Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar 1999
Í FREMSTU RÖÐ Á NÝRRI ÖLD
Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 28. maí 1999
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks mun vinna áfram í anda þeirra meginsjónarmiða sem lýst er í stefnuyfirlýsingu flokkanna frá 23. apríl 1995. Með samstarfi flokkanna hófst mikil framfarasókn þjóðarinnar. Við aldahvörf verða undirstöður velferðar landsmanna treystar enn frekar og sköpuð skilyrði fyrir bættri afkomu þeirra. Stjórnarflokkarnir leggja áherslu á samheldni og eindrægni þjóðarinnar, samvinnu vinnuveitenda og launþega, dreifbýlis og þéttbýlis. Með því að virkja framtak einstaklinga í þágu aukinnar verðmætasköpunar verður áfram stuðlað að hagsæld, félagslegum umbótum, afkomuöryggi einstaklinga og fjölskyldna, ekki síst þeirra sem höllum fæti standa.
Ríkisstjórnin vill auka veg menntunar og rannsókna sem eru forsenda fyrir nýsköpun í atvinnulífinu. Áfram verður unnið að markaðssókn fyrir íslenskar vörur og þjónustu á erlendum mörkuðum. Efnt verður til samstarfs við erlend fyrirtæki og þjóðir og hvatt til fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi. Með markvissum ráðstöfunum verða undirstöður byggðar í landinu treystar. Ný upplýsingatækni verður nýtt í þágu efnahagslegra framfara og uppbyggingar í atvinnulífinu, vísindarannsókna, menntunar, lista og hvers kyns menningarmála um land allt.
Á árinu 2000 fagnar þjóðin þúsund ára afmæli kristnitöku og landafunda í Vesturheimi. Kristin trú og gildi hafa mótað mannlíf í landinu og verið þjóðinni ómetanlegur styrkur. Þessa verður minnst með margvíslegum hætti, m.a. sérstökum hátíðahöldum á Þingvöllum. Með aðgerðum sínum á kjörtímabilinu hyggst ríkisstjórnin byggja á þeim grunni, sem fyrri kynslóðir lögðu með þrautseigju og eljusemi, og skapa skilyrði þess að Ísland verði í fremstu röð meðal þjóða heims sem land tækifæra, efnahagslegra og menningarlegra framfara á nýrri öld.
Auk framangreindra meginatriða eru helstu markmið ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á kjörtímabilinu þessi:
- Að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum, skapa skilyrði fyrir áframhaldandi hagvöxt og auka þjóðhagslegan sparnað. Stöðugt verðlag og bætt samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs er forsenda nýrra starfa til að mæta auknu framboði vinnuafls. Stefnan í gengis- og peningamálum svo og í fjármálum ríkisins miðist við að ná fram þessum markmiðum.
- Að viðhalda jafnvægi í ríkisfjármálum og lækka skuldir ríkissjóðs með markvissum hætti. Beitt verði aðhaldssamri hagstjórn og gætt samræmis milli þjóðarútgjalda og þjóðartekna. Ríkissjóður verði rekinn með umtalsverðum afgangi til að sporna gegn viðskiptahalla.
- Að vinna áfram að nýskipan í ríkisrekstri, m.a. með auknum útboðum, sameiningu stofnana, þjónustusamningum og aukinni ábyrgð stjórnenda. Stefnt verði að meiri hagkvæmni við opinberar framkvæmdir og kostir einkaframkvæmdar nýttir í auknum mæli. Ríkisrekstur verði gerður einfaldari, skilvirkari og þjónustan bætt. Stefnt verði að því að auka kostnaðarvitund stjórnenda og starfsmanna í þjónustu ríkisins og stuðla að aukinni ráðdeild í meðferð opinberra fjármuna. Eðlilegar arðsemiskröfur verði gerðar til fyrirtækja í eigu ríkisins.
- Að efna til markvissra aðgerða til þess að auka almennan sparnað. Áhersla verði lögð á að örva almenning til að verja auknum fjármunum til lífeyrissparnaðar. Þá verði skattalegum ívilnunum áfram beitt vegna fjárfestinga í hlutabréfum. Við sölu hlutabréfa ríkisins verði jafnframt hugað að því að salan hafi í för með sér aukinn sparnað almennings.
- Að endurskoða lög um Stjórnarráð Íslands, skipan ráðuneyta og verkefni þeirra, þar sem hliðsjón verði höfð af breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu. Í því samhengi munu stjórnarflokkarnir taka til endurskoðunar verkaskiptingu sín á milli. Fyrsta verkefnið verði að færa Byggðastofnun undir iðnaðarráðuneyti og sameina atvinnuþróunarstarfsemi á vegum þess, svo og að fella Seðlabanka Íslands undir forsætisráðuneyti sem efnahagsráðuneyti.
- Að endurskoða skattalöggjöfina með það að markmiði m.a. að draga úr jaðaráhrifum og mismunun innan skattkerfisins og stuðla þannig að aukinni skilvirkni þess. Álagning eignarskatts verði samræmd og skatthlutföll lækkuð þannig að eignarskattar á íbúðarhúsnæði lækki. Að breyta skattlagningu fyrirtækja og gera hana einfaldari til að tryggja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs. Hugað verði að því að skattareglur verki hvetjandi til rannsókna, þróunar og almennrar nýsköpunar í atvinnulífinu. Breytingar á skattalögum verði við það miðaðar að þær ýti ekki undir þenslu í hagkerfinu.
- Að halda áfram einkavæðingu ríkisfyrirtækja, einkum þeirra sem eru í samkeppni við fyrirtæki í eigu einkaaðila. Hlutabréf í ríkisbönkunum verði seld með það að markmiði að ná fram hagræðingu á fjármagnsmarkaði en tryggja um leið virka samkeppni á markaðnum til að ná fram ódýrari þjónustu. Við söluna verði þess gætt að ríkið fái hámarksverð fyrir eign sína í bönkunum. Hafinn verði undirbúningur að sölu Landssímans. Við sölu hans verði þess gætt að tryggja góða þjónustu á sem hagstæðustu verði við byggðir landsins og einnig að tryggja virka samkeppni á fjarskiptamarkaði. Stefnumörkun á sviði einkavæðingar fari fram í ráðherranefnd um einkavæðingu en undirbúningur og framkvæmd verkefna á þessu sviði verði í höndum framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Áður en sala einstakra ríkisfyrirtækja hefst verði lögð fram í ríkisstjórn áætlun um tímasetningu, fyrirkomulag og ráðstöfun andvirðis af sölu þeirra. Tekjunum verði varið til að greiða niður skuldir ríkissjóðs, til að fjármagna sérstök verkefni í samgöngumálum og til að efla upplýsingasamfélagið.
- Að auka fjölbreytni atvinnulífs og útflutningsgreina, ekki síst með eflingu þeirra vaxtarsprota sem byggjast á menntun og þekkingu, svo sem í tónlistar- og kvikmyndagerð og ýmiss konar sérhæfðri þjónustu. Vaxandi alþjóðasamkeppni kallar á aukna markaðsvæðingu á fjármagnsmarkaði. Því verði leitað allra leiða til aukinnar hagræðingar og til að lækka fjármagnskostnað fyrir atvinnulíf og fjölskyldur. Bætt samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs byggist ekki síst á aukinni framleiðni sem m.a. skapar aðstæður fyrir sveigjanleg starfslok og styttri vinnutíma fólks án þess að skerða heildarlaun.
- Að örva starfsemi lítilla og meðalstórra fyrirtækja og styðja frumkvöðla í atvinnulífinu. Settar verði skýrar reglur um vernd eignarréttar á einkaleyfum og hagnýtingu hugverka með það að markmiði að styrkja stöðu íslenskra frumkvöðla og hönnuða.
- Að treysta undirstöður byggðar í landinu í samræmi við nýsamþykkta þingsályktun um það efni. Kraftmikið og fjölbreytt atvinnu- og menningarlíf, aðgangur að góðri menntun og velferðarþjónustu ásamt lægri orkukostnaði og góðum samgöngum eru forsendur blómlegs mannlífs í landinu öllu. Stuðningur við atvinnuþróun á landsbyggðinni verði felldur að öðru nýsköpunar- og atvinnuþróunarstarfi stjórnvalda. Endurskoðað verði fyrirkomulag fasteignagjalda íbúðar- og atvinnu-húsnæðis á landsbyggðinni þannig að skattstofninn endurspegli betur raunverðmæti fasteigna. Opinberar aðgerðir miði m.a. að því að á landsbyggðinni verði sterkir byggðakjarnar sem bjóði upp á fjölbreytta atvinnu, menntun, velferðarþjónustu og góð búsetuskilyrði.
- Að vinna að sem víðtækastri sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið. Markmiðum um skynsamlega nýtingu og bætta umgengni um auðlindir sjávar verði þó ekki fórnað né heldur raskað hagkvæmni og stöðugleika í greininni. Nefnd verði þegar skipuð til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða með hagsmuni sjávarútvegsins, byggðanna og alls almennings í landinu fyrir augum. Eftir því sem afkoma leyfir taki sjávarútvegurinn í auknum mæli þátt í kostnaði við eftirlit, þjónustu og hvers kyns rannsóknir í hans þágu en þær eru forsenda skynsamlegrar stjórnar fiskveiða.
- Að efna til víðtæks samráðs stjórnvalda við bændur og samtök þeirra um framtíðarskipulag íslensks landbúnaðar til að tryggja hagkvæmni í greininni og skapa þeim sem landbúnað stunda sem besta afkomu. Jafnframt því verði tekið tillit til aukinnar samkeppni. Þær aðgerðir sem ráðast verður í, eru m.a. gerð nýs búvörusamnings við sauðfjárbændur og sérstakt átak í alþjóðlegri markaðsfærslu og sölu á landbúnaðarvörum með áherslu á hollustu og hreinleika íslenskra afurða. Unnið verði að gróðurvernd og landgræðslu í því skyni m.a. að stöðva landeyðingu. Áherslur í landgræðslu og skógrækt miðist sem fyrr við að auka hlut bænda í framkvæmdum.
- Að breyta skipulagi orkumála þannig að samkeppni verði innleidd til að auka hagkvæmni og lækka orkuverð. Um leið verði unnið að jöfnun orkuverðs og gæði þjónustunnar jafnframt aukin. Þá verði áfram unnið að þróun og rannsóknum á sviði umhverfisvænna orkugjafa, svo sem vetnis, metanóls o.fl. Haldið verði áfram uppbyggingu orkufreks iðnaðar og leitað samstarfs við erlenda jafnt sem innlenda fjárfesta um fjármögnun.
- Að auka veg ferðaþjónustu m.a. með öflugu kynningarátaki á helstu mörkuðum. Þannig verði nýtt þau sóknarfæri sem gefast í þeirri grein, ekki síst á sviði menningar- og heilsutengdrar ferðaþjónustu. Unnið verði að lengingu ferðamannatímans um land allt og betri nýtingu fjárfestingar í greininni.
- Að efla upplýsingaiðnað þannig að til verði ný störf um allt land sem höfða ekki síst til ungs fólks. Sköpuð verði skilyrði fyrir tilraunir og framkvæmd nýstárlegra hugmynda þar sem upplýsinga- og fjarskiptatækni gegna lykilhlutverki. Unnið verði að áframhaldandi vexti í útflutningi hugbúnaðar, vélbúnaðar, þjónustu og ráðgjafar á þessu sviði. Fjarskiptaþjónusta verði áfram í fremstu röð. Valmöguleikar og samkeppni verði tryggð, rekstrarskilyrði bætt og nýsköpun efld á fjarskiptamarkaði.
- Að vinna að því að framsækin atvinnuþróunarstefna geti byggt á frjóu rannsóknar- og nýsköpunarumhverfi. Til að það nái að dafna verði opinber þjónusta við atvinnulífið samræmd. Dregið verði úr skrifræði í samskiptum við stjórnvöld og óþarfa laga- og reglugerðaákvæði afnumin. Haldið verði áfram að sníða þjónustu ríkisins að nútíma tækni, t.d. með nettengingu þjónustustofnana og rafrænum viðskiptum. Tryggt verði að eftirlitsaðilar íþyngi fyrirtækjum ekki að óþörfu. Starfsemi þeirra opinberu aðila, sem sinna alþjóðlegu kynningar- og markaðsstarfi fyrir íslenskt atvinnulíf, verði einnig sameinuð eða samræmd í þeim tilgangi að bæta þjónustu og auka skilvirkni.
- Að tryggja öllum jöfn tækifæri til náms án tillits til búsetu og efnahags. Þörfum einstaklinga fyrir endurmenntun og fullorðinsfræðslu verði sinnt bæði fyrir faglært og ófaglært fólk. Skólastarf verði áfram eflt, einkum starfsnám og verkmenntun á framhaldsskólastigi. Menntun á háskólastigi verði efld auk þess sem enn ríkari áhersla verði lögð á rannsóknir og vísindi. Fjarkennsla og fjarnám verði aukin í samvinnu við þá skóla sem nú eru starfandi á framhalds- og háskólastigi þannig að sem flestir fái notið slíkrar kennslu.
- Að standa vörð um íslenska tungu og þjóðmenningu og stuðla eins og kostur er að öflugu lista- og menningarlífi sem aðgengilegt sé öllum landsmönnum. Menningarstarf á landsbyggðinni verði treyst með samkomulagi við fulltrúa einstakra landshluta eða sveitarfélaga.
