Hoppa yfir valmynd

Vegabréf

Hægt er að sækja um vegabréf og nafnskírteini í sendiráði Íslands í Berlín

Umsækjandi verður að koma í eigin persónu til að sækja um vegabréf/nafnskírteini. Í sendiráðinu er tekin passamynd með lífkennum (Biometric) af umsækjanda, auk þess sem rithandarsýnishorn og fingraför vísifingra beggja handa eru skönnuð inn með umsókn.


Afgreiðslutími

Afgreiðslutími er frá 9:00-12:00 og 13:00-16:00 alla virka daga, en panta þarf tíma með helst tveggja daga fyrirvara í síma +49 (0)30-5050 4000 eða með tölvupósti á berlin[hjá]mfa.is. Athugið að vegabréfadeildin er einungis mönnuð þegar von er á fólki.

Athugið að frágangur umsóknar og myndataka getur tekið nokkra stund.


Staðsetning

Vegabréfadeild sendiráðsins í Berlín er staðsett í sameiginlegri ræðisdeild norrænu sendiráðanna "Konsularabteilung" á horni Klingelhöferstraße og Rauchstraße. Gera má ráð fyrir smá tíma í öryggisleit. Engar ferðatöskur eru leyfðar.


Vegabréf

Sendiráðið mælir með því að forskrá umsókn um vegabréf. Þá er einnig hægt að greiða fyrir það á sama tíma. Forskráning lifir í 30 daga og gildir forskráning einnig fyrir umsóknir í sendiráðinu. Nánari upplýsingar á vef Þjóðskrár.

Forskráning krefst rafrænna skilríkja t.d. með Auðkennisappinu. Einungis þarf snjallsíma og gilt íslenskt vegabréf og tekur uppsetning enga stund. Ekki er þörf á íslensku símanúmeri.

Ef ekki er hægt að forskrá umsókn um vegabréf af einhverjum sökum, til dæmis annað foreldri barns er erlendur ríkisborgari og þess vegna ekki með íslensk rafræn skilríki, biðjum við umsækjendur um að leggja inn á bankareikning sendiráðsins fyrirfram og senda afrit af færslunni í tölvupósti. Vinsamlegast setjið ykkur í samband við sendiráðið til þess að fá nánari upplýsingar.


Nafnskírteinis sem ferðaskilríki

Sendiráðið tekur einnig á móti umsóknum um nafnskírteini sem ferðaskilríki, sem svipar til hins þýska „Personalausweis“ í kreditkortaformi. Hægt er að leggja inn umsókn á sama tíma og sótt er um vegabréf. Sendiráðið mælir einnig með því að forskrá umsókn um nafnskírteini. Nánar upplýsingar á vef Þjóðskrár.


Afgreiðslutími umsókna

Eftir að umsókn er móttekin í sendiráðinu er vegabréfið/nafnskírteinið framleitt í Þjóðskrá á Íslandi og síðan sent með rekjanlegum pósti á áfangastað t.d. á heimilisfang umsækjanda í Þýskalandi. Gera má ráð fyrir tveggja til þriggja vikna bið eftir nýja skírteininu.


Greiðsla og gjaldskrá

Sendiráðið mælir með því að forskrá skilríkjaumsóknir. Í örðum tilfellum biður sendiráðið umsækjendur um að millifæra á bankareikning sendiráðsins. Setjið ykkur í beint samband við sendiráðið.

Sendiráðið tekur ekki við reiðuféi.

Fyrir nákvæmar upphæðir í evrum, sjá hér gjaldskrá fyrir verk borgaraþjónustu.

Vegabréf og nafnskírteini eru einu persónuskilríkin sem gefin eru út af íslenskum yfirvöldum.  Vegabréf eru einu íslensku ferðaskilríkin sem vissa er fyrir að öll önnur ríki viðurkenni sem gild ferðaskilríki. Nafnskírteini eru hins vegar eingöngu viðurkennd sem gild ferðaskilríki innan ríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Því þurfa Íslendingar ávallt að ferðast með vegabréf þegar ferðast er til ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Umsóknarstaðir vegabréfa erlendis eru í flestum sendiskrifstofum Íslands sem og aðalræðisskrifstofum. Öll vegabréf eru gefin út af Þjóðskrá. Afgreiðslutími vegabréfa getur verið allt að 6 virkir dagar auk póstsendingartíma. Athugið að ef frídagar eru á tímabilinu lengist afgreiðslutíminn sem þeim nemur. Hægt er að sækja um hraðafgreiðslu gegn aukagreiðslu. Sjá gjaldskrá ÞÍ.

Umsækjandi þarf alltaf að mæta í eigin persónu á umsóknarstað og skal panta tíma fyrir fram. 

Eftirfarandi þarf að hafa með sér:

  • Eldra vegabréf
  • Staðfesting á greiðslu

ATH! Vegabréf eru aldrei endurútgefin né afgreidd í gegnum netið.

Vegabréf sem tilkynnt hafa verið glötuð eru skráð í Schengen og Interpol upplýsingakerfin og eru þar með ónothæf.

Sendiskrifstofum, fastanefndum og ræðismönnum er heimilt að gefa út vegabréf til bráðabirgða (neyðarvegabréf) ef brýna nauðsyn ber til.

Neyðarvegabréf eru handskrifuð og ekki tölvulesanleg og hafa þar af leiðandi mun lægri öryggisstaðal en almenn vegabréf. Neyðarvegabréf eru fyrst og fremst ætluð til heimferðar eða ferðar á næsta umsóknarstað almennra vegabréfa.

Mikilvægt er að hafa samband við sendiráðið til þess að kanna hvort grundvöllur sé fyrir útgáfu neyðarvegabréfs.

Gildistími neyðarvegabréfs miðar almennt við að handhafi komist heim eða á næsta umsóknarstað. Handhafa neyðarvegabréfs ber að skila því til lögreglu eftir notkun.

Óvíst er að neyðarvegabréf dugi alls staðar til að fá landgöngu. T.d. heimila Bandaríkin ekki landgöngu á neyðarvegabréfi án áritunar - einungis heimferð.

Tilkynna skal lögreglu, Þjóðskrá Íslands eða sendimönnum Íslands erlendis þegar í stað ef vegabréf glatast. Vegabréf sem tilkynnt hafa verið glötuð eru skráð í Schengen og Interpol upplýsingakerfin og eru þar með ónothæf.

Umsækjandi skal:

  • Mæta í eigin persónu á umsóknarstað
  • Sanna deili á sér með eldra vegabréfi eða öðrum persónuskilríkjum
  • Koma með tvær passamyndir af sér
  • Fylla út umsóknareyðublað um neyðarvegabréf hjá sendiskrifstofu.
  • Greiða fyrir vegabréf skv. lögum um aukatekjur ríkissjóðs nr. 88/1991.

Mynd í neyðarvegabréfi skal uppfylla eftirtalin skilyrði:

  1. Myndin skal vera andlitsmynd, tekin þannig að andlitið snúi beint að myndavél og bæði augu sjáist.
  2. Myndin skal vera jafnlýst, bakgrunnur ljósgrár, hlutlaus og án skugga.
  3. Umsækjandi má ekki bera dökk gleraugu eða gleraugu með speglun.
  4. Umsækjandi má ekki bera höfuðfat. Þó má heimila slíkt ef umsækjandi fer fram á það af trúarástæðum.
  5. Ef umsækjandi kemur með ljósmynd á rafrænum miðli má ljósmyndin ekki vera eldri en sex mánaða gömul.

Börn undir 18 ára aldri þurfa eigin vegabréf. Báðir forsjármenn, ásamt barni, eiga að mæta þegar sótt er um vegabréf fyrir barn og skrifa undir umsóknina. 

Áður en komið er á umsóknarstað þarf að fylla út eyðublað um samþykki forsjáraðila vegna útgáfu vegabréfs fyrir einstakling undir 18 ára aldri. Eyðublaðið (V-901) skal vera útfyllt, vottað og útprentað við komu í sendiráð. Það varðar sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum ef maður gefur rangar upplýsingar um forsjá barns í þeim tilgangi að gefið verði út vegabréf til þess án samþykkis forsjárforeldris.

Fari einn með forsjá barns er undirskrift þess foreldris nægjanleg vegna umsóknar enda staðfesti Þjóðskrá Íslands að viðkomandi fari einn með forsjá.

Til að forðast tafir í útgáfu vegabréfs er þó vakin athygli foreldra sem fara einir með forsjá, að gangi þeir í hjúskap þarf enn fremur samþykki stjúpforeldris. Taki þeir aftur á móti upp sambúð þarf samþykki sambúðarforeldris eftir að sambúðin hefur verið skráð í þjóðskrá samfellt í eitt ár. Samkvæmt 10. gr. laga nr. 136/1998 um vegabréf er refsivert að gefa upp rangar upplýsingar.

Ef minnsta óvissa er um forræði þess sem leggur fram umsókn um vegabréf barns, verða upplýsingar staðreyndar eftir fremsta megni.

Börn yngri en 12 ára eru undanþegin fingrafaratöku.

Eingöngu er heimilt að gefa út vegabréf samkvæmt umsókn annars forsjárforeldris þegar hitt forsjárforeldrið er ófært um að veita samþykki sitt vegna sjúkdóms, fjarvistar eða annarra sérstakra aðstæðna að undangenginni athugun á umræddum aðstæðum og mati á því hvort hætta sé á að barn verði fært úr landi með ólögmætum hætti. Fullyrðingar um að annað foreldrið sé erlendis þar sem ekki náist í það eru alls ekki fullnægjandi grundvöllur. Sjá nánar á heimasíðunni www.skra.is

Börn sem fædd eru erlendis þurfa að vera komin með kennitöluskráningu í íslensku þjóðskránni til þess að hægt sé að sækja um vegabréf fyrir þau. Hafi barnið aldrei fengið útgefið vegabréf skal sýna fæðingarvottorð barnsins þegar sótt er um.

Eyðublöð:

Ef umsækjandi hefur breytt nafni sínu þarf að vera búið að fá staðfest að nýtt nafn hafi verið skráð hjá Þjóðskrá (www.skra.is) áður en sótt er um nýtt vegabréf, annars prentast nafnið í vegabréfið eins og það er skráð við umsókn.

Slíkt gerist ekki sjálfkrafa þó makar taki upp nafn hvors annars við hjónavígslu erlendis.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum