Lokið |
Framvinda verkefnisins
Komugjöld aldraðra og öryrkja í heilsugæslu voru felld niður 1. janúar 2019. Þann 1. janúar 2021 lækkuðu almenn komugjöld í heilsugæslu úr 700 kr. í 500 kr. Þá var einnig fellt niður sérstakt komugjald hjá þeim sem leita á aðra heilsugæslustöð en þar sem þeir eru skráðir. Frá sama tíma færðust skimanir fyrir leghálskrabbameini til heilsugæslunnar og greiða nú konur sem fara í skimun hjá heilsugæslunni einungis 500 kr. komugjald í stað 4.800 kr. gjalds fyrir skimun.
Greiðsluþrep í lyfjum fyrir lífeyrisþega lækkaði úr 14.500 kr. í 14.000 kr. 1. janúar 2021. Annað þrep hefst þegar lífeyrisþegi hefur greitt 14.000 kr. í lyfjakostnaði en í öðru þrepi greiða sjúkratryggingar 85% lyfjaverðs á móti 15% greiðsluhlutdeild sjúklings.
Með nýjum samningi um tannlæknaþjónustu við aldraða og öryrkja í ágúst 2018 var greiðsluþátttaka þessa hóps lækkuð til muna en þá voru framlög ríkisins til tannlæknaþjónustu við þessa hópa aukin um rúm 140%. Þann 1. janúar 2021 lækkaði greiðsluþátttaka aldraðra og öryrkja vegna tannlæknaþjónustu enn frekar. Sjúkratryggingar greiða nú 57% tannlæknakostnaðarins en stefnt er að því að það hlutfall verði komið í 75% árið 2024 í samræmi við gildandi fjármálaáætlun.
Þann 1. júní 2021 tók gildi reglugerð sem heimilar Sjúkratryggingum Íslands að veita styrki vegna tveggja hjálpartækja af sömu gerð sem tiltekin eru í reglugerð, til barna sem eiga fasta búsetu á tveimur stöðum.
Með reglugerðarbreytingu sem tekur gildi 1. júlí 2021 verða fjárhæðir vegna kaupa á hjálpartækjum uppreiknaðar til samræmis við verðlag eftir að hafa verið óbreyttar frá árinu 2008. Árlegur útgjaldaauki vegna þessa nemur um 214 milljónum króna á ársgrundvelli.
Endurgreiðslur tannlæknakostnaðar vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma hafa tekið mið af gjaldskrá sem verið hefur óbreytt allt frá árinu 2004. Þann 1. júlí 2021 tekur gildi breyting á reglugerð nr. 451/2013 sem leiðir til þess að sjúklingar sem hér um ræðir munu fá endurgreiddan kostnað samkvæmt raunvirði í stað gjaldskrárinnar frá árinu 2004. Árlegur útgjaldaauki vegna þessa nemur um 180 milljónum króna.
Ábyrgð
Heilbrigðisráðuneytið
Kafli
Sterkt samfélag