Þjónusta við Íslendinga
Aðalræðisskrifstofan veitir Íslendingum margvíslega þjónustu. Aðalræðisskrifstofan hefur m.a. milligöngu um útvegun vegabréfa og veitir íslenskum ríkisborgurum ýmsa aðra fyrirgreiðslu.
Aðalræðisskrifstofan aðstoðar íslenska ríkisborgara og fyrirtæki í samskiptum við fyrirtæki og yfirvöld og dreifir upplýsingum og fróðleik um Ísland ásamt því að taka þátt í kynningum allskonar sem koma landi og þjóð til góða.
Hægt er að sækja um vegabréf hjá aðalræðisskrifstofunni í Winnipeg.
Panta ber tíma í síma +1 (204) 284 1535 eða senda beiðni á tölvupóstfangið [email protected].
Athugið að aðeins er tekið við greiðslu í reiðufé eða innlögn á bankareikning (e-transfer).
Almennar upplýsingar vegna umsókna um vegabréf er að finna hér að neðan og á vef Þjóðskrár Íslands.
Vegabréf og nafnskírteini eru einu persónuskilríkin sem gefin eru út af íslenskum yfirvöldum. Vegabréf eru einu íslensku ferðaskilríkin sem vissa er fyrir að öll önnur ríki viðurkenni sem gild ferðaskilríki. Nafnskírteini eru hins vegar eingöngu viðurkennd sem gild ferðaskilríki innan ríkja evrópska efnahagssvæðisins. Því þurfa Íslendingar ávallt að ferðast með vegabréf þegar ferðast er til ríkja utan evrópska efnahagssvæðisins.
Burtséð frá því hvar er sótt um vegabréf, þá eru öll vegabréf gefin út af Þjóðskrá. Afgreiðslutími vegabréfa getur verið allt að 6 virkir dagar auk póstsendingartíma. Athugið að ef frídagar eru á tímabilinu lengist afgreiðslutíminn sem þeim nemur.
Umsækjandi þarf alltaf að mæta í eigin persónu á umsóknarstað og skal panta tíma fyrir fram.
Eftirfarandi þarf að hafa með sér:
- Eldra vegabréf
- Umsóknargjald
ATH! Vegabréf eru aldrei endurútgefin né afgreidd í gegnum netið.
Vegabréf sem tilkynnt hafa verið glötuð eru skráð í Schengen og Interpol upplýsingakerfin og eru þar með ónothæf.
Aðalræðisskrifstofan getur gefið út neyðarvegabréf. Neyðarvegabréf eru gefin út til að aðstoða íslenska ríkisborgara í neyð, helst til að komast heim eða á næstu umsóknarstöð vegabréfa. Neyðarvegabréf gildir aldrei lengur en 12 mánuði. Þau eru talin fullgild ferðaskilríki í Evrópu, en þau eru ekki tölvulesanleg og því er ekki mælt með að þau séu notuð til ferðalaga utan Evrópu.
Búnaður til að taka við umsóknum um vegabréf er í eftirtöldum sendiráðum Íslands erlendis: Berlín, Brussel, Genf, Helsinki, Kaupmannahöfn, Kampala, Lilongwe, London, Moskvu, Nýju-Delí, Osló, Ottawa, París, Peking, Stokkhólmi, Tókýó, Vín, Washington DC og á aðalræðisskrifstofum í Nuuk, Winnipeg og Þórshöfn. Á þessum sendiskrifstofum er því hægt að sækja um vegabréf.
Ekki er lengur unnt að framlengja gildistíma almennra íslenskra vegabréfa.
Umsóknir um endurnýjun ökuskírteinis
Hægt er að sækja um endurnýjun á íslensku ökuskírteini hjá aðalræðisskrifstofunni í Winnipeg.
Umsókninni þarf að fylgja svokallað kennispjald sem útvega þarf frá ríkislögreglustjóra. Nauðsynlegt er að hringja fyrst í aðalræðisskrifstofuna, gefa upp nafn og íslenska kennitölu og óska eftir að fá kennispjald útgefið.
Fylla þarf út umsókn á aðalræðisskrifstofunni, koma með eina mynd og greiða CAD 90 (innifalið er pósburðargjald) í reiðufé eða með ávísun sem stíluð er á Consulate General of Iceland in Winnipeg
Afgreiðslutími ökuskírteinis er um fjórar vikur.
Á vefsetri utanríkisráðuneytisins er að finna upplýsingar um vegabréfsáritanir sem Íslendingar þurfa vegna ferðalaga til einstakra landa. Upplýsingar um vegabréfsáritanir sem útlendingar þurfa vegna ferðalaga til Íslands veitir Útlendingastofnun.