæjar- og sveitarstjórnarmál. Árangurinn lét heldur ekki á sér standa. Kvennalistinn var sigurvegari kosninganna, fékk 21,3% greiddra atkvæða og kom að öllum fjórum frambjóðendum sínum.

Kosningaþátttaka kvenna var 49% á móti 63% karla. Konur unnu saman að sérstökum framboðslistum kvenna við bæjarstjórnarkosningar 1910, 1912, 1914 og 1916 en velgengnin frá fyrstu kosningunum varð ekki endurtekin. Stofnun Kvenréttindafélagsins, undirskriftasöfnun Kvenfélagsins og velgengni kvennalistans í Reykjavík hefur án efa haft hvetjandi áhrif á konur. Þá fór Bríet Bjarnhéðinsdóttir í fyrirlestraferð á vegum Kvenréttindafélags Íslands sumarið 1908 í því skyni að efla baráttuanda íslenskra kvenna og stuðla að stofnun kvenréttindafélagsdeilda. 

Fyrirlestrarnir voru 12 talsins og hafði Bríet eftir konum sem á hana hlýddu að þeir hefðu þótt mikil nauðsyn. Ef til vill voru það þessar konur sem komu saman hér og þar um landið og sömdu áskoranir um jafnrétti kvenna og karla og sendu til Alþingis. Konur í Skarðsstrandarhreppi í Dalasýslu, Húnavatnssýslu, Seyðisfirði, Þingeyjarsýslu, Álftaneshreppi á Mýrum og í Reykjavík sendu áskoranir til Alþingis árið 1909 þar sem þær fóru fram á að konur nytu sömu réttinda og karlar. Konur á Stokkseyri töluðu um "frjálsa þjóð í frjálsu landi" í áskorun sinni og tengdu þannig saman sjálfstæðisbaráttuna og kvenréttindabaráttuna, eins og margar konur höfðu gert allt frá því um 1870. Þær vildu vera fullgildir þegnar í frjálsu landi og hafa eitthvað um framtíð lands og þjóðar að segja.

Árið 1909 fengu konur um land allt kosningarétt og kjörgengi til sveitarstjórnar með sömu skilyrðum og karlar, þar með talin vinnuhjú en þeir sem þegið höfðu sveitarstyrk voru undanskildir. Sama ár voru samþykkt lög um Háskóla Íslands, sem tók til starfa tveimur árum síðar og samkvæmt þeim giltu sömu inntökuskilyrði fyrir karla og konur. Úti í samfélaginu var talsverð umræða um kvenréttindi. Bríet hélt úti Kvennablaðinu þar sem hún hvatti konur til dáða. Baráttan var þó ekki auðveld. Margar þeirra kvenna sem létu mest að sér kveða voru sterkar persónur sem áttu misauðvelt með að starfa saman.

Innan Kvenréttindafélagsins var t.d. ekki alltaf einhugur um þau mál sem upp komu. Á sama tíma fjölgaði vel menntuðum konum sem höfðu jafnvel stundað nám erlendis og höfðu áhrif innan kvennahreyfingarinnar. Stofnað var Lestrarfélag kvenna árið 1911 upp úr lesstofu Kvenréttindafélagsins með það að markmiði að auka þekkingu, færni og framfarir kvenna, bæði á hefðbundnum sviðum og í opinberum málum, með bóklestri, umræðufundum og fyrirlestrahaldi. Það var konum hjartans mál að þær yrðu sem best að sér, bæði til þess að geta sinnt betur hefðbundnum störfum sínum inni á heimilunum og ekki síður til þess að verða nýtir þjóðfélagsþegnar þegar þær fengju rétt til þess að axla sömu byrðar og karlar.

Þess var líka skammt að bíða að frekari réttindi fengjust því árið 1911 lagði Hannes Hafstein fram frumvarp á Alþingi um rétt kvenna til menntunar og embætta. Þetta gerði hann að undirlagi Bríetar Bjarnhéðinsdóttur en samband þeirra og samvinna um framgang kvenfrelsismála er verðugt rannsóknarefni. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir takmarkalausum rétti kvenna til hverrar þeirrar menntunar er þær lysti, sama rétti og karlar til námsstyrkja og sömu réttindum og skyldum til embætta.

Af umræðum má sjá að menn voru almennt frekar hlynntir auknum rétti kvenna til menntunar þótt þeir efuðust um hæfileika þeirra til þess að sinna öllum embættum. Jón Jónsson í Múla, sem var góðvinur Bríetar frá fornu fari og hafði stutt réttindi kvenna, sagði einfaldlega að karlar væru miklu færari um að sinna embættum en konur. Þær ættu að vera heima og hugsa um börn og bú og það væri afkáralegt ef karlinn sæti heima en konan "væri á sífeldu flakki og ferðalagi".

Þó voru þingmenn nokkuð sammála um að eftir sem áður myndu konur leita á hefðbundin mið, "Náttúran segir til sín", eins og Hannes Hafstein orðaði það. Mestar deilur urðu um þá staðreynd að samkvæmt frumvarpinu gátu konur orðið prestar.

Svo fór þó að lokum að frumvarpið var samþykkt með 16 atkvæðum gegn fimm og ein merkustu lög íslenskrar kvennasögu voru orðin að veruleika. Hvergi annars staðar í heiminum nutu konur jafn sambærilegra réttinda til náms og embætta. Þær konur sem hvað mest létu til sín taka í kvenfrelsismálum tilheyrðu vaxandi borgarastétt landsins og voru margar betur menntaðar en almennt gerðist um konur á Íslandi. En verkakonur voru einnig að vakna til vitundar um að samtakamáttur mætti sín einhvers.

Saltfiskvinnsla, fiskbreiðsla á KirkjusandiFiskverkakonur í Hafnarfirði lögðu niður vinnu dagsstund eða hluta úr degi árið 1907 og uppskáru launahækkun. Árið 1912 fóru hafnfirskar fiskverkakonur aftur í verkfall í því skyni að knýja á um hækkun launa og stóð það í a.m.k. einn mánuð. Þær höfðu þá 15 aura á tímann hvort sem um sunnudaga-, eftir- eða dagvinnu var að ræða. Karlar höfðu hins vegar 40-50 aura í sunnudaga- og eftirvinnu. Konurnar fengu kröfur sínar að mestu uppfylltar og fagnaði Bríet Bjarnhéðinsdóttir þessum áfanga í forsíðufrétt í Kvennablaðinu. Bríet átti einmitt hlut að máli þegar verkakvennafélagið Framsókn var stofnað 25. október árið 1914 en það var í fyrsta sinn sem konur bundust samtökum til þess að vinna að bættum kjörum verkakvenna. Stofnun félagsins var undirbúin innan Kvenréttindafélagsins eftir að Jónína Jónatansdóttir hafði minnt á nauðsyn þess að vinna að bættum hag verkakvenna. 

Kosningaréttur og kjörgengi kvenna var til umræðu á hverju þinginu á fætur öðru þegar kom fram um 1910. Þingmenn tókust á um sambandið við Dani og reyndu að koma sér saman um stjórnarskrá fyrir Ísland þar sem kosningaréttur kvenna var ýmist úti eða inni. Árið 1911 lá nærri að málið væri í höfn en ári síðar var stjórnarskrármálinu vísað frá þingi. Stjórnarskrárfrumvarp var samþykkt árið 1913 en samkvæmt því áttu konur og hjú, 40 ára og eldri að fá kosningarétt við staðfestingu stjórnarskrárinnar. Aldurstakmarkið átti síðan að lækka um eitt ár árlega næstu 15 árin. Rökin fyrir þessu aldurstakmarki voru þau að konur væru ekki tilbúnar að takast á við þá ábyrgð og þær skyldur sem fylgdu kosningarétti og kjörgengi til Alþingis. Konur voru fráleitt ánægðar með þetta aldurstakmark og Bríeti Bjarnhéðinsdóttur fannst konur lítilsvirtar með þessari ákvörðun. Á norrænum fundi sem haldinn var í Danmörku 1914 hlógu konur þegar íslenski fulltrúinn sagði frá þessu ákvæði. Ný stjórnarskrá fyrir Ísland var staðfest af konungi 19. júní 1915 og þótt takmörkuð væru fögnuðu konur þessum langþráðu réttindum.

Kvenfélög bæjarins sameinuðust um fagnaðarhátíð á þingsetningardaginn 7. júlí. Konur söfnuðust saman við Barnaskólann og gengu síðan fylktu liði um miðbæinn og við Alþingishúsið á Austurvelli. Sendinefnd kvenna gekk á fund þingmanna og flutti þeim þakkarávarp kvenna. Að því loknu héldu hátíðarhöldin áfram utandyra þar sem sungin voru lög og lesin stutt ávörp.

Bríet Bjarnhéðinsdóttir hélt ræðu þar sem hún rakti sögu kvenréttindabaráttunnar, fagnaði fengnum réttindum og sagði konur óska "einskis fremur, en að fá að vinna að sameiginlegum landsmálum með bræðrum vorum". Þá þakkaði Bríet sérstaklega þremur körlum þeirra framlag. Skúla Thoroddsen fyrir "hans þrautseigu liðveislu fyr á tímum". Hannesi Hafstein sem studdi konur dyggilega bæði sem ráðherra og þingmaður og loks Einari Arnórssyni ráðherra sem fylgdi stjórnarskrárfrumvarpinu í höfn. Það tók kvennahreyfinguna nokkurn tíma að finna kröftum sínum farveg því það var álit margra að hennar væri ekki þörf fyrst lagaleg réttindi væru fengin.

Samstaða náðist þegar árið 1915 um það að hefja fjársöfnun til stofnunar Landsspítala, sem átti að vera þakklætisvottur kvenna fyrir fengin stjórnmálaréttindi. Þetta flokkast þó fremur undir líknarmál en kvenréttindamál. Bríet Bjarnhéðinsdóttir bauð sig fram við Alþingiskosningar árið 1916 þegar hún settist í fjórða sæti á lista Heimastjórnarflokks Hannesar Hafstein. Bríet var eina konan á framboðslista við þessar kosningar en kjósendur breyttu röðun á listanum þannig að Bríet féll niður í fimmta sæti. Þetta urðu henni mikil vonbrigði. Bríet var óþreytandi við að minna konur á að enn væri verk að vinna og vildi að konur sæktu fram og nýttu sér fengin réttindi. Hún skrifaði í Kvennablaðið í desember árið 1919: Fyrsta skilyrðið ... er að nota hin gefnu réttindi. Og þá kemur fyrst til það skilyrðið: að vera jafnfær í hverja stöðu sem þær æskja eftir, og keppinautar þeirra, karlmennirnir. Sé það skilyrði uppfylt, þá er að gera sig gildandi. Láta taka jafnmikið tillit til sín og þeirra. Gera sig ekki ánægða með lægri laun eða minna tillit, til að komast að, og sjá um að konur fái að hækka í stöðum eftir verðleikum og venjum eins og karlmennirnir, en ekki gera sig ánægða með að nöldra að eins yfir ranglætinu, en þola það þó.

Þegar þarna var komið sögu var Ísland orðið fullvalda ríki og aldursákvæðið um kosningarétt kvenna við það að falla úr gildi með nýrri stjórnarskrá sem tók gildi árið 1920.

Framundan voru nýir tímar þar sem konur tóku í vaxandi mæli þátt í opinberum málum og héldu inn á nýjar brautir í menntun og starfsvali. Sú leið var ekki alltaf auðveld því það viðhorf var enn ríkjandi að staður kvenna væri inni á heimilinu og að þær ættu ekki erindi í landsmálin eða væru hæfar til að sinna þeim embættum sem karlar einir höfðu haft aðgang að.

Félagshreyfingar á heimastjórnartímum

Félagslíf er yfirleitt hvarvetna bundið hæfilegu þéttbýli. Á 19. öld var þéttbýlismyndun rétt nýhafin á Íslandi og félagasamtök því fáskrúðug. Það var helst að bændur tækju sig saman á ofanverðri öldinni til að stofna félög um verslun í andófi við danska kaupmenn. Einnig voru stofnuð búnaðarfélög og sparisjóðir á einstaka stað, lestrarfélög nokkuð víða og skammlíf ungmennafélög í einstaka sveitum. Nokkur menntamannafélög voru og starfandi, svo sem Hið íslenska bókmenntafélag og Hið íslenska biblíufélag.

Einn helsti farvegur félagsskapar á 19. öld voru verslunar- og kaupfélög bænda. Elst kaupfélaga er talið Kaupfélag Þingeyinga á Húsavík (stofnað 1882). Það leiddi til stofnunar fjölda sambærilegra félaga á næstum árum og áratugum. Nokkrir forystumenn fyrstu kaupfélaganna stofnuðu Landsamband kaupfélaga 1895 og var megintilgangur þess fræðsla um samvinnustefnuna.

Framhald þessarar starfsemi var Samband íslenskra samvinnufélaga (SÍS) sem hafði víðtæka verslun og fræðslustarfsemi að leiðarljósi en varð fyrst að stórveldi í íslensku þjóðlífi eftir 1917.

Upp úr 1860 fór að örla á samtökum um stjórnmál. Þar má nefna Kvöldfélagið í Reykjavík (1861), Hið íslenska þjóðvinafélag (1871) og Þjóðlið Íslendinga í Þingeyjarsýslu (1884). Aðrar félagshreyfingar voru einkum stéttbundnar. Þannig stofnuðu kaupmenn, verslunarmenn og iðnaðarmenn með sér félög í helstu kaupstöðum sem voru eins konar klúbbar fremur en hagsmunafélög. Heldri konur í Reykjavík stofnuðu með sér Thorvaldsensfélagið 1874 sem aðallega stóð fyrir góðgerðarstarfsemi. Það markaði upphafið að þátttöku kvenna í félagastarfi.

Undir lok 19. aldar stofnuðu konur svo Hið íslenska kvenfélag (1894) sem aðallega beitti sér fyrir bindindismálum og stofnun háskóla og Hvíta bandið (1895) til baráttu gegn áfengisbölinu og til að vinna að líknarstörfum.

Fyrsta fjöldahreyfingin á Íslandi var líklega Góðtemplarareglan sem stofnuð var á Akureyri 1884 en barst ári síðar til Reykjavíkur. Hún varð að eins konar alþýðuhreyfingu sem hafði mikil áhrif, ekki síst á heimastjórnarárunum. Höfuðmál hennar var að berjast gegn neyslu áfengis en á hennar vegum var einnig margs konar félagsstarf. Í Góðtemplarahreyfingunni voru karlar jafnt sem konur, öfugt við önnur félög og hún var ekki bundin við ákveðna stétt. Góðtemplarastúkurnar urðu eins konar æfingavettvangur almennings fyrir fundasköp, ræðumennsku og leiklist. Reglan bauð stundum fram í sveitarstjórnarkosningum og reyndi að hafa áhrif inn á alþingi. Hún kom því til leiðar að kaupmenn hættu smám saman áfengissölu í verslunum sínum.

Áfengisbannið Árið 1906 unnu bindindismenn sjálft höfuðvirki drykkjuskapar í Reykjavík. Þá keypti Góðtemplarareglan stærsta hótelið, Hótel Ísland, sem varð til þess að það hætti vínveitingum. Fyrir áhrif reglunnar var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1908 aðflutnings- og sölubann á áfengi og gekk það endanlega í gildi 1. janúar 1915. Mjög skiptar skoðanir voru þó um þetta mál og margir töldu að persónufrelsi sínu vegið með lögunum. Meðal annars var í Reykjavík stofnað félagið Þjóðvörn til að berjast fyrir afnámi bannlaganna. Það gerðist síðar í áföngum á millistríðsárunum en þá voru áhrif templara tekin að dvína verulega.

Góðtemplarahreyfingin var fjölda- og hugsjónahreyfing á heimastjórnarárum og tengdist aukinni þjóðernishreyfingu ungs fólks. Skyld henni var ungmennafélagshreyfingin sem fór eins og eldur í sinu um landið og hafði það að markmiði að rækta land og lýð eins og það var kallað. Meðal þess sem mest áhersla var lögð á var rækt við móðurmálið, bindindismál, skógrækt og íþróttir. Fyrirmyndir sótti ungmennafélagshreyfingin til Noregs og til lýðskóla í Danmörku. Fyrsta ungmennafélagið var Ungmennafélag Akureyrar sem stofnað var í ársbyrjun 1906. Í kjölfarið voru fleiri svipuð félög stofnuð víða um land. Fjölmennasta félagið varð Ungmennafélag Reykjavíkur.
Logó UMFÍÍ ágúst 1907 mynduðu félögin með sér samband sín á milli þegar Ungmennafélag Íslands var stofnað á Þingvöllum. Árið 1912 voru félög í Ungmennafélagi Íslands orðin 44 að tölu með rúmlega 2000 félagsmönnum. Ungmennafélagshreyfingin og Góðtemplarahreyfingin voru þá tvímælalaust öflugustu félagsmálahreyfingar ungs fólks um allt land. Aukin bjartsýni og stórhugur Íslendinga á heimastjórnartímum lýsti sér meðal annars í mikilli íþróttavakningu á þessum árum.

Áhugi á íþróttum og útivist meðal ungs fólks var að nokkru leyti hluti af þjóðernisvakningu en einnig angi af alþjóðlegu fyrirbæri. Stöku íþróttafélög höfðu verið stofnuð í þéttbýlisstöðum (svo sem Reykjavík og Vestmannaeyjum) á síðari hluta 19. aldar og má þar nefna skotfélög, glímufélög, sundfélög og skautafélög. Undir lok aldarinnar nam svo knattspyrnan land í Reykjavík.

Jóhannes Jósepsson t.h. í víkingsklæðumMeð stofnun Ungmennafélags Reykjavíkur haustið 1906 hófst fyrst skipulögð skíðaiðkun í Reykjavík, Skíðafélag Reykjavíkur var síðan stofnað 26. febrúar 1914. Skautafélag Reykjavíkur hafði hins vegar verið stofnað 1892 og var langfjölmennasta íþróttafélagið í Reykjavík. Auk skautaiðkana efndi félagið til dansleikjahalds og skemmtana. Eftir 1906 var farið að efna til keppnismóta í hinum ýmsu íþróttagreinum. Glíman var þjóðaríþróttin og mikill metingur milli Norðlendinga og Sunnlendinga um hver ætti bestu glímukappana.

Árið 1908 fóru sjö glímumenn til Ólympíuleikanna í London og sýndu þar íþrótt sína. Það var í fyrsta sinn sem Íslendingar tóku þátt í íþróttamóti erlendis. Í mars 1907 var Íþróttafélag Reykjavíkur (ÍR) stofnað, aðallega með það fyrir augum að iðka fimleika og frjálsar íþróttir. Árið 1909 var farið að keppa í frjálsum íþróttum í Reykjavík eftir alþjóðlegum reglum og árið 1910 sýndi leikfimiflokkur ÍR fyrst opinberlega. Sama ár var stofnað Íþróttasamband Reykjavíkur með það fyrir augum að koma upp íþróttavelli á Melunum í samvinnu við bæjarstjórn Reykjavíkur. Sjö félög stofnuðu sambandið og var samanlögð félagatala þeirra þá 7-800 manns.
Melavöllurinn í ReykjavíkMelavöllurinn var vígður 12. júní 1911 og viku síðar, á hundrað ára afmæli Jóns Sigurðssonar 17. júní, efndi Ungmennasamband Íslands til fyrsta allsherjaríþróttamótsins í Reykjavík. Það stóð í viku og tóku 70 íþróttamenn þátt í því. Keppt var í glímu, frjálsum íþróttum, lyftingum og knattspyrnu en auk þess sýndu leikfimiflokkar karla og kvenna. Árið 1912 var fyrst efnt til keppni um knattspyrnubikar Íslands og var það upphaf Íslandsmótanna í knattspyrnu. Þrjú lið, Fótboltafélag Reykjavíkur (KR), Fram og Fótboltafélag Vestmannaeyja, tóku þátt í þessu fyrsta móti. Íþróttasamband Íslands (ÍSÍ) var stofnað í janúar 1912. Á heimstyrjaldarárunum fyrri (1914-1918) dofnaði svo mjög yfir öllu íþróttalífi.

Á heimastjórnarárum var mikil deigla í trúmálum á Íslandi og stofnuð trúmálafélög og nýir söfnuðir sem stóðu utan þjóðkirkjunnar. Þar má nefna fríkirkjuhreyfinguna sem hófst á Reyðarfirði en náði fyrst varanlegri fótfestu er lútherskur fríkirkjusöfnuður var stofnaður í Reykjavík 1899. Árið 1909 var fullur helmingur Reykvíkinga kominn í fríkirkjusöfnuðinn. Um það leyti var söfnuður aðventista einnig stofnaður.

Árið 1905 var svokallað Tilraunafélag, forveri Sálarrannsóknafélagsins, stofnað til að gangast fyrir miðilsfundum en spíritisminn var heitt deilumál á heimastjórnarárunum og blandaðist inn í stjórnmáladeilur þessara ára.

Séra Friðrik Friðriksson hóf æskulýðsstarf í Reykjavík árið 1897 undir áhrifum frá Danska heimatrúboðinu. Það leiddi til stofnunar KFUM og KFUK árið 1899. Séra Friðrik hafði mikil áhrif á börn og unglinga og á fyrsta áratugi 20. aldar voru um 60 prósent allra drengja í Reykjavík virkir í KFUM. Það var því einn helsti farvegur félagslífs barna og unglinga. Dr. Pétur Pétursson hefur sagt: "Rétt fyrir aldamótin og á fyrsta áratug þessarar aldar [þ. e. 20. aldar] bárust til landsins ýmiss konar nýjar stefnur í trúmálum og náðu fótfestu í því samfélagi sem var að rísa í Reykjavík.

Einstaklingar með sérgáfu spámannsins og leiðtogahæfileika komu fram og höfðu meiri áhrif á trúarlíf þjóðarinnar en önnur dæmi munu til á 19. og 20. öld. Þessar hreyfingar eru skýr vitnisburður um þær miklu þjóðfélagslegu breytingar sem áttu sér stað á Íslandi í upphafi þessarar aldar. Þær sýna og sanna að staða og hlutverk trúarstofnana og trúarbragða í samfélaginu hafði breyst í grundvallaratriðum.

Áður fyrr var það samfélagið sjálft, uppbygging þess og viðhald sem markaði viðfangsefni trúarbragðanna og var hið miðlæga í trúarlífinu, en nú var það einstaklingurinn og vitund hans sem komst í sviðsljós trúarinnar. Skipulegir stjórnmálaflokkar voru lítt komnir til sögu í byrjun 20. aldar, þingmenn mynduðu einungis lauslegt samband sín á milli meðan á þingfundum alþingis stóð. Þó voru nokkur félög í Reykjavík sem voru farvegur fyrir stjórnmálaumræðu. Þar má nefna Framfarafélag Reykjavíkur sem stofnað var 1889 og heimastjórnarfélagið Fram. Í janúar 1907 var Kvenréttindafélag Íslands stofnað og var aðaltilgangur þess að vinna að stjórnmálajafnrétti karla og kvenna. Aðalhvatamaður að stofnuninni var Bríet Bjarnhéðinsdóttir. Um vorið efndi félagið til almenns borgarafundar í Reykjavík um almennan og jafnan kosningarétt til bæjarstjórnar. Þetta varð til þess að konur fengu kosningarétt og kjörgengi til sveitarstjórna ári síðar og átti Kvenréttindafélagið einnig mikinn þátt í að konur fengu kosningarétt og kjörgengi til alþingis 1915 og að fleiri réttindamál kvenna náðu fram að ganga. Hannes Hafstein ráðherra var alla tíð öflugur stuðningsmaður kvenréttinda.

Á heimastjórnarárunum færðist það og í vöxt að einstakir hagsmunahópar mynduðu félög til að ná fram markmiðum sínum eða til að efla samkennd sína.Sjómenn Árið 1894 höfðu útgerðarmenn við Faxaflóa stofnað með sér félag sem varð svo til þess að sjómenn stofnuðu ári síðar Sjómannafélagið Báruna sem var eitt fyrsta raunverulega verkalýðsfélagið. Prentarar voru fyrsta stétt iðnaðarmanna er tókst að mynda öflugt og varanlegt verkalýðsfélag, Hið íslenska prentarafélag, árið 1897. Tilraunir daglaunamanna til að stofna með sér samtök báru fyrst verulegan árangur á heimastjórnartímanum. Það gerðist með stofnun Verkamannafélagsins Dagsbrúnar í janúar 1906 en að því voru tæplega 400 manns stofnfélagar. Konur höfðu ekki aðgang að því en 1914 gekkst Kvenréttindafélagið fyrir stofnun Verkakvennafélagsins Framsóknar sem var fyrsta verkalýðsfélag kvenna. Allt þetta bar vott um aukna þéttbýlismenningu og var með vissum hætti afrakstur nýbyrjaðrar iðnvæðingar á Íslandi. Árið 1901 bjuggu um 20 prósent Íslendinga í þéttbýli en þróunin varð svo ör á fyrstu áratugum 20. aldar að 1920 var þessi tala komin yfir 40 prósent. Á sama tímabili hafði íbúum Reykjavíkur einnar fjölgað úr 6667 í 17679 manns.

Listir undir heimastjórn

Á árunum í kringum aldamótin 1900 sprakk út á Íslandi nýtt þjóðlíf á gömlu þjóðartré sem furðulega skömmu áður virtist safalaust og dautt. Og einn brumhnappurinn geymdi hinar fögru listir.

„Íslenskar bókmenntir lifa ekki á jórtri þess sem étið var áður“

Í bókmenntum varð krafan um rétt einstaklingsins til að lifa lífi sínu samkvæmt eigin þörfum og löngunum hávær í bókmenntum raunsæisstefnu hér á landi undir lok 19. aldar. Tímaritið Verðandi kom út 1882 í fyrsta og eina sinn með ljóðum og sögum eftir þróttmikla íslenska stúdenta í Kaupmannahöfn sem vildu gefa þjóð sinni ærlegt spark til að vekja hana af þyrnirósarsvefni andlegrar fátæktar. Einkum tókst Hannesi Hafstein (1861-1922) vel að sameina listir og áróður í áhrifaríkum kvæðum sínum. Það sést undir eins á stefnumótun hans fremst í Verðandi þar sem hann ákallar storminn - "Ég elska þig stormur, sem geisar um grund ..." Blessað rokið á að blása burtu gráfeysknu kvistunum og með þeim ryki aldanna sem liggur eins og farg á alþýðu landsins og heldur þrá fólks eftir tilfinningafrelsi og athafnafrelsi í skefjum.

Hannes hafði hitann í ljóðum sínum ekki síst frá Fjölnismönnum, rómantísku eldhugunum á fyrri hluta 19. aldar sem hann kynnti sér vandlega og gaf út árið 1883 ljóð Jónasar Hallgrímssonar (1807-1845) sem þá höfðu lengi verið ófáanleg. Hannes var kosinn á þing fyrir heimastjórnarmenn árið 1900 og varð svo fyrsti íslenski ráðherrann 1904. Má því segja að hann tengi saman tvær aldir í íslenskri þjóðfrelsisbaráttu og hafi borið hugsjón sína um nýtt og ferskt þjóðlíf fram til sigurs. En hann orti lítið eftir að út í harða stjórnmálabaráttu var komið.

Hannes sá að ekki var nóg að yrkja og skrifa, það varð að gefa verk skáldanna út, og í opinberum fyrirlestri í Reykjavík árið 1888 ögraði hann útgefendum með því að segja að íslensk tunga og bókmenntir lifðu "ekki eingöngu á jórtri þess sem étið var áður; íslenskan er lifandi tunga en ekki dautt mál, og má ekki sækja alla sína næringu og alla sína tilveru til dauðs menntunarstigs." Svo ræðst hann á hreintungustefnuna sem vill "bannfæra hvert orð eða orðalag, sem ekki finnst í eldgömlum skræðum". (Íslensk bókmenntasaga III, 672).

Flest skáld vildu efla dug og frelsisþrá með þjóð sinni á þessum tíma. Þorsteinn Erlingsson var beittur og pólitískur í mörgum kvæðum sínum, ögrandi og ástríðufullur, óragur við að skamma landa sína fyrir aumingjaskap. Ólöf á Hlöðum ræddi ekki aðeins baráttu kvenna fyrir ákvörðunarrétti yfir eigin lífi og líkama í verkum sínum heldur sýndi með lífsmunstri sínu að fólk gat búið um sig á ýmsa vegu í lífinu. Hún og eiginmaður hennar höfðu sameiginlegt eldhús en aðskilinn fjárhag; þau heyjuðu hvort fyrir sínar skepnur og höfðu sitt hvora stofuna þar sem þau sváfu líka. Enda vildi Ólöf síst af öllu vera háð öðru fólki eins og hún lýsir í kvæðinu "Vont og verst":

Vont er að láta leiða sig,
 leiða og neyða.
 Verra að láta veiða sig,
 veiða og meiða.
 Vont er að vera háð,
 verst að lifa af náð.
 Gott að vera fleyg og fær
 frjáls í hverju spori.
 Sinnið verður sumarblær,
 sálin full af vori.

 Svo byltingarsinnuð þóttu kvæði Ólafar (útgefin 1888 og 1913) að í einni menntastofnun landsins voru stúlkur varaðar við því að kaupa ljóðakverin hennar, þau væru ekki við ungra kvenna hæfi.

Sannleikurinn verði hverjum manni ljós

Einar H KvaranRaunsæisstefnan átti betur heima í óbundnu máli en ljóðum, í sögum var auðveldara að útmála með vísindalegri nákvæmni lífskjör fólks og ólíkar hugmyndir þess um lífið og framtíðina eins og forkólfar stefnunnar boðuðu. Meðal Verðandimanna voru Einar H. Kvaran og Gestur Pálsson sem báðir fluttu boðskap stefnunnar inn í íslenskar aðstæður og birtu árekstra gamalla og nýrra tíma í lífi og hugsunum persóna sinna. Að mati þeirra var það forsenda þjóðfélagsbreytinga að sýna lífið eins og það er. Þó varð að beita brögðum skáldskaparins til að lýsingarnar hefðu varanleg áhrif á lesendur. Á einum stað segir Gestur Pálsson að sumum raunsæismönnum hætti til að "tala með mestri ánægju um það, sem ljótast er og viðbjóðslegast í náttúrunnar heimi, en gleyma því, að allt slíkt getur því aðeins orðið skáldskapur, að listin felli sína snilldarblæju yfir allt, sem í sjálfu sér er ófagurt og hjúpi það með öllu, þó svo, að sannleikurinn sé hverjum manni ljós" (Ísl. bókms. III, 789).

Gestur og Einar drógu upp nöturlegar myndir af kúgun lítilmagna, en norðlenski bóndinn Þorgils gjallandi, þriðji helsti prósahöfundurinn á þessum árum, var sýnu róttækari. Hann skrifaði opinskátt um bölvun hjónabandsins og var með fáheyrðan áróður fyrir óvígðri sambúð í skáldverkum sínum. Allir réðust raunsæishöfundarnir harkalega að prestum, drógu fram skinhelgi þeirra og sýndu hvernig helvítisboðun kirkjunnar hélt fólki niðri.

Ljóðlistin hafði yfirhöndina í íslenskum skáldskap um aldir en það breyttist um aldamótin 1900 þegar skáldsagan haslaði sér völl á íslenskum bókamarkaði. Vinsælastur allra á fyrstu áratugum 20. aldar var Guðmundur Magnússon sem fékk svo hraklega útreið fyrir ljóðabækur sínar og leikrit fyrir og um aldamótin að hann fór að gefa út undir dulnefninu Jón Trausti. Fyrsta skáldsaga hans, Halla (1906), um fallega unga vinnukonu sem verður ólétt eftir nýjan prest í sveitinni og veit ekki að hann er kvæntur maður, var ein vinsælasta íslenska skáldsagan sem kom út á 20. öld. Halla fórnar sér fyrir prestinn og kennir vinnumanni barnið, giftist honum og flytur upp í heiði. Þar heldur saga hennar áfram - og sveitunga hennar - í Heiðarbýlissögunum (1908-11). Jón Trausti var dæmigerður íslenskur aldamótamaður og margra manna maki. Hann var lærður prentari og starfaði við iðnina í mörg ár, hann var leikari og leiktjaldamálari, ljóðskáld og geysivinsæll rithöfundur.

Um það leyti sem Halla kom út var Reykjavík tekin við af Kaupmannahöfn sem höfuðstaður íslenskra bóka og tímarita, útgáfum frumsaminna bóka fjölgaði smám saman og þýðingum fjölgaði mikið. "Það er [.] ekki ofmælt að bókabylting hafi átt sér stað hérlendis á fyrstu árum aldarinnar," segir Matthías Viðar Sæmundsson (Ísl.bókms.III, 830).

Ekki þurfti heldur að kvarta undan efnisskorti því þjóðlífið var að losna úr aldalöngum böndum sem að því höfðu þrengt. Atvinnuhættir voru í örri þróun og Reykjavík stækkaði ótrúlega hratt - með orðum Einars H. Kvaran, var bærinn eins og skáldsaga sem er að verða til. Sjálfur skrifaði hann fyrstu samtímasögurnar úr Reykjavík, Ofurefli og Gull (1908 og 1911).

Tími nýrra manna með frjálsan anda 

Theodóra ThoroddsenRaunsæisstefnan sigraði rómantík 19. aldar kannski aldrei fyllilega í hjörtum alls almennings, og síst í ljóðlistinni þar sem ný rómantík reis í upphafi 20. aldar. En gusturinn frá hatrammri baráttu stefnunnar gegn þröngsýni opnaði leið fyrir áleitnar kröfur um frelsi einstaklingsins til að njóta lífsins, og þau baráttumál tók nýja rómantíkin upp. Útgáfa Ólafs Davíðssonar á íslenskum þjóðsögum og þjóðkvæðum sýndi ofan í þjóðarsálina sem hyllti bannfærðar ástir, og þetta efni hafði mikil áhrif á ungu skáldin sem komu fram hvert af öðru upp úr aldamótum, Huldu, Jóhann Gunnar Sigurðsson, Jóhann Sigurjónsson, Jónas Guðlaugsson, Theodóru Thoroddsen og Sigurð Sigurðsson frá Arnarholti. Eins og andlegur faðir trónaði Einar Benediktsson yfir þeim, lögfræðingur, sýslumaður, ritstjóri (meðal annars fyrsta dagblaðsins á Íslandi, Einar Benediktsson Dagskrár, 1897), þýðandi, umsvifamikill fésýslumaður og merkilegt skáld. Hann var eldri en þau, fæddur 1864, en gaf ekki út sína fyrstu bók fyrr en 1897 (Sögur og kvæði).

"Álút og lofthrædd vísindaskáld hafa svo lengi haldið líkskoðun á lífinu," sagði hann í grein árið 1896. "Nú er tími nýrra manna með frjálsan anda, ást til þess fagra og djörfung á því að skoða þá hlið allrar tilveru, sem ekki skilst - ennþá." Raunsæisstefnuna kallaði hann "hlutheimsku" og vildi skoða tilfinningalífið í stað hins ytra lífs. Þetta voru sprellandi fjörug hugmyndafræðileg átök andans manna og kvenna um og eftir aldamótin. Sjálfur var Einar eins og holdgervingur þessara átaka og notaði ljóðlistina til að gagnrýna veraldarvafstur sitt og fésýslu.

Jóhann SigurjónssonUngu skáldin létu sig dreyma um birtu, auð, menntir, andlegt og líkamlegt frelsi, en þau voru af fátækri kotþjóð sem varla réði við að gefa þeim annað en orðaforðann til að útmála langanir sínar. Þó lét eitt þeirra draumana rætast: Jóhann Sigurjónsson (1880-1919) hætti námi í dýralækningum í Kaupmannahöfn rúmlega tvítugur og fór að skrifa leikrit sem sett voru á svið víða um Evrópu og jafnvel í Bandaríkjunum. Draumar hans höfðu heldur ekki verið smáir: "Ég er svo undarlegur stundum, þessi stjórnlausa löngun til þess að gjöra eitthvað stórt, eitthvað mikið, lætur mig sjaldan í friði" segir hann nýstúdent í bréfi til bróður síns.

Þessar hamslausu þrár hlutu að hafa áhrif á ljóðformið sem hafði verið í föstum skorðum um aldir. Hulda tók gamla þuluformið og gerði það að sínu af einstöku listfengi, og árið 1904 birtist fyrsta íslenska prósaljóðið undir dulnefni í Reykjavíkurblaðinu Ingólfi. Það reyndist vera eftir Theodóru Thoroddsen sem einnig orti þulur sem urðu geysilega vinsælar.
Úr timburkofa í marmarahöll

Sigurður GuðmundssonSigurður Guðmundsson málari (1833-1874) var mikill áhugamaður um leiklist og fyrir atbeina hans var samið fyrsta íslenska leikritið sem enn er leikið, Útilegumennirnir eftir Matthías Jochumsson sem fyrst var leikið 1862 en frumsýnt 1898 í endanlegri gerð undir nafninu Skugga-Sveinn. Íslendingar urðu undir eins vitlausir í leiklist og þegar Leikfélag Reykjavíkur (LR) var stofnað 1897 og fékk inni í hinu nýreista og glæsilega Iðnaðarmannahúsi við Tjörnina voru fyrir tvö leikfélög í bænum, í Gúttó og Breiðfjörðshúsi, sem kepptu við LR um leikara og áhorfendur. En LR fékk styrki úr landsjóði og frá Reykjavíkurbæ strax árið 1900 og tók forustuna. Leikgagnrýni í blöðum og tímaritum varð nokkuð regluleg eftir tilkomu LR.

Kröfurnar um frelsi tilfinninganna komu ekki síst fram á leiksviðinu þar sem listamennirnir virkjuðu öll skilningarvit áhorfenda sinna, auk heilans. Stefanía Guðmundsdóttir, skærasta stjarna LR á þessum árum, var holdtekja hinnar frjálsu konu, ekki síður en erlendar leikstjörnur.

Stefanía Guðmundsdóttir og Árni EiríkssonÞó að gamanleikir með söngvum væru vinsælastir fór LR fljótt að sýna bitastæð samtímaleikrit og framsækin raunsæisverk. Henrik Ibsen varð jafnvel vinsælli hér á landi en í Kaupmannahöfn. Þegar Afturgöngur voru sýndar í Iðnó árið 1904 sagði gagnrýnandi Ísafoldar: "Viðbrigðin að sjá og heyra svona sjónleik eða vanalegt léttmeti, - þau eru ekki neitt smáræði. Það er líkt og að koma úr timburkofa inn í marmarahöll." Árið eftir fór Brúðuheimilið á svið í Iðnó og Stefanía var fyrsta íslenska Nóran. 1907 varð Bóndinn á Hrauni fyrst leikverka Jóhanns Sigurjónssonar til að komast á svið, síðan kom Fjalla-Eyvindur 1911 og Galdra-Loftur 1914 þar sem Stefanía lék Steinunni, hina forsmáðu unnustu Lofts, og vann einn sinn stærsta leiksigur.
Njálssaga leikrit Jóhanns SigurjónssonarFyrsta "gullöld" íslenskrar leikritunar stóð á árunum 1907-17 - á heimstjórnartímanum - þá nálgast íslensk leikrit það að fylla helming sýningarkvölda. Á næsta áratug fækkar þeim mikið.

Sungið að öllu forfallalausu 

Engin hinna fögru lista er eins áberandi nú á tímum og tónlistin, en svo var ekki fyrir hundrað árum ef marka má fjölmiðla. Sé blöðum flett frá árinu 1904 verður vart einstakra tónleikaauglýsinga - Söngfélag íslenskra stúdenta heldur "samsöng" í Báruhúsinu 30. apríl "til ágóða fyrir minnisvarða yfir Jónas Hallgrímsson", Kátir piltar syngja "að öllu forfallalausu" 12. maí á sama stað, "Skemtisamkoma og gripasýning" verður 11. júní í Lambey þar sem ræður verða haldnar og kvæði sungin. Oft er tekið fram að nákvæmari upplýsingar séu í götuauglýsingum, og á Landsbókasafni er talsvert safn söngskráa og prógramma sem sýna að tónleikar hafa verið mun fleiri en ætla má af blaðafregnum.

Söngur var yndi fjöldans, og 1862 var fyrsta söngfélagið sem sögur fara af stofnað í Reykjavík. Brynjólfur Þorláksson sem var dómorganisti um aldamótin 1900 stofnaði eina þrjá kóra, m.a. Káta pilta 1902. En eins og Sigrún Gísladóttir, ævisöguritari Sigfúsar Einarssonar tónskálds, segir "hefur lengi legið á vörum manna, sem við tónlist hafa fengist, að lágreistu þorpin á Suðurlandi, Eyrarbakki og Stokkseyri, séu vagga tónlistarinnar á Íslandi". Á Eyrarbakka fæddist Sigfús árið 1877 og varð fyrsti Íslendingurinn sem gerði tónlistina að ævistarfi sínu. Hann var ötull kennari, dómorganisti, kórstjóri og tónlistargagnrýnandi, hann útsetti fjölda laga, m.a. þjóðlaga, og hann samdi urmul laga sem eru enn vinsæl. Kóra stofnaði hann hvar sem hann var, á námsárunum í Latínuskólanum og í Kaupmannahöfn og í Reykjavík eftir að hann fluttist heim. Elsti íslenski kórinn sem enn starfar er Karlakórinn Fóstbræður, áður Karlakór KFUM, sem var orðinn til úr smærri einingum árið 1911.

Íslenskir söngvarar fóru fljótlega að vekja athygli erlendis; hetjutenórinn Pétur Á. Jónsson (1884-1956) varð fastráðinn söngvari við óperuhús í Berlín 1912 og Sigurður Skagfield (1885-1956) söng líka snemma við þýsk óperuhús.

Einhvern tíma verður varið í þær myndir

Ekki var myndlistin eftirbátur bókmennta og tónlistar. Á síðustu árum 19. aldar fóru þrír stórhuga ungir Íslendingar til myndlistarnáms erlendis og allir komu þeir aftur með auðævi sem við njótum ennþá góðs af.

Sigurður málari kemur bæði við sögu myndlistar og leiklistar því fyrstu íslensku landslagsmálverkin voru á leiktjöldum hans við Útilegumennina árið 1862. Heilluðu tjöldin áhorfendur ekki síður en leikurinn. Furðulangt var þó í að aðrir myndlistarmenn tækju upp þann þráð. Þar urðu einna fyrst Þóra Pétursdóttir Thoroddsen (1848-1917) sem varð fyrst til að mála á Þingvöllum og Jón Helgason biskup (1866-1942) sem málaði bæði landslag og myndir af gömlu Reykjavík. "Málverk hans [.] eru einhver gleggsti annáll sem til er um breytingar bæjarins úr sjávarþorpi í fullveðja höfuðborg landsins," segir Björn Th. Björnsson (Íslensk myndlist á 19. og 20. öld, 47-48).

Konur sýndu myndlist mun meiri áhuga framan af en karlar og nokkrar Reykjavíkurdætur fóru utan til náms í teiknun og málun á s.hl. 19. aldar. Þórarinn B. Þorláksson Sumarnótt á ÞingvöllumEkki þótti við hæfi að þær stunduðu list sína eftir að þær giftu sig, en allir ungu mennirnir þrír sem fóru utan í aldarlok höfðu numið dráttlist af konum. Þetta voru Þórarinn B. Þorláksson Sumarnótt á ÞingvöllumÞórarinn B. Þorláksson (1867-1924), Einar Jónsson (1873-1954) og Ásgrímur Jónsson (1876-1958).

Þórarinn var orðinn fullorðinn maður þegar hann sneri sér að málverkinu, hafði lært bókband og fór upphaflega utan til að kynna sér nýjungar í þeirri grein en fékk þá áhuga á myndlist. Skömmu fyrir jól árið 1900 opnaði hann fyrstu Ásgrímur Jónsson SjálfsmyndÁsgrímur Jónsson Sjálfsmyndmyndlistarsýningu íslensks listamanns hér á landi í húsinu Glasgow við Vesturgötu. "Fáir sem engir hafa hér nokkurt verulegt vit á listaverkum," segir í Ísafold: "En varla fer hjá því að einhvern tíma muni þykja töluvert í myndir þessar varið." Yfirlitssýning var síðast haldin á verkum Þórarins B. Þorlákssonar í Listasafni Íslands haustið 2000 og er skemmst frá því að segja að hún varð gífurlega vinsæl, enda hefur Þórarinn átt stóran þátt í að móta fegurðarsmekk landsmanna eins og kemur vel fram á listrænum landslagsljósmyndum enn í dag. Í grein í DV um sýninguna segir Aðalsteinn Ingólfsson að hún sýni "að þessi fyrsti alvöru listmálari Íslendinga, sá sem ungir oflátungar og uppreisnarmenn afskrifuðu með reglulegu millibili og kölluðu "gamaldags" og "vemmilegan", er sá sem mest áhrif hefur haft á eftirkomendur sína." Bæði á hann þar við yngri samtímamenn Þórarins og helstu landslagsmálara um aldamótin 2000.

Hnitbjörg listasafn Einars JónssonarUm aldamótin 1900 er Einar Jónsson að skapa sína þekktustu höggmynd, Útlaga, sem enn má sjá hjá Melatorgi í Reykjavík og á Akureyri. Vel má greina áhrif raunsæisstefnu á verkið en þó er undir sterkur rómantískur strengur, segir Björn Th. Björnsson. Árið 1904 segir Þjóðólfur frá hrósi sem Einar fékk í austurrískum blöðum fyrir höggmynd á sýningu í Vínarborg - honum þykir takast "meistaralega að sýna mannlegan líkama".

Sama ár segir Þjóðólfur frá því að Ásgrímur Jónsson sýni nú málverk sín í Melsteðshúsi og menn eigi "að koma, skoða og - kaupa ." Ásgrímur var kotstrákur úr Flóanum sem fór utan 21 árs með tvöhundruð krónur í vasanum og óbilandi trú á sjálfan sig. Hann varð fyrstur til að túlka íslenskt öræfalandslag á málverki. Þegar hann hélt sína fyrstu málverkasýningu í Alþingishúsinu 1903 sagði Ísafold að myndirnar bæru "þess augsýnilegan vott, að vér erum hér að eignast listamann, sem íslensku fjöllin og fossarnir, gilin og grundirnar, hálsarnir og hlíðarnar hafa svo lengi beðið eftir árangurslaust..." Ennþá meiri hrifningu vekja þjóðsagnamyndirnar á sýningu hans 1905. Og árið 1910 halda Þórarinn og Ásgrímur saman sýningu í Kristjaníu, höfuðborg Noregs, sem vekur athygli.
Mynd eftir Jóhannes S. KjarvalÞórarinn og Ásgrímur máluðu blíðan og kyrran fjarskann. Hið óræða og dularfulla í návíginu við náttúruna beið unga Myned eftir Jóhannes S. Kjarvalsjómannsins Jóhannesar Sveinssonar (1885-1972) sem vann sér inn peninga á skútu ár eftir ár og málaði þá svo út úr höndunum á sér aftur, eins og hann orðaði það sjálfur. Hann nam um hríð bæði hjá Þórarni og Ásgrími, hélt sína fyrstu sýningu í Reykjavík 1908, fór til London til náms 1911 og tók sér listamannsnafnið Kjarval.

"Hvað verður nú Íslandi úr þessu listamannsefni?" spyr Lögrétta í umsögn um fyrstu sýningu Kjarvals. Því er auðveldara að svara núna þegar við höfum notið listar hans og annarra frumherja í heila öld - eftir þá skyndilegu og óviðjafnanlegu sprengingu í fögrum listum sem þá varð á Íslandi.

Helstu heimildir og ítarefni:

  • Björn Th. Björnsson: Íslensk myndlist á 19. og 20. öld. Drög að sögulegu yfirliti. R. 1964.
  • Helgi Skúli Kjartansson: Ísland á 20. öld. R. 2002.
  • Íslensk bókmenntasaga III. Ritstjóri Halldór Guðmundsson. R. 1996.
  • Íslenska alfræðiorðabókin I-III. R. 1990. Íslenskur söguatlas 2. bindi. Frá 18. öld til fullveldis. Ritstjórar Árni Daníel Júlíusson, Jón Ólafur Ísberg, Helgi Skúli Kjartansson. R. 1992.
  • Jón Viðar Jónsson: Leyndarmál frú Stefaníu. Stefanía Guðmundsdóttir leikkona, samtíð og samferðamenn. R. 1997.
  • Páll Ásgeir Ásgeirsson: Saga Karlakórsins Fóstbræðra í níutíu ár. R. 2001.
  • Sigrún Gísladóttir: Sigfús Einarsson tónskáld. R. 1972.
  • Þórunn Valdimarsdóttir, Eggert Þór Bernharðsson: Leikfélag Reykjavíkur. Aldarsaga. R. 1997.

Fjölmiðlun á heimastjórnartímum

Þjóðólfur Þau tvö blöð sem mesta útbreiðslu höfðu um landið framan af heimastjórnartímabilinu og nutu mest álits voru annars vegar elsta blað landsins Þjóðólfur og hins vegar Ísafold. Þau voru bæði gefin út í Reykjavík en komu þó aðeins út einu sinni til tvisvar í viku. Í höfuðstaðnum bjuggu þá um 8000 manns sem ekki virðist hafa verið nægur mannfjöldi til að bera dagblað enn sem komið var. Samgöngur voru og með þeim hætti að vonlaust var að flytja blað daglega frá höfuðstaðnum og út um landið.

Blaðamennsku heimastjórnartímabilsins má kalla stjórnmálablaðamennsku. Blöðin voru framan af nær öll í einstaklingseigu, mannanna sem ritstýrðu blöðunum og sáu um allan rekstur þeirra. Þetta voru blaðakóngar síns tíma. Flestir þeirra tóku virkan þátt í stjórnmálum, margir voru þingmenn eða sveitarstjórnarmenn og notuðu blöðin til framdráttar stjórnmálaskoðunum sínum jafnframt því sem þeir höfðu framfæri sitt af útgáfu þeirra. Flokkaskipun í stjórnmálum var enn laus í reipum og gátu því blöðin snúist frá einum flokki til annars ef ritstjórinn skipti um skoðun. Blöðin voru ekki flokksmálgögn í þeim skilningi sem síðar varð.

Þjóðólfur var eins og fyrr sagði elsta blað landsins, stofnað 1848. Frá 1892 hafði blaðið verið í eigu og undir ritstjórn Hannesar Þorsteinssonar guðfræðings. Undir hans stjórn var blaðið traust, gott og íhaldssamt en hann var ekki mikill nýjungamaður. Um aldamótin 1900 var Þjóðólfur orðinn aðalmálgagn Heimastjórnarflokksins meðan Ísafold var málgagn Valtýinga. Útbreiðsla blaðanna var svipuð. Áskrifendur blaðanna hvors um sig voru eitthvað á þriðja þúsund manns.

Eftir að heimastjórnin komst á 1904 og Hannes Hafstein var orðinn ráðherra Íslands stirðnaði heldur sambúð Heimastjórnarflokksins og Þjóðólfs og var ástæðan meðal annars sú að tvö önnur öflug blöð komu upp sem stjórnarblöð í Reykjavík og voru í beinni samkeppni við Þjóðólf. Þetta voru blöðin Reykjavík og Lögrétta. Þegar Hannes Þorsteinsson skrifaði undir svokallað Blaðamannaávarp í árslok 1906 var hann rekinn úr Heimastjórnarfélaginu Fram. Hann snerist svo gegn Hannesi Hafstein í kosningunum 1908. Árið 1909 seldi Hannes Þorsteinsson blað sitt og leið það undir lok 1912.

Líklega hefur Ísafold heldur haft vinningin sem öflugasti og áhrifamesti fjölmiðill landsins á þessu tímabili. Blaðið hafði verið stofnað árið 1874 og ritstjóri og eigandi þess frá upphafi var Björn Jónsson sem jafnan var kenndur við blaðið og kallaður Björn í Ísafold. Auk blaðsins sjálfs rak Björn prentsmiðju ásamt bókbandi, viðamikla bókaútgáfu og bókaverslun og var fyrirtæki hans meðal hinna stærstu á landinu. Í Ísafoldarhúsið í Austurstræti 8 lá stöðugur straumur fólks og það var einn af miðpunktunum í bæjarlífi Reykjavíkur og raunar öllu þjóðlífinu. Sjálfur var Björn stöðugt að tala við fólk og skrifa í allar áttir. Hann hélt um alla þræði í fyrirtækjum sínum, skrifaði mikið og þýddi og var þar að auki á kafi í félagsmálum og stjórnmálum. Það átti hann raunar sammerkt með keppinaut sínum Hannesi Þorsteinssyni. Björn Jónsson hóf vélvæðingu í prentsmiðju sinni 1897 og markar sá atburður upphaf iðnvæðingar í Reykjavík en sumarið 1904 var Þjóðólfsprentsmiðjan einnig vélvædd.

Björn í Ísafold og Hannes Þjóðólfsritstjóri voru yfirleitt á öndverðum meiði í flestum þjóðmálum og nánast eins og hundur og köttur alla sína tíð sem höfuðritstjórar þjóðarinnar.

Eitt öflugasta stuðningsblað Hannesar Hafsteins alla hans ráðherratíð var blaðið Reykjavík sem var undir ritstjórn Jóns Ólafssonar. Útbreiðsla þess var þó einkum bundin höfuðstaðnum og nágrenni hans meðan Ísafold og Þjóðólfur höfðu útbreiðslu um allt land eins og áður sagði. Reykjavíkin var í eigu kaupmanna í Reykjavík og ekki síst auglýsingablað en Jón Ólafsson var framsæknasti og nútímalegasti blaðamaður landsins og blaðið því mjög líflegt undir hans stjórn.

Oftast var rígur á milli blaða þó að þau fylgdu sömu stjórnmálastefnu. Þegar hópur þingmanna sem tilheyrðu hógværari hluta Heimastjórnarflokksins ákvað árið 1906 að stofna hlutafélag til að koma upp tveimur nýjum stjórnarblöðum sauð upp úr. Hannes Þorsteinsson, ritstjóri Þjóðólfs, taldi ráðherrann Hannes Hafstein hygla um of hina nýja félagi og átti það sinn þátt í að hann fjarlægðist Heimastjórnarflokkinn.

Blöðin tvö sem stofnuð voru af tólf þingmönnum Heimastjórnarflokksins árið 1906 voru Lögrétta í Reykjavík og Norðri á Akureyri. Helstu frumkvöðlarnir voru Jón Magnússon, síðar forsætisráðherra, Guðmundur Björnsson, síðar landlæknir og Þórhallur Bjarnarson, síðar biskup.

Ritstjóri Lögréttu var ráðinn Þorsteinn Gíslason og haslaði hann blaði sínu þegar völl sem eitt af helstu blöðum þjóðarinnar. Eftir að Hannes Þorsteinsson seldi Þjóðólf árið 1909 urðu Lögrétta og Ísafold stærstu blöð þjóðarinnar, hatrammir andstæðingar í stjórnmálum og miklir keppinautar um hylli lesenda. Annað studdi Heimastjórnarflokkinn, hitt Sjálfstæðisflokkinn gamla. Lögrétta undir stjórn Þorsteins Gíslasonar varð eitt besta fréttablað landsins, vel uppsett og fjölbreytt að efni. Það gaf sig umfram önnur blöð að verklegum framkvæmdum í landinu. Blaðið sjálft fór ekki varhluta af tækninýjungum en Þorsteinn Gíslason og fleiri einstaklingar beittu sér fyrir kaupum á fyrstu setjaravélinni (linotype) til landsins 1914 og var Lögrétta sett í henni. Auk Lögréttu gaf Þorsteinn Gíslason út mánaðarblaðið Óðinn á þessu tímabili og varð jafnframt stórvirkur bókaútgefandi.

Á heimastjórnartímabilinu voru gefin út ýmis vikublöð í Reykjavík og nágrenni sem áttu sér misjafnlega langa ævidaga. Þjóðviljinn sem hafði verið gefinn út á Ísafirði frá 1886 fluttist með eiganda sínum, stjórnmálamanninum Skúla Thoroddsen til Bessastaða 1901 og þaðan til Reykjavíkur 1908 og var blaðið gefið þar út til dauðadags Skúla árið 1915. Þjóðviljinn hafði útbreiðslu á landsvísu og var því eitt af stærri blöðunum. Skúli fylgdi Sjálfstæðisflokknum gamla.

Þá má nefna Fjallkonuna sem Valdimar Ásmundsson hafði stofnað 1884, einkum til að efla alþýðufræðslu. Valdimar var fallinn frá þegar hér var komið sögu og blaðið gekk kaupum og sölum þar til það lagði upp laupana 1911. Eiginkona Valdimars, Bríet Bjarnhéðinsdóttir, gaf hins vegar út Kvennablaðið 1895 til 1919.

Meðal annarra blaða sem gefin voru út í Reykjavík á heimastjórnarárunum ber að geta Ingólfs sem Landvarnarmenn gáfu út. Það kom út á árunum 1903 til 1915. Ritstjóri þess var lengst af Benedikt Sveinsson yngri.

Utan Reykjavíkur voru prentsmiðjur og allöflug blaðaútgáfa á fjórum stöðum; Ísafirði, Akureyri, Seyðisfirði og að nokkru leyti á Eskifirði.

Eftir að Þjóðviljinn fluttist suður 1901, varð helsta blaðið á Ísafirði Vestri sem fylgdi Heimastjórnarflokknum að málum, öfugt við Þjóðviljann. Það kom út til 1918.

Á Akureyri hafði verið samfelld blaðaútgáfa frá 1853. Dauft var þó yfir henni um aldamótin 1900. Nýtt líf færðist í hana er blaðið Norðurland undir ritstjórn Einars Hjörleifssonar (síðar Kvaran) hóf göngu sína 1901. Þetta var blað Valtýinga, andstæðinga Heimastjórnarflokks Hannesar Hafsteins, og áttu helstu foringjar þeirra hlut í blaðinu. Norðurland var kannski fyrsta hreinræktaða flokksblaðið og var litið á það sem systurblað Ísafoldar. Einar Hjörleifsson var einn af færustu blaðamönnum þjóðarinnar og undir ritstjórn hans varð blaðið samkeppnisfært á landsvísu. Líta má á stofnun heimastjórnarblaðsins Norðra árið 1906 sem beint andsvar við Norðurlandi. Ritstjóri þess var Jón Stefánsson. Meðal annarra blaða á Akureyri á þessu tímabili má nefna Stefni og Gjallarhorn.

Helsta blaðið á Austurlandi var Austri á Seyðisfirði sem var eindregið heimastjórnarblað undir ritstjórn Skafta Jósepssonar og síðar Þorsteins, sonar hans. Austri kom út á árunum 1891 til 1917. Ný prentsmiðja var stofnuð á Eskifirði 1905 og þar var prentaður Dagfari sem fylgdi Landvarnarmönnum að máli. Ritstjóri hans var Ari Jónsson, síðar Arnalds. Blaðið varð þó ekki langlíft.

Á 19. öld voru íslensk tímarit yfirleitt gefin út í Kaupmannahöfn ( Ármann á alþingi, Fjölnir, Ný félagsrit o.s.frv.) en þegar hylla tók undir heimastjórn tóku þau sem þá voru enn gefin út að flytjast til Reykjavíkur. Er það til marks um að Reykjavík var nú að taka við hlutverki Kaupmannahafnar sem höfuðstaður Íslands og varð uppspretta og miðstöð helstu strauma í menningu og þjóðmálum. Andvari, arftaki Nýrra félagsrita, flutti til Reykjavíkur 1884, Skírnir, hið gamla tímarit Hins íslenska bókmenntafélags, árið 1890 og Sunnanfari 1896. Síðasta stóra almenna tímaritið sem gefið var út í Kaupmannahöfn var Eimreiðin sem Valtýr Guðmundsson stofnaði 1895. Nafn tímaritsins sýnir hinn nýja framfaraanda sem þá var að skjóta rótum meðal Íslendinga. Valtýr seldi Eimreiðina heim til Íslands árið 1918.

Strax um aldamótin 1900 var orðin mikil gróska í útgáfu sérhæfðra tímarita sem komu út á Íslandi, svo sem um einstakar vísindagreinar eða félagsrit starfsstétta, kvennablöð og barnablöð svo að nokkuð sé nefnt.

Það sem háði fyrst útgáfu fréttablaða og öllum fréttaflutningi voru erfiðar samgöngur á Íslandi. Ekkert daglegt fréttasamband var við útlönd eða milli fjarlægra landshluta og strjálbýli kom í veg fyrir útgáfu dagblaða. Einar Benediktsson hafði orðið til þess að gefa út dagblaðið Dagskrá fyrstur manna árið 1896 en sú tilraun varð skammlíf. Grundvöllur var þá ekki orðinn fyrir slíkri útgáfu.

Fram til 1905 gátu erlendar fréttir einungis borist til landsins með skipum en milli landshluta bárust fréttir helst með hestríðandi ferðamönnum eða með stopulum strandferðasiglingum. Erlend fréttaþjónustu í íslenskum blöðum var einnig háð því hversu tíðar skipakomur voru, hversu skipin voru hröð í förum og hvaðan þau komu. Loftskeytastöð var sett upp við Rauðará að frumkvæði Einars Benediktssonar sumarið 1905 og hún ásamt ritsímanum ári seinna olli byltingu í samskiptum Íslands við umheiminn og íslenskri blaðamennsku. Eftir það var Ísland í daglegu og beinu sambandi við útlönd.

Haustið 1906 var ritsíminn til útlanda opnaður og símasamband komst jafnframt á vestur og norður um land milli Reykjavíkur og Seyðisfjarðar. Blöðin byrjuðu þá strax að birta ritsímafréttir. Jón Ólafsson ritstjóri Reykjavíkur taldi að nú væri kominn grundvöllur fyrir dagblað í höfuðstaðnum og hóf að gefa út Dagblaðið, ekki síst til að setja erlendar símfregnir á prent jafnóðum og þær bárust. Jafnframt mynduðu blöðin blaðskeytasamlög til að minnka kostnaðinn af fréttaskeytum. Í nóvember 1906 byrjaði Ritzau-fréttastofan að senda skeyti til Íslands og var það í fyrsta sinn sem Íslendingar nutu þjónustu erlendrar fréttastofu.

Dagblaðstilraun Jóns Ólafssonar rann fljótlega út í sandinn en næsta tilraun til dagblaðsútgáfu var gerð í desember árið 1910. Íbúar Reykjavíkur voru þá orðnir um tólf þúsund eða nægilega margir til að skapa grundvöll fyrir óháð fréttablað. Stofnandi nýja dagblaðsins var Einar Gunnarsson og kallaði hann það Vísi til dagblaðs í Reykjavík sem síðar var stytt í Vísi . Þar með hófst samfelld dagblaðaöld á Íslandi. Í örstuttu ávarpi til lesenda sagði ritstjórinn:

Vísir 1. tbl. "Vísir er að þreifa fyrir sér hvort tiltök séu að stofna hér dagblað. Dagblaðið ætti aðallega að vera sannort fréttablað en laust við að taka þátt í deilumálum."

Einar Gunnarsson gerði sér grein fyrir því að markaður hins nýja dagblaðs var eingöngu Reykjavík og nágrenni en til þess að ná til sem flestra kaupenda varð hann að halda blaðinu utan pólitískra flokkadrátta. Vísir var alla tíð fyrst og fremst Reykjavíkurblað.

Þremur árum eftir stofnun Vísis fékk hann öfluga samkeppni í höfuðstaðnum. Það var þegar Vilhjálmur Finsen loftskeytamaður stofnaði Morgunblaðið, einnig í þeim tilgangi að gefa út óháð fréttablað, og hafði hann Politiken í Danmörku og fleiri stórblöð að fyrirmynd en Vilhjálmur hafði þá búið árum saman erlendis og verið fréttaritari slíkra blaða. Með honum við stofnun blaðsins var Ólafur, sonur Björns Jónssonar, sem tekið hafði við ritstjórn Ísafoldar 1909 er Björn Jónsson varð ráðherra. Náin tengsl voru því milli Morgunblaðsins og Ísafoldar sem áfram var gefin út vikulega. Morgunblaðið var til að byrja með fyrst og fremst Reykjavíkurblað eins og Vísi en átti þegar fram liðu stundir eftir að verða langstærsta og öflugasta blað þjóðarinnar og hafa útbreiðslu um allt land.

Eftir að dagblöð komu til sögu voru áfram gefin út mörg af hinum eldri vikublöðum og ber þar helst að nefna Ísafold og Lögréttu. Á fyrri heimstyrjaldarárunum (1914-1918) voru svo gerðar tilraunir til að gefa út fleiri dagblöð í Reykjavík og á Akureyri en þau urðu öll skammlíf.

Þingmannaförin 1906 og konungskoman 1907

Kristján konungur IX sá sem hafði fært Íslendingum stjórnarskrána 1874 og eftir langt þóf fallist á þingræði í Danmörku 1901, féll frá í janúar 1906, þegar heimastjórn hafði staðið á Íslandi nær tvö ár. Dánarfregn hans barst til Íslands með loftskeyti – sæsíminn var þá enn ekki kominn – svo að Hannes Hafstein átti þess kost að fylgja konungi til grafar.

Sonur Kristjáns tók við ríki sem Friðrik VIII. Hann hafði áratugum saman gegnt skyldum sem krónprins og staðgengill konungs, svo að honum voru málefni Íslands vel kunnug, og hafði hann fengið meiri áhuga á Íslandi og Íslendingum en títt var um Danakonunga.

Hannes Hafstein hafði kynnst Friðriki nokkuð, og eftir jarðarför Kristjáns IX. dvaldi hann um skeið í Kaupmannahöfn, einkum til að ræða við hinn nýja konung um málefni Íslands, og kom þeim vel saman. Báðum var kappsmál að koma á gagnkvæmum skilningi og varanlegum vináttutengslum milli þjóðanna tveggja.

Hannes hafði talið í fyrstu að heimastjórnin væri nægilegt sjálfstæðisskref í bili; Íslendingar ættu að una við hana um sinn og einbeita sér að verklegum og félagslegum framfaramálum. En stórhugur landsmanna og bjartsýni óx ört á árunum kringum 1904, og þar með sjálfstæðishugur þeirra og óþolinmæði gagnvart dönskum yfirráðum. Hannes fann því brátt að heimastjórn í „sérmálum“ Íslands, á grundvelli dönsku stöðulaganna frá 1871, dygði ekki til að íslenskt almenningsálit gæti litið jákvæðum augum á tengsl landsins við Danmörku. Þar þyrfti að leggja nýjan grundvöll, ekki valdboðinn af herraþjóðinni heldur umsaminn af jafnréttháum aðilum, sem færi miklu nær skilningi Íslendinga á þjóðlegum rétti sínum. Konungur var sama sinnis. Til að Íslendingar gætu til frambúðar unað tengslunum við Danmörku vildi hann vinna það til að veita þeim meira formlegt sjálfstæði en Danir höfðu nokkru sinni tekið í mál.

