Þjónusta við Íslendinga
Sendiráð Íslands í Berlín leggur lið þeim Íslendingum sem búsettir eru í umdæmislöndunum, námsmönnum og ferðamönnum.
Aðstoð sendiráðsins getur verið með ýmsum hætti. Algengast er að fólk leiti til sendiráðsins vegna útgáfu vegabréfa, nafnskírteina og ýmissa vottorða.
Sendiráðið vekur athygli á að utan opnunartíma þess er í neyðartilfellum hægt að óska eftir borgaraþjónustu í neyðarvakt utanríkisráðuneytisins í síma +354 545-0112.
Vegabréf
Hægt er að sækja um vegabréf í sendiráðinu í Berlín. Sjá "Umsókn um vegabréf".
Vegabréf eru ekki framlengd heldur einungis gefin út ný.
Nafnskírteini sem ferðaskilríki
Árið 2024 hófst útgáfa íslenskra nafnskírteina sem ferðaskilríki og er hægt að framvísa þeim innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) í stað þess að framvísa vegabréfi. Svipa þau til hins þýska "Personalausweis" í kreditkortaformi.
Hægt er að sækja um nafnskírteini sem ferðaskilríki í sendiráðinu í Berlín og er ferlið það sama og fyrir vegabréf. Nánari upplýsingar undir "Umsókn um vegabréf".
Nánari upplýsingar um nafnskírteini eru að finna á vef Þjóðskrár.
Neyðarvegabréf
Hægt er að sækja um neyðarvegabréf í sendiráðinu í Berlín. Neyðarvegabréf eru helst ætluð til þess að koma íslenskum ríkisborgurum heim til Íslands eða á næsta umsóknarstað fyrir vegabréf.
Neyðarvegabréf er handútfyllt á staðnum og hefur það þess vegna ekki sömu öryggisstaðla og venjulegt vegabréf.
Ef þú hefur bókað flug til Íslands og núverandi vegabréf er útrunnið, þá mælir sendiráðið með því að hafa fyrst beint samband við flugfélagið sem miðinn var bókaður með til þess að athuga hvort núverandi skilríki verði tekið gilt við brottför. Mögulegt er að íslensk flugfélög taki t.d. íslenskt ökuskírteini eða afrit af vegabréfi gilt.
Komi síðan í ljós að þörf sé á neyðarvegabréfi og tíminn er naumur, hafið þá beint samband við sendiráðið í síma +49 30 5050 4000 eða berlin[hjá]utn.is.
- Neyðarvegabréfið kostar 50€, en 20€ fyrir börn yngri en 18 ára og eldri borgara 67 ára og eldri
- Mæta þarf með tvær góðar passamyndir. Klæðist helst ekki dökkum fötum.
Ræðismenn geta eftir sem áður haft milligöngu um útgáfu neyðarvegabréfa í sérstökum neyðartilfellum. Upplýsingar um ræðismenn í umdæmislöndum sendiráðsins eru að finna hérna.
Ökuskírteini
Íslensk ökuskírteini, gefin út eftir 1997, eru viðurkennd til aksturs innan EES-landanna. Þetta á við hvort sem viðkomandi dvelur sem ferðamaður í viðkomandi ríki eða tekur upp fasta búsetu í því.
Sendiráði Íslands er óheimilt að taka á móti umsóknum um íslensk ökuskírteini, hvort sem um er að ræða endurnýjun eða samrit, nema ef viðkomandi hafi fasta búsetu á Íslandi.
Föst búseta miðast við lögheimili og/eða að viðkomandi búi a.m.k. 185 daga á hverju almanaksári í viðkomandi landi. Íslendingar með fasta búsetu erlendis verða því að sækja um ökuskírteini í því landi þar sem þeir teljast hafa fasta búsetu. Undanskildir eru námsmenn sem flytja erlendis eingöngu til að fara í nám.
Um gildi íslenskra ökuskírteina í Þýskalandi má finna nánar af vef þýska innviðaráðuneytisins, bæði á þýsku og ensku.
Dvalar- og atvinnuleyfi
Íslendingar þurfa hvorki dvalar- né atvinnuleyfi í Þýskalandi, þar sem Ísland er aðili að samningnum um evrópska efnahagssvæðið, þekktur sem EES á íslensku eða EWR, Europäischer Wirtschaftsraum á þýsku, og er einnig hluti af Schengen-samstarfinu.
Upplýsingar um búseturétt Íslendinga í Þýskalandi má finna á heimasíðu Berlínarborgar, en upplýsingarnar þar gilda fyrir allt Þýskaland.
Tvöfaldur ríkisborgararéttur
Árið 2024 leyfði Þýskaland tvöfaldan ríkisborgararétt. Íslendingar sem vilja sækja um þýskan ríkisborgararétt þurfa ekki lengur að afsala sér þeim íslenska.
Skráning barna í Þjóðskrá
Til þess að nýfædd börn verði skráð sem íslenskir ríkisborgarar og þar með fengið íslenskt vegabréf, þ.m.t. neyðarvegabréf, þurfa þau að hafa fengið íslenska kennitölu. Nánari upplýsingar eru að finna á vef Þjóðskrár. Um leið og kennitalan liggur fyrir er hægt að útbúa fyrir þau vegabréf.