Þingmálaskrá 156. löggjafarþings 2025
Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, skal fylgja eftirriti stefnuræðu forsætisráðherra við upphaf þings yfirlit um þau mál sem ríkisstjórn hyggst leggja fram á þinginu ásamt áætlun um hvenær þeim verður útbýtt. Yfirlit fyrir 156. löggjafarþing fer hér á eftir. Fram kemur hvenær ætlunin er að leggja mál fram. Flutt kunna að verða fleiri mál en getið er og atvik geta hindrað flutning einstakra mála.
Þingmálaskrá, 156. löggjafarþing
Samkvæmt samþykkt ríkisstjórnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og þingsályktunartillagna frá 24. febrúar 2023 eru áform ríkisstjórnar um lagasetningu og drög að lagafrumvörpum að meginreglu birt í samráðsgátt og kostur gefinn á umsögnum og ábendingum. Hægt er að gerast áskrifandi að málum og öllum er frjálst að senda inn umsögn eða ábendingu.
Forsætisráðherra
- Tillaga til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.
Í þingsályktunartillögunni er kveðið á um fyrirhugaða breytingu á fjölda og heitum ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands sem felur í sér að í stað félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis, matvælaráðuneytis og menningar- og viðskiptaráðuneytis komi atvinnuvegaráðuneyti, félags- og húsnæðismálaráðuneyti og menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneyti. Með breytingunni fækkar ráðuneytum úr tólf í ellefu. Febrúar. - Skýrsla forsætisráðherra um framkvæmd upplýsingalaga.
Árleg skýrsla. Maí. - Skýrsla forsætisráðherra um ráðstöfun lands og landsréttinda innan þjóðlendna og tekna af gjöldum fyrir slík réttindi.
Árleg skýrsla. Maí.
Atvinnuvegaráðherrra
- Frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993 (framleiðendafélög).
Með frumvarpinu eru felldar brott þær breytingar sem gerðar voru á búvörulögum með lögum nr. 30/2024. Þar með verða felld úr gildi ákvæði er varða svokölluð framleiðendafélög og undanþágur slíkra félaga, eins og þau eru skilgreind samkvæmt framangreindum lögum, frá ákvæðum samkeppnislaga. Febrúar. - Frumvarp til laga um breytingu á jarðalögum, nr. 81/2004 (forkaupsréttur sameigenda, slit).
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar er snúa m.a. að forkaupsrétti sameigenda. Með lögum nr. 74/2022 um breytingu á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna (óskipt sameign, landamerki o.fl.) var m.a. bætt við ákvæðum í jarðalög er snúa að jörðum í sameign, þ.e. 7. gr. a – 7. gr. d. núgildandi laga. Ákvæðin snúa að fyrirsvari jarða í sameign, boðun funda, ákvörðunartöku og forkaupsrétti sameigenda. Síðan lögin tóku gildi hafa verið nokkur vandkvæði við framkvæmd þeirra, til dæmis við uppgjör dánarbúa hjá sýslumönnum og þá sérstaklega 7. gr. d. Áformað er að draga úr forkaupsrétti sameigenda til samræmis við forkaupsrétt ábúenda, skýra framkvæmdaratriði og auka möguleika sameigenda að komast út úr sameign. Febrúar. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (gagnsæi og tengdir aðilar).
Með frumvarpinu er lagt til að mælt verði fyrir um aukið gagnsæi og upplýsingaöflun vegna tengdra aðila. Febrúar. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um faggildingu, nr. 24/2006 (endurskoðun).
Frumvarpið felur í sér endurskoðun á lögum um faggildingu með það að markmiði að auka skýrleika þeirra og samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum. Meðal annars verður með skýrari hætti kveðið á um markmið laganna, fjármögnun faggildingarstarfsemi og heimild faggildingarsviðs Hugverkastofunnar (ISAC) til að setja á fót nefndir og fela þeim tiltekin hlutverk. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim (breytt nálgun vegna útrýmingar á riðuveiki í sauðfé auk nauðsynlegra breytinga vegna annarra smitsjúkdóma í búfénaði).
Með frumvarpinu eru lagðar til ýmsar nauðsynlegar breytingar á lögunum til þess að ná fram þeim markmiðum sem fram koma í nýrri landsáætlun um riðuveikilaust Ísland auk nauðsynlegra breytinga sem gera þarf í tengslum við varnir gegn öðrum smitsjúkdómum. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (strandveiðar og áætlun um ráðstöfun).
Með frumvarpinu er lagt til að mælt verði fyrir um breytingar á ákvæðum laganna um strandveiðar. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995 (innleiðing SRDII tilskipunar).
Með frumvarpinu er mælt fyrir um innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/828 frá 17. maí 2017 um breytingu á tilskipun 2007/36/EB að því er varðar réttindi hluthafa og hvatningu til þátttöku hluthafa til lengri tíma. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög sem varða að mestu félög þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði og lúta að deili á hluthöfum slíkra félaga, upplýsingagjöf o.fl. Innleiðing. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007 (skilyrði fyrir skammtímaleigu húsnæðis, miðlun upplýsinga, gagnaöflun o.fl.).
Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögunum. Í fyrsta lagi að heimila sýslumanni að afla upplýsinga frá Skattinum er lúta að tekjum, gjöldum og öðrum atriðum er kunna að skipta máli vegna eftirlits sýslumanns með skammtímaleigu. Í öðru lagi breytingar um skilyrði skráningarskyldrar heimagistingar, m.a. um að útleiga afmarkist við lögheimili einstaklings eða frístundahús sem er í eigu einstaklings. Í þriðja lagi breytingar sem miða að því að tímabinda þegar útgefin rekstrarleyfi fyrir gististarfsemi í íbúðarhúsnæði innan þéttbýlis til fimm ára og í fjórða lagi verður gagnaöflun vegna skammtímaleigu tekin til skoðunar með hliðsjón af nýlegri reglugerð þess efnis frá ESB. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjald, nr. 145/2018 (veiðigjald).
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á veiðigjaldi. Mars. - Tillaga til þingsályktunar um stefnu í neytendamálum til ársins 2030.
Með tillögunni er lögð fram heildstæð stefna í neytendamálum til ársins 2030, ásamt aðgerðaráætlun með skilgreindum aðgerðum. Endurflutt. Febrúar.
Dómsmálaráðherra
- Frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum, lögum um landamæri og tollalögum (farþegaupplýsingar fyrir löggæslu- og tolleftirlit).
Nauðsynlegar lagabreytingar til að geta fullgilt fyrirhugaðan samning Íslands við Evrópusambandið um afhendingu og vinnslu upplýsinga um farþega og áhafnir í löggæslutilgangi. Febrúar. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984 (einföldun málsmeðferðar).
Lagt er til að lögunum verði breytt í þeim tilgangi að gera málsmeðferð einfaldari og skilvirkari, þar með talið að umsýsla verkefna verði færð frá dómsmálaráðuneytinu til ríkissaksóknara í ákveðnum tilfellum. Þá eru lagðar til breytingar á uppröðun á ákvæðum II. kafla laganna um meðferð framsalsmála til að þau séu í betra samræmi við framvindu framsalsmála. Febrúar. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, o.fl. (endurheimt ávinnings af brotum o.fl.).
Markmiðið er að breyta löggjöf til að geta náð betri árangri í því að endurheimta ávinning af ólöglegri starfsemi, m.a. til samræmis við alþjóðlegar skuldbindingar. Um er að ræða breytingar á sviði sakamálaréttarfars og á sviði refsilaga. Mars. - Frumvarp til laga umbreytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (afturköllun alþjóðlegrar verndar).
Með frumvarpinu er lagt til að heimiluð verði afturköllun alþjóðlegrar verndar, viðbótarverndar og mannúðarleyfis þegar einstaklingur hefur gerst sekur um alvarlegt afbrot eða síendurtekin brot eða það telst nauðsynlegt vegna allsherjarreglu, almannahagsmuna eða öryggis ríkisins. Með frumvarpinu er ætlunin að samræma löggjöf og framkvæmd afturköllun alþjóðlegrar verndar við umgjörð annars staðar á Norðurlöndunum. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36/1993 (rekstur líkhúsa).
Með frumvarpinu er lagt til að heimila kirkjugörðum að innheimta gjald fyrir hluta af starfsemi sinni. Til þess að bregðast við erfiðri stöðu kirkjugarðanna að þessu leyti er nauðsynlegt að þeim verði heimilt að innheimta sérstakt gjald til að standa undir þessum rekstri. Mars. - Frumvarp til laga um sýslumann.
Með frumvarpinu er lagt til að sýslumannsembættin níu verði sameinuð í eitt, með það að meginmarkmiði að bæta þjónustu hins opinbera á öllu landinu. Markmiðinu verður náð með hagræðingu, einfaldari stjórnsýslu og jöfnu aðgengi að opinberri þjónustu, óháð búsetu. Mars. - Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum fyrir árin 2025-2028.
Gert er ráð fyrir að lögð verði fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum til fjögurra ára sem leysir af hólmi gildandi áætlun, sbr. 26. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020. Framkvæmdaáætluninni er ætlað það hlutverk að skilgreina stefnu stjórnvalda á hverjum tíma og lýsa verkefnum sem ýmist er ætlað að varpa ljósi á stöðu kynjanna eða fela í sér beinar aðgerðir í þágu kynjajafnréttis. Skýrsla ráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála 2020–2024 fylgir með tillögunni, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Mars.
Félags- og húsnæðismálaráðherra
- Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, nr. 137/2019 (Hlutdeildarlánasjóður).
Með frumvarpinu er lagt til að stofnaður verði sérstakur Hlutdeildarlánasjóður sem hafi það hlutverk að fjármagna hlutdeildarlán sem veitt eru á grundvelli VI. kafla A. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Febrúar. - Frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994 (almenn skráningarskylda leigusamninga í leiguskrá).
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á húsaleigulögum þess efnis að skráningarskylda leigusamninga í leiguskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar verði almenn í stað þess að hún taki eingöngu til þeirra sem hafa atvinnu af útleigu íbúðarhúsnæðis samkvæmt lögum um tekjuskatt. Með því fást áreiðanlegri og heildstæðari upplýsingar um leigumarkaðinn og einstaka hluta hans, lengd leigusamninga, þróun húsaleigu, búsetu í óviðunandi húsnæði o.fl., sem nauðsynlegar eru til að undirbyggja frekari stefnumótun og ákvarðanatöku stjórnvalda í málaflokknum sem og eftirlit með svartri leigustarfsemi. Mars. - Frumvarp til laga um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Frumvarpið felur í sér að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur í heild sinni. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 (aldursviðbót og launavísitala).
Með frumvarpinu er lögð til sú breyting að aldursviðbót falli ekki niður þegar örorkulífeyrisþegi nær ellilífeyrisaldri. Aldursviðbótin fylgi þeim sem eiga engin eða takmörkuð atvinnutengd réttindi til ellilífeyris. Einnig er með frumvarpinu lögð til sú breyting að örorku- og ellilífeyrir hækki árlega til samræmis við hækkun launavísitölu en þó aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Jafnframt verða lagðar til nokkrar breytingar í tengslum við innleiðingu á nýju örorkulífeyriskerfi. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús, nr. 26/1994 (dýrahald).
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um fjöleignarhús sem varða dýrahald þannig að samþykki annarra eigenda fyrir hunda- og kattahaldi sé ekki nauðsynlegt. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, nr. 160/2008 (heiti stofnunar).
Með frumvarpinu er lagt til að breyta heiti Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Nýtt heiti verði Sjónstöðin. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020 (fjölburaforeldrar og veikindi á meðgöngu).
Frumvarpinu er ætlað að bæta hag fjölburaforeldra og foreldra sem veikjast á meðgöngu og veikindin vara fram yfir fæðingu. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sorgarleyfi, nr. 77/2022 (aukinn réttur foreldra).
Frumvarpinu er ætlað að auka réttindi foreldra enn frekar, meðal annars með því að tryggja þeim foreldrum sem missa maka rétt til sorgarleyfis. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almennar íbúðir, nr. 52/2016 (fyrirkomulag almennra íbúða).
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi almennra íbúða til að húsnæðisstuðningskerfið stuðli enn frekar að auknu framboði íbúða með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði og vistvænni mannvirkjagerð, m.a. með lækkun fjármögnunarkostnaðar stofnframlagshafa. Jafnframt verði framkvæmd úthlutunar stofnframlaga endurskoðuð til að einfalda ferla og auka skilvirkni. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018 (svæðisráð o.fl.).
Með frumvarpinu eru lagðar til tilteknar lágmarksbreytingar á lögum um skipulag haf- og strandsvæða til að sníða af þeim tæknilega agnúa sem komið hafa í ljós við framkvæmd þeirra, áður en frekari vinna við gerð strandsvæðisskipulags hefst. Snúa þær m.a. að uppfærðu fyrirkomulagi á tilnefningum fulltrúa ráðuneyta í svæðisráð og skýrari ákvæðum um skipunartíma svæðisráða og hlutverk Skipulagsstofnunar. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020 (EES-reglur).
Frumvarpinu er ætlað að bregðast við athugasemdum frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) í tengslum við innleiðingu á reglugerð (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa í kjölfar ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins frá 29. júlí 2022. Innleiðing. Mars.
Fjármála- og efnahagsráðherra
- Frumvarp til laga um staðfestingu ríkisreiknings 2023.
Skv. 58. gr. laga um opinber fjármál á ráðherra að leggja fram frumvarp á Alþingi til staðfestingar ríkisreikningi. Febrúar. - Frumvarp til laga um fasteignir sjúkrahúsa ohf.
Felur í sér endurskoðun á gildandi lagaramma um NLSH er varðar framkvæmdir við Hringbraut. NLSH fær aukin verkefni er varða undirbúning og framkvæmd bygginga fyrir Landspítala og aðra sérhæfða sjúkrahúsþjónustu í samræmi við ákvarðanir stjórnvalda. Þá er einnig gert ráð fyrir að heimilt verði að færa eignarhald og umsýslu fasteigna vegna sjúkrahúss til félagsins með sambærilegum hætti og gert var vegna umsýslu fasteigna Háskóla Íslands. Endurflutt. Febrúar. - Frumvarp til laga um skipan upplýsingatækni í rekstri ríkisins.
Með frumvarpinu er stefnt að því að styrkja stefnumótun og framkvæmd upplýsingatæknimála í rekstri ríkisins o.fl. Ábyrgð ráðherra á skipan upplýsingatæknimála ríkisins er formgerð og mótuð, m.a. með því að kveðið er á um heimild ráðherra til að setja reglur og viðmið um hvernig skipan þeirra mála skuli háttað. Ráðherra ber jafnframt að halda úti sameiginlegum stafrænum innviðum sem ríkisaðilum er ýmist heimilt eða skylt að nota. Einnig er ráðherra veitt heimild til að innleiða Evrópugerðir um annars vegar sameiginlega stafræna gátt og hins vegar aðgengi vefsetra opinberra aðila. Markmiðið er að upplýsingatækniumhverfi ríkisins verði samræmdara, öruggara, skilvirkara og hagkvæmara. Febrúar. - Frumvarp til laga um greiðslur yfir landamæri í evrum (CBPR).
Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð (ESB) 2021/1230, um greiðslur yfir landamæri í Sambandinu. Með frumvarpinu verður lagt til að felld verði úr gildi lög um greiðslur yfir landamæri í evrum, nr. 78/2014, sem sett voru til innleiðingar á reglugerð (EB) 924/2009, um greiðslur yfir landamæri í Bandalaginu, og ný lög sett í þeirra stað. Innleiðing. Febrúar. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka hf., nr. 80/2024 (auglýsing og framkvæmd markaðssetts útboðs).
Með frumvarpinu verða lagðar til endurbætur á lögunum. Annars vegar með smávægilegum breytingum á lágmarkstíma auglýsingar útboðsins og hins vegar með nýrri tilboðsbók C. Með breytingunum er stefnt að því að auka líkurnar á aðkomu stórra fagfjárfesta og þannig auka eftirspurn og vægi meginmarkmiðs laganna um hagkvæmni. Febrúar. - Frumvarp til laga um verðbréfun (STS).
Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð (ESB) 2017/2402, um almennan ramma fyrir verðbréfun og gerð sértæks ramma fyrir einfalda, gagnsæja og staðlaða verðbréfun o.fl. Verðbréfun getur verið mikilvægt tæki fyrir fjármagns-, lausafjár- og áhættustýringu aðila á fjármálamarkaði, enda sé hún byggð á traustu skipulagi. Með frumvarpinu verður komið á styrkri lagaumgjörð er miðar að því að draga úr áhættunni sem felst í verðbréfun og tryggja aðgreiningu einfaldra, gagnsærra og staðlaðra verðbréfunarafurða frá flóknum, ógagnsæjum og áhættusamari afurðum. Með frumvarpinu verða jafnframt lagðar til breytingar á öðrum lögum sem varða verðbréfun og varfærniskröfur til aðila að slíkum viðskiptum, til samræmis við breytingar á gildandi EES-gerðum með reglugerð (ESB) 2017/2402 og tengdum gerðum, þar á meðal lögum um fjármálafyrirtæki, verðbréfasjóði, vátryggingastarfsemi, lánshæfismatsfyrirtæki, rekstraraðila sérhæfðra sjóða, peningamarkaðssjóði og afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár. Þá er gert ráð fyrir að kröfur reglugerðarinnar um áreiðanleikakönnun gildi um innlenda lífeyrissjóði sem fjárfesta í verðbréfaðri stöðu. Er það gert með hagsmuni sjóðfélaga í huga og lagt til að ákvæðum um þær kröfur sem ná til lífeyrissjóða verði komið fyrir í lögum um lífeyrissjóði. Innleiðing. Febrúar. - Frumvarp til laga um kílómetragjald á ökutæki.
Með frumvarpinu er lagt til að tekin verði upp gjaldtaka í formi kílómetragjalds vegna notkunar ökutækja á vegakerfinu. Jafnframt er lagt til að almennt og sérstakt vörugjald af eldsneyti verði fellt niður og lög um olíugjald og kílómetragjald, nr. 87/2004, og lög um kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða, nr. 101/2023, verði felld brott. Þá er lögð til hækkun á kolefnisgjaldi í lögum um umhverfis- og auðlindaskatta, nr. 129/2009. Endurflutt. Febrúar. - Frumvarp til fjáraukalaga I fyrir árið 2025.
Breytingar á fjárheimildum sem leiðir af breyttri skipan Stjórnarráðsins í samræmi við forsetaúrskurð. Febrúar. - Frumvarp til fjáraukalaga II fyrir árið 2025.
Breytingar á fjárheimildum í samræmi við áherslur nýrrar ríkisstjórnar. Febrúar. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015 (stöðugleikaregla o.fl.).
Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á ákvæði um skilyrði fjármálastefnu og fjármálaáætlunar og tekin upp stöðugleikaregla. Samhliða verður til samræmis breyting á ákvæðum um fjármálaráð sem hefur það hlutverk að rýna og meta hvort framlögð stefna og áætlun uppfylli fjármálareglur. Febrúar. - Frumvarp til laga um starfstengda eftirlaunasjóði (IORP II).
Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun (ESB) 2016/2341, um starfstengda eftirlaunasjóði. Með frumvarpinu verður lagt til að felld verði úr gildi lög um starfstengda eftirlaunasjóði, nr. 78/2007, sem sett voru til innleiðingar á tilskipun (ESB) 2003/41 um sama efni, og ný lög sett í þeirra stað. Um er að ræða endurútgáfu á eldri tilskipun um sama efni, það er tilskipun 2003/41/EB, um starfsemi og eftirlit með lögaðilum sem sjá um starfstengd eftirlaun. Innleiðing. Mars. - Frumvarp til laga um stafrænan rekstrarlegan viðnámsþrótt fjármálamarkaðar (DORA).
Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð (ESB) 2022/2554 um stafrænt áfallaþol fjármálageirans, og tengdri tilskipun (ESB) 2022/2556. Með því er ætlunin að setja samræmdar kröfur um viðbúnað og áhættustýringu á fjármálamarkaði, með áherslu á stærð, áhættusnið og starfsemi aðila, þar með talið aðkeypta tækniþjónustu og tilkynningar um alvarleg atvik. Lögð er áhersla á innbrotsprófanir til að auka áfallaþol og miðlun upplýsinga um ógnir, í formlegu samstarfi. Með DORA-reglugerðinni er sameiginlegu eftirliti evrópska fjármálaeftirlitskerfisins komið á gagnvart stærstu tækniþjónustuveitendum, sem útnefndir verða sem mikilvægir á sameiginlegum innri markaði fjármálaþjónustu. Með frumvarpinu verða lagðar til ýmsar breytingar á gildandi lögum á fjármálamarkaði, sem þegar víkja að einhverju marki að stafrænum viðnámsþrótti. Þá er gert ráð fyrir að meginkröfur reglugerðarinnar gildi um innlenda lífeyrissjóði. Er það gert með hagsmuni sjóðfélaga í huga og lagt er til að ákvæðum um þær kröfur verði komið fyrir í lögum um lífeyrissjóði. Innleiðing. Mars. - Frumvarp til laga um lágmarksskatt á fjölþjóðleg stórfyrirtæki.
Í frumvarpinu er lagt til að innleiddar verði reglur sem eiga að tryggja 15% lágmarksskattlagningu fjölþjóðlegra fyrirtækja með yfir 750 milljónir evra í árstekjur. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, lögum um umhverfis- og auðlindaskatta, nr. 129/2009, og tollalögum, nr. 88/2005, o.fl. (tollskrá, aðgerðir gegn peningaþvætti).
Með frumvarpinu eru m.a. lagðar til breytingar á upptalningu tollskrárnúmera í lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, og lögum um umhverfis- og auðlindaskatta, nr. 129/2009, til samræmis við breytingar á tollskrá. Einnig eru lagðar til breytingar á tollalögum til samræmis við kröfur og tilmæli FATF, alþjóðlegs fjármálaaðgerðahóps ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Annars vegar um heimild tollyfirvalda til að leita í innrituðum farangri farþega og áhafnar að viðkomandi fjarstöddum og hins vegar um heimildir tollyfirvalda til að leggja stjórnvaldssekt á þann sem ekki upplýsir tollyfirvöld um fjármuni í farangri. Jafnframt eru lagðar til breytingar á ákvæðum tollalaga, nr. 88/2005, til samræmis við þegar gerðar breytingar á búvörulögum, nr. 99/1993. Þá eru lagðar til breytingar á tollskrá, sem er viðauki við tollalög, nr. 88/2005, varðandi tollflokkun á osti með viðbættri jurtafitu. Mars. - Frumvarp til laga um markaði fyrir sýndareignir (MiCA).
Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð (ESB) 2023/1114, um markaði fyrir sýndareignir. Í reglugerðinni er kveðið á um samevrópskar reglur um útgáfu, almennt útboð og leyfi til viðskipta með sýndareignir ásamt reglum til að koma í veg fyrir markaðsmisnotkun og innherjaviðskipti með sýndareignir. Innleiðing. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002 (CRR III).
Frumvarpið innleiðir reglugerð (ESB) 2024/1623, sem breytir reglugerð (ESB) nr. 575/2013, um varfærniskröfur að því er varðar lánastofnanir. Breytingunum er að miklu leyti ætlað að gera eiginfjárkröfur til lánastofnana áhættunæmari til að endurspegla betur áhættu sem þær standa frammi fyrir án þess að auka verulega heildareiginfjárkröfur til þeirra. Innleiðing. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020, og lögum um verðbréfasjóði, nr. 116/2021 (heimild til setningar stjórnvaldsfyrirmæla).
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á reglusetningarheimildum laganna til að tryggja skýra lagastoð til innleiðingar Evrópugerða með stjórnvaldsfyrirmælum. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, o. fl.
Með frumvarpinu verða lagðar fram tillögur að breytingum á lögum í tengslum við breytingar á örorkuhluta almannatryggingakerfisins sem samþykktar voru á Alþingi vorið 2024 og taka gildi 1. september nk. Fyrirhugaðar breytingartillögur eru síðasti áfanginn í innleiðingu nýs örorkukerfis almannatrygginga. Mars. - Tillaga til þingsályktunar um fjármálastefnu 2026-2030.
Febrúar. - Tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun 2026-2030.
Mars. - Skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra um langtímahorfur í efnahagsmálum og opinberum fjármálum
Skýrslan er lögð fram skv. 9. gr. laga um opinber fjármál. Í skýrslunni er lagt mat á líklega þróun samfélags-, atvinnu- og umhverfisþátta og lýðfræðilegra breytna til næstu áratuga og áhrif þeirra á afkomu, fjárhagsstöðu og skuldbindingar opinberra aðila. Mars.
Heilbrigðisráðherra
- Frumvarp til laga um breytingu á lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, og lögum um sjúkraskrár, nr. 55/2009 (heilbrigðisskrár o.fl.).
Meginmarkmið frumvarpsins er þríþætt. Í fyrsta lagi að setja ítarleg ákvæði um rekstur og notkun heilbrigðisskráa. Í öðru lagi er stefnt að því að tryggja lagastoð fyrir stofnun og rekstri gæðaskráa. Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar er varða aðgang heilbrigðisyfirvalda að sjúkraskrám við meðferð kvörtunar- eða kærumála og við rannsóknir á atvikum í heilbrigðisþjónustu. Endurflutt. Febrúar. - Frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum, nr. 100/2020, og lögum um lækningatæki, nr. 132/2020 (EES-reglur).
Með frumvarpinu er lagt til að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2022/123 frá 25. janúar 2022 um að styrkja hlutverk Lyfjastofnunar Evrópu að því er varðar viðbúnað við krísu og krísustjórnun varðandi lyf og lækningatæki í samræmi við skuldbindingar Íslands skv. 7. gr. EES-samningsins. Innleiðing. Endurflutt. Febrúar. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007 (fækkun hæfnisnefnda).
Með frumvarpinu er lögð til fækkun fastra hæfnisnefnda, þ.e. að leggja niður stöðunefnd lækna, stöðunefnd framkvæmdastjóra hjúkrunar og nefnd til að meta hæfni umsækjenda um störf forstjóra heilbrigðisstofnana. Markmiðið er að aðlaga umgjörð um hæfnisnefndir að því sem almennt gildir hjá ríkinu, sbr. heimild í lögum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna, nr. 70/1996, fyrir ráðherra til að skipa sérstaka hæfnisnefnd til að meta hæfni umsækjenda um starf forstöðumanns. Endurflutt. Febrúar. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008 (ýmsar breytingar).
Frumvarpinu er aðallega ætlað að veita Sjúkratryggingum fullnægjandi heimildir til að geta sinnt lögbundnum skyldum sínum sem kostnaðargreinandi heilbrigðisþjónustu og umsjónaraðila sjúkratrygginga. Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögunum, svo sem að stytta biðtíma eftir sjúkratryggingu við flutning til landsins og gera nauðsynlegar breytingar á ákvæðum um greiðsluþátttökukerfi, vinnslu persónuupplýsinga o.fl. Endurflutt. Febrúar. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974 (breytingar á neyslurými).
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um ávana- og fíkniefni m.a. þess efnis að fólki sem notar neyslurými verði heimilt að nota þar vímuefni, óháð aðferð, en það er skaðaminnkandi aðgerð sem dregur m.a. úr hættu á sýkingum. Febrúar. - Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum (viðbrögð við lyfjaskorti).
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lyfjalögum, nr. 100/2020, sem teljast nauðsynlegar miðað við þá reynslu sem komin er síðan lögin tóku gildi. Frumvarpið felur m.a. í sér heimildir fyrir Lyfjastofnun til að bregðast við lyfjaskorti og lágmarka áhrif hans á sjúklinga, breytingar á ákvæðum er varða undanþágulyf, ákvæði um lyfjafræðilega þjónustu í lyfjabúðum, ákvæði sem heimilar lyfjafræðingum að ávísa bóluefnum, viðurlagaákvæði og breytingar á framkvæmd ákvarðana um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í lyfjum. Frumvarpið felur einnig í sér breytingar á lögum um dýralyf, nr. 14/2022, og lögum um lækningatæki, nr. 132/2020. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkraskrár, nr. 55/2009 (ýmsar breytingar).
Með frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar, svo sem varðandi miðlun upplýsinga við framkvæmd samþættra verkefna félags- og heilbrigðisþjónustu, rafræn sjúkraskrárkerfi og aðgang að sjúkraskrám. Mars. - Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis fyrir árin 2025–2029.
Tillagan felur í sér að fela heilbrigðisráðherra, í samvinnu við atvinnuvegaráðherra og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, að vinna að framkvæmd aðgerðaáætlunar gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis fyrir árin 2025–2029. Febrúar. - Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í krabbameinsmálum 2025-2029.
Með vísan til krabbameinsáætlunar til ársins 2030 verður lögð fram tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun til fimm ára til að hrinda í framkvæmd stefnu í krabbameinsmálum. Febrúar. - Skýrsla heilbrigðisráðherra um áætlun um framkvæmd heilbrigðisstefnu til fimm ára.
Árleg skýrsla. Mars. - Skýrsla heilbrigðisráðherra um áætlun um framkvæmd lýðheilsustefnu til fimm ára.
Árleg skýrsla. Maí.
Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra
- Frumvarp til laga um breytingu á lögum um einkaleyfi, nr. 17/1991 (undanþága frá viðbótarvernd).
Í frumvarpinu felst formleg innleiðing reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 469/2009 um vottorð um viðbótarvernd fyrir lyf en efnislegt inntak reglugerðarinnar var lögfest með lögum nr. 57/2021. Innleiðing. Endurflutt. Febrúar. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 26/2010 (meðalhófsprófun, EES-reglur).
Með frumvarpinu er tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/958 um meðalhófsprófun lögverndaðra starfsgreina innleidd. Frumvarpið kveður á um að framkvæma skuli meðalhófsprófun áður en samþykkt er ný lögverndun starfsgreina og þegar skilyrði fyrir lögverndun eru endurskoðuð. Innleiðing. Endurflutt. Febrúar. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sviðslistir, nr. 165/2019 (óperustarfsemi).
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um sviðslistir í því skyni að kveða á um bætta umgjörð óperustarfsemi á Íslandi. Lagt er til að í lögunum verði m.a. kveðið á um rekstrarfyrirkomulag óperunnar innan Þjóðleikhússins, hlutverk og helstu verkefni, skipun forstöðumanns og fjárhag. Í frumvarpinu verður jafnframt fjallað um framtíðarsýn á frekari sameiningu sviðslistastofnana á vegum ríkisins. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011 (stuðningur við einkarekna fjölmiðla).
Með frumvarpinu er ætlunin að mæla fyrir um stuðning til eins árs til einkarekinna fjölmiðla samkvæmt sambærilegu fyrirkomulagi og verið hefur undanfarin ár, sbr. X. kafla B fjölmiðlalaga, sem féll úr gildi 1. janúar 2025. Með frumvarpinu er jafnframt stigið fyrsta skrefið að endurskoðun fyrirkomulags stuðningsins þar sem þak hans er lækkað. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020 (endurskoðun).
Með frumvarpinu eru lagðar til frekari breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna í framhaldi af frumvarpi sem var samþykkt á 154. löggjafarþingi. Breytingarnar byggjast á skýrslu um mat á endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna sem lögð var fram á Alþingi í desember 2023 og frekari greiningum í samráði við hagsmunaaðila. Mars. - Frumvarp til laga um menningarframlag streymisveitna til eflingar íslenskri menningu og tungu.
Með frumvarpinu er ætlunin að kveða á um skyldubundið menningarframlag innlendra og erlendra streymisveitna sem miðla myndefni til neytenda hér á landi með því að gera kröfu um að tiltekið hlutfall af áskriftartekjum vegna slíkrar miðlunar renni til framleiðslu á innlendum kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og heimildarmyndum sem hafa íslenska menningarlega og samfélagslega skírskotun. Mars. - Tillaga til þingsályktunar um bókmenntastefnu fyrir árin 2025-2030.
Með bókmenntastefnu er ætlunin að móta framtíðarsýn fyrir bókmenntir í víðum skilningi á Íslandi. Sérstök aðgerðaáætlun fyrir árin 2025-2030 fylgir stefnunni. Meginmarkmið með stefnunni eru að treysta stöðu íslenskrar tungu, stuðla að auknum lestri og tryggja stöðu bókarinnar í samfélaginu. Endurflutt. Febrúar. - Skýrsla Vísinda- og nýsköpunarráðs um stöðu nýsköpunar hér á landi í alþjóðlegu tilliti, stefnumótun stjórnvalda og helstu samfélagslegu áskoranir.
Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga um Vísinda- og nýsköpunarráð, nr. 137/2022, skal ráðið árlega skila skýrslu til ráðherra sem fer með málefni vísinda og nýsköpunar sem skal leggja skýrsluna fyrir Alþingi. Mars. - Skýrsla ráðherra um Tæknisetur og stöðu nýsköpunarstuðnings eftir niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.
Í ákvæði til bráðabirgða VI. við lög um opinberan stuðning við nýsköpun, nr. 25/2021, kemur fram að ráðherra skuli gefa Alþingi skýrslu um stöðu nýsköpunarstuðnings eftir niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, þróun nýsköpunarmála á landsbyggðinni, árangur sem og ásókn í hvatastyrki til nýsköpunar sem ráðuneytið úthlutar og starfsemi Tækniseturs eigi síðar en tveimur árum eftir gildistöku laganna. Mars.
Mennta- og barnamálaráðherra
- Frumvarp til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 (námsmat).
Frumvarpið felur í sér breytingu á tilteknum ákvæðum laga um grunnskóla sem snúa að samræmdu námsmati. Með frumvarpinu er ætlunin að aðlaga lagaumhverfi að þróun nýrra matstækja fyrir grunnskóla. Fjallað er um skyldu til að standa fyrir samræmdu námsmati og heimildir til að vinna með upplýsingar um námsmat. Endurflutt. Febrúar. - Frumvarp til laga um námsgögn.
Frumvarpið felur í sér ný heildarlög um námsgögn sem ætlunin er að komi í stað gildandi laga um námsgögn, nr. 71/2007. Markmið frumvarpsins er að tryggja gæði, framboð og fjölbreytileika námsgagna til að styðja við nám og kennslu í leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskólum. Það felur meðal annars í sér að námsgögn í leik-, grunn- og framhaldsskólum verði í áföngum gerð gjaldfrjáls vegna náms barna að 18 ára aldri. Endurflutt. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008 (staðfestingar námsbrauta o.fl.).
Með frumvarpinu verða ýmis ákvæði laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, tekin til endurskoðunar. Lagt er til að gera breytingar á reglum um staðfestingar námsbrauta, aðlaga ákvæði laganna að breytingum á fyrirkomulagi vinnustaðanáms o.fl. Mars. - Tillaga til þingsályktunar um stefnu um farsæld barna.
Samkvæmt 3. gr. laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, skal mennta- og barnamálaráðherra leggja fram, sem tillögu til þingsályktunar, stefnu um farsæld barna. Mars. - Skýrsla mennta- og barnamálaráðherra um framkvæmd skólastarfs í framhaldsskólum.
Samkvæmt 56. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, skal mennta- og barnamálaráðherra gera Alþingi grein fyrir framkvæmd skólastarfs í framhaldsskólum landsins á þriggja ára fresti. Febrúar. - Skýrsla mennta- og barnamálaráðherra um framkvæmd skólastarfs í leikskólum.
Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga um leikskóla, nr. 90/2008, skal mennta- og barnamálaráðherra gera Alþingi grein fyrir framkvæmd skólastarfs í leikskólum landsins á þriggja ára fresti. Mars.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra
- Frumvarp til laga um breytingu á lögum um siglingavernd, nr. 50/2004 (áhættumat hafnaraðstöðu).
Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um framkvæmd áhættumats fyrir hafnaraðstöðu. Breytingarnar eru lagðar til vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA um að lögin tilgreini ekki réttan aðila til að framkvæma slíkt mat. Febrúar. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995 (niðurfelling fasteignaskatta í Grindavíkurbæ).
Með frumvarpinu verða framlengdar heimildir Grindavíkurbæjar sem sveitarfélaginu voru veittar með lögum nr. 4/2024, til að fella niður fasteignaskatta á fasteignir í sveitarfélaginu vegna þeirrar náttúruvár sem steðjar að sveitarfélaginu um þessar mundir. Febrúar. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011 (lagfæringar, bráðabirgðaákvæði og breyting á gildistöku laganna).
Lagðar verða til breytingar sem miða að því að gera almennar lagfæringar á lögunum. Þá eiga lögin að falla úr gildi árið 2025. Því er lagt til að framlengja gildistíma laganna til 2030. Febrúar. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um leigubifreiðaakstur, nr. 120/2022 (öryggi í leigubifreiðaþjónustu og starfsumhverfi leigubifreiðastjóra).
Í samræmi við endurskoðunarákvæði laga um leigubifreiðaakstur eru lagðar til breytingar í ljósi reynslu af lögunum og með tilliti til starfsumhverfis leigubifreiðastjóra og markmiða laganna um að tryggja gott aðgengi að hagkvæmri, skilvirkri og öruggri þjónustu fyrir neytendur. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011 (mat á fjárhagslegum áhrifum á sveitarfélög).
Í þingsályktun nr. 2/154 um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024-2038, er lagt til í sjötta lið aðgerðaáætlunar fyrir árin 2024-2028, sem er hluti af ályktuninni, að endurskoðaður verði ferill kostnaðarmats, þ.e. mats á hugsanlegum áhrifum frumvarpa, tillagna að stjórnvaldsfyrirmælum eða annarra stefnumarkandi ákvarðana af hálfu ríkisins á fjárhag sveitarfélaga. Frumvarpið mun byggja á tillögum starfshóps Stjórnarráðsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um breytingar á 129. gr. sveitarstjórnarlaga um kostnaðarmat. Tillögurnar fela m.a. í sér skýrari feril kostnaðarmats auk þess sem lögð verður til ný almenn leið til að leysa úr ágreiningsmálum milli ríkis og sveitarfélaga um matið.Mars. - Frumvarp til laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
Um heildarendurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að ræða þar sem reglur um starfsemi sjóðsins verða fluttar úr lögum um tekjustofna sveitarfélaga í ný heildarlög. Einnig verður lögð til sú breyting að nokkur af helstu framlögum sjóðsins verða sameinuð í eitt framlag. Hlutverk sjóðsins verði áfram að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna sem settar eru um starfsemi sjóðsins. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stefnur og aðgerðaráætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála, nr. 30/2023 (breyting á málefnasviðum ráðuneytis)
Endurskoða þarf lögin með tilliti til forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna. Mars. - Tillaga til þingsályktunar um borgarstefnu fyrir árin 2025-2040.
Borgarstefna er mótuð á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2022-2036. Borgarstefna hefur það að markmiði að stærstu þéttbýlissvæðin verði efld og samkeppnishæfni þeirra og hlutverk í byggðaþróun landsins styrkt. Með borgarstefnu er hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar skilgreint og stuðlað að aukinni alþjóðlegri samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins og landsins alls. Þá er skilgreint hlutverk Akureyrar og uppbygging hennar sem svæðisborgar sem geti boðið upp á aukna fjölbreytni í þjónustu, menningu og atvinnutækifærum. Febrúar. - Skýrsla samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um framvindu stefnumótandi byggðaáætlunar 2022-2036.
Samkvæmt 13. gr. laga um Byggðastofnun, nr. 106/1999, skal ráðherra gefa Alþingi árlega skýrslu um framvindu byggðaáætlunar. Febrúar.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra
- Frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum og lögum um stjórn vatnamála (heimild til bráðabirgðaráðstafana og breyting á vatnshloti).
Með frumvarpinu verður mælt fyrir um breytingar á raforkulögum og lögum um stjórn vatnamála. Mælt verður fyrir um heimild til veitingar virkjunarleyfis til bráðabirgða í raforkulögum. Þá verða ákvæði laga um stjórn vatnamála skýrð nánar hvað varðar heimild til breytinga á vatnshloti vegna framkvæmda. Febrúar. - Frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003 (raforkuöryggi).
Með frumvarpinu er vernd almennra notenda raforku aukin, þ.e. heimila og smærri fyrirtækja. Lagt er til að grunnsjónarmið sem byggja skuli á við skömmtun verði færð í lög og mælt er fyrir um öflun og greiningu upplýsinga í þeim tilgangi að leggja mat á stöðu á raforkumarkaði. Loks felast í frumvarpinu ráðstafanir til að nýta sveigjanleika í raforkukerfinu með því að skapa hvata til breytinga á raforkunotkun notenda miðað við aðstæður í raforkukerfinu hverju sinni. Endurflutt með breytingum. Febrúar. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021 (aflétting reglubyrðar).
Í janúar 2024 var gefin út skýrsla með niðurstöðum greiningar á innleiðingum EES-gerða á málefnasviði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins í landsrétt. Í greiningunni var þeirri spurningu svarað hvort svokölluð ,,gullhúðun“ hefði átt sér stað við innleiðinguna á tímabilinu 2010-2022. Í kjölfar skýrslunnar var sett í gang vinna við að endurskoða innleiðingu á EES-gerðum í löggjöf um mat á umhverfisáhrifum og er áformað að leggja fram frumvarp til að færa löggjöfina nær Evrópulöggjöfinni með það að markmiði að tryggja að löggjöfin sé ekki meira íþyngjandi en tilefni er til. Febrúar. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, nr. 96/2023 (EES, ETS2-kerfi).
Frumvarpið felur í sér innleiðingu nýs ETS-kerfis um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Lagt er til að ETS2 kerfið verði hliðstætt ETS-kerfinu, sbr. lög um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, nr. 96/2023. Viðskiptakerfið er meginstjórntæki ESB á sviði loftslagsmála og er ætlað að mynda hagrænan hvata til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í sambandinu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hið nýja ETS2 kerfi muni ná utan um losun frá byggingum, vegasamgöngum og smærri iðnaði. Innleiðing. Febrúar. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998 (EES-reglur, einnota plastvörur).
Um er að ræða innleiðingu á ákvæði 1. mgr. 6. gr. tilskipunar ESB 2019/904 sem kveður á um að einungis megi setja einnota drykkjarílát úr plasti (allt að þriggja lítra) á markað ef tappinn eða lokið er áfast ílátinu á meðan fyrirhuguð notkun þess stendur yfir. Innleiðing. Febrúar. - Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna leyfisveitinga í umhverfis- og orkumálum, samræmingar löggjafar o.fl.
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem varða málsmeðferð og leyfisveitingar Umhverfis- og orkustofnunar. Markmiðið er að einfalda, stytta og samræma málsmeðferð stofnunarinnar, meðal annars með því að innleiða hugmyndafræði um einn viðkomustað (e. one-stop shop). Frumvarpinu er einnig ætlað að kveða á um samræmingu málsmeðferðarreglna í lögum, valdheimilda og annarra reglna vegna nýrrar Umhverfis- og orkustofnunar sem tók til starfa 1. janúar 2025. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003 (viðskiptakerfi með raforku).
Með frumvarpinu eru gerðar tillögur að breytingum á raforkulögum í tengslum við rekstur skipulegs viðskiptakerfis fyrir raforku. Tilgangur þess er að mæla fyrir um tilteknar hátternisreglur í raforkuviðskiptum og eftirlit með rekstri skipulegs viðskiptavettvangs með raforku til að stuðla að gagnsæi og heiðarleika á raforkumarkaði raforku. Kveðið er á um bann við markaðssvikum og ólögmætum innherjaviðskiptum. Einnig er fjallað um opinbera birtingu innherjaupplýsinga, skráningu markaðsaðila og tilkynningarskyld viðskipti. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn vatnamála, nr. 36/2011 (stjórnsýsla, málsmeðferðarreglur).
Með frumvarpinu verður mælt fyrir um breytingar á lögum um stjórn vatnamála til að skýra stjórnsýslu vatnamála, með einföldun og skilvirkni að markmiði. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um menningarminjar, nr. 80/2012 (álit vegna húsa og mannvirkja).
Með frumvarpinu er mælt fyrir um breytingar á lögum um menningarminjar vegna viðmiðunarárs hvað varðar byggingarár húsa og mannvirkja sem ekki njóta friðunar. Viðmiðunarárið í lögunum tengist umsagnarskyldu Minjastofnunar Íslands þegar t.d. stendur til að breyta húsi eða flytja það. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að samræma reglur/málsmeðferð vegna Náttúruverndarstofnunar (gjaldtaka og fleira).
Með frumvarpinu er mælt fyrir um nauðsynlegar breytingar á lögum um náttúrvernd, nr. 60/2013, og lögum um Vatnajökulsþjóðgarð, nr. 60/2007, til að samræma þau ákvæði sem gilda um gjaldtöku, málsmeðferð, þvingunarúrræði og eftirlit í tilefni af stofnun Náttúruverndarstofnunar. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004 (EES-reglur, móttaka úrgangs í höfnum).
Með frumvarpinu er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/883 frá 17. apríl 2019 um móttöku úrgangs frá skipum, sem breytir tilskipun (ESB) 2010/65 og fellir úr gildi tilskipun (ESB) 2000/59. Tilskipunin kemur í stað eldri tilskipunar um sama efni sem hefur verið innleidd hér á landi. Gera þarf nokkrar breytingar á lögunum vegna innleiðingar á tilskipuninni. Innleiðing. Mars. - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011 (bætt málsmeðferð og aukin skilvirkni).
Markmið frumvarpsins er að einfalda regluverk, auka skilvirkni og skýra betur ferli rammaáætlunar (verndar- og orkunýtingaráætlunar). Verður m.a. horft til tillagna starfshóps frá nóvember 2024 um endurskoðun á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011. Mars. - Tillaga til þingsályktunar um breytingu á verndar- og orkunýtingaráætlun (endurmatskostir).
Tillagan er lögð fram í samræmi við 3. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011. Um er að ræða virkjunarkosti sem Alþingi óskaði eftir endurmati á í júní 2022 og fóru í almennt samráð hjá verkefnisstjórn áætlunarinnar í desember 2023. Febrúar. - Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár.
Umhverfis-, orku, og loftslagsráðherra skal samkvæmt lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013, gefa út náttúruminjaskrá á fimm ára fresti og birta með auglýsingu í Stjórnartíðindum. Áður en náttúruminjaskrá er gefin út skal ráðherra leggja fram þingsályktun um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár. Á framkvæmdaáætlun eru skráðar þær náttúruminjar sem Alþingi ákveður að setja í forgang um friðlýsingu eða friðun næstu fimm árin. Mars. - Tillaga til þingsályktunar um breytingu á verndar- og orkunýtingaráætlun (nýir virkjunarkostir).
Tillagan er lögð fram í samræmi við 3. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011. Um er að ræða virkjunarkosti sem fóru í almennt samráð hjá verkefnisstjórn áætlunarinnar í júní 2024. Mars. - Skýrsla um efnahagsleg áhrif viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir á Íslandi.
Ráðherra skal fyrir árslok áranna 2024 og 2025 gefa Alþingi skýrslu um efnahagsleg áhrif viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir á Ísland. Þar skulu koma fram upplýsingar um viðræður við Evrópusambandið vegna aðlögunar gagnvart öllum breytingum á regluverki ESB með losunarheimildir og með hvaða hætti best verður tekið tillit til sérstöðu Íslands m.a. vegna landfræðilegrar legu auk annarra þátta sem kunna að varða hagsmuni Íslands þegar aðlögun í flugi samkvæmt ákvæðum laga um viðskiptakerfi ESB, nr. 96/2023, lýkur. Mars.
Utanríkisráðherra
- Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, (bókun 35).
Með frumvarpinu er ætlunin að gera nauðsynlegar breytingar til þess að bæta innleiðingu bókunar 35 við EES samninginn og tryggja fulla virkni hans hér á landi í þágu einstaklinga og lögaðila. Endurflutt. Febrúar. - Frumvarp til laga um breytingu á varnarmálalögum, nr. 34/2008, (netöryggi).
Með frumvarpinu er ætlunin að gera breytingar til þess að efla netöryggi. Mars. - Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 317/2023 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun), nr. 145/2024 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og nr. 170/2024 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn.
Ákvörðun nr. 317/2023: Reglugerð 2019/1020 um markaðseftirlit og samræmi vara við kröfur o.s.frv. Ákvörðun nr. 145/2024: Reglugerð 2017/2402 um almennan ramma fyrir verðbréfun og gerð sértæks ramma fyrir einfalda, gagnsæja og staðlaða verðbréfun (STS-reglugerðin) o.fl.
Ákvörðun nr. 170/2024: Reglugerð 2021/1230 um kerfisbindingu reglugerða (ESB) um greiðslur á milli landamæra í evrum (CBPR). Aflétting stjórnskipulegs fyrirvara. Endurflutt. Febrúar. - Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 167/2024
um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og nr. 181/2024 um breytingu á bókun 31 um samvinnu á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins við EES-samninginn.
Ákvörðun nr. 167/2024: Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2022/123 frá 25. janúar 2022 um að styrkja hlutverk Lyfjastofnunar Evrópu að því er varðar viðbúnað við krísu og krísustjórnun varðandi lyf og lækningatæki. Ákvörðun nr. 181/2024: Reglugerð (ESB) 2022/2371 um alvarlegar heilsufarsógnir sem ná yfir landamæri. Aflétting stjórnskipulegs fyrirvara. Endurflutt. Febrúar. - Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Lýðveldisins Indlands.
Fullgilding þjóðréttarsamnings. Endurflutt. Febrúar. - Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Lýðveldisins Chile.
Fullgilding þjóðréttarsamnings. Febrúar. - Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Taílands.
Fullgilding þjóðréttarsamnings. Mars. - Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu uppfærðs fríverslunarsamnings milli EFTA ríkjanna og Úkraínu.
Fullgilding þjóðréttarsamnings. Mars. - Skýrsla utanríkisráðherra um framkvæmd EES-samningsins.
Árleg skýrsla til Alþingis skv. 9. gr. reglna Alþingis um þinglega meðferð EES-mála. Mars. - Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál.
Árleg skýrsla til Alþingis. Mars. - Skýrsla utanríkisráðherra um öryggis- og varnarmál.
Skýrsla lögð fram til umræðu og undirbúnings þingsályktunar um öryggis- og varnarmálastefnu á haustþingi. Apríl.
Ríkisstjórn
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.