Fyrsta skrefið, sem Friðrik konungur beitti sér fyrir og fékk ríkisstjórn og þing Danmerkur til að standa að með sér, var að bjóða öllu Alþingi í kynnisferð til Danmerkur þá um sumarið. Stjórnarandstaðan íslenska hikaði í fyrstu við að þiggja boðið, en einn reyndasti leiðtogi hennar, Skúli Thoroddsen, tók af skarið um að taka vel vinsamlegu boði konungs. Af 40 þingmönnum fóru 35 í ferðina, allir sem gátu komið því við. Tólf daga nutu þingmennirnir gestrisni Dana, ferðuðust um landið og sátu veislur með dönskum ráðamönnum. Þingmannaförin var notuð til að hefja óformlegar viðræður um samningagerð og umbætur á sambandi landanna, og skyldi henni fylgt eftir með Íslandsferð konungs og danskra ráðamanna sumarið eftir.

Samningaferlið, sem hófst með þingmannaförinni 1906, átti eftir að bíða margan afturkipp, en á tólf árum leiddi það til niðurstöðu sem fáa óraði fyrir í upphafi: fullveldis Íslands 1918.

Í þingmannaförinni til Danmerkur 1906, sem ráðherra og þingmenn Íslands fóru í boði konungs og ríkisþings Dana, boðaði Friðrik konungur VIII komu sína til Íslands sumarið eftir. Alþingi endurgalt gestrisnina með því að bjóða jafnmörgum dönskum þingmönnum til Íslands með konungi. Í föruneyti hans voru tignarmenn og frammámenn í dönsku þjóðlífi, þar á meðal fjármálamenn sem tengdust ráðagerðum um að fjárfestingar Dana í íslensku atvinnulífi, og í hópi þingmannanna var forsætisráðherra Dana, I. C. Christensen.

Í lok júlí 1907, um miðjan þingtíma Alþingis, komu gestirnir til Reykjavíkur á tveimur skipum og herskip til fylgdar. Fyrir Íslendinga var konungskoman stór stund. Barnungur sjónarvottur minntist þess síðar hvað honum fannst „skrúðganga gegnum bæinn, með konung og Hannes Hafstein í fylkingarbrjósti, óumræðilega stórkostleg, og sólin aldrei hafa skinið yfir jörðina með þvílíkri birtu.“

Konungskoman var líka stórframkvæmd fyrir Íslendinga, sem vildu tjalda því sem til var að veita gestunum viðeigandi og eftirminnilegar móttökur. Frá Reykjavík var farið með gestina í vikuferð á hestum um Suðurland. Hátíð var haldin á Þingvöllum, líkt og við fyrstu konungsheimsókn til Íslands 1874, með nær sex þúsundum gesta. Þúsundir fögnuðu líka konungi á héraðshátíð Sunnlendinga við Þjórsárbrú. Leiðin þangað frá Þingvöllum lá hjá náttúruperlunum Geysi og Gullfossi. Þar var á fossbrúninni skálað í kampavíni fyrir „framtíð Íslands sem iðnaðarlands“, enda voru auðlindir Íslands mjög í brennidepli ferðarinnar, bæði fiskimið, orkulindir og víðlendar sveitir með stórkostlegum möguleikum til búskapar. Vegir voru ruddir og ár brúaðar til að greiða ferð gestanna og gera vagnfært með farangur þeirra, skálar reistir handa þeim að gista í, en Íslendingum dugðu tjöld. Haldnar voru daglegar veislur með meiri viðhöfn en sést hafði í landinu, og þótti bindindismönnum, sem mynduðu öfluga hreyfingu í landinu, nóg um vínveitingarnar. Á heimleið frá Reykjavík heimsótti konungur kaupstaði hinna landsfjórðunganna: Ísafjörð, Akureyri og Seyðisfjörð.

Hinn pólitíski stórviðburður konungskomunnar var ríkisráðsfundur í Reykjavík (það var í eina sinn sem ríkisráð Þingmenn Íslands og Danmerkur ásamt konungi. Myndin er tekin í porti barnaskólansDanmerkur kom saman á Íslandi) þar sem konungur skipaði forsætisráðherra Dana og ráðherra Íslands ásamt fulltrúum flokkanna á Þingmenn Íslands og Danmerkur ásamt kongungi báðum þingum í samninganefnd um tengsl landanna. Ætlunin var að í stað stöðulaganna kæmu sambandslög, samþykkt af báðum þjóðþingunum. Það gekk eftir, en ekki fyrr en 1918, eftir miklar sviptingar og árekstra, bæði í samningum þjóðanna og milli fylkinga í íslenskum stjórnmálum. Töfin kom þó ekki svo mjög að sök. Í raun tryggði heimastjórnin Íslendingum sjálfstæði í flestu því sem á reyndi, og fram til 1918 urðu breyttar aðstæður og tíðarandi til þess að styrkja mjög samningsstöðu Íslands sem þá náði að verða sérstakt og fullvalda konungsríki.

Stofnun stjórnarráðs á Íslandi

Stjórnarráðshúsið með fána við húnÍ kjölfar þess að að Íslandi var sett stjórnarskrá árið 1874 var ákveðið að stofna sérstakt stjórnarráð eða ráðuneyti fyrir Ísland. Ráðuneytið heyrði undir danska dómsmálaráðherrann og var þetta aukastarf hans. Þessi skipan gilti til 1904 og kom enginn þeirra manna, sem gegndi embætti ráðherra Íslands á þessu tímabili, nokkurn tíma til landsins.

Miklar umræður og nokkrar deilur voru hérlendis á síðustu tveimur áratugum 19. aldar og í upphafi hinnar 20. um stjórnskipan landsins. Samstaða ríkti meðal Íslendinga um að stefna ætti að því að íslenskur maður veitti æðstu stjórn landsins forstöðu en deilt var um hvernig þessu skyldi hagað í einstökum atriðum. Kringum aldamótin 1900 komst hreyfing á þessi mál og í kjölfar stjórnarskipta í Danmörku árið 1901 féllst danska stjórnin á það fyrirkomulag að komið skyldi á fót embætti íslensks ráðherra sem hefði aðsetur í Reykjavík.

Til að hrinda þessum áformum í framkvæmd var stjórnarskránni fyrir Ísland breytt árið 1903 og mælt þar fyrir um stöðu og hlutverk ráðherra Íslands. Þar var tekið fram að hann mætti ekki gegna öðru ráðherraembætti og yrði að vera fær um að tala og rita á íslensku. Þá skyldi hann fara svo oft sem þurfa þætti til Kaupmannahafnar til þess að bera lög og “mikilvægar stjórnarráðstafanir” upp “fyrir konungi í ríkisráðinu”. Var stjórnarskrárbreytingunni ætlað að taka gildi hér á landi 1. febrúar 1904.

Samhliða stjórnarskrárbreytingunni voru sett lög um æðstu umboðsstjórn Íslands. Samkvæmt þeim skyldi stofna stjórnarráð í Reykjavík og ráðnir þar til starfa landritari og þrír skrifstofustjórar. Fór landritari með yfirstjórn daglegrar starfsemi Stjórnarráðsins undir umsjón ráðherra og var staðgengill hans ef ráðherrann félli frá. Lög um æðstu umboðsstjórn Íslands voru ekki ítarleg. Ekki var þar fjallað um starfsvið skrifstofa Stjórnarráðsins en í nefndaráliti um lagafrumvarpið kom fram tillaga um hvernig einstökum verkefnum skyldi skipt niður á skrifstofur. Sú skipting var í öllum meginatriðum lögð til grundvallar við stofnun Stjórnarráðsins. Fyrsta skrifstofa þess skyldi fjalla um dómsmál, skólamál og kirkjumál. Önnur skrifstofa sá um atvinnumál, samgöngumál og póstmál en hin þriðja hafði umsjón með fjárhagsmálefnum ríkisins, endurskoðun og reikningsmálum. Hlutu þær síðar nöfnin kennslu- og dómsmáladeild, atvinnu- og samgöngumáladeild og fjármála- og endurskoðunardeild.

Klemens JónssonEftir að ákveðið hafði verið að flytja æðstu stjórn landsins til Íslands þurfti að taka afstöðu til þess hver skyldi veita henni forstöðu og þá um leið hvort ráðherrann skyldi valinn úr röðum embættismanna eða hvort skipa ætti forystumann Alþingi Íslendinga í embættið sem nyti stuðnings meirihluta á þingi. Þáverandi Íslandsráðherra í Kaupmannahöfn, P.A. Alberti, mun hafa ætlað að skipa embættismann til starfans en hvarf frá því vegna andstöðu forystumanna Íslendinga. Hannes Hafstein var valinn til að gegna fyrstur ráðherraembætti með aðsetur hér á landi, enda var hann þá orðinn helsti forystumaður heimastjórnarflokksins, sem þá var í meirihluta á Alþingi. Hannes hafði þó ekki setið á þingi nema í fáein ár. Sem landritari var valinn Klemens Jónsson en hann var einnig í forystu heimastjórnarmanna.

Um hádegisbil hinn 1. febrúar 1904 komu hinir nýju embættismenn Stjórnarráðsins í Stjórnarráðshúsið. Hafði húsinu þá verið breytt enda hafði það bæði verið heimili og skrifstofa landshöfðingja. Athöfnin mun ekki hafa verið sérlega hátíðleg enda var landshöfðingi “frekar stuttur í spuna” þegar hann lét af embætti eftir 18 ár. En um kvöldið var þessara þáttaskila minnst með veislu í Iðnó.

Næstu ár var 1. febrúar haldinn hátíðlegur til að minnast þessara tímamóta. Síðar hvarf hann í skuggann af öðrum hátíðisdögum sjálfstæðisbaráttunnar, fullveldisdeginum, 1. desember og lýðveldishátíðinni, 17. júní. Heimastjórnin 1. febrúar var þó ekki síður stórt skref í stjórnmálasögu þjóðarinnar en fullveldi og lýðveldi.

Meginheimild: Agnar Kl. Jónsson, Stjórnarráð Íslands 1904–1964.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta