Hoppa yfir valmynd
Komið vel á veg

Framvinda verkefnisins

Heilbrigðisráðherra kynnti í apríl 2018 áætlun um stórátak í uppbyggingu hjúkrunarrýma á landsvísu til ársins 2023. Sú áætlun hefur verið uppfærð fram til ársins 2025 og á þeim tíma fjölgar hjúkrunarrýmum um 872 auk endurbóta á 344 hjúkrunarrýmum. Með þessum framkvæmdum lækkar hlutfall fjölbýla á hjúkrunarheimilum úr 14% árið 2018 í 6,3% árið 2025. Heilbrigðisráðuneytið hefur unnið greinargerð um stöðu framkvæmdaáætlunar um byggingu hjúkrunarrýma og framhald til ársins 2025. Þar er greint frá forsendum þarfagreiningar fyrir fjölda hjúkrunarrýma um allt land, stöðu byggingaframkvæmda og áætlaðra framkvæmda til ársins 2025, kostnaður greindur og fjölda hjúkrunarrýma skipt niður eftir heilbrigðisumdæmum með innbyrðis samanburði milli heilbrigðisumdæma. Áætlun  heilbrigðisráðherra um átak í uppbyggingu hjúkrunarheimila hefur gengið eftir, áætlun um framkvæmdir við uppbyggingu þeirra er fjármögnuð að fullu og heimilin öll komin á undirbúnings- eða framkvæmdastig. Að auki hefur verið undirrituð viljayfirlýsing heilbrigðisráðherra og borgarstjóra um um byggingu hjúkrunarheimilis fyrir allt að 200 íbúa við Ártúnshöfða í Reykjavík.

Þrjú ný hjúkrunarheimili hafa verið opnuð á kjörtímabilinu; Seltjörn á Seltjarnarnesi, Sólvangur í Hafnarfirði og Sléttuvegur í Reykjavík. Alls eru þetta 199 hjúkrunarrými en heildarfjölgun hjúkrunarrýma vegna þessara framkvæmda nemur 140 rýmum. Í árslok 2020 
kynnti heilbrigðisráðherra ákvörðun um að auka framlög til reksturs hjúkrunarrýma um 1.350.000 króna sem gerir kleift að fjölga hjúkrunarrýmum um allt að 90 árið 2021. Sjúkratryggingum Íslands hefur verið falið að auglýsa eftir húsnæði og rekstraraðilum fyrir þessi rými. 

Fólk sem ekki á fast heimili hefur lengi verið jaðarsett og glímt við fjölþættan vanda, s.s. notkun vímuefna, geðræn einkenni, áföll og þroskafrávik. Að frumkvæði heilbrigðisráðherra var í mars 2020 stofnaður verkefnahópur til að kanna fýsileika þess að opna hjúkrunar- og búsetuúrræði fyrir aldraða með samþættan geð- og fíknivanda. Áður hafði umboðsmaður Alþingis gert frumkvæðisathugun þar sem bent var á nauðsyn þess að heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti í samstarfi við sveitarfélögin tækju sérstaklega til athugunar þjónustu við utangarðsfólk. Í kjölfar þess 
ákvað heilbrigðisráðherra í desember 2020 að setja á fót 12 rýma sérhæfða hjúkrunardeild ætlaða heimilislausu fólki sem þarfnast hjúkrunar og umönnunar og glímir við langvarandi neysluvandamál, oft samhliða geðrænum vanda. Þörf fyrir sértækt úrræði sem þetta er brýn að mati verkefnahóps sem fjallað hefur um málið. Heimilið verður samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga.

Með fjölgun hjúkrunar- og dagdvalarrýma er komið til móts við vaxandi þörf fyrir þjónustu við aldraðra eftir því sem öldruðum fjölgar sem hlutfall af þjóðinni. Þetta er mikilvægur  liður í því að tryggja rétta þjónustu á réttum stað í samræmi við heilbrigðisstefnu til ársins 2030.

Ábyrgð

Heilbrigðisráðuneytið

Kafli

Sterkt samfélag

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta