Um sendiskrifstofu
Fastanefnd Íslands í Genf tók til starfa 1. mars 1970 samhliða aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) og er einnig sendiráð gagnvart Sviss, Liechtenstein og Páfagarði. Fastanefndin fer með fyrirsvar Íslands gagnvart EFTA og hinum fjölmörgu alþjóðastofnunum sem hafa aðsetur í Genf.
Alþjóðaviðskipti skipa afar stóran sess í starfi fastanefndarinnar, bæði vegna yfirstandandi samningalotu (Doha) Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og eins vegna fríverslunarviðræðna EFTA við önnur ríki. Utanríkisþjónustan nýtur fulltingis hlutaðeigandi ráðuneyta í þessum samningaviðræðum en í flestum tilvikum annast fastanefndin samræmingu og daglega stjórn samningaviðræðna í samráði við viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, ráðuneytisstjóra og ráðherra.
Sameinuðu þjóðirnar eru með fjölbreytta starfsemi í Genf en mannréttinda- og mannúðarmál er mikilvægur þáttur í starfsemi fastanefndarinnar. Fastanefndin leggur sérstaka áherslu á þessa málaflokka og vinnur þar að markmiðum Íslands í samstarfi við alþjóðaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og í góðu samráði við fastanefnd Íslands í New York.
Þátttaka Íslands í starfi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og Alþjóðahugverkaréttarstofnunarinnar er einnig mikilvægur hluti af starfsemi fastanefndarinnar auk þess sem hún sinnir eftir föngum starfi í hinum fjölmörgu öðru alþjóðastofnunum sem undir hana heyra.
Fastanefnd og sendiráð Íslands í Genf
HeimilisfangPermanent Mission of Iceland
Avenue Blanc 49, 6th floor
1202 Geneva
Sími: +41 (0) 22 716 1700
Netfang
Afgreiðsla:
Mánudaga – fimmtudaga 09:00 – 16:00
Föstudaga 09:00 – 15:00