Evrópuráðið
Evrópuráðið (e. Council of Europe, CoE) var stofnað 5. maí 1949 í kjölfar hörmunga síðari heimstyrjaldarinnar. Ísland gerðist aðili að Evrópuráðinu 7. mars 1950. Aðildarríki þess eru 46.
Samkvæmt stofnskrá Evrópuráðsins er því ætlað að efla samvinnu aðildarríkjanna með það að markmiði að standa vörð um mannréttindi, styrkja lýðræðislega stjórnarhætti, efla mannleg gildi og almenn lífsgæði Evrópubúa. Rík áhersla hefur verið lögð á að auka skilning og samkennd meðal íbúa álfunnar á grundvelli sameiginlegrar arfleifðar.
Á grundvelli þessara markmiða sinnir Evrópuráðið fjölbreytilegum málaflokkum eins og mannréttindamálum, félagsmálum, umhverfismálum, sveitarstjórnarmálum, menntunar- og menningarmálum ásamt samvinnu á sviði löggjafar svo að dæmi séu nefnd. Evrópuráðið hefur staðið að gerð um það bil 200 alþjóðasamninga. Á meðal grundvallarsamninga Evrópuráðsins eru mannréttindasáttmáli Evrópu og félagsmálasáttmáli Evrópu. Samningar Evrópuráðsins hafa átt mikilvægan þátt í að stuðla að frekari samvinnu meðal aðildarríkjanna, efla samkennd þeirra og styrkja hugsjónir um mannréttindi og lýðræði.
Þann 1. september 2020 opnaði Ísland að nýju fastanefnd í Strassborg eftir hlé frá árinu 2009. Ísland mun taka við formennsku í Evrópuráðinu í nóvember 2022 og í aðdraganda þess tók fastafulltrúi Íslands sæti í yfirstjórn Evrópuráðsins þegar á árinu 2021 og mun gegna formennsku á mannréttindafundum ráðherranefndar Evrópuráðsins hálfu ári áður en Ísland tekur við formennskunni. Í formennsku Íslands í Evrópuráðinu felst að leiða starf ráðsins ásamt öðrum leiðtogum þess, hafa málefnalegt frumkvæði í störfum þess og vera í fyrirsvari fyrir Evrópuráðið gagnvart öðrum alþjóðastofnunum. Ísland hefur tvisvar áður gegnt formennsku í Evrópuráðinu, árin 1955 og 1999.
EVRÓPURÁÐIÐ Verndari mannréttinda
Evrópuráðið er aðalstofnunin á sviði mannréttindamála í heimsálfunni.
Evrópa og stofnanir hennar
Svipuð nöfn - sérðu muninn?
Ráðherranefnd Evrópuráðsins fer með ákvörðunarvald innan stofnunarinnar og samanstendur af utanríkisráðherrum aðildarríkjanna eða fastafulltrúum þeirra í Strassborg.
Þing Evrópuráðsins kemur saman fjórum sinnum á ári og er mikilvægur umræðuvettvangur. Þar koma saman þingmenn frá öllum aðildarríkjum ráðsins. Þingið gegnir mikilvægu hlutverki í starfsemi stofnunarinnar og tekur Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins virkan þátt í starfsemi þess.
Ráðstefna sveitar- og héraðsstjórna í Evrópu er samráðsvettvangur héraðs- og sveitarstjórna innan Evrópuráðsins. Markmið ráðstefnunnar er að efla lýðræði og bæta þjónustu á sveitarstjórnarstigi.
Mannréttindadómstóll Evrópu starfar á grundvelli mannréttindasáttmála Evrópu og er hlutverk hans að standa vörð um mannréttindi allra Evrópubúa. Bæði einstaklingar og ríki geta leitað til dómstólsins ef talið er að aðildarríki hafi brotið gegn ákvæðum samningsins.
Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins er sjálfstæð stofnun sem hefur það hlutverk að vekja athygli á fræðslu, vitund og virðingu fyrir mannréttindum í aðildarríkjum Evrópuráðsins og tryggja að aðildarríki framfylgi samningum og tilmælum frá ráðinu.
Auk þessara stofnana eru reknar fjölmargar sérfræðinefndir og sértæk verkefni á vegum Evrópuráðsins. Þeirra á meðal má nefna GRECO, samtök ríkja gegn spillingu, Feneyjanefndina, ráðgjafarnefnd um stjórnskipunarmál, og Pompidou-hópinn, sem vinnur gegn misnotkun og smygli á vímuefnum.