Komið vel á veg |
Framvinda verkefnisins
Lækkun greiðsluþátttöku sjúklinga í kostnaði vegna lyfja og annarrar heilbrigðisþjónustu er mikilvægur liður í þessu verkefni. Komugjöld aldraðra og öryrkja í heilsugæslu voru felld niður 1. janúar 2019. Með nýjum samningi um tannlæknaþjónustu við aldraða og öryrkja í ágúst 2018 var greiðsluþátttaka þessa hóps lækkuð til muna og enn frekar 1. janúar 2021. Þann 1. janúar 2021 lækkuðu almenn komugjöld í heilsugæslu úr 700 kr. í 500 kr. Þá var einnig fellt niður sérstakt komugjald hjá þeim sem leita á aðra heilsugæslustöð en þar sem þeir eru skráðir. Frá sama tíma færðust skimanir fyrir leghálskrabbameini til heilsugæslunnar og greiða nú konur sem fara í skimun hjá heilsugæslunni einungis 500 kr. komugjald í stað 4.800 kr. gjalds fyrir skimun. - Sjá nánar um lækkun greiðsluþátttöku 1. janúar 2021.
Stór skref hafa verið stigin til að auka og bæta heilbrigðisþjónustu við fanga og hefur heilsugæslunni verið falið stórt hlutverk í þeim efnum. Í desember 2019 var stofnað sérstakt geðheilsuteymi fangelsanna sem er hýst hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en veitir öllum föngum landsins almenna og sérhæfða geðheilbrigðisþjónustu í samvinnu við önnur heilbrigðisþjónustustig.
Frumvarp heilbrigðisráðherra til laga um neyslurými var samþykkt á Alþingi í maí 2020. Í janúar 2021 voru birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda áform heilbrigðisráðherra um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni sem miðar að afglæpavæðingu neysluskammta.
Fólk sem ekki á fast heimili hefur lengi verið jaðarsett og glímt við fjölþættan vanda, s.s. notkun vímuefna, geðræn einkenni, áföll og þroskafrávik. Að frumkvæði heilbrigðisráðherra var í mars 2020 stofnaður verkefnahópur til að kanna fýsileika þess að opna hjúkrunar- og búsetuúrræði fyrir aldraða með samþættan geð- og fíknivanda. Áður hafði umboðsmaður Alþingis gert frumkvæðisathugun þar sem bent var á nauðsyn þess að heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti í samstarfi við sveitarfélögin tækju sérstaklega til athugunar þjónustu við utangarðsfólk. Í kjölfar þessa ákvað heilbrigðisráðherra í desember 2020 að setja á fót 12 rýma sérhæfða hjúkrunardeild ætlaða heimilislausu fólki sem þarfnast hjúkrunar og umönnunar og glímir við langvarandi neysluvandamál, oft samhliða geðrænum vanda. Heimilið verður samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga.
Áform um frekari lækkun á greiðsluþátttöku sjúklinga í tannlækningum, lyfjum og hjálpartækjum koma fram í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2021-2025.
Ábyrgð
Heilbrigðisráðuneytið
Samstarfsráðuneyti
FélagsmálaráðuneytiðKafli
Jöfn tækifæri