- Að tryggja öllum landsmönnum greiðan aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu. Skoðaðir verði möguleikar á breyttu rekstrarformi einstakra þjónustuþátta eða stofnana heilbrigðisþjónustunnar til að tryggja landsmönnum góða þjónustu en auka jafnframt ábyrgð stjórnenda á rekstrinum. Kannaðir verði möguleikar á auknu samstarfi og verkaskiptingu sjúkrastofnana þannig að nýjungar og fjölbreytni í þjónustu fái notið sín og faglegur metnaður aukist. Skilja þarf á milli hlutverks ríkisins sem kaupanda þjónustu annars vegar og veitanda hennar hins vegar í því skyni að auka ráðdeild. Mikilvægt er að virkja áfram hugvit og þekkingu starfsfólks í greininni þannig að aukinni ábyrgð fylgi ódýrari og betri þjónusta. Upplýsingatækni og fjarþjónusta verði nýtt í auknum mæli, ekki síst til að bæta þjónustu við landsbyggðina. Ráðist verði í aðgerðir til að bæta þjónustu við sjúk börn og ungmenni.
- Að endurskoða almannatryggingakerfið svo og samspil þess við skattkerfið og lífeyrissjóðakerfið með það að markmiði að umfang og kostnaður við stjórnsýslu verði sem minnstur og framkvæmd verði einfölduð og samræmd til hagsbóta fyrir bótaþega. Áhersla verði lögð á að tryggja sérstaklega hag þeirra öryrkja, fatlaðra og aldraðra sem lægstar tekjur hafa.
- Að styrkja fjölskylduna sem hornstein þjóðfélagsins og treysta samheldni hennar og velferð. Meðal annars verði dregið úr tekjutengingu í barnabótakerfinu, t.d. með útgáfu sérstakra barnakorta eða öðrum sambærilegum aðgerðum. Persónuafsláttur maka verði millifæranlegur að fullu hjá hjónum og sambýlisfólki. Jöfn tækifæri karla og kvenna verði tryggð í hvívetna svo sem með lengingu fæðingarorlofs og jöfnun réttar mæðra og feðra til töku þess. Stuðningur við íþrótta- og æskulýðsstarf verði aukinn og hlúð að öðrum skilyrðum heilbrigðs fjölskyldulífs.
- Að gera áætlun um sérstakt átak í baráttunni gegn fíkniefnavandanum í samstarfi við foreldra og skóla, frjáls félagasamtök á sviði forvarna og meðferðarúrræða auk sveitarfélaga, íþrótta- og ungmennafélaga. Þeir meginþættir, sem unnið verði að, eru auknar forvarnaaðgerðir, samræming starfsemi lögreglu og tollgæslu og fjölgun meðferðarúrræða fyrir unga fíkniefnaneytendur.
- Að efla náttúruvernd, stuðla að öflugum mengunarvörnum og vernd lífríkisins. Nauðsynlegt er að skapa sátt milli skynsamlegrar nýtingar auðlinda og náttúruverndarsjónarmiða á grundvelli sjálfbærrar þróunar með hliðsjón af hagsmunum komandi kynslóða. Ljúka þarf gerð rammaáætlunar til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðhita sem tekur tillit til verndargildis einstakra landsvæða. Hvetja þarf einstaklinga til aukinnar ábyrgðar gagnvart umhverfi sínu. Fyrirtæki marki sér umhverfisstefnu þróunar til að draga úr sóun og auka verðmætasköpun. Hrint verði af stað umhverfisátaki þar sem einstaklingar, fyrirtæki og sveitarfélög verði hvött til að endurnýta efni og flokka úrgang. Ísland gerist aðili að Kyoto-bókuninni þegar fyrir liggur ásættanleg niðurstaða í sérmálum þess.
- Að Ísland verði áfram virkur þátttakandi í samstarfi við aðrar þjóðir á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og Sameinuðu þjóðanna. Varnarsamstarfið við Bandaríkin verði áfram þungamiðja öryggisstefnu þjóðarinnar. Sem fyrr verði lögð rækt við samstarf norrænna þjóða á vettvangi Norðurlandaráðs. Samskiptin við Evrópusambandið verði áfram treyst á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og annarra samninga sem Ísland á aðild að. Áfram verði náið fylgst með þróun Evrópusambandsins með framtíðarhagsmuni Íslands að leiðarljósi. Í utanríkismálum verði sérstök áhersla lögð á viðskiptahagsmuni þjóðarinnar, hafréttarmál, aukna þátttöku í þróunarstarfi og baráttu fyrir viðurkenningu almennra mannréttinda.